Sumarkveðja frá stjórn U3A Reykjavík

Nú er enn  einu viðburðaríku starfsári á vegum U3A Reykjavík lokið og við það tækifæri sendir stjórnin öllum félagsmönnum kveðju og óskir um gott og gleðilegt sumar.

Fjölbreyttir þriðjudagsfyrirlestrar hafa verið á sínum stað eins og áður og ber að þakka þeim frábæru fyrirlesurum sem hafa frætt okkur og glatt. Ánægjulegt er að segja frá því að fyrirlesarar eru alla jafna fúsir til að koma til okkar og er það þakkarvert. Við heyrum líka frá félagsmönnum ánægju með fyrirlestrana og þökkum fyrir það, því stjórnin leggur fram heilmikla sjálfboðavinnu við undirbúning, frágang og útsendingu fyrirlestranna.

Hópastarfið hefur einnig verið blómlegt þetta árið, bókmenntahópur hittist reglulega og hefur gert það frá stofnun félagsins, menningarhópur hefur skipulagt heimsóknir og samveru félagsmanna mánaðarlega og nær alltaf er fullbókað á þá viðburði og umhverfishópur heefur staðið fyrir málþingum sem voru vel sótt. Fleiri hópar eru starfandi sem snúa að innra starf félagsins.

Hópur félagsmanna fór í vel heppnaða Tyrklandsferð í apríl. Ferðin var skipulögð í samvinnu við Söguferðir og Jón Björnsson var leiðsögumaður. Önnur ferð verður farin í haust á svipaðar slóðir og er nær fullbókað í hana. Vorferðin var að þessu sinni farin í maí á slóðir fornbáta á Suðurlandi með leiðsögn Helga Mána Sigurðssonar.

Þátttaka og virkni félagsmanna hefur verið mikil á starfsárinu, að jafnaði koma rúmlega 50 manns í sal til að hlýða á fyrirlestra og að meðaltali fylgjast 200 manns með upptökunum eftir á. Í einstöku tilvikum fer áhorfið hátt á fimmta hundrað þegar lagt er saman áhorf í streymi, fjöldi í sal og áhorf eftir á. Þá er ótalið áhorf félagsmanna í Landssambandi eldri borgara en í byrjun árs var gerður samningur við LEB sem felur í sér að aðildarfélög utan höfuðborgarsvæðisins fá aðgang að upptökum  og mega sýna þær í sal fyrir sitt félagsfólk.

Við tökum okkur nú sumarhlé í félagsstarfinu en hefjum starfið með félagsfundi 3. september og verður þar leitað eftir tillögum félagsmanna að efni fræðslufunda og viðburða á vetri komanda. Á þeim fundi verður til hugmyndalisti fyrir stjórn til að vinna eftir.

Njótum sumarsins og látum okkur hlakka til að hefjast handa í haust með fræðslu og virkni að leiðarljósi

f.h. stjórnar

Birna Sigurjónsdóttir, varaformaður

Dagur

15.08.2024
  • 00

    dagar

  • 00

    klukkustundir

  • 00

    mínútur

  • 00

    sekúndur

Næsti viðburður

Scroll to Top
Skip to content