Vorferð U3A Reykjavík: Ullarævintýri á Suðurlandi

Vorferð 2023

Það var létt yfir hópnum sem hélt af stað í Ullarævintýrið miðvikudagsmorguninn 7. júní. Þegar sólin sýndi sig austan fjalls hýrnaði enn frekar yfir konum. Heimsóttir voru fjórir staðir þar sem fram fer vinna með íslensku ullina, Hespa, Uppspuni, Hárlaugsstaðir og Þingborg. Á hverjum stað fengum við fræðslu um hvernig unnið er með ullina, gærur og aðrar afurðir á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt. Það var ánægjulegt að sjá hversu mikinn metnaður er lagður í vinnuna og sköpunargleðin skein af þeim sem standa að þessari vinnu.  Konur gátu síðan skoðað snert, og keypt afurðirnar á hverjum stað. Í hádegi komum við í Hestheima og fengum léttan hádegisverð. Við stuðlabergskletta í nágrenni var tekin hópmynd sem fylgir hér. Á heimleið var staldrað við hjá Urriðafossi, vatnsmesta fossi landsins. Komum glaðar heim að loknum fróðlegum degi með skemmtilegri samveru.

Scroll to Top
Skip to content