Gönguleið í náttúrunni í Elliðaárdal
Elliðaárdalur er eitt vinsælasta útivistarsvæði Reykjavíkur og stærsta græna svæðið í borginni. Dalurinn býður upp á fjölbreytt umhverfi hvað varðar landslag, jarðfræði, fugla, fisk og gróður, en Elliðaárnar eru þó þungamiðja svæðisins. Í dalinn leitar fjöldi fólks allt árið, sérstaklega úr hverfunum í nágrenni hans.
í norðurjaðri Elliðaárdalsins er byggðasafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn, þar sem áður var býlið Árbær, þar sem var rekin gisti og veitingaþjónusta um aldir fyrir bændur sem voru að reka kvikfé til Reykjavíkur til slátrunar og selja aðrar afuröir sínar.
Leiðin hefst við Rafstöðina við Elliðaár, þriggja megawatta raforkuver sem vígt var árið 1921 af hans hátign Kristjáni tíunda konungi yfir Danmörku og Íslandi.
Elliðaárdalur og Elliðaárvirkjun
Hugleiðing
Birgir Jónsson og Dagrún Þórðardóttir
Við völdum að lýsa þessari gönguleið af því hún er svo fjölbreytt og áhugaverð og auk þess aðeins í nokkurra mínútna fjarlægð frá heimili okkar, sem var þægilegt þar sem leiðarlýsingin var unnin að vetri til.
Við höfðum aldrei notað svona smáforrit (app) áður, en strax á námskeiði Einars Skúlasonar áður er vinnan hófst, sáum við að það að koma mynskreyttri leiðarlýsingu með leiðarkorti inn í farsíma var aldeilis frábær aðferð til að kynna gönguleiðir.
Á leiðinni sjáum við mjög fjölbreytta náttúru; skóg, fuglalíf, jarðfræði og einnig fossandi á, sem hafði verið beisluð nákvæmlega 100 árum fyrr til að rafvæða ört vaxandi kaupstað.
Gönguleiðin kemur við í tveimur merkilegur söfnum. Í fyrsta lagi Árbæjarsafni sem kynnir húsagerð síðustu 180 ára, allt frá torfkirkju frá Silfrastöðum í Skagafirði og bjálkabyggðum verslunarhúsum upp í gegnum þróun húsbygginga Reykjavík á seinni hluta 19. aldar og inn í bárujárnstímabilið, sem er nær einstakt í heiminum, þar sem þetta nýja þakefni reyndist mjög hentugt sem veggklæðning í íslenskri veðráttu.
Annað safn sem var búið að loka tímabundið, en verður opnað aftur, er stöðvarhús Elliðaárvirkjunar, sem var í gangfæru standi með sínar upphaflegu vélar, þangað tll fyrir nokkrum árum að þrýstivatnspípan frá Árbæjarstíflu brotnaði er jarðvegsskriða rann undan pípunni í miklu vatnsveðri.
Síðari hluti gönguleiðarinnar liggur frá Árbæjarsafni niður að stöðvarhúsi Elliðaárvirkjunar og svo skemmtilega hittist á að gengið er nákvæmlega eftir gömlu þjóðleiðinni inn til Reykjavíkur að austan. Í Árbæ var veitinga- og gistiþjónusta um langt árabil í kringum aldamótin 1900.