Evrópska samstarfsverkefnið HeiM – Leiðir að menningararfinum, sem U3A Reykjavík hefur unnið að ásamt samstarfsaðilum í Varsjá, Zagreb og Alicante, er nú að enda. Lokaafurð verkefnisins, Vegvísir um aðferðafræði, er nú komin út og er birt sem rafræn bók. Í bókinni er tíunduð sú aðferðafræði sem nýtt var í verkefninu til fræðslu eldri fullorðinna og birt 21 leið sem teymi eldri fullorðinna hönnuðu og hlóðu upp á Wikiloc appið með aðstoð snjallsíma sinna. Á vefsíðunni www.heimheritage.eu er að finna allar upplýsingar um verkefnið og niðurstöður þess. Þar er hægt að hlaða niður vegvísinum á fimm tungumálum. Íslenska vegvísinn má opna beint hér.
Ágrip að innihaldi vegvísisins er eftirfarandi:
Í þjóðfélögum þar sem æ fleiri ná háum aldri er lögð aukin áhersla á að veita þeim sem eldri eru tækifæri til símenntunar og vera þar með áfram virkir þátttakendur í því samfélagi sem þeir búa í. Hinir eldri, eins og aðrir, vilja vera virkir og lifa heilbrigðu lífi sem gefur þeim tilgang og er bæði þeim og samfélaginu til heilla. Til þess að svo megi verða þurfa eldri einstaklingar, 50 ára og eldri, að hafa möguleika á að endurmeta styrkleika sína og leita tækifæra til að öðlast nýja hæfni. Í HeiM-verkefninu finna þeir þessi tækifæri því þar er lögð til aðferðafræði sem þessi aldurshópur getur nýtt sér til þess að fræðast um menningararf sinn og læra að miðla þekkingu um hann á alþjóðlegum vettvangi. Í því kemur kunnátta hópsins í tungumálum honum til góða og einnig stafræn og fagleg hæfni sem hann öðlast með þátttöku í verkefninu. HeiM-verkefnið felur í sér tvíþætta áskorun. Annars vegar er hún að gera þeim sem eldri eru kleift að vera virkir boðberar menningararfsins og hins vegar að bæta árangursríkar aðferðir við að túlka arfinn og að miðla þeirri túlkun eins víða og mögulegt er. Aðferðafræðin er byggð á áður gerðri þarfagreiningu, samráði við sérfræðinga, við fyrirlesara sem vel þekkja til, við þá sem stunda rannsóknir á virkni, ásamt áherslu á ákveðið stafrænt læsi sem felst í notkun Wikiloc© vefsins. HeiM-verkefnið var metið með fjölþættri nálgun sem fól í sér spurningakönnun, samráð við sérfræðinga og að endingu mat nefndar á gæðum þess. Niðurstöður sýna að verkefni eins og HeiM-verkefnið, sem krefjast þverfaglegs og stafræns læsis, eru gerleg með fullnægjandi stuðningi, leiðsögn og samstarfi, jafnvel þó að þeir sem öðluðust nýja kunnáttu og hæfni með verkefninu hafi ekki látið fagleg eða starfstengd sjónarmið og kröfur ráða för.