Erlent tengslanet

Sterkt erlent tengslanet er mikilvægt fyrir starfið hérlendis. u3a.is

Erlent tengslanet

U3A Reykjavík hefur frá upphafi verið í nánum og góðum tengslum við hið alþjóðlega U3A samfélag háskóla þriðja æviskeiðsins, en upphaf stofnunar U3A á Íslandi má rekja til undirbúnings og þáttöku Ingibjargar Rannveigar Guðlaugsdóttur í alþjóðaráðstefnu World U3A, 2010, í Chitrakoot á Indlandi. Með aðstoð Ian Funells frá bresku U3A samtökunum og Tom Holloway hjá World U3A var svo ráðist í að stofna U3A Reykjavík í mars 2012 í anda bresku leiðarinnar sem sjálfstæð félagasamtök.

AIUTA – Alþjóðasamtök U3A

Frá árinu 2014 hefur U3A Reykjavík verið aðili að AIUTA, alþjóðasamtökum U3A. Íslenskir fulltrúar hafa nokkrum sinnum tekið þátt í árlegum ráðstefnum þessara samtaka, 2013 í Uppsölum, Svíþjóð, 2015 í Alicante , Spáni, 2016 í Osaka, Japan. Í Alicante og í Osaka var starf og staða U3A á Íslandi kynnt í erindum sem líka var fyrirhugað 2018 í Barcelona, Spáni og 2020 í Sherbrooke, Kanada en ekki varð úr þátttöku vegna veikinda og svo Covid-19 faraldursins. Fulltrúar U3A Reykjavík hafa flutt erindi á nokkrum þessara ráðstefna, sem hafa birst í ráðstefnuritum AIUTA.

Nefna má ýmis önnur tengsl á alþjóðavettvangi þar sem fulltrúar U3A Reykjavík tengjast með óformlegum hætti en sem nýtist vel til kynningar á starfinu hérlendis og fræðslu um starf og framtak í öðrum heimshornum sem nýst getur á innlendum vettvangi. Nefna má eftirfarandi:

EURAG, European Federation of Older People

Birna Bjarnadóttir, varaformaður U3A Reykjavík, er persónulegur fulltrúi í þessum samtökum eldra fólks í Evrópu. Dana Steinova, ritari samtakanna með aðsetur í Prag hefur verið í tengslum við U3A Reykjavík.

Skiptiheimsókn Eurag Prag og U3A Reykjavík

Dana Steinova skipulagði í samstarfi við Birnu Sigurjónsdóttur, formann, vel heppnaða skiptiheimsókn rúmlega tuttugu félaga til Prag vorið 2019 og Birna Sigurjónsdóttir og Guðrún Bjarnadóttir skipulögðu í september sama ár vikuheimsókn sama hóps frá Prag til Íslands þar sem ferðast var um landið og gestir gistu heima hjá íslensku þátttakendunum. Samhliða hélt Dana Steinova stutt námskeið um minnisþjálfun fyrir U3A félaga.

Heimsóknir

U3A Reykjavík fékk heimsókn tíu manna hóps frá Uppsala Senioruniversitet í maí 2015 og svo heimsókn í september 2017 frá háskóla þriðja æviskeiðsins í Vilnius, Litháen, Medardas Čobotas Third Age University, MČTAU, Vilnius U3A.

Pass it on Network

Hans Kristján Guðmundsson, stjórnarmaður í U3A Reykjavík, hefur um nokkurra ára skeið verið tengiliður fyrir Ísland í þessu tengslaneti sem teygir anga sína til allra heimsins horna. Markmið þeirra tveggja kvenna sem halda netinu saman, Jan Hively í Boston og Moira Allan í París, er að hvetja til samskipta milli þeirra sem vinna að málefnum eldra fólks um heim allan og stuðla þannig að dreifingu upplýsinga og fræðslu um hvað er gert, hvernig, og hvað má af því læra. Netfundir eru haldnir ársfjórðungslega, tengsl eru við hinn opna vinnuhóp Sameinuðu þjóðanna um öldrun og nýverið hefur verið stofnaður  tengivettvangurinn “Global Connector” til nánari samskipta. Þessi vettvangur hefur reynst mikilvægur til þess að kynna U3A Reykjavík og þá sérstaklega afrakstur erlendu samstarfsverkefnanna sem hafa vakið áhuga og Vöruhús tækifæranna hefur vakið mikla athygli.

Silver Eco and Aging Well

Í gegnum Pass it on tengslanetið bauðst U3A Reykjavík að senda inn hugmynd í árlega keppni þessara samtaka 2019 um viðurkenningu fyrir verkefni um lausnir, þjónustu, nýsköpun og hvaðeina sem best getur leitt til farsællar öldrunar. Hans Kristján Guðmundsson, var boðið sæti í hinni alþjóðlegu dómnefnd sem velur þá sem vinna til viðurkenningar og er hann þar í góðum hópi fjölmargra  reynslumikilla sérfræðinga um farsæla öldrun.

SilverEco and Agening wellU3A Reykjavík sótti þar um viðurkenningu fyrir hugmynd, hönnun og útfærslu á Vöruhúsi tækifæranna (Warehouse of Opportunities) sem var meðal 45 verkefna sem hlutu tilnefningu. Af þeim hlutu þrjú viðurkenningu og átján önnur voru í úrslitahópnum, þeirra á meðal Vöruhús tækifæranna.

Hans Kristján Guðmundsson á einnig sæti í dómnefnd keppninnar 2020 sem er nú í gangi en hefur tafist vegna Covid-19 ástandsins í heiminum.

 Age Without Borders – Virtual Summit

Í febrúar 2017 var Hans Kristjáni Guðmundssyni, þá formanni U3A Reykjavík, boðið að taka þátt í vefráðstefnunni Age without Borders – A Global University for 50+ Adults: Practical Skills, Tools and Inspiration to Rock the Third Age of Life.

Hann var þar einn fimmtíu og þriggja einstaklinga frá öllum heimshornum sem hafa látið málefni efri áranna til sín taka og unnið að málum eldri borgara á ýmsan hátt.

Viðtal við Hans Kristján, var flutt einn ráðstefnudaganna. Í viðtalinu kynnti hann starf U3A með áherslu á BALL – verkefnið, niðurstöður þess og boðskap. Það er mikilvægt að fá aðgang að slíkum vettvangi um málefni 50+. Ekki síst þá var þetta viðurkenning á starfi okkar í BALL verkefninu og vitnisburður um þau afar jákvæðu viðbrögð sem niðurstöður og tillögur okkar hafa fengið.

Scroll to Top
Skip to content