Gengið um Laugarnes og Kirkjusand

Laugardaginn 25. september gengu 16 félagar í U3A Reykjavík um Laugarnes og Kirkjusand að meðtöldum leiðsögumanni, Herði Gíslasyni en hann gjörþekkir svæðið sem gengið var um. Fléttaði Hörður persónulegum sögum inn í leiðsögnina sem gaf henni lit og m.a. innsýn inn hvernig kaupin voru gerð á eyrinni á þeim tíma. Var staðnæmst á nokkrum vel völdum stöðum á Laugarnesinu sem á sér langa sögu allt frá landnámsöld þegar fyrsti Laugarnesbærinn var byggður. Frá Laugarnesinu var gengið upp Laugarnesveginn sem áður tengdi Laugaveginn við þvottalaugarnar í Laugardal og að gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar. þar sem Fúlatjörn var áður við sjávarborðið. Á sömu gatnamótum byggði kanadíski herinn vegleg mannvirki á stríðsárunum m.a. fangelsi sem hýsti m.a. ritstjóra eins bæjarblaðsins. Athafnamenn reistu í byrjun 20. aldarinnar hús undir fisk- og kjötvinnslu á Kirkjusandi fyrir ofan stakkstæði á fjörukambinum og litu athafnamenn þar hýru auga til áætlana um byggingu hafnar þar en varð svo ekki af og Sundahöfn varð fyrir valinu.
Ítarlegar upplýsingar um leiðina um Laugarnes og Kirkjusand er að finna á slóðinni https://u3a.is/laugarnes-i-reykjavik

Scroll to Top
Skip to content