Menningarlegur og listrænn arfur í kirkjugarðinum. Hólavallagarður
Leiðin liggur um Hólavallagarð við Suðurgötu og varpar Ijósi á menningar- og listrænan arf í kirkjugarðinum. Gengið er á milli járngerðra minningarmarka, nánar tiltekið krossa úr pottjárni, en fjöldi þessara minningarmarka og járngrindverka í garðinum er ein ástæða þess að hann er talinn einstakur. Um eitt minningarmarkanna er sagt að það „…myndi sóma sér sem aldarprýði í hvaða kirkjugarði Norðurálfu sem væri“.
í göngunni er sagt frá kirkjugarðinum, járnkrossum á leiðum og táknum á þeim og lauslega rakin æviágrip þeirra sem þar hvíla. Einnig er sagt stuttlega frá líkhúsi sem áður var í Hólavallagarði.
Leiðin er góður kostur fyrir þá sem ekki geta gengið langt eða vilja skoða menningararf í næsta nágrenni við sig. Hún getur einnig verið hvati að hönnun annarra leiða í garðinum.
Gengið um Hólavallagarð
Hugleiðingar
Ingibjörg Rannveig Guðjónsdóttir
HeiM leiðin mín liggur um kirkjugarðinn Hólavallagarður og varð fyrir valinu vegna þess að garðurinn hefur verið mér uppspretta ánægju og fróðleiks mörg undanfarin ár. Það má m.a. þakka meginheimild minni, bók Björns Th. Björnssonar, listfræðings, Minningarmörk í Hólavallagarði. Leiðin er stutt og aðgengileg en getur verið erfitt að ganga kafla hennar.
Hólavallagarður er einstakur fyrir margt eins og fram kemur í bók Björns Th. og þar á meðal fyrir fjölda járnsteyptra minningarmarka. Valdi ég að skoða eina tegund þeirra, krossa úr pottjárni sem reistir voru í garðinum rétt fyrir miðbik 19. aldar fram á síðari hluta hennar. Auk þess að segja frá krossunum og táknum á þeim er sagt frá fólkinu sem undir krossunum hvíla og svo að sjálfsögðu frá Hólavallagarði sjálfum
Gangan hefst við hlið norð-austur hluta kirkjugarðins og gengið rangsælis með Wikiloc í hönd frá krossi á leiði Guðrúnar Oddsdóttur, vökukonu Hólavallagarðs og endar á leiði Jórunnar Magnúsdóttur frá Engey austan megin í garðinum við Suðurgötu. Krossinn á leiði Guðrúnar er stærsti járnkrossinn í garðinum og þó víðar væri leitað og ber hátt. Gröf Guðrúnar er sú fyrsta sem er tekin í Hólavallagarði og telst hún því vökukona/vökumaður hans en hlutverk hans er sagt vera að hann skuli gæta garðsins og bjóða velkomna þá sem á eftir honum koma.
Frá leiði Guðrúnar að leiði Jórunnar var stoppað við 14 krossa. Má þar m.a. nefna kross á leiði Guðbrands Stephensen, hugvitsmanns, sem var frægastur fyrir að smíða lás á fjárhirslu bæjarins sem var gerður úr þremur mismunandi lásum geymdum hjá jafnmörgum mönnum sem allir urðu að vera viðstaddir þegar fjárhirslan var opnuð.
Fegursta minningarmarkið finnst mér vera á leiði Steingríms Jónssonar, biskups Íslands 1824-1845, og sem Björn Th. segir að „...myndi sóma sér sem aldarprýði í hvaða kirkjugarði Norðurálfu sem væri.“ Margvísleg tákn eru á sökkli krossins, krossinum sjálfum og grindverkinu í kringum, tákn um hreinleika, guðrækni, virðingarstöðu, heiður og menntun. Valgerður Jónsdóttir, kona hans, er einnig grafin hér og er nafn hennar á bakhlið minningarmarksins. Valgerður var áður gift Hannesi Finnssyni, biskupi í Skálholti og erfði eftir hann miklar eignir sem hún ávaxtaði vel.
Á leiðinni er gengið fram hjá klukknaporti Hólavallagarðs þar sem áður stóð líkhús sem var notað fyrir þá sem minna máttu sín í þjóðfélaginu. Hinir efnameiri stóðu uppi heima.
Til gagns og gamans: Hólavallagarður við Suðurgötu tók við af Víkurgarði við Aðalstræti 1838 og var kirkjugarður Reykvíkingar til 1932 en þá tók Fossvogskirkjugarður við. Íbúar Reykjavíkur voru um 800 árið 1838. Garðurinn er um þrír hektarara að stærð með um 10.000 merktum gröfum. Suðurgata var áður nefnd, Kirkjugarðsstræti, Líkhússtígur og Kærlighedsstíg.