Indlandsferð félagsmanna í U3A Reykjavík

Vorið 2017 héldu 22 félagsmenn úr U3A Reykjavík í ferð til Indlands sem skipulögð var af ferðaskrifstofunni Bjarmaland. Ferðin var skipulögð í framhaldi af námskeiði um mógúlana á Indlandi sem Jón Björnsson hélt fyrir félagsmenn U3A. Birna Sigurjónsdóttir, Elísabet Einarsdóttir og Lilja Elsa Einarsdóttir skipuðu undirbúningshóp fyrir ferðina.

Ferðin hófst í Delhi þar sem hópurinn skoðaði m.a. stjórnarráðshverfið sem reist var af Bretum á valdatíma þeirra í Indlandi. Við heimsóttum þar einnig moskuna Jama Masjid en hún er innan borgarmúranna í gömlu Delhi. Frá Delhi  var ekið til Agri og Taj Mahal grafhýsið skoðað sem mógúllinn Shah Jahan byggði fyrir eiginkonu sína Mumtaz Mahal. Næst var haldið til Jaipur, þar fórum við á fílsbaki upp í Amber-virkið rétt utan við Jaipur en það var byggt á tíma mógúlsins Akbar. Flogið var frá Jaipur til Cochin í Kerala ríki á suðvesturströnd Indlands við Indlandshaf. Við heimsóttum þorpið Kumarakom, og fórum í bátsferð um vatnasvæði á Suður-Indlandi. Á heimleið var millilent í borginni Doha í Katar og þar farið í skoðunarferð um borgina. Ferðinni lauk með heimsókn til Moskvu þar sem dvalið var í tvo daga og farið í skoðunarferðir um borgina. Þegar heim var komið var haldin ferðakynning fyrir félagsmenn U3A og ferðalangar komu fram í indverskum búningi sem þeim var gefinn í ferðinni.

Scroll to Top
Skip to content