Aðalfundur U3A Reykjavík var haldinn í Hæðargarði 31 þriðjudaginn 21. mars kl. 16:30. Á fundinn mættu 26 félagar.
Í kynningu á skýrslu stjórnar kom m.a. fram að alls voru 66 viðburðir á vegum U3A á árinu og þarf af voru 35 fyrirlestrar á þriðjudögum. Auk þess voru námskeið, vorferð og ýmsir viðburðir á vegum hópastarfs. Málþing var haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur í tilefni af 10 ára afmæli samtakanna og var mjög vel sótt. U3A Reykjavík gerðist aðili að Samtökum um almannaheill á árinu en hætti samstarfi við Reykjavíkurakademíuna. U3A er aðili að alþjóðasamtökum U3A –AIUTA – sem eru 50 ára á þessu ári.
Reikningar U3A og VT voru lagðir fram og samþykktir. Þar kom m.a. fram að stærsti kostnaðarliður U3A á árinu 2022 var afmælismálþingið. Árgjaldið verður óbreytt 2.000.- á þessu ári. Kynntar og afgreiddar voru tillögur að breytingum á samþykktum U3A Reykjavík en helsta tilefni þeirra er aðild U3A Reykjavík að Samtökum um um Almannaheill.
Skýrslan verður birt í heild á heimasíðu U3A ásamt reikningum og skrá yfir alla viðburði á starfsárinu 2022-2023. Sömuleiðis verða nýjar samþykktir U3A Reykjavík birtar með breytingum og viðbótum sem samþykktar voru á fundinum.
Ný stjórn var kjörin: Hjördís Hendriksdóttir er nýr formaður og með henni í stjórn sitja: Birna Sigurjónsdóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Guðríður Þorsteinsdóttir, Steinunn Ingvarsdóttir, Þórleif Drífa Jónsdóttir og Örn Bárður Jónsson.
Borgþór Arngrímsson, Emma Eyþórsdóttir og Hans Kristján Guðmundsson ganga úr stjórn og var þeim þakkað samstarfið. Birnu Sigurjónsdóttur sem gegnt hefur formennsku sl. fjögur ár var einnig þakkað.