Mikil þátttaka í fyrirlestrum U3A Reykjavík

Haustið 2020 ákvað stjórn U3A Reykjavík að senda út fræðslufyrirlestra í streymi til félagsmanna. Ástæðan var auðvitað heimsfaraldurinn sem hafði síðan í febrúar komið í veg fyrir samkomur. Frá upphafi hefur þessi nýjung mælst vel fyrir og þátttakan verið framar vonum. Auglýsingar um fyrirlestra voru settar á heimasíðuna u3a.is eins og áður og einnig voru þeir kynntir í tölvupóstum til félagsmanna. Auk þess sem fyrirlestrar voru fluttir í beinu streymi hafa þeir einnig verið opnir félagsmönnum í viku eftir flutning og vefslóð verið send í tölvupósti til félagsmanna.

Eftir að samkomutakmörkunum var aflétt höfum við haldið áfram að streyma fyrirlestrunum og hafa fyrirlesarar allir tekið því vel að fyrirlestrar væru aðgengilegir eftir flutning. Nú er komin nokkur festa á þetta verklag eftir þriggja missera reynslu.

Við höfum fylgst með þeim fjölda sem tengist í beinu streymi og einnig hversu margir opna fyrirlesturinn á þeirri viku sem hann er opinn á vef. Á mynd hér að ofan má sjá meðaltal hvers mánaðar þessi þrjú misseri. Þá er talið saman þeir sem mæta í sal, þeir sem tengjast í beinu streymi og þeir sem fylgjast með fyrirlestrinum eftir á. Í heildina eru það 135 félagsmenn sem fylgjast með fyrirlestri og hæst hefur tala þeirra verið 227 manns. Alltaf eru það flestir sem tengjast eftir á eða að meðaltali um hundrað manns og allt að 184 á stökum fyrirlestri. Þetta þýðir að fyrirlestrar ná til um fjórðungs félagsmanna í einstaka tilvikum og mun fleiri hafa einhvern tíma notið þess að fylgjast með fyrirlestri sem eru eins og áður af fjölbreyttu tagi.

Það er ánægjuefni hversu vel félagsmenn hafa tekið þeirri nýjung að fylgjast með fyrirlestrum í streymi og hversu fúsir þeir hafa verið til þátttöku. Þannig hefur U3A Reykjavík tekist að vinna að því markmiði félagsins að stuðla að því að félagsmenn hafi fjölbreytilegt framboð af fræðslu.

[visualizer id=”4746″ lazy=”no” class=””]

Hægt er að sjá stærra stöplarit hér

Birna Sigurjónsdóttir, formaður U3A Reykjavík

Scroll to Top
Skip to content