Félagsstarf U3A Reykjavík fór vel af stað eftir sumarfrí með vikulegum fræðslufundum ásamt því að menningarhópur stóð fyrir heimsókn í Viðey og farið var í laugardagsgöngu um Laugarnes og Kirkjusand. Góð þátttaka hefur verið í öllum viðburðum og greinilegt að félagsmenn eru tilbúnir að taka þátt í öflugu félagsstarfi.
Í október eru einnig framundan fjölbreyttir viðburðir:
5. október verður Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur með fyrirlestur um ADHD hjá eldra fólki,
9. október verður laugardagsganga um Hólavallakirkjugarð,
12. október fáum við fyrirlestur um Esperanto og þjóðleysishyggjuna sem Kristján Eiríksson flytur.
16. október verður laugardagsganga um sögulegar styttur í Reykjavík
19. október er komið að fyrirlestri um Afghanistan þar sem Gunnar Hrafn Jónson fjallar um ástandið þar fyrr og nú.
22. október efnir menningarhópur til heimsóknar í Rokksafnið í Reykjanesbæ.
26. október verður Borgarlínan á dagskrá ef allt gengur eftir.
Allir þessir viðburðir verða auglýstir þegar nær dregur, bæði á heimasíðu og með tölvupósti til félagsmanna. Þriðjudagsfyrirlestrum verður streymt eins og verið hefur ásamt því að félagsmenn geta komið í salinn í Hæðargarði 31 kl. 16:30.
Fjöldi gesta í salnum hefur verið miðaður við 40 manns í samræmi við reglur um sóttvarnir. Skráning er nauðsynleg bæði til að mæta á fyrirlestra í Hæðargarði og til að taka þátt í heimsóknum og gönguferðum.
Námskeiðið um skráningu gönguleiða í Wikiloc var fellt niður vegna ónógrar þátttöku en við áætlum að bjóða það aftur á vordögum.
Markmið U3A Reykjavík er að stuðla að virkni félagsmanna og fjölbreyttri fræðslu og það er von okkar að flestir félagsmenn finni eitthvað við sitt hæfi í starfinu nú sem áður.
Með kveðju frá stjórn U3A