Framúrskarandi árangur HeiM verkefnisins

Vinnu við alþjóðlega Erasmus+ verkefnið HeiM, Heritage in Motion eða Leiðir að menningararfinum eins og það hefur verið nefnt á íslensku, lauk vorið 2021. Eins og venjan er var verkefnið og árangur þess metið af sérstakri matsnefnd, í þessu tilviki á vegum Erasmus+ skrifstofunnar á Spáni, sem veitti styrk til verkefnisins, en það var unnið undir forystu spænsku samstarfsaðilanna. Við matið var verkefninu gefin ein heildareinkunn og að auki séreinkunn fyrir nokkra þætti þess sem máli skipta.

Heildareinkunn HeiM verkefnisins er 92 stig af 100 mögulegum, sem er frábær árangur og við sem á vegum U3A Reykjavík stóðum að verkefninu erum stolt yfir. Einkunnir fyrir einstaka þætti eru:
Mikilvægi verkefnisins: 20/20.
Gæði við framkvæmd verkefnisins: 20/25.
Gæði teymisvinnu og samvinnu samstarfsaðila: 12/15.
Áhrif sem verkefnið hefur og miðlun þess: 40/40.

Til upprifjunar var HeiM samstarfsverkefni U3A Reykjavík, Permanent University of the University of Alicante (UPUA), Spáni, Democratic Society East Foundation (TDW), Póllandi og Public Open University (POUZ), Zagreb, Króatíu. Hans Kristján Guðmundsson og Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir báru hitann og þungann af vinnslu verkefnisins fyrir hönd U3A Reykjavík. Fjölmargir komu að verkefninu, í verkefnisteyminu, sérfræðiráðinu og ekki síst þau sem unnu að hönnun og þróun þeirra fimm gönguleiða á höfuðborgarsvæðinu sem beinast að ýmsum þáttum menningararfleifðar okkar. Þeim er öllum hér með þakkað framlag sitt.

Afrakstur verkefnisins eru einnig sambærilegar gönguleiðir um Alicante hérað, Varsjá og Zagreb, allar hannaðar og kortlagðar af fölki á efri árum með aðstoð Wikiloc smáforritsins með snjallsíma að vopni. Að auki liggur eftir verkefnið ítarleg umfjöllun um kennslufræði eldra fólks (e: Geragogy) sem var fræðilegur grunnur vinnunnar í verkefninu.Ítarlegar upplýsingar um verkefnið er að finna á eftirfarandi slóðum
HeiM gönguleiðir (u3a.is)
Forsíða | HeiM Heritage in Motion
Vegvísir um aðferðafræði

Scroll to Top
Skip to content