Frá stjórn U3A Reykjavík

Frá stjórn U3A Reykjavík – fjölbreyttir fyrirlestrar og streymi

Félagið tók upp þá nýbreytni haustið 2020 að streyma þriðjudagsfyrirlestrum til félagsmanna. Stjórnarmenn hafa séð um útsendingarnar undir styrkri stjórn Jóns Ragnars Höskuldssonar sem sér um tæknimálin. Það hefur verið mikið og ánægjulegt lærdómsferli að taka þátt í þessari þróun.

Þegar samkomutakmarkanir voru sem mestar og salurinn í Hæðargarði lokaður streymdum við fyrirlestrum úr heimahúsi þar sem aðeins fundarstjóri, tæknistjóri og fyrirlesari voru saman komnir, reyndar voru fyrirlesarar stundum á sínum heimavelli og jafnvel staddir erlendis og fluttu fyrirlestra sína þaðan. Okkur fannst mikilvægt að halda útsendingum áfram og þar með halda tengslum við félagsmenn og aldrei var það mikilvægara en einmitt þegar lokun var mest í samfélaginu.

Félagsmenn fengu senda vefslóð á fyrirlesturinn og gátu tengst útsendingum í rauntíma kl. 16:30 á þriðjudögum en einnig horft á upptöku af fyrirlestrinum vikuna eftir að hann var fluttur.

Félagsmenn hafa sannarlega tekið streyminu vel og þátttaka verið mikil. Að meðaltali hafa um 140 manns notið hvers fyrirlestur þegar tekið er saman samtíma áhorf og áhorf eftir á og mest hafa 216 manns tengst einum fyrirlestri. Það er því ljóst að við munum halda áfram að streyma fyrirlestrum ásamt því að bjóða félagsmenn aftur velkomna í sal þegar haustdagskráin hefst.

Stjórnin hefur eins og áður leitast við að hafa fyrirlestrana fjölbreytta til að mæta áhugasviði sem flestra félagsmanna. Félagið hefur notið velvildar hjá fyrirlesurum sem hafa verið fúsir til að koma til okkar og miðla fræðslu og þekkingu sinni til félagsmanna U3A Reykjavík. Fyrirlesarar eiga þakkir skildar fyrir sitt framlag.

Heimsóknir í stofnanir og fyrirtæki, námskeið og hópastarf hafa legið niðri í vetur vegna Covid19 en í haust tökum við upp þráðinn af fullum krafti. Á haustönn áætlum við að halda námskeið um sögu og menningu Gyðinga sem Jón Björnsson og Þorleifur Friðriksson sjá um. Einnig verður námskeið um gerð gönguleiða í Wikiloc sem Einar Skúlason sér um. Sömuleiðs væntum við þess að hópastarf geti hafist í september. Allt verður þetta auglýst þegar nær dregur.

Félagsfundur verður á dagskrá 7. september og þá gefst félagsmönnum tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum sínum og tillögum um vetrarstarfið. Ég hlakka til samstarfsins við ykkur félagsmenn á komandi hausti.

Birna Sigurjónsdóttir

Formaður U3A Reykjavík

 

 

 

 

 

Dagur

15.08.2021
Expired!

Tími

16:30

The event is finished.

Næsti viðburður

Flokkar
Scroll to Top
Skip to content