Tækifærin bíða
Vöruhús tækifæranna er til fyrir þriðja æviskeiðið sem eru árin eftir fimmtugt. Í vöruhúsinu eiga flestir á þessu æviskeiði að geta fundið tækifæri til þess að móta framtíð sína á eigin forsendum. Tækifærin geta verið margvísleg eins og að láta langanir, hugmyndir eða drauma rætast eða finna nýja, breyta til hvort sem það er að takast á við nýtt starf, hefja eigin rekstur, afla sér meiri menntunar, eignast nýja félaga eða annað. Vöruhúsið tengir saman þá sem leita tækifæra og þá sem veita þau. Markmiðið með húsinu er að sem flestir á þriðja æviskeiðinu finni þar tækifæri sem hentar þeim til þess að njóta lífsins til fulls eftir fimmtugt. Vonum að þú finnir þitt á https://voruhus-taekifaeranna.is/
Vöruhúsið varð til þegar niðurstöður könnunar vorið 2015 um þriðja æviskeiðið leiddu greinilega í ljós þörfina á að stjórna sjálf/sjálfur undirbúningi æviskeiðsins og þar með starfslokum og árunum á eftir. Vöruhúsið svarar þessari þörf. Könnunin var gerð á vegum U3A Reykjavík sem hluti af alþjóðlega Erasmsus+ samstarfsverkefninu BALL, Be Active through Lifelong Learning, sem samtökin tóku þátt í.
Fræðslufundur um þriðja æviskeiðið
Þann 9. febrúar s.l. stóðu Öldrunarráð Íslands og Landssamband eldri borgara fyrir fræðslufundi um fólk á þriðja æviskeiðinu (50+) á RÚV sem nefndist Velferð eldri borgara. Á fundinum var fjallað um áskoranir þessa hóps og hvernig hægt er að eiga innihaldsríkt líf alla ævi.
Á fundinum voru flutt mörg áhugaverð erindi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti opnunarerindið en á m.a. fyrirlesarar voru Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri öldrunarmála á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar með erindið „Frá því að þörf skapast fyrir þjónustu – Þjónustukeðjan“; Halldór S. Guðmundsson dósent HÍ sem fjallaði um „Velferðartækni – tengsl og traust“ og Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur með erindi sem nefnist Nýtum allar vinnufúsar hendur og heila.
Hægt er að hlýða á fræðslufundinn hér: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/velferd-eldri-borgara-fraedslufundur/31396/9bd9i1
Hann Ingi okkar
Ingi
Hann Ingi er hugarsmíð okkar eins og hún Guðrún, sem sagt var frá í síðasta fréttablaði, en ólíkur Guðrúnu að mennt, starfi og áhuga og leitar því ekki sömu tækifæra í Vöruhúsinu. Þá er Ingi harður sjálfstæðismaður en Guðrún Samfylkingarkona.
Um Inga er að segja að hann er 55 ára viðskiptafræðingur og vinnur við greiningar og ráðgjöf hjá ráðgjafafyrirtæki í Reykjavík. Hann er mjög atorkumikill og sem dæmi um það þá er hann þríþrautarmaður, hjólar mikið, hleypur árlega í Reykjavíkurmaraþoni og stundar sund. Þá er Ingi dellukall og á hinar ýmsu græjur til að greina útivistina, hreyfinguna og tækifærin í kringum sig. Ingi er félagslega sterkur og tekur þátt í félagshópum, einum úr þríþrautinni, öðrum sem tengist vinnunni, þeim þriðja sem er viskíhópur úr Háskólanum og þeim fjórða sem er úr Breiðholtinu þar sem Ingi ólst upp.
Það sem fær Inga til að vera með í Vöruhúsi tækifæranna er m.a. að vera hluti af stærra hópi fólks á hans aldri, skapandi viðhorf og nýjungar sem hann finnur þar og að húsið sé traust og lifandi upplýsingaveita. Þá telur Ingi að Vöruhúsið gefi sér tækifæri á að vita meira um lífsfyllingu og færni og þó að hann sé önnum kafinn maður þá leitar hann að viðburðum, lestrarefni um heilbrigt líf, skapandi færni og hvers kyns áskoranir. Við viljum því benda Inga á nokkur tækifæri í Vöruhúsinu sem gætu hentað honum.
Í leit Inga að viðburðum er honum bent á rekkann Lífsfylling og hilluna Viðburðir https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/lifsfylling/vidburdir/ Þar getur Ingi fundið upplýsingar um vikulega viðburði hjá U3A Reykjavík, sjá https://u3a.is/ og dagskrá viðburða hjá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, sjá https://www.isi.is/almenningsithrottir/ Lestrarefni um heilbrigt líf má finna á sömu hillu þar sem vísað er á greinar í mbl.is fyrir fólk 50+ m.a. um gildi hreyfingar. Einnig eru upplýsingar um heilbrigt líf á hillunni Heilbrigðir lífshættir https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/lifsfylling/heilbrigdir_lifshaettir/ eins og um líkamsræktarstöðuna Heilsuborg, um Heilsuveru, heilbrigðisgátt/vefsíða fyrir almenning um heilsu og áhrifaþætti hennar, æfingaspjöldin Hreyfispjöld sem eru einföld æfingarspjöld sem auka styrk, þol, liðleika og jafnvægi og myfitnesspal, app á snjallsíma og vefsíða sem fylgist með matarræði og hreyfingu en trúlega á Ingi þegar þetta app miðað við græjurnar sem hann á.
Ingi leitar líka að tækifærum í skapandi færni og er þar bent á rekkann Færni og hilluna Sköpun https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/faerni/skopun/ Á hillunni eru upplýsingar um listskóla, handverksskóla Handverkshússins, Myndlistaskóla Reykjavíkur, söngskólann Vocalist og Powertalk sem er fyrir þá sem vilja bæta tjáskiptahæfileika sína í daglega lífinu og ná betri árangri í einkalífi og starfi. Með áskorunum fyrir Inga mætti nefna „Að markaðssetja sjáfan sig“ en upplýsingar um fyrirtæki sem aðstoðar fólk við það eru á hillunni Einstaklingsfærni í rekkanum Færni https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/faerni/einstaklingstaekifaeri/
Að lokum má nefna að Ingi er borinn og barnfæddur Reykvíkingur, á foreldra á lífi og fjögur systkini sem eru sérlega samheldin. Ingi er tvígiftur og á dreng með fyrri maka sínum en er giftur Guðmundi í dag.
Frábærir túlkendur menningararfsins Hólavallagarður
Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir og minnismark Steingríms Jónssonar biskups
HeiM leiðin mín, Ingibjargar Rannveigar Guðlaugsdóttur, liggur um kirkjugarðinn Hólavallagarður og varð fyrir valinu vegna þess að garðurinn hefur verið mér uppspretta ánægju og fróðleiks mörg undanfarin ár. Það má m.a. þakka meginheimild minni, bók Björns Th. Björnssonar, listfræðings, Minningarmörk í Hólavallagarði. Leiðin er stutt og aðgengileg en getur verið erfitt að ganga kafla hennar. Þeir sem vilja fylgja og njóta leiðarinnar er bent á
https://www.wikiloc.com/walking-trails/heim-gengid-um-holavallagard-isl-51329708#wp-51329716
Hólavallagarður er einstakur fyrir margt eins og fram kemur í bók Björns Th. og þar á meðal fyrir fjölda járnsteyptra minningarmarka. Valdi ég að skoða eina tegund þeirra, krossa úr pottjárni sem reistir voru í garðinum rétt fyrir miðbik 19. aldar fram á síðari hluta hennar. Auk þess að segja frá krossunum og táknum á þeim er sagt frá fólkinu sem undir krossunum liggja og svo að sjálfsögðu frá Hólavallagarði sjálfum
Gangan hefst við hlið norð-austur hluta kirkjugarðins og gengið rangsælis með Wikiloc í hönd frá krossi á leiði Guðrúnar Oddsdóttur, vökukonu Hólavallagarðs og endar á leiði Jórunnar Magnúsdóttur frá Engey austan megin í garðinum við Suðurgötu. Krossinn á leiði Guðrúnar er stærsti járnkrossinn í garðinum og þó víðar væri leitað og ber hátt. Gröf Guðrúnar er sú fyrsta sem er tekin í Hólavallagarði og því telst hún því vökukona/vökumaður hans en hlutverk hans er sagt vera að hann skuli gæta garðsins og bjóða velkomna þá sem á eftir honum koma.
Frá leiði Guðrúnar að leiði Ingunnar var stoppað við 14 krossa. Má þar m.a. nefna kross á leiði Guðbrands Stephensen, hugvitsmanns, sem var frægastur fyrir að smíða lás á fjárhirslu bæjarins sem var gerður úr þremur mismunandi lásum geymdum hjá jafnmörgum mönnum sem allir urðu að vera viðstaddir þegar fjárhirslan var opnuð.
Fegursta minningarmarkið finnst mér vera á leiði Steingríms Jónssonar, biskups Íslands 1824-1845, og sem Björn Th. segir að „…myndi sóma sér sem aldarprýði í hvaða kirkjugarði Norðurálfu sem væri.“ Margvísleg tákn eru á sökkli krossins, krossinum sjálfum og grindverkinu í kringum, tákn um hreinleika, guðrækni, virðingarstöðu, heiður og menntun. Valgerður Jónsdóttir, kona hans, er einnig grafin hér og er nafn hennar á bakhlið minningarmarksins. Valgerður var áður gift Hannesi Finnssyni, biskupi í Skálholti og erfði eftir hann miklar eignir sem hún ávaxtaði vel.
Á leiðinni er gengið fram hjá klukknaporti Hólavallagarðs þar sem áður stóð líkhús sem var notað fyrir þá sem minna máttu sín í þjóðfélaginu. Hinir efnameiri stóðu uppi heima.
Til gagns og gamans: Hólavallagarður við Suðurgötu tók við af Víkurgarði við Aðalstræti 1838 og var kirkjugarður Reykvíkingar til 1932 en þá tók Fossvogskirkjugarður við. Íbúar Reykjavíkur voru um 800 árið 1838. Garðurinn er um þrír hektarara að stærð með um 10.000 merktum gröfum. Suðurgata var áður nefnd, Kirkjugarðsstræti, Líkhússtígur og Kærlighedsstíg.
Leiðir að menningararfi í fjórum evrópskum borgum Vegvísir HeiM er kominn út
Forsíða kynningarbæklings HeiM verkefnisins
Evrópska samstarfsverkefnið HeiM – Leiðir að menningararfinum, sem U3A Reykjavík hefur unnið að ásamt samstarfsaðilum í Króatíu, Póllandi, og Spáni er nú að enda. Lokaafurð verkefnisins, Vegvísir um aðferðafræði, er nú komin út og er birt sem rafræn bók. Í bókinni er tíunduð sú aðferðafræði sem nýtt var í verkefninu til fræðslu eldri fullorðinna. Þessi aðferðafræði tekur mið af þörfum eldra fólks til hvatningar þegar nýrrar þekkingar er leitað og í verkefninu var hún nýtt til að gera þeim sem eldri eru kleift að vera virkir boðberar menningararfsins, bæta árangursríkar aðferðir við að túlka arfinn og að miðla þeirri túlkun eins víða og mögulegt er.
Í verkefninu hönnuðu teymi eldri fullorðinna samtals 21 leið að menningararfi á heimaslóðum sínum, hlóðu þeim upp á Wikiloc appið með frásögnum og myndum með aðstoð snjallsíma sinna. Árangurinn sýnir að eldri fullorðnum verður ekki skotaskuld úr því að læra á og nýta sér nýja snjalltækni og að þau eru mikilvægir túlkendur menningararfsins.
Á vefsíðunni www.heimheritage.eu er að finna allar upplýsingar um verkefnið og niðurstöður þess auk tengla á allar leiðirnar. Þar er hægt að hlaða niður vegvísinum á fimm tungumálum, ensku og heimatungumálum samstarfsaðilanna. Íslenska vegvísinn má opna beint hér. Þar er að finna lýsingar á leiðunum og þeim menningararfi sem þær leiða okkur um í þessum fjórum borgum, Alicante, Reykjavík, Varsjá og Zagreb. Við hvetjum ykkur til að nýta þennan möguleika bæði hér heima og við heimsóknir á slóðir samstarfsaðilanna þegar tækifæri gefst.
Fjármál og réttindi við og eftir starfslok
Íslandsbanki heldur út aðgengilegum upplýsingavef um fjármál og réttindi einstaklinga við og eftir starfslok. Mikilvægt er kynna sér málin vel áður en ákvarðanir eru teknar um hvenær útgreiðslur úr lífeyrissjóðum skuli hefjast; hvenær óska eigi eftir greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins; hverjar eru skerðingar fjármagnstekna á greiðslu til ellilífeyrisþega og maka frá Tryggingastofnun; hver eru áhrif útgreiðslu séreignarsparnaðar á skattbyrði viðkomandi og svo framvegis. Svörin við þessum spurningum er einstaklingsbundin þar sem aðstæður hvers og eins eru einstakar.
Sjá nánar á https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/fjarmal-og-rettindi-vid-og-eftir-starfslok/
Aðalfundur U3A Reykjavík
Aðalfundur U3A Reykjavík verður síðan haldinn 23. mars í Hæðargarði 31 kl. 16:30. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Fundurinn verður auglýstur sérstaklega. Stjórnin væntir þess að geta boðið félagsmönnum að sitja fundinn ásamt því að honum verður streymt eins og öðrum viðburðum.
Fyrir hönd stjórnar,
Birna Sigurjónsdóttir formaður
Viðburðir í mars hjá U3A Reykjavík
Sumarliði Ísleifsson, Ólafur Páll Jónsson og Páll Einarsson
Á þriðjudögum í mars verða fjölbreyttir fyrirlestrar sendir út í streymi á vegum U3A Reykjavík. Við væntum þess að geta fljótlega boðið áheyrendum einnig að mæta aftur í Hæðargarð til að hlýða á fyrirlestrana og verður það auglýst sérstaklega.
Þriðjudaginn 2. mars verður Sumarliði Ísleifsson, lektor við HÍ með fyrirlestur sem hann nefnir Í fjarska norðursins þar sem hann fjallar um viðhorf til Íslands og Grænlands frá öndverðu til samtímans.
Þann 9. mars kemur Ólafur Páll Jónsson heimspekingur til okkar með fyrirlestur sem hann nefnir Truflaður lærdómur og fjallar um hvaða áhrif Covid faraldurinn muni hafa á framferði fólks, viðhorf og gildismat í framtíðinni.
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur ætlar síðan að flytja fyrirlestur þriðjudaginn 16. mars sem hann nefnir Umbrotahrina á Reykjanesskaga. Fjallað verður um flekaskilin á Reykjanesskaga og virknina sem fylgir flekahreyfingum, skjálfta- og eldvirkni. Enginn fyrirlestur verður 30. mars í dymbilviku.
Félagsmenn eru hvattir til að fylgjast með áhugaverðum fyrirlestrum sem auglýstir eru á heimasíðunni u3a.is