Sumarkveðja frá stjórn U3A Reykjavík

Nú að loknu viðburðaríku starfsári á vegum U3A Reykjavík sendir stjórnin öllum félagsmönnum sumarkveðju. Auk reglulegra þriðjudagsfyrirlestra hefur menningarhópur staðið fyrir heimsóknum a.m.k. mánaðarlega, alþjóðahópur var endurvakinn, bókmenntahópur hefur hist eftir nokkurt hlé og haldin hafa verið námskeið. Nýir hópar hafa verið stofnaðir og taka til starfa í haust, umhverfishópur og HeiM-klúbbur. Vorferðir voru farnar í maí, önnur á vegum menningarhóps í Hernámssetrið í Hvalfirði og hin um Reykjanesið með leiðsögn Hjálmars Waag Árnasonar.

Við tökum okkur nú sumarhlé í félagsstarfinu en einn viðburður verður í júní, það er sólstöðuganga í Viðey með leiðsögn Þórs Jakobssonar 21. júní og munu félagsmenn fá sendar upplýsingar um gönguna í tölvupósti þegar nær dregur.

Stjórnin hefur unnið fyrstu drög að haustdagskrá. Starfið hefst með félagsfundi þriðjudaginn 6. september og verður þar leitað eftir tillögum félagsmanna að efni fræðslufunda og viðburða á vetri komanda. Á þessum fundum fyrri ára hefur orðið til hugmyndalisti fyrir stjórn til að vinna eftir.

Í október verður haldið málþing U3A Reykjavík í tilefni af 10 ára afmæli félagsins en það var stofnað árið 2012 og er nefnd að störfum við undirbúning. Málþingið verður haldið í Tjarnarsal Ráðhússins og er vinnuheitið:  Seinni hálfleikur – látum draumana rætast. Spennandi efni og áhugaverðir fyrirlesarar er markmið í undirbúningsvinnunni.

Njótum sumarsins og látum okkur hlakka til að hefjast handa í haust með fræðslu og virkni að leiðarljósi

f.h. stjórnar

Birna Sigurjónsdóttir, formaður

Scroll to Top
Skip to content