Samþykktir U3A

Samþykktir u3a Ísland. u3a.is

Samþykkt U3A Reykjavík

með breytingum sem samþykktar voru á aðalfundi 17. mars, 2015, breytingum samþykktum á aðalfundi 21.mars, 2017 og breytingum samþykktum á aðalfundi 27. mars, 2018

1. grein
Nafn samtakanna er U3A Reykjavik. U3A er skammstöfun á The University of the Third Age (háskóli þriðja æviskeiðsins) sem er alþjóðleg hreyfing.

2. grein
Samtökin eru frjáls félagasamtök.

3. grein
Heimili samtakanna og varnarþing er í Reykjavík.

4. grein
Tilgangur samtakanna er tvíþættur. Annars vegar að stuðla að því að félagsmenn hafi fjölbreytilegt framboð af fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða og hins vegar að stuðla að virkni og aukinni vitund félagsmanna og samfélagsins um mikilvægi þriðja æviskeiðsins, tækifærin sem í því felast og mannauðinn sem í því býr.

Fræðslan byggir að mestu á jafningjafræðslu þar sem félagar samtakanna deila með sér þekkingu, reynslu og færni. Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná m.a. með því að:

Skipuleggja og sjá um fyrirlestra, ferðir og heimsóknir.

Stofna hópa um viðfangsefni, innlend og erlend, sem félagar samtakanna velja sjálfir.

Efla kynni við aðra innan og utan U3A samtakanna, hvar sem er í heiminum.

Taka þátt í rannsóknum og samstarfsverkefnum innanlands sem utan.

5. grein
Stofnfélagar samtakanna eru tilgreindir í fylgiskjali.

6. grein
Allir sem eru á þriðja æviskeiðinu geta átt aðild að samtökunum.

7. grein
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna. Hann skal haldinn í mars ár hvert og telst löglegur ef til hans er boðað rafrænt eða bréflega með minnst 15 daga fyrirvara. Tillögur að breytingum á samþykkt samtakanna skulu hafa borist formanni eigi síðar en sjö dögum fyrir aðalfund. Senda skal slíkar tillögur til félaga fyrir aðalfund.

Í fundarboði skal tilgreina dagskrá, tillögur að breytingum á samþykkt samtakanna, ásamt öðrum tillögum sem borist hafa og bera þarf undir atkvæði aðalfundar. Stjórn samtakanna skipuleggur og ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar. Allir skráðir félagar hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Hafi félagi ekki greitt árgjald tvö ár í röð, skal hann færður af félagaskrá.

Dagskrá aðalfundar skal vera:
1. Setning fundar.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar kynnt og umræður um hana.
4. Reikningar félagsins lagðir fram og bornir upp til samþykktar.
5. Umræður um starfið framundan.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Breytingar á samþykkt.
8. Kosning formanns, stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga áamt einum til vara.
9. Önnur mál.
Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum, þó þarf a.m.k. 2/3 atkvæða til breytinga á samþykkt samtakanna. Halda skal gerðarbók um aðalfundi samtakanna og skrá allar samþykktir og ákvarðanir.

Fjárhagsár samtakanna er almanaksárið.

8. grein
Stjórn samtakanna er kosin til tveggja ára í senn.
Hún er skipuð sjö mönnum: Formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og þremur meðstjórnendum.

Stjórnarmenn sitja að hámarki tvö kjörtímabil. Formaður skal kosinn til eins árs í senn og skal að hámarki sitja þrjú
kjörtímabil. Kosið er um helming stjórnar hvert ár til þess að tryggja samfellu. Stjórn samtakanna annast samræmingu starfsins eftir þörfum og hefur umsjón með að upplýsingamiðlun sé nægileg innan samtakanna og milli hópa. Stjórnin getur haft frumkvæði að stofnun hópa. Einnig hefur stjórnin forystu í samskiptum við önnur samtök U3A í heiminum.
Stjórnin ber ábyrgð á útgáfumálum, þ.m.t. heimasíðu samtakanna og að kynna samtökin út á við.

Stjórnarfundir eru haldnir eftir þörfum, þó ekki sjaldnar en tvisvar á ári. Fundargerðir stjórnar eru aðgengilegar öllum félagsmönnum.

9. grein
Félagsmenn stofna hópa um ýmis áhugamál og velja sér umsjónarmann (einn eða fleiri).
Hóparnir bera sjálfir ábyrgð á framkvæmd starfsins. Umsjónarmaður eða annar sem til þess er valinn úr hópnum sér um að upplýsa stjórn um stofnun hópsins, starfsemi hans og hverjir eru félagar í hópnum.

10. grein
Auk aðalfunda eru félagsfundir haldnir eftir þörfum og óskum félagsmanna, þó ekki sjaldnar en tvisvar á ári. Þeir skulu auglýstir öllum félagsmönnum. Fundargerðir félagsfunda eru aðgengilegar öllum félagsmönnum.

11. grein
Verði samtökin lögð niður skulu eignir þeirra, ef einhverjar eru, renna til góðgerðarmála í samræmi við ákvörðun stjórnar.

12. grein
Samþykkt samtakanna öðlast gildi á stofnfundi þann 16. mars 2012.

Scroll to Top
Skip to content