Fréttabréf U3A
Febrúar 2023

Af hverju er stysti mánuður ársins sá lengsti?

Ung að aldri byrjaði ég upplifa að febrúar væri lang lengsti og leiðinlegasti mánuður ársins! Ég sagði aldrei nokkrum manni frá þessari hugsanavillu minni enda augljóst samkvæmt öllum útgefnum dagatölum er að febrúar er sá stysti í árinu hvort sem það er hlaupár eða ekki.

Þegar sonur minn, sem þá var 7 ára gamall, spurði mig „mamma, manstu hvað febrúar var langur á síðasta ári?“ velti ég fyrir mér hvort febrúar-fóbían mín væri ættgeng! Aumingja barnið að fá þessa febrúar-þrjáhyggju móður sinnar í arf.

Við glímum á hverju ári við langan, kaldan og illa upplýstan janúar í 31 dag, eftir gleðileg jól, hátíð ljóssins og fjölskyldu- og vinafagnaði,  sem virðist hreint engan enda ætla að taka. Og þegar janúar lýkur loksins, tekur við áframhaldandi vetur og dimmur febrúar sem mörgum okkar finnst vera enn lengri en janúar. Vísindamenn hafa uppgötvað að þessi tími ársins hefur ekki aðeins neikvæð áhrif á andlega heilsu okkar og geðslag heldur einnig á ónæmiskerfið okkar og eykur  á bólgumyndun.

Sumir vísindamenn telja að tímaskyn okkar geti brenglast eftir desember og fram á fyrstu mánuði nýs árs vegna upplifunar okkar af fjölmörgum jákvæðum félagslegum atburðum og slökun í kringum jól og áramót. Jákvæð upplifun okkar yfir hátíðirnar eykur dópamínlosun í líkömum okkar, en dópamín er taugaboðefni framleitt í heila og oft kallað gleðihormón. Auk þess að gera okkur glaðari í lund hefur dópamínið áhrif á tímaskyn okkar. Þess vegna finnst okkur jólafríið rétt byrjað þegar það er búið, því eins og við vitum þá “flýgur tíminn” þegar það er gaman hjá okkur. Þegar við erum svo “svipt” þessu jákvæða félagslífi tengdu hátíðunum, hægir á dópamínlosuninni sem getur valdið því að við erum ekki eins kát og að okkur finnist tíminn líða hægt.

Þegar við erum svipt sólarljósi getum við upplifað álag m.a. vegna kulda og einangrunar sem getur haft verulegar afleiðingar á skapið. Yfir vetrartímann stunda flest okkar minni útivist en á sumrin og það hefur verið sýnt fram á að kuldi getur ýtt undir þunglyndislíka hegðun og haft neikvæð áhrif á andlega og almenna heilsu. Sérstaklega sýndu óvirkir einstaklingar hærra magn af bólgupróteinum sem kallast c-viðbragðsprótein, TNF-α og IL-6 í blóði sínu.

Vopnuð þessari vitneskju ættum við að gera áætlanir um að hitta vini og fjölskyldu, hefja og viðhalda líkamsþjálfun og stunda áhugaverð áhugamál. Þá er hægt að fjárfesta í dagsljóslampa sem líkir eftir sólarljósi eða jafnvel taka ónæmisbætandi fæðubótarefni,. Þetta eru allt góðar leiðir til að tryggja að við fáum nauðsynlegt dópamín á stysta, en þó lengsta mánuði ársins.

Þessi grein er unnin upp úr ítarlegri grein Brett Melanson doktorsnema í atferlis taugavísindum. Hér er svo krækja á greinina með ítarlegri heimildaskrá.

Verður gott að eldast á Íslandi? Hvað mun ný aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk færa okkur?

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra að kynna drög að aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk.

Í desember síðastliðnum kynntu heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráherra drög að aðgerðaráætlun sem nefnist Gott að eldast – aðgerðaráætlun til fjögurra ára um heildarendurskoðun þjónustu við eldra fólk. Þessa aðgerðaráætlun ætla ráðherrarnir að vinna saman en málefni eldri borgara heyra aðallega undir þessi ráðuneyti, og svo auðvitað fjármálaráðuneytið sem heldur utan um pyngjuna. Hafa ber í huga að aldraðir í heimahúsum eiga rétt á félagslegri heimaþjónustu geti þeir ekki hjálparlaust annast heimilishald og persónulega umhirðu. Það eru sveitarfélögin sem veita þessa þjónustu á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en setja sjálf nánari reglur um framkvæmdina og því er félagsþjónustan töluvert mismunandi eftir því hvar eldri borgarar búa.

Fram kom í máli ráðherranna að það eigi ekki bara að vera gott að eldast á Íslandi heldur eigi fólk að geta látið sig hlakka til efri áranna og að síðustu áratugir ævinnar eigi að vera meðal þeirra allra bestu. En eins og könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá 2021 sýnir þá er staða og upplifun eldri borgara ansi fjarri þessum markmiðum ráðherranna. Þeir eldri borgarar sem þurfa á aðstoð að halda fá hana frá börnum sínum og þá helst frá dætrum sínum (42%) en konur eru líklegastar til að taka „þriðju vaktina“ sem þar með dregur úr jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Einungis 26% fá/þiggja aðstoð frá heimaþjónustu á vegum sveitafélaganna og algengast er að sá hópur fái hana aðeins aðra hverja viku.

Heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk er sagt eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar líkt og fram kemur í stjórnarsáttmála hennar. Verkefnisstjórn sem skipuð var síðastliðið sumar hefur unnið að mótun aðgerðaáætlunarinnar í samvinnu við haghafa og þann 19. desember sl. var áætlunin sett í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Hún verður síðan lögð fram sem tillaga til þingsályktunar á vorþingi 2023.

Mikilvægt er að við sem erum á þriðja æviskeiðinu kynnum okkur þingsályktunina og að við komum okkar sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri við þingmenn sama hvar í flokki þeir standa.

Hægt er að kynna sér drögin að þingsályktunartillögunni og umsagnir um tillöguna hér: Samráðsgátt | Samráðsgátt – Drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk 2023-2027

Að8sig

Helga Tryggvadóttir

Eins og kom fram í janúarfréttabréfinu má kynnast sjálfum sér betur með því að fara á námskeiðið Að8sig sem er námskeið í sjálfsþekkingu. Námskeiðið hefur verið haldið tvisvar sinnum á vegum Sameykis, stéttarfélags í almannaþjónustu, í fyrra skiptið fyrir Covid og svo eftir Covid haustið 2022. Kennari á námskeiðinu var Helga Tryggvadóttir, náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri hjá Framvegis, miðstöð símenntunar. Helga var til í örstutt viðtal á Kaffi Vest við Ingibjörgu, stjórnarmann Vöruhúss tækifæranna, og segja frá.

Þátttakendur á námskeiðunum voru félagar í Sameyki. Á því fyrra voru þeir 50 ára og eldri en á því síðara var námskeiðið opið öllum félögum í Sameyki sama á hvaða aldri þeir voru. Aldursbilið var því mjög dreift, yngsti þátttakandinn var 27 ára og sá elsti 80 ára. Sátu þeir hlið við hlið, áttu í hrókasamræðum og lærðu hvor af öðrum. Einn yngri þátttakandi á námskeiðinu gat ekki annað en dáðst að þeim eldri og sagði „Ég vil vera eins og þú“. Konur voru í meirihluta á báðum námskeiðunum.

Fyrir flesta þátttakendur var námskeiðið fyrst og fremst sjálfskoðun. Þeir hafi spurt sig spurninga eins og „hvað langar mig að gera“? og „hvað vekur hjá mér gleði“? Einn þeirra ákvað t.d. í framhaldinu að kaupa sér sumarbústað. Að sögn Helgu þóttu þátttakendum námsskeiðið skemmtilegt, í besta falli mætti nýta það og gera breytingar á lífi sínu en það mætti líka bara taka þátt til þess að vera í skemmtilegu umhverfi með jákvæðu fólki. Þátttakendum hafi líka þótt skemmtilegt að ræða niðurstöður verkefna í hóp og hvernig mætti nýta þær. Einhverjir þátttakenda sáu námskeiðið sem lið í undirbúningi fyrir eftirlaunaárin segir Helga, en fyrst og fremst hafi þeir séð það sem námskeið í sjálfsþekkingu. Allir tóku þátt í netkönnun um mat á eigin styrkleikum hjá VIA. Insitute of Character

Námskeiðunum var skipt upp í þrjú skipti, þrjá tíma í senn. Helga segir að miðað hafi verið við að þátttakendur væru 12 talsins, en með því að hafa ekki fleiri þátttakendur taldi hún að þeir ættu auðveldara með að deila hugsunum sínum og tjá sig um úrlausnir úr verkefnum sem voru lögð fyrir þá. Helga telur að handbókin Manual for Trainers and Facilitators, sem varð til í Erasmus+ verkefninu Catch the Ball, hafi nýst henni vel og hún hafi fylgt bókinni í kennslunni. Segist sjá sjálfa sig fyrst og fremst sem leiðbeinanda í aukahlutverki. Helga tók einmitt þátt við þróun námskeiðsins i Catch the BALL.

Að lokum er það að segja frá Helgu að hún er önnum kafin kona, hún lauk diplómanámi í jákvæðri sálfræði sumarið 2022 og kennir nú kúrs í Háskóla Íslands í náms- og starfsráðgjöf ásamt að vera í fullri vinnu. Helga eignaðist sitt fyrsta barnabarn fyrir einu og hálfu ári síðan sem veitir henni mikla gleði og hún nýtur samvista við.

Hálfrar aldar afmæli U3A

Myndin er frá ráðstefnu Alþjóðasamtaka U3A, AIUTA, 2019 í Líbanon

Hugmyndina að Háskóla þriðja æviskeiðsins (University of the Third Age, U3A) má rekja til breytinga á lögum um franska háskóla 1968 sem skylduðu háskólana til þess að bjóða upp á tækifæri til ævináms. Segja má að þetta sé ein þeirra breytinga á háskólastofnunum heimsins sem stúdentabyltingarnar ’68 leiddu til.

Þetta varð til þess að fyrsti háskóli þriðja æviskeiðsins (Université du Troisième Age, U3A) var stofnaður í Félagsvísindadeild Háskólans í Toulouse í Frakklandi árið 1973 fyrir réttum fimmtíu árum síðan.

U3A hugmyndin breiddist síðan hratt út á næstu árum um Frakkland og til annarra landa Evrópu og til Quebec í Kanada eftir franska skipulaginu, það er námsframboð endurmenntunar innan háskólanna.

Fyrsti breski U3A var svo stofnaður í Cambridge 1981 og breiddist þaðan til annarra breskra borga. Breski U3A var gerólíkur þeimi franska og byggði á sjálfstæðri jafningjafræðslu, sjálfstæðum félagasamtökum á ábyrgð félaganna sjálfra og án formlegra tenginga við háskólastofnanir. U3A Reykjavík var stofnaður árið 2012 í anda bresku leiðarinnar og fagnaði því 10 ára starfi í nýliðnu ári.
Á áratugunum sem liðnir eru frá brautryðjendastarfinu í Toulouse hefur U3A hreyfingin eflst og dreifst um heim allan. Mismunandi leiðir hafa verið farnar. Franska leiðin, það er U3A innan háskóla, hefur náð mikilli útbreiðslu á meginlandi Evrópu og víðar en breska leiðin hefur náð fótfestu þar sem bresk áhrif hafa verið mikil eins og á Indlandi og í Ástralíu. Félagar og nemendur í hinum ýmsu U3A telja nú miljónir, og munar þar mest um 70.000 sjálfstæða háskóla U3A í Kína með meira en átta miljónir nemenda. (Sjá grein í Fréttabréfi Vöruhússins í september 2022 um U3A í Kína.) Nefna má einnig að U3A í Bretlandi telur yfir þúsund sjálfstæð félög með um hálfa miljón félaga, sem lögaðilinn „Third Age Trust“ hefur umsjón með. Sjá vefsíðuna u3a.org.uk.

Alþjóðasamtök U3A (AIUTA ) sem stofnuð voru 1975 tengja U3A víðsvegar um heim enda leggur U3A hreyfingin mikla áherslu á alþjóðlegt samstarf. Á vegum AIUTA eru haldnar ráðstefnur og fundir á hverju ári þar sem unnið er mikilvægt starf til aukinnar vitundar um mikilvægi ævináms og virkni á þriðja æviskeiðinu. Sjá vef AIUTA Má nefna að næsta ráðstefna á vegum AIUTA verður haldin í maí 2023 og mun formaður U3A Reykjavík sækja hana.

Á vegum ýmissa U3A samtaka má einnig finna framboð af rafrænum námskeiðum. Hér má t.d. nefna vef U3A online sem er eitt tækifæranna á hillu í Vöruhúsi tækifæranna sem starfar undir hatti U3A Reykjavík.

Nánar má fræðast um sögu U3A hreyfingarinnar á vef U3A Reykjavík og starf U3A um heim allan á þessari Wikipediu vefslóð.

U3A Reykjavík óskar U3A í Toulouse og U3A skólum og samtökum um heim allan til hamingju með árangur 50 ára hugsjónastarfs til aukinnar virkni huga og handar á efri árum.

Djúpvitra gervigreindarofurmennið Chat GPT

Hvað er Chat GPT?
Í stuttu máli er það háþróað tungumálalíkan sem notar gervigreind til að búa til mannlegan texta. Sveigjanleiki þess og mikil nákvæmni hefur gert það að mikilvægu tæki fyrir fyrirtæki til að bæta þjónustu við viðskiptavini sína og sjálfvirknivæða efnissköpunarferli þeirra.

Gervigreind þvingar íslenska skóla til endurskoðunar
RÚV 6. janúar 1923. Pétur Magnússon

Lagermaður Vöruhússins leitar til ChatGPT með nokkrar spurningar á ensku, því enskan er þess móðurmál og íslenskunámið skammt á veg komið:

Is Bobby Fischer the president of Iceland?
No, Bobby Fischer is not the president of Iceland. He became an Icelandic citizen in 2005 and lived there until his death in 2008, but he never held the office of President. The current president of Iceland is Guðni Th. Jóhannesson.

What is the Third Age?
The Third Age is a term used to refer to the period of life after retirement, when individuals no longer work or are actively engaged in their former careers. It is typically a period of active engagement in hobbies, volunteerism, travel, and leisure activities. It is also a time to pursue interests that may have been put aside while working or raising a family.

Please make a poem of U3A
Life’s a joy in U3A
Learning new things every day
Friends made, knowledge gained
A wonderful way to stay.

On a journey of discovery
Exploring what we can do
In the company of others
What a great life we pursue!

Gardening, history, art, music
Sports and computing too
There’s so much to discover
We can make it all come true.

The knowledge shared here
Makes life worthwhile
The friendships that are formed
Are a joy for many a mile.

So come along to U3A
And join the learning fun
It’s a pleasure to be here
We are the U3A ones.

PION netið hefur verið virkt í tíu ár

Birna Halldórsdóttir að segja frá styttum í miðborg Reykjavíkur, hér við styttu að Ingibjörgu H. Bjarnason við Alþingishúsið.

Alþjóðlega tengslanetið „Pass It On Network (PION)“ fagnar nú tíu ára virku starfi. Netið, sem tengir saman talsmenn og aðgerðasinna fyrir virka og jákvæða öldrun um heim allan og sem netið nefnir PIONeers, hefur eins og nafn netsins bendir til miðlað hugmyndum og komið á öflugu samstarfi heimshorna á milli um aðgerðir og framgöngu í málum eldra fólks. Þar má meðal annars nefna tengingu við starf vinnuhóps Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um öldrun (OEWGA). Hliðarviðburðir á vegum PION hafa verið skipulagðir í hópnum samhliða vinnufundunum og verður það einnig gert á 13. fundi vinnuhópsins 3.-6. apríl næstkomandi. (Stutt grein um OEWGA birtist m.a. í fréttabréfi Vöruhúss tækifæranna í október 2021)

PION var stofnað árið 2013 af tveimur kjarnorkukonum sitt hvorum megin Atlantshafsins, Moiru Allan í París og Jan Hively í Boston en þær hafa báðar lengi verið öflugar talskonur jákvæðrar og virkrar öldrunar. Hefur vítt tengslanet þeirra komið þar að góðum notum. Jan Hively hefur nú dregið sig aðeins til hliðar en er áfram öflugur hugmyndasmiður þó nýorðin níræð sé. Það er skemmst frá því að segja að PION hefur vaxið ár frá ári og heldur úti rafrænum spjallfundi reglubundið um ýmis mál sem brenna á eldra fólki þar sem réttindi og hefðir í mismunandi löndum eru borin saman og nýjar leiðir kynntar og ræddar. Þessa fundi sækja venjulega nokkrir tugir þátttakenda frá öllum heimshornum sem flestir eru virkir reynsluboltar og frumkvöðlar heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

U3A Reykjavík tengdist PION stuttu eftir tilurð þess og hefur Hans Kristján Guðmundsson, stjórnarmaður í U3A Reykjavík, verið þar persónulegur tengiliður og hafa þessi tengsl hafa verið ómetanlegur stuðningur við þróun starfsemi samtakanna. Afurðir evrópsku samstarfsverkefnanna BALL, Catch the BALL og HeiM og ekki síst Vöruhús tækifæranna verið kynntar innan PION og fengið þar afar jákvæða viðurkenningu og dreifingu um víða veröld. U3A Reykjavík sendir PION sínar bestu afmæliskveðjur.

Á afmælisárinu stefnir PION að virkni á mörgum vígstöðvum. Í janúarfréttabréfi þess, Global PIONeer Gazette, má sjá yfirlit yfir viðburði ársins og má þar m.a. sjá umfjöllun um alþjóðlegt átak um baráttu fyrir réttindum aldraðra (Age with Rights Global Rally), sem er skipulagt síðustu vikuna í febrúar. Með átakinu eru ríkisstjórnir sem eiga fulltrúa í OEWGA vinnuhópi Sameinuðu þjóðanna hvattar til þess að ljúka án tafar vinnu við mótun sáttmála um réttindi aldraðra. Í fréttabréfinu er einnig boðið til næsta umræðufundar PION sem verður mánudaginn 13. febrúar og er öllum frjálst að skrá sig á fundinn. Að lokum má benda á að fundir PION, sem fara fram á Zoom, eru teknir upp og vistaðir á youtube rás netsins, Pass It On – YouTube, og er þar hægt að skoða fjölmarga fundi, velja fund og hlusta.

Viðburðir U3A Reykjavík í febrúar 2023

F.v.: Einar Falur Ingólfsson, Ásdís Skúladóttir, Skúli Bragi Geirdal, Stefán Halldórsson, Elín Sigrún Jónsdóttir.

Í febrúar verða fjölbreyttir fyrirlestrar og viðburðir á dagskrá hjá U3A Reykjavík að venju. Menningarhópur stefnir að heimsókn í leikhús til að sjá sýninguna: Ég lifi enn – sönn saga og svo eru auðvitað þriðjudagsfyrirlestrarnir á sínum stað.

7. febrúar flytur Einar Falur Ingólfsson erindi sem hann nefnir: Samtal þriggja tíma, Þar skoðar hann viðfangefni og verk sem annarsvegar breski listamaðurinn W. Collingwood vann á Íslandi sumarið 1897 og hins vegar danski listamaðurinn Johannes Larsen sumrin 1927 og 1930.

11. febrúar fer menningarhópur í leikhús í Tjarnarbíó og sér leiksýninguna: Ég lifi enn – sönn saga. Á eftir verður spjall með leikstjóra verksins Ásdísi Skúladóttur á veitingahúsinu Jómfrúnni.

14. febrúar kemur Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd og flytur erindi sem hann nefnir: Netöryggi í stafrænum heimi – Mikilvæg atriði varðandi netnotkun eldri borgara.

21. febrúar ætlar Stefán Halldórsson að fjalla um ættfræði.

28. febrúar kemur Elín Sigrún Jónsdóttir, lögmaður til okkar og fjallar um erfðamál. Elín er stofnandi fyrirtækisins BÚUM VEL sem er sérhæfð lögfræðiþjónusta vegna búsetuskipta fyrir 60+.

Allir viðburðir eru auglýstir með góðum fyrirvara á heimasíðunni og í tölvupósti til félagsmanna að venju. Fylgist með og takið þátt er hvatningin til allra félagsmanna.

Sjá nánar á vef samtakanna U3A.is

Scroll to Top
Skip to content