Evrópska Erasmus+ samstarfsverkefninu HeiM, Heritage in Motion – Leiðir að menningararfinum sem hófst í nóvember 2018 lauk á miðju ári 2021. Markmið þess var að kanna og þróa aðferðafræði við kennslu fólks á efri árum og sýna markhópnum 50+, sem og öðrum, að hann getur tileinkað sér nýja snjalltækni með símann og netið að vopni og þannig miðlað öðrum þekkingu um sinn eigin menningararf og annarra. Verkefninu var stjórnað af UPUA (Universidad Permanente) í Alicante, Spáni, og aðrir samstarfsaðilar voru POUZ (Public Open University) í Zagreb, Króatíu og TDW (Democratic Society East Foundation) í Varsjá, Póllandi.
Að lokinni undirbúningsvinnu og könnunum var haldið námskeið haustið 2019 um ýmsa þætti menningararfsins, skilning á honum og túlkun hans með áherslu á þarfir og áhuga eldra fólks fyrir virkni og heilbrigði á efri árum. Sérstaklega var leiðahugbúnaðurinn Wikiloc kynntur og farið yfir hvernig snjalltæknin nýtist til að hanna leiðir að áhugaverðum stöðum eins og menningarminjum. Að því loknu hófst leiðahönnun hópanna í borgunum fjórum
Það voru níu félagar í U3A Reykjavík, sem hönnuðu fimm leiðir að menningararfi á höfuðborgarsvæðinu. Leiðirnar lágu að menningararfi í Elliðaárdal, Laugarnesi og Kirkjusandi, í kirkjugarðinum Hólavallagarði, styttum í miðborg Reykjavíkur og ein þeirra beindist að þeirri arfleifð sem felst í sólstöðum á sumri. Í Póllandi má nefna leið um Sætu Varsjá þar sem farið var á milli gamalla kaffihúsa og sælgætisgerða í Varsjá. Í Króatíu var það meðal annars menningararfurinn Zagreb og módernisminn sem sýnir hvernig borgin þróaðist frá því á nítjándu öld með því að leggja áherslu á verkamenn og iðnað og á Spáni má nefna þjóðgarðinn La Serra Gelada og Rómversku Villuna í L’Albir. Í öllum löndunum reyndist aldurshópurinn 50+ frábærir túlkendur menningararfsins.
Verkefnið var kynnt á vefvarpi U3A Reykjavík þann 28. apríl s.l. Kynntar voru afurðir þess, bókin Vegvísir um aðferðafræði og leiðirnar sjálfar, með áherslu á þær íslensku. Kynningin er aðgengileg á eftirfarandi youtube slóð:
https://www.youtube.com/watch?v=R2RvXNpUhNw
Vegvísinum um aðferðafræði þar sem allar leiðir eru kynntar má hlaða niður sem pdf skjal á slóðinni HeiM – Vegvísir um Aðferðafræði. Allar upplýsingar um verkefnið má finna á vef U3A Reykjavík: HeiM gönguleiðir (u3a.is) og á vefsíðu verkefnisins sjálfs: https://www.heimheritage.eu/
Hans Kristján Guðmundsson og Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir, sem hafa borið hitann og þungann af verkefninu fyrir hönd U3A Reykjavík, þakka hér með þeim sem hafa tekið þátt í verkefninu og öllum sem hafa sýnt því áhuga. Þau hvetja jafnframt alla 50+ að ganga út í vorið með símann sér við hönd og feta íslensku leiðirnar eða skrá nýjar að menningararfi sem er þeim hugleikinn.