Catch the BALL. Gríptu boltann

Verkefnahópur Catch the ball, gríptu boltann. u3a.is

Í kjölfar BALL verkefnisins var skilgreint og skipulagt framhaldsverkefnið “Catch the BALL” eða „Gríptu boltann“ með það að markmiði að koma tillögum BALL verkefnisins í framkvæmd.

Verkefnið greip þannig á lofti BALL boltann til frekari dáða. Verkefnið hlaut framhaldsstyrk frá Erasmus+ áætlun ESB og hófst í desember 2017. Í þetta sinn komu nýir erlendir samstarfsaðilar að verkinu ásamt U3A Reykjavík og Evris ses sem annaðist verkefnisstjórn. Þessir nýju samstarfsaðilar voru Kaunas STP, Vísinda- og tæknigarður Kaunas, Litháen, og MBM, starfsþjálfunar- og þróunarmiðstöð í Liverpool, Bretlandi. Enn studdist verkefnið við íslenska styrktaraðila, þá sömu sem styrktu BALL verkefnið, nema hvað Reykjavíkurborg heltist úr lestinni og VR stéttarfélag bættist við.

Í Catch the BALL verkefninu voru tveir þeirra þátta sem BALL verkefnið lagði áherslu á til aðstoðar við undirbúning að þriðja æviskeiðinu þróaðir áfram. Niðurstöður þeirrar þróunar voru kynntar á lokaráðstefnu verkefnisins í Reykjavík 26. júní 2018.

Þessar afurðir verkefnisins voru:

  • Menntastofa tækifæranna, sem er handbók og námskeiðslýsing með aðferðafræði fyrir þá sem leiðbeina og aðstoða fólk sem vill uppgötva styrkleika  sína, þarfir og þrár við undirbúning að “þróttmiklu þriðja æviskeiði”.
  • Vöruhús tækifæranna, sem er vefgátt, eins konar markaðstorg tækifæranna sem tengir birgja, sem bjóða tækifæri, við þá sem leita tækifæra til að búa sér þróttmikið þriðja æviskeið. Vöruhúsið var hannað sem annars vegar vöruhús með tækifærum fyrir Evrópubúa og hins vegar landsvöruhús í hverju samstarfslandanna með staðbundnum tækifærum.

U3A Reykjavík rekur nú hið íslenska og hið evrópska Vöruhús tækifæranna sem sérstakt verkefni með sjálfstæðri verkefnisstjórn. Styrktaraðilar Catch the BALL verkefnisins hafa ásamt U3A Reykjavík styrkt áframhaldandi þróun Vöruhúsanna. 

Íslenska vöruhúsið er á slóðinni https://voruhus-taekifaeranna.is/ og  hið evrópska á slóðinni https://warehouseofopportunities.eu/. Menntastofu tækifæranna má finna hér https://voruhus-taekifaeranna.is/menntastofan/.

Erlend samstarfsverkefni

Scroll to Top
Skip to content