Háskóli þriðja æviskeiðsins (The University of the Third Age) er alþjóðleg hreyfing sem á sér langa sögu. Markmiðið er að auka möguleika fólks á efri árum, þriðja æviskeiðinu, á því að virkja huga og hönd með menntun og fræðslu ævilangt. Hreyfingin gengur venjulega undir ensku/frönsku skammstöfuninni U3A.
Fyrsti U3A var stofnaður í Félagsvísindadeild Háskólans í Toulouse í Frakklandi af prófessor Pierre Vellas árið 1973. Rekja má þennan uppruna U3A til breytinga á lögum um franska háskóla 1968 sem skyldaði háskólana að bjóða upp á tækifæri til ævináms. Segja má að þetta sé ein þeirra breytinga á háskólastofnunum heimsins sem stúdentabyltingarnar ’68 leiddu til.
U3A breiddist síðan hratt út á næstu árum um Frakkland og til annarra landa Evrópu og til Quebec í Kanada eftir þessu franska skipulagi, námsframboð (endurmenntun) innan háskólanna.
Fyrsti breski U3A var stofnaður í Cambridge 1981 og breiddist síðan hratt til annarra breskra borga. Breska leiðin var gerólík þeirri frönsku og byggði á sjálfstæðri jafningjafræðslu, sjálfstæð félagasamtök á ábyrgð félaganna sjálfra og án formlegra tenginga við háskólastofnanir.
Á þeim áratugum sem liðnir eru frá þessu brautryðjendastarfi hefur U3A hreyfingin dreifst um heim allan. Mismunandi leiðir hafa verið farnar. Franska leiðin hefur náð mikilli útbreiðslu á meginlandi Evrópu og víðar en breska leiðin hefur náð fótfestu þar sem bresk áhrif hafa verið mikil eins og á Indlandi og í Ástralíu. Félagar og nemendur í hinum ýmsu U3A telja nú miljónir, og munar þar mest um sjálfstæða háskóla U3A í Kína með nemendafjölda hátt á áttundu miljón. Nefna má einnig að U3A í Bretlandi eru nú (2020) yfir þúsund sjálfstæð félög með um hálfa miljón félaga, sem eru undir yfirsýn lögaðilans “Third Age Trust”. Sjá vefsíðuna u3a.org.uk.
U3A Reykjavík var stofnað 2012, og U3A Suðurnes 2016, sem sjálfstæð félagasamtök í anda bresku leiðarinnar.
Alþjóðasamtök U3A (AIUTA ) sem stofnuð voru 1975 tengja nú U3A víðsvegar um heim enda leggur U3A hreyfingin mikla áherslu á alþjóðlegt samstarf. Á vegum AIUTA eru haldnar ráðstefnur og fundir á hverju ári og þar er unnið mikilvægt starf til aukinnar vitundar um mikilvægi ævináms og virkni á þriðja æviskeiðinu. Sjá HÉR
Ennfremur má nefna WorldU3A sem vinnur að því að tengja U3A samtök um heim allan. Þau gefa út rafræna fréttabréfið Signpost í hverjum mánuði með fréttum að starfi U3A. Þar má einnig finna tengslasíðuna MyU3A þar sem finna má lista yfir U3A samtök ef hugur væri til þess að hitta aðra U3A félaga á ferð um heiminn.
Á vegum ýmissa U3A samtaka má einnig finna framboð af rafrænum námskeiðum. Hér má t.d. nefna síðu U3A online
Ýmsan fróðleik um sögu og starf U3A má auk þess finna á þessari Wikipediu vefslóð.
Einnig má benda á bókina The University of the Third Age and Active Ageing: European and Asian-Pacific Perspectives, þar sem er meðal annars grein um U3A á Íslandi og bindi 23 af International Perspectives on Aging. Editor Marvin Formosa, Springer International Publishing 2019. ISBN 3030215156, 9783030215156