Aðalfundur 21. mars 2017, fundargerð

Aðalfundur U3A Reykjavík vegna starfsársins 2016-2017, haldinn 21. mars 2017, kl 17:15- 18:45.
Staður: Hæðargarður 31, Reykjavík
Fundinn sátu eftirfarandi stjórnarmenn: Hans Kr. Guðmundsson (HG), formaður, Guðný Gerður Gunnarsdóttir (GG), Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir (IRG), Margrét Örnólfsdóttir (MÖ), Jón Ragnar Höskuldsson (JRH), Hólmfríður Tómasdóttir (HT) og Hrafnhildur Hreinsdóttir (HrH).
Þar fyrir utan mættu 20 félagsmenn á fundinn.
………………………………………
1. Setning fundar
Fundurinn hófst á því að formaður félgasins Hans Kr. Guðmundsson bauð fólk velkomið á aðalfundinn en með honum væri fimmta starfsári þess að ljúka. Hann upplýsti að starfsárið hefði hafist 8. mars 2016 og lyki nú 21. mars 2017. Formaður setti fundinn samkvæmt dagskrá.

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
Formaður lagði til að Lilja Ólafsdóttir yrði fundarstjóri og ritari félagsins Hrafnhildur Hreinsdóttir ritaði fundargerð. Samþykkti fundurinn það og tók Lilja við fundarstjórn og gengið var til dagskrár sem Lilja fór yfir. Lilja fór yfir boðun fundarins og telst löglega til hans boðað og fundurinn því löglegur samkvæmt samþykkt félagsins.

3. Skýrsla stjórnar
Formaður flutti skýrslu stjórnar. Hana má lesa í ársskýrslu félagsins sem verður aðgengileg á vef þess. Hans stiklaði á stóru í yfirferð yfir hana:
∙ Hann kynnti stjórn félagsins og hlutverk hennar
∙ Hann fór yfir breytingar á félagatalinu en í mars 2017 eru félagar orðnir 415 og hafði fjölgað um 132 á árinu. Hann minntist á sérstakan netfangalista með 285 nöfnum sem eru utan félagsins en hafa viljað fá tilkynningar um viðburði og velti fyrir sér hvort ástæða væri til að viðhalda honum þar sem félagið er á Facebook og vefur þess er opinn og aðgengilegur. Þá fór hann yfir aldursdreifinguna sem er nokkuð jöfn hjá báðum kynjum, stærstu hóparnir á bilinu 65-74 ára (66% félagsmanna). Konur eru 78% en karlar eru þó að sækja í sig veðrið með skráningum í félagið.
∙ Fjármál U3A eru í góðu lagi, Í þetta sinn er tímabil uppgjörs miðað við 8. mars til 31. desember 2016 . Þetta er gert til þess að færa uppgjörsárið að almanaksári í samræmi við samþykkt en starfsár var notað til uppgjörs áður. Eigið fé var kr. 787.733, tekjur voru 1.041.805 og gjöld kr. 838.968. Rekstrarafkoma var því kr. 202.837 á árinu.
∙ Rafræn miðlun – Ný vefsíða var opnuð í ágúst á síðasta ári en Hrafnhildur Hreinsdóttir setti þá síðu upp á grunni gömlu vefsíðunnar. Ný vefsíða hefur aukið sýnileika félagsins mikið, en 127 hafa skráð sig í félagið í gegnum síðuna sem einnig býður upp á gagnkvæm samskipti.
∙ Starfsemin var blómleg en rúmlega tuttugu þriðjudagsviðburðir voru haldnir. Þá voru skipulagðar fjórar heimsóknir, í Skálholt, Hörðu, Þjóðskjalasafn og Veðurstofuna. Þrjú námskeið voru á tímabilinu, Ritun endurminninga, Húnvetnsk fræði og um Vestmannaeyjar. Bókmenntahópurinn var hvað blómlegastur í hópastarfi, aðrir hópar voru aðallega Hæðargarðshóparnir en félagsmenn hafa aðgengi að þeim. Þá voru haldin fjögur Spjallkaffi sem er nýjung hjá félaginu. Tvö voru haldin á Te og kaffi í Borgartúni um hamingjuna og um jákvæðni og hin tvö um Gráa herinn og um myndlist haldin á Grand hóteli.
∙ Innlend samskipti fólust mest í kynningu á félaginu á starfslokanámskeiði LSH og hjá stéttarfélögum kennara og hjúkrunarfræðinga. Einnig kynningar hjá Öldrunarráði Seltjarnarness og Suðurnesja ásamt Rótarí félögum í Mosfellsbæ og austurbæ Reykjavíkur. Samstarf var við átthagafélög húnvetninga og Vestmannaeyja um námskeið. Þá var U3A í fjölmiðlum við lok BALL verkefnisins, í Okkar fólk á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og Samfélaginu á Rás 1. Þá er félagið í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og félagi í Reykjavíkurakademíunni og nýtur góðs af því.
∙ Erlend samskipti eru aðallega við alþjóðasamtökin AIUTA (International Association of Universities of the Third Age). Þá hefur U3A tekið þátt í Evrópsku samstarfsverkefni BALL með stuðningi Ersamus+ áætlunar Evrópusambandsins en því lauk í september. Nýtt alþjóðlegt samstarfsverkefni „Catch the BALL“ hófst síðast liðið haust á grundvelli hins fyrra og sama stuðningi Evrópusambandsins.
∙ Framtíðin er björt, en aukið upplýsingaflæði, fjölbreytni í starfi og aukin virkni félaga verða lykilatriði í starfinu framundan. Alþjóðatengsl verða styrkt og unnið að framgangi hugmynda og niðurstöðun úr BALL verkefninu.
Að lokum þakkaði formaður félagsmönnum og öðrum sem lagt hafa félaginu lið. Engar umræður urðu um skýrslu stjórnar.

4. Reikningar félagsins
Jón Ragnar Höskuldsson, gjaldkeri félagsins gerði grein fyrir reikningum þess sem voru staðfestir af Lilju Ólafsdóttur og Höskuldi Frímannssyni. Reikningarnir voru í þremur hlutum:
∙ Reikningar U3A Tekjur voru 1.041.805 þar af 439.500 félagsgjöld og 284.385 frá viðburðum. Gjöld voru kr. 838.968 þar af 211.365 vegna vefsíðu, 114.826 vegna fundakostnaðar og 45.000 vegna fyrirlesara og flytjenda. Heimsóknir og námskeið voru nánast færð á jöfnu inn vegna námskeiðsgjalda og út vegna kostnaðar. Eignir félagsins foru í formi bankainnistæðu kr. 787.733 en af því var rekstrarafkoma ársins kr. 202.837. Að öðru leyti vísast hér á vefsíðu félagsins sjá ársskýrslu 2017.
∙ BALL verkefnið var með tekjur á árinu kr. EUR 44.740, en gjöld voru aðallega til verktaka EUR 33.068, ferðakostnaður EUR. 6.728 og umsýslu EUR 4.944. ∙ Bakhjarlar – stuðningur við BALL verkefnið. Tekjur voru kr. 133.147 en gjöld voru kr. 60.152 en mismunurinn kr. 72.995 er lagður inn á reikning U3A.
Að lokinni yfirferð Jóns Ragnars bar fundarstjóri reikningana upp og samþykktu félagsmenn þá án athugasemda.

5. Árgjald
Tillaga stjórnar var óbreytt árgjald frá fyrra starfsári kr. 1500. Félagsmaður vildi hækka í kr. 2000 en dró þá tillögu til baka þegar stjórn sá ekki ástæðu til hækkunar. Tillaga stjórnar var samþykkt.

6. Breytingar á samþykkt
Stjórn hafð yfirfarið samþykkt félagsins og sett fram tillögur að breytingum, sem felast aðallega í því að bæta orðalag þeirra. Fundarstjóri bar upp tillögurnar eftir greinum og voru þær allar samþykktar. Breytingatillögurnar eru í viðauka við fundargerðina og breytta samþykkt er að finna á vefsíðu samtakanna.

7. Kosningar
Undir þessum lið var kosning formanns, þriggja manna í stjórn og tveggja skoðunarmanna reikinga. Hans Kr. Guðmundsson formaður gaf kost á sér og var hann einróma kosinn aftur formaður til eins árs. Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir var endurkjörin til stjórnarsetu og nýir stjórnarmenn, Dagrún Þórðardóttir og María Ragnarsdóttir, kjörnir, allir með umboð til tveggja ára. Skoðunarmenn reikninga, Lilja Ólafsdóttir og Höskuldur Frímannsson voru endurkjörin og Gylfi Þór Einarsson skoðunarmaður til vara.

8. Önnur mál
Fundarstjóri bauð félagsmönnum að taka til máls undir þessum lið. Tveir tóku til máls: Fyrstur sté Hans Kr. Guðmundsson formaður í ræðustól og færði fráfarandi stjórnarmönnum gjafir og þakkir fyrir framlag þeirra til félagsins. Þá tók Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir til máls og þakkaði formanni fyrir hans ágætu störf og upplýsti fundarmenn um það að hann hefði verið einn af 50 aðalmönnum sem boðið var að halda fyrirlestur á alþjóðaráðstefnunni „Aging without Borders“ á vefnum og dreift í gegnum passitonnetwork.org. Var gerður góður rómur að þessu.

Fleira ekki gert og sleit fundarstjóri Lilja Ólafsdóttir fundinum kl. 18:45
Hrafnhildur Hreinsdóttir, ritari

Viðauki

Tillögur að breytingum á samþykkt U3A Reykjavík lagðar fram af stjórn samtakanna á aðalfundi 21.mars, 2017. Tillögurnar eru samkvæmt ákvörðun á stjórnarfundi 13. mars, 2017 og formanni falið að sjá um afgreiðslu þeirra.
Breytingar á fjórðu grein (breytingar merktar með gulum lit):

Greinin eins og hún er nú:
4. grein
Tilgangur samtakanna er að stuðla að því að fólk, sem er hætt á vinnumarkaði eða er farið að huga að starfslokum, hafi fjölbreytilegt framboð af fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða. Fræðslan byggir að mestu á jafningjafræðslu þar sem meðlimir samtakanna deila með sér þekkingu, reynslu og færni. Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná m.a. með því að:
– Stofna hópa um viðfangsefni sem meðlimir samtakanna velja sjálfir.
– Skipuleggja og sjá um fyrirlestra, ferðir og heimsóknir.
– Efla kynni við aðra innan og utan U3A hreyfingarinnar hvar sem er í heiminum.
Meginmarkmið samtakanna er að þeir sem komnir eru á þriðja æviskeiðið eigi þess kost að afla sér og miðla þekkingu eins lengi og þeir vilja og geta.

Lagt er til að fjórða grein hljóði svo:
4. grein
Tilgangur samtakanna er að stuðla að því að fólk á þriðja æviskeiðinu hafi fjölbreytilegt framboð af fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða. Fræðslan byggir að mestu á jafningjafræðslu þar sem félagar samtakanna deila með sér þekkingu, reynslu og færni. Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná m.a. með því að:
– Stofna hópa um viðfangsefni sem félagar samtakanna velja sjálfir.
– Skipuleggja og sjá um fyrirlestra, ferðir og heimsóknir.
– Efla kynni við aðra innan og utan U3A hreyfingarinnar hvar sem er í heiminum.
Meginmarkmið samtakanna er að félagar eigi þess kost að afla sér og miðla þekkingu eins lengi og þeir vilja og geta.

Skýring: Stjórn telur réttara að nota hugtakið “þriðja æviskeiðið”, sem er sveigjanlegt hugtak, í stað þess að vísa til “starfsloka” og “að vera hættur á vinnumarkaði”. Þetta er í samræmi við þá stefnu að miða þriðja æviskeiðið við árin eftir fimmtugt óháð stöðu á vinnumarkaði. Stjórn telur betur fara á að nota orðið “félagar” í stað “meðlimir”. Breytingin í þriðju málsgrein er gerð til að forðast endurtekningu.
Breytingar á sjöttu grein (breytingar merktar með gulum lit):

Greinin eins og hún er nú:
6. grein

Allir sem eru hættir á vinnumarkaði eða eru farnir að huga að starfslokum sbr. 4. grein geta átt aðild að samtökunum. Stjórn samtakanna samþykkir inngöngu nýrra félagsmanna.

Lagt er til að sjötta grein hljóði svo:
6. grein

Allir sem eru á þriðja æviskeiðinu sbr. 4. grein geta átt aðild að samtökunum. Stjórn samtakanna samþykkir inngöngu nýrra félagsmanna.
Skýring: Breytingin er til samræmis við breytingu á fjórðu grein.

Breytingar á 7. grein (breytingar merktar með gulum lit):

Fyrstu tvær málsgreinar 7. greinar eru nú:
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna. Hann skal haldinn í mars ár hvert og telst löglegur ef til hans er boðað rafrænt eða bréflega með minnst 15 daga fyrirvara. Tillögur að breytingum á samþykkt samtakanna skulu hafa borist formanni þeirra eigi síðar en sjö dögum fyrir aðalfund.
Í fundarboði skal tilgreina dagskrá, tillögur að breytingum á samþykkt samtakanna, ásamt öðrum tillögum sem borist hafa og bera þarf undir atkvæði aðalfundar. Stjórn samtakanna skipuleggur og ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar. Allir félagar sem hafa greitt árgjald hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

Lagt er til að þessar málsgreinar hljóði svo:
7. grein

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna. Hann skal haldinn í mars ár hvert og telst löglegur ef til hans er boðað rafrænt eða bréflega með minnst 15 daga fyrirvara. Tillögur að breytingum á samþykkt samtakanna skulu hafa borist formanni eigi síðar en sjö dögum fyrir aðalfund. Senda skal slíkar tillögur til félaga fyrir aðalfund.
Í fundarboði skal tilgreina dagskrá, tillögur að breytingum á samþykkt samtakanna, ásamt öðrum tillögum sem borist hafa og bera þarf undir atkvæði aðalfundar. Stjórn samtakanna skipuleggur og ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar. Allir skráðir félagar hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Hafi félagi ekki greitt árgjald tvö ár í röð, skal hann færður af félagaskrá.

Skýring: Stjórn telur æskilegt að félagar fái tækifæri til að kynna sér tillögur að breytingum á samþykkt fyrir aðalfund. Eins telur stjórn að betra sé að tengja atkvæðisrétt við félagsaðild en árgjaldsgreiðslu, þar sem starfsár og fjárhagsár falla ekki saman. Ennfremur að hafa ákvæði um að tengja aðild árgjaldsskilum félaga.

Fimmti liður í dagskrá aðalfundar í sjöundu grein er nú:
5. Umræður um starfið framundan, þ. m.t. ákvörðun árgjalds.

Lagt er til að þessi dagskrárliður hljóði svo:
5. Umræður um starfið framundan.

Skýring: Stjórn telur óþarft að taka sérstaklega fram umræður um árgjald þar sem næsti dagskrárliður fjallar um ákvörðun árgjalds.

Breytingar á 8. grein (breytingar merktar með gulum lit):
Önnur málsgrein áttundu geinar er nú
Kosið er um helming stjórnar annað hvert ár til þess að tryggja samfelldni.

Lagt er til að þessi málsgrein hljóði svo:
Kosið er um helming stjórnar hvert ár til þess að tryggja samfellu.

Skýring: Í reynd er kosið um helming stjórnar á hverju ári þar sem tveggja ára umboð víxlast. Orðið samfella á betur við en samfelldni, sem er frekar notað í stærðfræði.

Scroll to Top
Skip to content