Viðburðir U3A Reykjavík í maí 2022

Vormynd 2022

Í maí verða enn fleiri og fjölbreyttari viðburðir í boði fyrir félagsmenn U3A Reykjavík en áður. Allir viðburðir eru auglýstir á heimasíðu félagsins u3a.is og auk þess fá félagsmenn sendan tölvupóst  tveim til þremur dögum fyrir hvern viðburð með skráningartengli og öllum upplýsingum.

Fyrst skal tilgreina þriðjudagsfyrirlestrana sem allir eru í Hæðargarði 31 kl. 16:30.

3. maí heyrum við erindi Berglindar Ásgeirsdóttur, sendiherra um Rússland og nágannalöndin en Berglind var sendiherra í Moskvu árin 2016-2020.

10. maí kemur til okkar Rakel Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri og fjallar um matarsóun sem er mikil í öllum vestrænum löndum.

17. maí fáum við fyrirlestur um Suðurskautslandið, lífríki, loftslagsbreytingar og leiðtogar sem Hafdís Hanna Ægisdóttir, líffræðingur flytur.

24. maí er komið að síðasta fræðslufyrirlestri vorsins sem nefnist: Spóinn er kominn og það er Borgný Katrínardóttir, líffræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands sem fræðir okkur um spóann sem hún hefur rannsakað.

HeiM göngur

Hinar vinsælu gönguferðir HeiM-verkefnisins verða endurteknat nú í maí, sú fyrsta var reyndar 30. apríl um Hólavallakirkjugarð með leiðsögn Ingibjargar R. Guðlaugsdóttur og komust færri að en vildu. 7. maí verða styttur miðborgarinnar heimsóttar með leiðsögn Birnu Halldórsdóttur, 14. maí verður gengið um Elliðaárdalinn með leiðsögn Birgis Jónssonar og Dagrúnar Þórðardóttur og 19. maí er gangan í Laugarnesi og um Kirkjusand með leiðsögn Ingibjargar R. Guðlaugsdóttur. Síðasta gönguferðin er síðan sólstöðuganga í Viðey 21. júní og er kvöldganga, hana leiðir Þór Jakobsson.

Umhverfishópur

Stefnt er að því að stofna umhverfishóp U3A félaga 12. maí. Markmiðið er að stuðla að vernd umhverfis og loftslags með því að vekja athygli á leiðum til umhverfisverndar og efna til aðgerða sem bæta umhverfi og vinna gegn loftslagsvá.

Vorferðir

Menningarhópur stefnir að heimsókn í Herminjasafnið í Hvalfirði eftir miðjan maí og verður dagsetning tilkynnt síðar.

Vorferð U3A Reykjavík verður farin þriðjudaginn 31. maí um Reykjanesið, nánar tiltekið: Krýsuvík, Nátthaga (nýja hraunið), Grindavík (léttur hádegisverður), Hafnir, Ásbrú og Reykjavík. Lagt af stað kl. 9 og komið aftur um kl. 14. 30.

Sumarhlé

U3A Reykjavík gerir hlé á starfsemi sinni yfir sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst með þeirri undantekningu að farið verður í sólstöðugöngu í Viðey 21. júní eins og áður er komið fram.

Stjórn U3A Reykjavík óskar öllum félagsmönnum góðs og gróðurríks sumars.

 

Scroll to Top
Skip to content