Aðalfundur 21. mars 2023, fundargerð

Fundargerð aðalfundar U3A Reykjavík 21. mars 2023
Haldinn að Hæðargarði 31 kl. 16:30


1. Setning fundar.

Birna Sigurjónsdóttir formaður setti fund og fór yfir dagskrá fundarins.

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Formaður gerði tillögu um Borgþór Arngrímsson sem fundarstjóra og Emmu Eyþórsdóttur sem fundarritara. Tillagan var samþykkt samhljóða.

3. Skýrsla stjórnar
Birna Sigurjónsdóttir fór yfir skýrslu stjórnar sem lá frammi á fundinum. Félagar í U3A Reykjavík voru um 1100 í lok árs 2022 og hafði fjölgað um nærri 200 manns á árinu. Konur eru 78% af félögum. Alls voru 66 viðburðir á vegum U3A á árinu og þarf af voru 35 fyrirlestrar á þriðjudögum. Auk þess voru námskeið, vorferð og ýmsir viðburðir á vegum hópastarfs. Málþing var haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur í tilefni af 10 ára afmæli samtakanna og var mjög vel sótt.

U3A Reykjavík gerðist aðili að Samtökum um almannaheill á árinu en hætti samstarfi við Reykjavíkurakademíuna. U3A er aðili að alþjóðasamtökum U3A –AIUTA – sem eru 50 ára á þessu ári. Fulltrúar U3A Reykjavík mun sækja ráðstefnu á vegum samtakanna sem haldin verður í Tyrklandi í maí. Félags- og vinnumálaráðuneytið hefur nýlega veitt U3A og Vöruhúsi tækifæranna myndarlega styrki til að þýða efni á heimasíðum yfir á ensku og pólsku og til að styrkja rekstur samtakanna.

Skýrslan verður birt í heild á heimasíðu U3A ásamt skrá yfir alla viðburði á starfsárinu 2022-2023.

4. Reikningar félagsins lagðir fram og bornir upp til samþykktar.
Guðrún Bjarnadóttir, gjaldkeri, fór yfir reikninga U3A Reykjavík sem lágu frammi á fundinum.

Tekjur ársins 2022 voru kr. 2.417.625 og gjöld 2.994.199. Stærsti útgjaldaliðurinn var afmælisþingið í október og gjaldkeri fór sérstaklega yfir kostnað vegna þess. Rekstrarafkoma ársins var neikvæð um 576 þúsund og eignir í árslok ríflega ein milljón. HKG fór yfir reikninga Vöruhúss tækifæranna (VT) í fjarveru formanns og gjaldkera VT. Báðir þessir reikningar verða birtir á heimasíðu U3A sem hluti af skýrslu stjórnar.
Engar athugasemdir voru gerðar við reikningana og þeir samþykktir samhljóða.

5. Ákvörðun árgjalds.
Fundarstjóri greindi frá tíllögu stjórnar um óbreytt árgjald, kr. 2000 og var því fagnað með lófataki.

6. Breytingar á samþykktum félagsins
Guðríður Þorsteinsdóttir, stjórnarmaður, fór yfir tillögur að breytingum á samþykktum U3A Reykjavík en helsta tilefni þeirra er aðild U3A Reykjavík að Samtökum um um Almannaheill. Auk þess eru lagðar til nokkrar viðbætur og lagfæringar. Tillögurnar voru birtar á heimasíðu U3A tveimur vikum fyrir fundinn.

Hver breytingatillaga var borin upp til samþykktar jafnóðum og þær höfðu verið útskýrðar.

Nokkrar umræður urðu um tillögu um 10. grein sem er ný grein um um kjör heiðursfélaga. Breytingartillaga kom fram um bæta við 10. grein „….með leynilegri kosningu“ var hún samþykkt samhljóða.

Greinin hljóðar þannig eftir breytingu:

Samtökin geta kjörið heiðursfélaga samkvæmt tillögu frá stjórn félagsins. Tillaga um slíkt kjör skal borin fram á aðalfundi og telst hún samþykkt ef ¾ hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði með leynilegri kosningu.

Aðrar athugasemdir voru ekki gerðar og voru breytingarnar í heild samþykktar samhljóða með breytingum á 10. grein. Nýjar samþykktir verða birtar á heimasíðu U3A Reykjavík.

Yfirlit yfir breytingar sem gerðar voru á samþykktum má sjá hér.

7. Kosning formanns, stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga ásamt einum til vara.
Birna Sigurjónsdóttir lætur af formennsku eftir fjögur ár en býður sig fram til stjórnar næsta kjörtímabil.

Úr stjórn ganga: Borgþór Arngrímsson, Emma Eyþórsdóttir og Hans Kristján GuðmundssonÞórleif Drífa Jónsdóttir og Guðríður Þorsteinsdóttir hafa lokið einu ári af tveggja ára kjörtímabili og sitja áfram í stjórn.

Hjördís Hendriksdóttir bauð sig fram til formanns og var kjöri hennar fagnað með lófataki.

Birna Sigurjónsdóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Steinunn Ingvarsdóttir og Örn Bárður Jónsson buðu sig fram til stjórnar í næstu tvö ár og var kjöri þeirra einnig fagnað með lófataki.

Formaður gerði tillögu um Emmu Eyþórsdóttur og Hans Kristján Guðmundsson sem varamenn í stjórn og var það samþykkt samhljóða. Varamenn voru kjörnir nú samkvæmt breyttum samþykktum félagsins.

Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir, þau Lilja Ólafsdóttir og Gylfi Þór Einarsson og Þórleifur Jónsson til vara.

8. Önnur mál.
Birna, fráfarandi formaður, þakkaði þeim sem ganga úr stjórn fyrir gott samstarf og afhenti þeim blóm í þakklætisskyni.

Hans Kristján Guðmundsson kvaddi sér hljóðs og þakkaði Birnu fyrir einstaklega gott og árangursríkt samstarf í stjórn og sem formaður í fjögur ár fyrir U3A Reykjavík. Henni varð færð gjöf í þakklætisskyni.

Fundi slitið um kl. 17:40

Scroll to Top
Skip to content