Íslandsheimsókn U3A félaga frá Litháen

2024-07-15

Fulltrúar úr stjórn U3A Reykjavík funduðu með hópi eldri borgara frá ferðamáladeild Háskóla þriðja æviskeiðsins í Vilnius, Litháen,  15. júlí á besta degi íslenska sumarsins til þessa.

Teodora Dilkienė, deildarstjóri ferðamáladeildarinnar, fer fyrir hópnum og er þetta árleg heimsókn hennar til Íslands með hóp frá háskólanum. Tengsl U3A Reykjavík við þennan U3A háskóla í  Vilnius, hófust árið 2017 þegar þau sóttu okkur heim til að fagna með okkur 100 ára afmæli fullveldis Íslands og sjálfstæðis Litháens 1918, um leið og þau þökkuðu hlut Íslands í endurheimtu sjálfstæði árið 1991. Tengslum hefur verið viðhaldið síðan.

Til umræðu í þetta sinn var m.a. hugmynd um að efna til heimsóknar U3A-félaga til Litháen á næsta ári en þá verður fagnað 30 ára starfsemi U3A í Vilnius. Létt var yfir hópnum og spjallað um kjör og aðstæður eldra fólks í báðum löndum. Í lok fundar var skipst á gjöfum svo sem venja er á slíkum fundum.

Hægt er að fræðast um starf þessa háskóla þriðja æviskeiðsins, Medardas Čobotas Third Age  University, MČTAU, Á vefsíðum hans http://www.mctau.lt

Scroll to Top
Skip to content