Reykjavík – Sögulegar styttur
Göngunni milli styttna í miðborg Reykjavíkur má lýsa sem göngu um evrópska og íslenska menningar- og listasögu. Stytturnar eru mikilvæg kennileiti Reykjavíkur og endurspegla sögu þjóðarinnar. Gangan hefst og lýkur á Arnarhóli við styttu Ingólfs Arnarsonar. Hún fylgir síðan eftir tímalínu sögunnar og leiðir okkur milli styttna af okkar áhrifamestu persónum í sögulegu og listrænu samhengi.
Listaverkin og höfundar þeirra eru stuttlega kynntir. Flestir þessara listamanna voru menntaðir í listaskólum á meginlandi Evrópu eins og má sjá af verkum þeirra og það er ekki síður áhugavert að sjá áhrif þess á íslenska menningu.
Gangan er auðveld og nóg af bekkjum á leiðinni til að fá sér sæti á og hvílast. Listasafn Reykjavíkur gerði árið 2019 að ári útilistaverka. Smáforriti safnsins “Útilistaverk í Reykjavík” má hlaða niður ókeypis á snjallsíma.
Sögulegar styttur í miðborg Reykjavíkur
Hugleiðing
Birna Halldórsdóttir, Þórunn Ólafdóttir og Elsa Ísfold Arnórsdóttir
Hugmynd að þessu verkefni kom í kjölfar námskeiðs sem var á vegum U3A haustið 2019 um menningararfleið okkar. Námskeiðið sýndi okkur fram á hvernig við nálguðumst sögulegar heimildir. Ein okkar, Birna Halldórsdóttir, starfar sem leiðsögumaður og fer oft með erlenda ferðamenn um miðbæinn. Hugmyndin kom frá henni.
Við þrjár, Birna, Þórunn Ólafdóttir og Elsa Ísfold Arnórsdóttir ákváðum að vinna saman og hanna gönguleið milli stytta í miðbæ Reykjavíkur.
Í fyrstu gönguferðinni, í snjó og kulda, tókum við ótal myndir af styttum í Miðbænum. Við skemmtum okkur vel í þessari gönguför í kuldanum en símarnir okkur voru ekki eins hressir og urðu allir rafmagnslausir.
Annar hittingur var á kaffihúsi á Skólavörðuholtinu og fórum við yfir myndirnar okkar og sáum að við urðum að takmarka okkur. Vegna appsins, Wikiloc, fórum við niður í 20 styttur og ákváðum að hafa þær í sögulegu samhengi. Við reyndum að gera þátt kvenna sem mestan og tengdum „Perlufestina“ inn í gönguleiðina. En innan Perlufestarinnar eru eingöngu höggmyndir gerðar af konum, sem voru frumkvöðlar í höggmyndalist. Leiðin er rúmir þrír kílómetrar og auðveld yfirferðar á öllum árstímum.
Farnar voru nokkrar ferðir til þess að slípa og laga gönguleiðina og má segja að við séum orðnar vel sjóaðar í Wikiloc appinu. Heimildavinna var töluverð, en við gerðum umsagnir bæði um höfundana og stytturnar. Vegna takmarkana Wikiloc þurftum við að skera niður textana töluvert en létum hlekki á frekari upplýsingar. Textarnir voru bæði á íslensku og ensku. Við mælum með að fólk nýti sér þá möguleika sem Wikiloc hefur og skrái niður áhugaverðar gönguleiðir.