U3A

Við viljum helga tíma okkar í að fræðast og eiga skemmtilegan tíma saman.

U3A - Háskóli þriðja æviskeiðsins

U3A er skammnefni Háskóla þriðja æviskeiðsins – University of the Third(3rd)  Age

Með orðinu háskóli er hér átt við upprunalegu merkingu orðsins sem er hópur fólks sem vill helga tíma sinn því að fræðast og fræða. Heiti félagsins felur ekki í sér að félagsmenn skulu vera með háskólamenntun að baki. Allir eru velkomnir sem vilja miðla og/eða bæta við sig þekkingu.

Þegar rætt er um hin mismunandi æviskeið er bernskan og unglingsárin oft kölluð fyrsta æviskeiðið, þá tekur við annað æviskeiðið sem er þá meginhluti starfsáranna með barnauppeldi, skyldur og skuldir.

Þriðja æviskeiðið, sem kannski má kalla „hin gullnu fullorðinsár“ tekur svo við. Þá er átt við þann tíma fullorðinsáranna sem einkennist af minni ábyrgð en fyrr á ævinni, oft viðunandi fjárhagsstöðu og góðri almennri heilsu. Þetta æviskeið, efri ár ævinnar í starfi og eftirlaunaaldurinn, getur varað í mörg ár og áratugi og í nútíma samfélagi á fólk margra kosta völ þegar kemur að því að leita lífsfullnægju og finna sér tilgangsrík viðfangsefni. Þetta „þriðja“ æviskeið á sér tiltölulega skamma sögu og er nátengt auknum lífslíkum þjóða og mannfjöldaþróun í samfélögum nútímans. Þau ár sem tengja má þessu skeiði eru breytileg frá einum einstaklingi til annars, en starfisamtakanna U3A Reykjavík er beint að árunum eftir fimmtugt.

U3A í hnotskurn: Að læra svo lengi sem lifir (Lifelong learning)

Í samræmi við samþykkt U3A Reykjavík hyggjast samtökin að stuðla að því að félagsmenn hafi aðgang að fjölbreytilegu framboði af fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða. Einnig vilja samtökin stuðla að virkni og aukinni vitund félagsmanna og samfélagsins um mikilvægi þriðja æviskeiðsins, tækifærin sem í því felast og mannauðinn sem í því býr. Fræðslan byggir að mestu á jafningjafræðslu þar sem félagar samtakanna deila með sér þekkingu, reynslu og færni. Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná m.a. með því að skipuleggja og sjá um fyrirlestra, ferðir og heimsóknir og að efla kynni við aðra innan og utan U3A hreyfingarinnar hvar sem er í heiminum. Ennfremur eru félagar hvattir til að stofna hópa um viðfangsefni sem þeir velja sjálfir og taka þátt í verkefnum sem tengjast málefnum þriðja æviskeiðsins.

Fjölmennar kynslóðir eru nú að nálgast eftirlaunaaldur og eru líklegar til að breyta ásýnd hans. Lífslíkur þessara hópa eru meiri en kynslóðanna á undan, menntunarstig hærra og heilsa verður væntanlega betri en  hjá fyrri kynslóðum. Þarfir þessara hópa fyrir virkni og farsæla öldrun verða aðrar og ekki síst verður leikni til notkunar á nýrri tækni í samskiptum mun mikilvægari en áður.

Scroll to Top
Skip to content