Apríl
Mánuðurinn sem kemur með sumardaginn fyrsta, lofar okkur vori og gefur nokkurra daga velkomið páskafrí.
Pabbi minn heitinn átti til að lýsa því yfir að hlutirnir hefðu verið mikil betri í gamla daga. Ég og systur mínar ólumst upp við hefðbundnar íslenskar páskahefðir á sjötta og sjöunda áratugunum. Rauðir dagar eins og skírdagur, föstudagurinn langi, páskadagur og annar í páskum voru haldnir hátíðlegir. Mamma klæddi okkur upp í sparikjóla, hvíta spossokka og glansandi blankskó. Hún burstaði allar flækjur úr hárinu okkar og fléttaði svo fastar fléttur að við litum út fyrir að vera asískar fram eftir degi. Í endann á beinstífum fléttunum hnýtti hún svo stífstraujaða hvíta hárborða.
Það segir sig sjálft að við systurnar gátum ekki farið út að leika í sparifötunum enda bannað að hafa gaman megnið af páskunum. Afþreyingar svo sem leikhússýningar, kvikmyndasýningar, tónleikahald og bingó voru bönnuð með lögum og Spaugstofan var dregin fyrir dómstóla fyrir að djóka um páskana. Eini fjölmiðilinn, RÚV, útvarpaði hákristilegum boðskap á máli sem ekkert venjulegt barn skildi. Það eina sem hægt var að hlakka til var páskadagsmorgunn þegar við systur vöknuðum sjálfviljugar fyrir allar aldir og gúffuðum í okkur dísætt páskaegg í morgunmat í náttfötunum til að fá ekki súkkulaðibletti í sparifötin.
Páskahefðir héðan og þaðan úr heiminum vöktu undrun okkar. T.d. að í Bessiére í Frakklandi safnist þúsundir manna saman annan í páskum og fylgjist með 40 kokkum búa til risastóra eggjaköku/omelettu úr 15 þúsund eggjum. Í Ungverjalandi skvetta karlmenn vatni á uppáklæddar konur sem gáfu þeim að borða í staðinn! En þær hefðir sem vöktu mestan óhug hjá okkur systrum voru krossfestingar guðrækinna Filipseyinga sem sjálfviljugir láta negla sig á krossa með tveggja tommu nöglum.
En nú er öldin önnur á Íslandi og börnin okkar, hvað þá barnabörnin okkar, myndu seint samþykkja að hlíta hinum hefðbundnu páskahefðum sem við systurnar ólumst upp við. Páskar einkennast ekki lengur af takmörkunum, boðum og bönnum heldur nýtur fólk páskana á hvern þann hátt sem því sýnist. Algengt er að fólk nýti páskafrí til að ferðast til sólríkra staða eða smali fjölskyldunni saman í sumarbústað eða orlofshús. Nú þarf ekkert endilega að skipuleggja matarinnkaup langt fram í tímann því það er alltaf hægt að fá mat einhversstaðar allan sólarhringinn alla daga. En vilji menn hafa tímann fyrir sér, þá er hægt að kaupa páskaeggin strax í janúar í Krónunni! Við getum öll haft okkar skoðanir á því hvort þessi þróun sé framför eður ei.
Persónulega finnst mér páskarnir miklu skemmtilegri núna en áður jafnvel þó að ég fái engin páskaegg lengur. Lambamáltíð með stór-fjölskyldunni heima eða í orlofshúsi, þar sem börnin klæðast fötum sem má leika sér í, hvort sem er inni eða úti. Hver veit nema maður skelli sér bara í bíó um páskana.
Gleðilega páska.
Njótið á hvern þann hátt sem ykkur sýnist.
Kveðja fráfarandi formanns
Góðir félagar í U3A Reykjavík
Við þessi tímamót þegar ég kveð formannsembættið í U3A Reykjavík eftir fjögur ár langar mig að senda ykkur kveðju, líta yfir farinn veg og þakka fyrir mig.
Árin fjögur hafa verið viðburðarík og gefandi fyrir mig persónulega og sömuleiðis fyrir félagið. Öflugt félagsstarf hefur eflst enn frekar, tala félaga hefur nær tvöfaldast á þessum tíma og hópastarf hefur eflst. Það var heillaspor þegar við hófum að streyma fyrirlestrum haustið 2020, það þýðir að fyrirlestrar ná nú til fleiri félaga. Það þýddi líka að stjórnin þurfti að takast á við tæknileg verkefni og bæta við sig þekkingu á því sviði. Þar var lærimeistarinn Jón Ragnar Höskuldsson, hann og öll stjórnin á þakkir skildar fyrir sitt óeigingjarna starf sem allt er unnið í sjálfboðavinnu. Fyrir mig var þetta lærdómstækifæri sem ég er þakklát fyrir.
Ég horfi með gleði og ánægju til síðasta starfsárs en þá voru alls 66 viðburðir á vegum félagsins og hópa. Þátttaka félagsmanna hefur verið mikil, að meðaltali komu 40 manns í salinn í Hæðargarði á hvern fyrirlestur og allt að 70 þegar flest var. Enn fleiri nýta sér að horfa og hlýða á upptökur af fyrirlestrunum eða að meðaltali 270 og hæst fór áhorfið í 370 manns sem fylgdust með stökum fyrirlestri. Heimsóknir og viðburðir menningarhóps á árinu hafa nær alltaf verið fullbókaðir, stofnaður var HeiM-klúbbur og haldið námskeið í gerð gönguleiða með Wikiloc-appinu og einnig var stofnaður umhverfishópur. Fyrir voru starfandi bókmenntahópur sem hefur verið virkur frá stofnun félagsins og alþjóðahópur um alþjóðleg tengsl U3A félaga.
Sá viðburður sem bar hæst á árinu var málþing í tilefni 10 ára afmælis félagsins. Yfirskriftin var Seinni hálfleikur – Fræðsla og virkni alla ævi. Alls sóttu um 120 manns málþingið sem haldið var í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Allir fyrirlesarar eiga miklar þakkir skildar fyrir frábær og hvetjandi erindi. Sömuleiðis undirbúningshópur og tónlistarhópur, fundarstjóri og stjórnin öll sem sameinuðust um að gera viðburðinn glæsilegan og eftirminnilegan.
Ég gaf kost á mér til setu í stjórn til næstu tveggja ára og hlakka til samstarfs við nýjan formann Hjördísi Hendriksdóttur og við nýja stjórn. Sérstakt tilhlökkunarefni er að fráfarandi og nýr formaður U3A Reykjavík ætla að sækja ráðstefnu AIUTA, alþjóðasamtaka U3A félaga sem haldin verður í maí 2023 í Pamukkale í Tyrklandi í tilefni af því að 50 ár eru síðan samtökin voru stofnuð í Frakklandi.
Höldum áfram öflugu starfi með fyrirlestrum, heimsóknum, ferðum og hópastarfi!
Áfram U3A Reykjavík,
Birna Sigurjónsdóttir
Nýtt starfsár er hafið hjá U3A Reykjavík
Frá aðalfundi U3A Reykjavík, 21. mars 2023
Aðalfundur U3A Reykjavík var haldinn í Hæðargarði 31 þriðjudaginn 21. mars. Nýliðið starfsár er eitt það virkasta í sögu félagsins með 66 viðburði á árinu og þar af 35 þriðjudagsfyrirlestra. Samtökin fögnuðu 10 ára afmæli á árinu m.a. með fjölsóttu málþingi í október. Skýrsla stjórnar og fundargerð aðalfundar eru aðgengilegar á vef samtakanna.
Helstu fréttir eru m.a. að félagsfólki heldur áfram að fjölga og eru rúmlega 1200 í upphafi nýs starfsárs. Samþykkt var að halda sama lága árgjaldinu, 2000 krónur, á nýju starfsári. Samþykktir samtakanna voru uppfærðar með tilliti til að U3A Reykjavík er nú aðili að Samtökum um Almannaheill. Sjá má samþykktir félagsins á vef U3A Reykjavík, sjá samþykktir.
Ný stjórn var kjörin. Birna Sigurjónsdóttur sem gegnt hefur formennsku sl. fjögur ár lét af formennsku, og var henni þakkað sérstaklega fyrir öflugt starf á þessum vettvangi. Nýr formaður var kjörin Hjördís Hendriksdóttir og með henni í stjórn halda áfram þau Birna Sigurjónsdóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Guðríður Þorsteinsdóttir og Þórleif Drífa Jónsdóttir, auk þess sem Steinunn Ingvarsdóttir og Örn Bárður Jónsson koma ný inn í stjórnina. Borgþór Arngrímsson, Emma Eyþórsdóttir og Hans Kristján Guðmundsson gengu úr stjórn og var þeim þakkað samstarfið.
Vinstri mynd: Hjördís Hendriksdóttir, nýr formaður U3A Reykjavík.
Hægri mynd: Birna Sigurjónsdóttir, fráfarandi formaður, tekur við þakklætisvotti úr hendi Hans Guðmundssonar.
Músíkmeðferð Tónlistin og uppbyggjandi áhrif hennar
Inga Björk Ingadóttir músíkmeðferðarfræðingur
Tónlist hefur heilandi áhrif og hefur fylgt manninum frá örófi alda. Tónlist hreyfir við okkur á öllum sviðum – líkamlega, tilfinninga- og vitsmunalega og hefur í öllum sínum fjölbreyttu formum verið notuð á eflandi, uppbyggjandi og heilandi máta, enda eru jákvæðir eiginleikar hennar svo magnaðir og ótal margir.
Það var svo fyrir miðbik síðustu aldar að það fór að þróast fræðigrein um heilunargildi tónlistar og hægt var að öðlast sérfræðiþekkingu í faginu músíkmeðferð. Unnin er rannsóknarvinna í greininni í fjölmörgum löndum á ólíkum sviðum og skjólstæðingahópum og tekist hefur að sýna fram á djúpstæð áhrif músíkmeðferðar og ótvíræðan jákvæðan ávinning hennar.
Hér á Íslandi hafa verið gerðar 2 rannsóknir á áhrifum músíkmeðferðar. Físmús, félag músíkmeðferðarfræðinga á Íslandi, var stofnað árið 1997 af dr. Valgerði Jónsdóttur, dr. Lilju Ósk Úlfarsdóttur og prófessor Kristínu Björnsdóttur. Megin markmið félagsins er að þróa notkun músíkmeðferðar á Íslandi og auka þar með veg hennar sem fullgilds meðferðar- og greiningartækis. Samkvæmt skilgreiningu Físmús er músíkmeðferð “skipulögð notkun tóna, hljóða og hreyfinga sem beitt er til að auka vellíðan eða endurnýja, viðhalda og þróa andlega og líkamlega heilsu og/eða getu. Sérstök tón- og hljóðáreiti, eða eiginleikar og eðlisþættir tóna og hljóða, og tengsl sem myndast í tónlistarreynslunni eru notuð af sérfræðingi í þeim tilgangi að ná settum markmiðum í meðferð, kennslu og endurhæfingu fólks sem á við líkamleg, andleg og félagsleg vandamál eða fötlun að stríða”.
Músíkmeðferð er fyrir alla og engrar tónlistarkunnáttu krafist. Hún hentar í nær öllum tilvikum, hvort sem um aðkallandi aðstæður eða langvarandi verkefni, veikleika eða einhæfi er að ræða. Starfssvið sem músíkmeðferðarfræðinga er því afar fjölbreytt. Þar má td. nefna vinnu með verðandi mæðrum og fyrirburum, börnum og ungmennum með ýmsar áskoranir, fullorðnum í líkamlegum og/eða andlegum veikindum í klínísku teymi, fólki með heilabilun eða í líknandi meðferð, svo nokkur dæmi séu tekin. Músíkmeðferðin getur td. stuðlað að jafnvægi, örvað blóðrásina, haft áhrif á öndun, getur róað og vakið, verið uppbyggjandi, formandi og styrkjandi, styrkt getu til einbeitingar, örvað skynjun, eflt sjálfstraust og sjálfsöryggi. Meðferðarferlið er miðað útfrá aðstæðum og þörfum hvers og eins, og getur spannað lengri eða skemmri tímabil. Meðferðarvinnan er afar einstaklingsmiðuð. Yfirbragð og viðfangsefni hvers meðferðarferlis er eins fjölbreytilegt og fólk er ólíkt. Hljóðfæri sem eru notuð eru af öllum stærðum og gerðum. Röddin, hreyfing, textar, tónar og þögnin eru svo nokkur dæmi um þætti sem einnig koma við sögu.
Hér á Íslandi eru músíkmeðferðarfræðingar starfandi á ýmsum stöðum með fjölbreyttum hópi skjólstæðinga, bæði á stofnunum og eigin stofum. Hljóma í Hafnarfirði er ein þeirra. Þar hefur breiður skjólstæðingahópur aðgengi að fjölbreytilegum hljóðfæraheim til tónlistarsköpunar. Og svo er það auðvitað líka söngröddin – persónulegasta hljóðfærið af þeim öllum. Kjarninn í starfinu er að allir fái notið þeirra mögnuðu eiginleika sem tónlistin býr yfir. Tónlistin er brú og bátur. Hún er samskipti og samvera. Samtal með eða án orða. Og einstakur samastaður að innan sem utan sem afar dýrmætt er að eiga. Tónlistin er hreyfing og samvera, hún er rými, farvegur og tími. Og hún streymir um okkar innsta kjarna.
Sjá nánar í Vöruhúsi tækifæranna: https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/musikmedferdir/
Nánari upplýsingar á www.hljoma.is og www.ingabjork.com
Léttar gönguferðir fyrir eldri og heldri á vegum F.Í.
Ferðafélag Ísland hefur verið með léttar gönguferðir fyrir eldri og heldri félaga bæði vor og haust síðastliðin þrjú ár.
Eftir erfiðan vetur og snjóþungan eru margir í þörf fyrir að fara út og viðra sig og eru göngur í góðum félagsskap góð leið og hvatning til þess.
Þetta er í fimmta sinn sem Ólöf Sigurðardóttir farastjóri Ferðafélags Íslands leiðir göngurnar en þær eru tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum kl. 11:00. Gengið er í um eina og hálfa klukkustund eða 3-5 km og gönguhraða er stillt í hóf svo sem flestir geti verið með.
Í vor hefjast göngurnar 17. apríl og enda 15. júní. Aðallega eru göngurnar á Höfuðborgarsvæðinu en einnig eru einstakar göngur í nágranna-sveitafélögunum.
Ólöf er til frásagnar í ferðunum, t.d. ástæðuna fyrir því að gamalt hús er í nýlegu hverfi eða nýtt hús í eldra hverfi, og veltir fyrir sér gömlum sveitabæjum í austurborginni fyrr og nú. Einnig er gengið um skógræktarsvæði og græna reiti í borginni sem blasa kannski ekki við og margt fleira.
Þátttaka hefur verið mjög góð en nauðsynlegt er að skrá sig í verkefnið hjá fi@fi.is. Öllum er frjáls þátttaka en það kostar sem svarar félagsgjaldi FÍ 2023 eða 8500.-kr.
Sjá einnig vefsíðu Ferðafélagsins: FÍ Gönguferðir eldri og heldri | Ferðafélag Íslands (fi.is).
Gott er að vera í góðum gönguskóm og í viðeigandi útivistarfatnaði og svo er það góða skapið og göngugleðin. Koma svo 😊
Óli Kalla á Bala
Hugarsmíðin að þessu sinni er hann Ólafur Karlsson sem er kenndur við hann pabba sinn og kallaður Óli Kalla. Hann er fæddur og alinn upp suður með sjó í húsi sem heitir Bali og því er hann líka stundum nefndur Óli Kalla á Bala. Hann býr þar enn, en nú sem rammgiftur maður með fjögur börn, eina stelpu og þrjá stráka. Óli Kalla hefur verið sjómaður, stýrimaður síðustu árin, allt sitt vinnandi líf fyrir utan árin sem hann var í Stýrimannaskólanum en nú er hann á leiðinni í land. Óli Kalla er þó hafsins maður og vill helst hafa það fyrir augum dag hvern. „Hafið bláa hafið hugann dregur…“.
Óli Kalla getur vart hugsað sér annað starf en sem tengist hafinu en nú er aldurinn að færast yfir hann vel sextugan manninn og starfsorkan að minnka. Hann sér því fram á að fara í nýtt og helst léttara starf. Konan, hún Guðrún, ýtir líka á hann að koma í land. Börnin farin að heiman og þau geti gert svo margt saman. En hvaða nýja starf sér hann fyrir sér? Óla Kalla dettur helst í hug smíðar enda handlaginn maður og hefur séð um allar viðgerðir á heimilinu, jafnvel nýsmíðar eins og rúm og borð handa barnaskaranum. Ekkert klambur þar. En hvernig verður maður smiður? Þarf stúdentspróf eða dugir gagnfræðaskólaprófið hans? Hvernig ber maður sig að til þess að komast á samning og er eitthvað efra aldurstakmark?
Óli Kalla ákvað að byrja á að leita eftir leiðbeiningum í Vöruhúsi tækifæranna, https://voruhus-taekifaeranna.is/ um hvað gera skuli enda bara heyrt gott um húsið. Eitt af markmiðum þess er jú að hjálpa fólki á hans aldri að feta nýjar slóðir í lífinu og hvað er ekki að feta nýjar slóðir ef maður skiptir um starfsvettvang. Óli Kalla á þó erfitt með að finna það sem hann leitar að í Vöruhúsinu og því ekki allskostar ánægður. Hefði viljað sjá rekka sem bæri nafnið Feta nýjar slóðir og þar undir hillur til dæmis með nöfnum eins og Að verða smiður og eða Að verða rafvirki eða bara hilluna Að verða góður fyrirlesari, fyrir þá sem vilja verða góðir í að halda fyrirlestra,. Auðvitað eru margskonar upplýsingar um tækifæri eins og í rekkunum Færni og Nýr starfsferill en Óli Kalla vill vita hvernig hann getur beinlínis notað tækifærin. Vill sjá leiðbeiningar frá A til Ö um hvar á að byrja og svo skrefin öll þar á eftir. Ekki væri verra að hafa nafn og netfang einhversstaðar á góðum stað á forsíðu sem hægt væri að skrifa til og spyrja eða jafnvel leggja gott til málanna. Að ég tali nú ekki um símanúmer því Óli Kalla á gott með að koma fyrir sig orði.
Óli Kalla telur hugmyndina að Vöruhúsinu frábæra en vildi gjarnan vita meira um rekstur þess. Hefur heyrt að þeir sem sjái um það séu í sjálfboðastarfi, en veltir fyrir sér hvort að húsið þurfi ekki líka sterka bakhjarla, gott viðskiptamódel og fjármagn. Óli Kalla varð því glaður hér um daginn þegar hann frétti að Félags- og vinnumálaráðuneytið hefði veitt Vöruhúsinu peningastyrk og bíður spenntur eftir hverju það muni breyta.
Hvað um það. Óli Kalla á Bala er bjartsýnn á framtíðina og hlakkar til að takast á við ný verkefni í landi til að geta verið meira með konu og börnum.
Viltu verða góð(ur) í höndunum?
Endurmenntunarskóli Tækniskólans býður upp á fjölmörg stutt hagnýt og skemmtileg námskeið í apríl og maí. Á meðal námskeiða sem boðið er upp á í vor eru t.d. Trésmíði – handavinna sem haldið verður 11. – 26. apríl 2023. Þar verða kennd vinnubrögð með handverkfæri og litlar trésmíðavélar.
Annað námskeið sem haldið verður 2.-16. maí nefnist Húsgagnaviðgerðir þar sem kynnt eru efni og aðferðir til viðgerða á gömlum húsgögnum. Þátttakendur taka með sér minni hluti einsog stól eða náttborð til að vinna með.
Einnig er boðið upp á eins dags námskeið einsog Handlagin(n) á heimilinu – Smíðar þar sem þátttakendur læra undirstöðuatriði við val á festingum fyrir stein-, tré- og gifsveggi og á námskeiðinu Handlagin(n) á heimilinu – Rafmagn þar sem þátttakendur læra um rafkerfi heimila, hlutverk rofa og lekaliða og mikilvægi öryggisaðgerða. Nánari upplýsingar er að finna á vefgátt Vöruhúss tækifæranna:
https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/324394-2/
Viðburðir U3A Reykjavík í apríl 2023
F.v.: Kristín Helga Gunnarsdóttir, Snorri Sigurðsson og Krístín Loftsdóttir.
Þriðjudaginn 18. apríl kl. 16:30 verða flutt tvö erindi: undir yfirskriftinni: Lífríki jarðar í hættu! Hvað gerðist á COP-15 og hvað þýðir það fyrir Ísland? Snorri Sigurðsson, sviðsstjóri náttúruverndar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Féþúfan Ísland: náttúrusala og neysluskipti. Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur og náttúruverndarsinni.
Þriðjudaginn 25. apríl kl. 16:30 mun Kristín Loftsdóttir, mannfræðingur og prófessor við HÍ ræða um rasisma og fordóma.
Allir viðburðir verða auglýstir með góðum fyrirvara á heimasíðunni og í tölvupósti til félagsmanna. Fylgist með og takið þátt er hvatningin til allra félagsmanna.