Fréttabréf U3A
Nóvember 2024

Hvað ættu eldri borgarar að kjósa í Alþingiskosningum 2024?

Almennt fá málefni eldri borgara takmarkaða athygli í stjórnmálaumræðunni nema þegar kemur að kosningum. Þegar frambjóðendur eru komnir í kosningaham eru kjör og aðstæður aldraðra dregin fram í dagsljósið og flokkarnir keppast við að benda á það óréttlæti sem þessi hópur er beittur. Þeir benda á það ranglæti sem felst í því að allar tekjur eldri borgara skerða ellilífeyri þeirra frá Tryggingastofnun af því að frítekjumarkmið er svo lágt.  Frambjóðendur segja að bæta verði aðgengi að heilbrigðisþjónustu, auka þurfi uppbyggingu hjúkrunarrýma, bæta heimaþjónustu, heimahjúkrun, geðþjónustu og svo framvegis – þið þekkið rulluna. Frambjóðendur heita því að réttlæti til handa eldri borgurum muni birtast í næstu fjárlögum komist þau í ráðherrastólana.

Nú styttist í næstu kosningar til Alþingis sem boðað hefur verið til með afskaplega stuttum fyrirvara. Þrátt fyrir þennan skamma aðdraganda segjast allir þingflokkarnir, hvort sem þeir hafa verið í stjórn eða stjórnarandstöðu, vera meira en tilbúnir í kosningar með útfærðar málefnaskrár og kosningaloforð.  Stór ástæða þess að flokkarnir eru tilbúnir með loforðalistann sinn er að þeir hafa átt þá tilbúna árum og jafnvel áratugum saman. Þar sem gömlu loforðin til handa eldri borgurum hafa aldrei verið efnd er auðvelt draga þau upp úr pússinu, dusta af þeim rykið og “endurnýta”.

Sem dæmi um mögulega endurnýtingu kosningaloforða er bréf Bjarna Benediktssonar, dagsett 22. apríl 2013, til kjósenda þar sem hann skrifar, “Eldri kynslóðir verðskulda að búa við öryggi og góð lífsgæði”. Enn fremur skrifar hann m.a. að það eigi ekki að íþyngja öldruðum með ósanngjarnri skattlagningu, að afturkalla eigi kjaraskerðingu ellilífeyrisþega frá 2009, og að afnema eigi tekjutengingar ellilífeyris. Þar er sannarlega um réttlætismál að ræða skrifaði Bjarni. “Til að það megi verða þarfnast Sjálfstæðisflokkurinn stuðnings þíns á laugardaginn” sem hann og fékk. En þrátt fyrir árangur Bjarna og Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 2013 hefur eldra fólk mátt bíða eftir úrlausn á þessu „sannarlega réttlætismáli”.

Árið 2017 var Bjarni Benediktsson orðinn forsætisráðherra og flutti stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi. Þá sagði Katrín Jakobsdóttir, þá í minnihluta á Alþingi, „núverandi ríkisstjórn gerir ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokri áfram og búi við skammarleg kjör. Stuttu síðar, þann 30.  nóvember, var Katrín orðin forsætisráðherra en enn var ekki tekið á þessum „skammarlegum kjörum“ eldri borgara.

Þessu var Guðrún Hafsteinsdóttir, Sjálfstæðisflokki, sammála þegar hún skrifaði þann 28. maí 2021 grein í Fréttablaðið um að „Samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða ætti að vera efst á forgangslista við endurskoðun lífeyrikerfisins okkar. Skerðing lífeyris frá Tryggingastofnun er slík að ekki verður við unað. Svona gerum við einfaldlega ekki gagnvart eldri borgurum …….  Svo langt er gengið að ég tel grófustu skerðingarnar jafngilda árás á mannréttindi og þar með ljótan blett á annars ágætu tryggingakerfi”.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra gældi um tíma við þá hugmynd að dusta rykið af frumvarpi til laga um að skipaður yrði sérstakur Umboðsmaður aldraðra. Frumvarpið var samþykkt í fyrstu og annarri umræðu á Alþingi en hvarf svo inn í allsherjarnefnd og hefur ekkert til þess spurst síðan.

Og að lokum má nefna að Framsóknarflokkurinn sagði  27.09.2016 að staða eldri borgara væri forgangsmál og nú í haust, þann 19.09.2024, lagði flokkurinn til að almennt frítekjumark eldri borgara verði hækkað úr kr. 25.000. í 36.500 sem leiði til þess að fleiri eldri borgarar geti haf auknar tekjur án þess að það leiði til skerðinga frá Tryggingastofnun.

Eins og sjá má af þessari upprifjun er staðreyndin sú að fulltrúar flokkanna segja eitt fyrir kosningar en gera síðan eitthvað allt annað þegar þeir eru komnir í valdastólana. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að kjósa þessa flokka til forystu og trúa því að NÚNA verði staðið við loforðin?

Eldri borgarar eru fjölmennur hópur kjósenda, rétt undir 60 þúsund manns 65 ára og eldri. Atkvæði þeirra geta því skipt miklu máli og eldri borgarar og aðrir eru hvattir til að hlusta á það sem nú er lofað og meta hverju trúa skal.

Hjördís Hendriksdóttir

Hvað er til ráða?

Við sem erum komin á efri ár glímum mörg hver við slitgigt enda eykst tíðni hennar með hækkandi aldri og sér í lagi ef þú ert kona. Fyrir þá sem ekki vita eru helstu einkenni slitgigtar  verkir í liðum og minni færni,  að hún er algengust í höndum, hnjám, mjöðmum og hrygg og að hún veldur skemmdum á beinum, brjóski, liðböndum og liðpokum. Miklu skiptir að slitgigt sé greind snemma og er meðhöndlun hennar aðallega fólgin í meðferð með lyfjum við verkjum. Talið er að álag á liði og erfðir hafi áhrif á einkenni slitgigtar og þróun.
 
Í greininni, Leiðir til að stuðla að betri líðan með slitgigt, sem má finna á vef Gigtarfélags Íslands, er fjallað um aðrar leiðir en lyfjameðferð og sagt að þær séu ekki síður mikilvægar í meðferð á sjúkdómnum. Í greininni eru gefin mörg almenn ráð eins og að fólk með slitgigt þurfi jafnvel að breyta um lífsstíl til þess að koma í veg fyrir liðskemmdir af völdum hennar. Mikilvægt sé að hafa jafnvægi milli hvíldar og hreyfingar, milli atvinnu og athafna á frítíma, að taka sér tíma í að skipuleggja daglegar athafnir og setja sér raunhæf markmið. Svo séu til ýmis sértæk ráð sem mætti nefna aðferðir til sjálfshjálpar eins og að:
 

  • Vera í kjörþyngd og viðhalda henni en það skiptir miklu máli fyrir fólk með slitgigt því með því minnkar álag á liði sem aftur stuðlar að minni verkjum.
  • Hreyfa sig reglulega, miða hreyfingu við getu og velja hreyfingu sem bætir en gerir slitgigtina ekki verri. Getur minnkað verki og aukið hreyfifærni.
  • Stunda styrktarþjálfun  með einbeitingu á að þjálfa vöðva kringum sjúka liðinn sem heldur honum stöðugum og verndar og þar með minnka verki
  • Hlusta á líkamann og skipuleggja hvíldarstundir yfir daginn og skipta milli þungra og auðveldra athafna og þannig koma á jafnvægi milli hvíldar og athafna. 
  • Beita líkamanum rétt því líkamsstaða skiptir máli og nota alla höndina í staðinn fyrir fingur þegar hlutum er lyft eða á þeim haldið og nota stóru vöðvana til þess að bera hluti.
  • Vera virkur þó að þú sért þreyttur og stirður og gera æfingar því of mikil hvíld er heldur ekki góð fyrir liðina.
  • Vera frekar með bakpoka en veski eða hliðartösku og vera í skóm með mjúkum hæl sem dempar högg á fætur, hné, mjaðmir og bak.
  • Nota hjálpartæki sem koma að gagni eins og til þess að opna krukkur eða standa upp úr stól eða af klósetti.
  • Láta sér ekki verða kalt og ekki gleyma að nota vettlinga ef skafa þarf af bílrúðum.

Ofannefnd grein er eftir Svölu Björgvinsdóttur og vann hún hana upp úr bókinni „Et liv med slidgigt“ frá Danska Gigtarfélaginu. Ítarlega umfjöllun um sértæku ráðin er að finna á vefslóðinni https://www.gigt.is/ad-lifa-med-gigt/gigt-og-medferd/slitgigt/leidir-til-ad-studla-ad-betri-lidan-med-slitgigt 
Um slitgigtina sjálfa leitaði undirrituð heimilda á vefsíðu Íslenskrar erfðagreiningar, https://www.decode.is/slitgigt
 
Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir

Eldri yfirgefa netverslanir

Gamansögur hafa verið sagðar um fólk á þriðja aldursskeiðinu sem vita hvorki hvað snýr upp eða niður á tölvum og snjallsímum. Í þeim sögum koma gjarna börn eða jafnvel barnabörn til hjálpar gamlingjunum. En nú er ný kynslóð gamlingja að hasla sér völl. Kynslóð sem gæti farið að kenna barnabörnum sínum fyrstu skrefin í hagnýtingu stafrænnar tækni. Þetta sést meðal annars á auknu hlutfalli eldri borgara sem hagnýtt hafa verslun og viðskipti gegnum stafrænar leiðir.

Ef einhver hélt að fólk á þriðja aldursskeiðinu veigraði sér við að kaupa vörur á netinu, þá er það misskilningur. Hlutfall fólks sem gerir innkaup á netinu, á aldursbilinu 65 – 74 ára, hefur margfaldast síðasta áratug. Í könnun Hagstofunnar árið 2019 sögðust 44 prósent landsmanna á þessum aldri kaupa vörur á netinu og hafði hlutfallið þá meira en tvöfaldast á fimm árum. Svo skall Covid-19 faraldurinn á 2020 með öllum sínum fjöldatakmörkunum, sem jók enn frekar á netverslun fólks í þessum aldurshópi. Eftir að lífið komst í fyrra horf eftir faraldurinn virðist sem fólk á þessum aldri hafi að einhverju leyti snúið aftur til fyrri venju við innkaup í verslunum.

Já, fólki á þriðja aldursskeiðinu finnst mörgum hverjum orðið leiðinlegra að versla á netinu og fara frekar út í búð. En gera það þegar þeim þykir henta. Þetta á a.m.k. við um innkaup í dagvöruverslunum. Samkvæmt viðamikilli sænskri könnun á neytendahegðun segist meirihluti fólks á eftirlaunaaldri, – fólk sem á tímabili keypti matvörur á netinu, hafa saknað þeirrar félagslegu upplifunar að fara búð, snerta, velja og kaupa ferskmeti.

Niðurstöðurnar sænsku rannsóknarinnar benda til þess að sífellt minni munur sé á neysluhegðun yngri og eldri neytenda hvað varðandi kaup í gegnum netverslanir. Flestir af eldri kynslóðinni telja að netverslanir geti verið bæði gagnlegar, spennandi og þægilegur valkostur. En þær vegi samt ekki upp upplifunina við það að fara út á meðal fólks og geta handfjatlað vörurnar áður en kaupákvörðun er tekin.

Emil B. Karlsson
fyrrum forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar

Aldin,
samtök eldri aðgerðarsinna gegn loftslagsvá

Nýlega kom fram í fréttum að hætta væri á að hringrás sjávarstrauma í Atlantshafi veikist eða hverfi algerlega á næstu áratugum. Þetta er rakið til loftslagsbreytinga. Hættan á því að veður kólni á Íslandi og reyndar öllum Norðurlöndum og Bretlandseyjum er talin veruleg á sama tíma og loftslag hitnar mjög annars staðar.

Þá var einnig sagt frá því í fréttum í sumar að s.l. ágústmánuður hefði verið sá heitasti sem mælst hefði og að hitamet hefðu verið slegið í 15 mánuði í röð.

Loftslagsváin er því raunveruleg og miklu nær í tíma og rúmi en við viljum stundum kannast við, enda málið óþægilegt.

Síðustu misseri höfum við hópur eldra fólks verið að hittast til að fræðast um loftslagsvána svo og  að ígrunda hvað sé til ráða og hvernig hægt sé að beita sér. Hér er enn sem komið er um að ræða óformleg samtök en hafa nú fengið nafnið  Aldin, samtök eldri aðgerðarsinna gegn loftlagsvá. Þau spretta úr hópi náttúruverndarfólks og sérfræðinga sem lifað hefur langa starfsævi og býr að fjölbreyttri reynslu, m.a. úr stjórnkerfinu og menntakerfinu.

Á sama tíma tilheyrum við öll eftirstríðsárakynslóðinni, stundum líka kölluð ´68-kynslóðin. Við ólumst upp við ráðdeildarsemi þar sem flest var nýtt og endurnýtt og lífsstíll foreldra okkar býsna sjálfbær enda þótt það orð hafi varla þekkst á þessum tíma. Nú er öldin önnur ef marka má The Economist s.l. sumar, en þar var fullyrt að við værum ríkasta kynslóðin sem nokkurn tíma hefði verið uppi á jörðinni.

En hvað erum við að vilja upp á dekk varðandi loftslagsvána? Og þurfum við að hafa áhyggjur, því þetta “lafir meðan við lifum”?  Eigum við ekki bara að njóta þeirra góðu lífsgæða sem við höfum svo lengi sem við lifum?

Það vill svo til að mörgum á okkar aldri stendur ekki á sama um loftslagsvána, jafnvel þótt hún komi ekki fram af fullum þunga fyrr eftir okkar dag. Þegar einn félaga okkar sem starfað hafði alla tíð í fjármálakerfinu, hætti að vinna og fór að passa oftar barnabörnin, þá skaut þessari hugsun niður í huga hans að hann gæti ekki hugsað sér að allt væri í kalda koli þegar barnabörnin væru kominn á hans aldur, eftir 50-60 ár. Enda er það svo að víða í Evrópu og Norður-Ameríku hafa sprottið upp samtök eldri aðgerðarsinna í loftslagsmálum sem kalla sig “afa og ömmur gegn loftslagsvá” eða eitthvað því um líkt. Þetta fólk vill gæta að hag eftirkomenda sinna, ekki bara að eigin hag.

Og í hverju er starf þessara samtaka, Aldins, fólgið?  Einu sinni í mánuði höfum við fundi þar sem við fáum sérfræðinga og fagfólk til að fjalla um loftslagsmálin. Nú í sumar unnum við mjög ítarlega umsögn um uppfærða loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem farið var kerfiðsbundið í gegnum þær aðgerðir sem þar er fjallað um. Niðurstaðan var reyndar sú að áætlunin einkenndist meira af orðum og góðum vilja en raunhæfum aðgerðum.

Þá höfum við unnið álit sem tengist skólamáltíðum í því skyni að tengja manneldissjónarmið og loftslagsmál, en matarsóun og kjötframleiðsla vega þungt í kolefnisfótspori heimsins. Þá hefur hópur innan samtakanna mótmælt flugi einkaflugs á Reykjavíkurflugvelli en kolefnisfótspor þeirra sem ferðast með þeim hætti er 10-15 sinnum meira en í venjulegu farþegarflugi. Að auki höfum við tekið þátt í ýmsum viðburðum um umhverfis- og loftslagsmál. Það skal tekið fram að samtökin eru ekki flokkspólitísk og eru öllum opin sem vilja taka þátt í starfseminni.

Fundir Aldins eru haldnir fyrsta fimmtudag í mánuði kl 10 í safnaðarheimili Neskirkju. Næsti fundur er fimmtudaginn 7. nóvember. Facebook-síða Aldins er https://www.facebook.com/profile.php?id=61561745450251

Halldór Reynisson

Hoobla
Skapar tækifæri fyrir reynslumikla sérfræðinga á þriðja æviskeiði

Í hraða nútímasamfélagsins hafa margir einstaklingar á efri árum, með verðmæta sérfræðikunnáttu, fundið hjá sér þörf fyrir að endurhugsa hvernig þeir verja tíma sínum og orku. Nú eru þeir komnir á það lífsskeið er þeir hugleiða breytingar; minnka við sig vinnu, sinna öðruvísi verkefnum og, fyrir marga, fagna lífinu á eftirlaunaárum – eins lengi og heilsan leyfir.

Þarna kemur Hoobla sterkt inn sem nýstárlegt tækifæri til að skapa sér nýjan vettvang, skapa sér ný tækifæri og deila sérfræðiþekkingu sinni.

Hvað er Hoobla?
Hoobla er sérfræðingavettvangur, þar sem fyrirtæki og stofnanir hafa greiðan aðgang að sérfræðingum, stjórnendum og ráðgjöfum sem taka að sér tímabundin verkefni og hlutastörf. Í dag eru yfir 600 sérfræðingar í samstarfi við Hoobla og yfir 300 fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum hafa nýtt sér þjónustuna.
Innan Hoobla má finna sérfræðinga á sviði fjármála og reksturs, verkefnastjórnunar, starfsmannamála, gæða- og öryggismála, hugbúnaðarþróunar, upplýsingamála o.fl.

Hvernig getur Hoobla stuðlað að bættri vellíðan?
Árin í aðdraganda starfsloka og árin eftir starfslok einkennast oft af miklum breytingum, og þá ekki síst breytingum á venjum og á hlutverkum sem við erum vön að sinna.
Í stað þess að líta á þetta tímabil sem endalok á ákveðnum þáttum starfsins getur Hoobla verið uppspretta nýrra tækifæra og uppgötvunar á því hvernig við getum nýtt reynslu okkar og hæfileika til góðs. Með því að taka að sér tímabundið verkefni, starf í lágu starfshlutfalli eða veita ráðgjöf á sínu sérfræðisviði fá einstaklingar ekki aðeins tækifæri til að viðhalda hæfileikum sínum heldur einnig að njóta þess að gefa aftur til samfélagsins og deila reynslu sinni.

Tækifæri til að stíga inn í nýjar áskoranir
Það er mikill fengur fyrir fyrirtæki og stofnanir að fá inn fólk með mikla reynslu og sérþekkingu, jafnvel í hlutastarfi. Það eru engir aldursfordómar þegar kemur að sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Einstaklingar á efri árum hafa mikla reynslu, hafa oft góða yfirsýn, hafa tileinkað sér þolinmæði og eiga oft betra með að setja hlutina í víðara samhengi. Með Hoobla-miðaðri verkefnavinnu geta þeir jafnframt valið þau verkefni sem henta þeim, stundað fjölbreytt verkefni sem samræmast þeirra sérfræðisviði, og haft sveigjanlega vinnu án þess að binda sig í langtímaráðningu. Slíkt vinnufyrirkomulag getur einnig verið frábær leið til að koma í veg fyrir félagslega einangrun sem sumir upplifa eftir starfslok.

Heilsan fyrst og fremst
Hoobla bendir fólki á 3ja æviskeiði á að það getur tekið að sér verkefnavinnu á eigin forsendum, t.d. forsendum sem heilsa þess leyfir. Sveigjanleiki og möguleikinn á að stýra eigin vinnuálagi eru mikilvægir þættir og mikilvægt að hafa að markmiði að stuðla að gleði og heilbrigði, ekki að endurtaka streituvaldandi vinnuaðstæður frá fyrri árum.

Áskoranir og næstu skref
Ef þú vilt taka að þér tímabundið verkefni eða hlutastarf í lágu starfshlutfalli þá er einfalt að komast í samstarf við Hoobla. Þú ferð inn á vefsíðu Hoobla: https://hoobla.is og velur að “gerast sérfræðingur”. Þú býrð til þinn aðgang og setur inn helstu upplýsingar um þig.  Starfsmaður Hoobla mun í kjölfarið setja sig í samband við þig til að ræða Hoobla. Í dag er nokkur biðlisti eftir að fá að vera í samstarfi við Hoobla. En eftirspurn á mismunandi sérfræðisviðum forgangsraðar á biðlistanum.

Vinsælustu sérfræðisviðin í dag eru verkefnastjórn, fjármál og rekstur, bókhald, hugbúnaðarþróun, gæðamál, mannauðsmál o.fl.

Hoobla gæti orðið þín leið til að blása nýju lífi í brjóst á efri árum, þar sem verkefni verða valin af ástríðu og áhuga. Hoobla býður sérfræðingum að gera eitthvað uppbyggilegt, uppgötva nýja hæfni í sjálfum sér, deila reynslu, gera gagn og gefa af sér út í samfélagið.

Hoobla þýðir að vera mjög mjög glöð/glaður! Og það þýðir líka ”húrra”!

Það er gaman að taka þátt í því!

Harpa Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Hoobla

Fréttir frá Tuma

TUMI – fréttir af októberfundi 2024
TUMI = Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Fjölmiðlanefnd https://fjolmidlanefnd.is/ sér um Tuma
 
Fyrsti haustfundurinn var þann 8. október. Ný könnun um börn og netmiðla í samstarfi Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands er væntanleg og eldri kannanir má sjá hér https://fjolmidlanefnd.is/midlalaesi/

Þegar Fréttabréfið birtist er nýliðin miðlalæsisvika, síðasta vikan í október Haldið var málþing, þar sem titillinn var Miðlalæsi og stafræn borgaravitund. Áhersla var lögð á kynningu á nýju fræðsluefni. Þar sem næsta ár er Evrópskt ár stafrænnar borgaravitundar https://www.coe.int/en/web/education/european-year-of-digital-citizenship-education-2025, var rætt í hópum um undirbúning þess, svo sem fræðslu og kennsluefni, að nálgast viðkvæma hópa og forvarnarfræðslu. Vera má að einhverjir okkar félaga hafi notið málþingsins, en þegar þetta er ritað er því ekki lokið. Tímasetningin í lok október tengist alþjóðlegu miðlalæsisvikunni https://www.unesco.org/en/weeks/media-information-literacy  

Stafræn borgaravitund er hugtak sem snertir okkur öll og gjarnan er talað um níu stoðir hennar: 1) stafrænn aðgangur, 2) stafræn viðskipti, 3) stafræn samskipti og samvinna, 4) stafræn framkoma, 5) stafræn leikni, 6) stafræn heilsa og velferð, 7) stafrænt lagaumhverfi, 8) stafræn réttindi og skyldur og 9) stafrænt öryggi og einkalíf. Betur má skoða þessar stoðir hér https://www.digitalcitizenship.net/nine-elements.html

Stefnt er að námskeiði í miðlalæsi fyrir kennara á vorönn. Netumferðarskólinn https://netumferdarskolinn.is/ er eins árs um þessar mundir og stöðugt í vinnslu. Miðlalæsisáherslan hérlendis hefur hingað til verið á börn og einkum skólatengd. Vitað er að skjánotkun barna er mun meiri utan skólatíma en í skólunum sjálfum, þannig að þarft væri að færa sjónarhornið að einhverju leyti úr skólavinkli í foreldravinkil.
 
Bestu kveðjur, meira seinna.
Guðrún Bjarnadóttir

Minningarorð  um tvo látna félaga

Samtökin okkar, U3A Reykjavík – háskóli þriðja æviskeiðsins – hefur nú starfað óslitið í rúm 12 ár. Á þessum tíma hefur starfið blómstrað og styrkst og félögum fjölgað úr 49 stofnendum 2012 í um 1500 manns nú í vetrarbyrjun 2024. Starfið hefur að sama skapi orðið fjölbreyttara með hverju ári og ýmsir viðburðir eru nú iðulega fullbókaðir. Undirstaða þessa framgangs og vinsælda er sjálfboðastarf allra þeirra virku kvenna og karla, félaga sem full áhuga og atorku telja ekki eftir sér að vinna að undirbúningi og framkvæmd viðburða og taka frumkvæði að nýjum verkefnum.
Nú í haust hafa tvær félagskonur okkar kvatt þetta líf, þær Elísabet Jónsdóttir fv. framkvæmdastjóri og Hólmfríður Tómasdóttir bókasafnsfræðingur, sem tóku virkan þátt í starfi U3A Reykjavík á árunum 2016 til 2020.

Hólmfríður lést hinn 11. október síðastliðinn á Hjúkrunarheimilinu Grund, 87 ára að aldri. Hún sat í stjórn samtakanna árin 2016 til 2018, seinna árið sem ritari stjórnar. Hún var þá aldursforseti stjórnar og tók mjög virkan þátt í stjórnarstarfi og umsjón viðburða, eins bæði fyrir og eftir stjórnarstarfið.


Elísabet lést á Landspítalanum í Fossvogi 24. september síðastliðinn á 83. aldursári. Hún var mjög virk í málefnum U3A og átti frumkvæði að því að efna til viðburða sem efldu mjög óformleg samskipti félaga. Nefna má menningarhóp, sem hún setti af stað og skipulagði fjölmörg tækifæri til þess að njóta saman ýmissa menningarviðburða. Hún sá einnig um reglulegan kaffihitting á kaffihúsum fyrir þá félaga sem höfðu áhuga á að hittast á miðjum degi og spjalla um daginn og veginn yfir kaffibolla.

Við í U3A Reykjavík minnumst þessara félaga og frumkvöðla í starfi okkar með hlýju og þakklæti fyrir störf þeirra í þágu samtakanna. Við færum fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur. Minning þeirra lifir í hugum okkar og hjörtum.

f.h. U3A Reykjavík
Hans Kristján Guðmundsson

Viðburðir U3A Reykjavík í nóvember 2024

F.v.: Bergþóra Góa Kvaran, Arnar Hólm Einarsson, 
Ingibjörg Svala Jónsdóttir, Ármann Jakobsson,Dagrún Ósk Jónsdóttir

5. nóvember kemur Bergþóra Góa Kvaran, sérfræðingur í teymi Hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun til okkar og fjallar um umhverfisvænni mannvirkjagerð.

12. nóvember kemur Arnar Hólm Einarsson frá Rafíþróttasambandi Íslands og fræðir okkur um Rafíþróttir sem er orðinn svo stór þáttur í nútíma samfélagi og á hug margra barna og barnabarna okkar. 

19. nóvember kemur Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði og flytur erindi sem hún nefnir: Loftslagsaðgerðir og verndun líffræðilegrar fjölbreytni – tvær hliðar á sama teningi.

26. nóvember kemur Ármann Jakobsson prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands og ræðir Íslendingasögurnar sem heimild um einstaklinga, samfélagskerfi og „ekkitjáningu“miðaldamanna.

4. desember verður Jólafundur U3A haldinn á Nauthól þar sem Dagrún Ósk Jónsdóttir aðjúnkt við Háskóla Íslands flytja erindi sem hún nefnir Gömlu, gleymdu jólafólin: Fróðleikur og sögur
Nánari upplýsingar og skráningar á fyrirlestra má finna á síðu félagsins www.u3a.

Allir fyrirlestrarnir fara fram í Hæðargarði 31, 108 Reykjavík kl. 16:30.

Kveðjur frá stjórn U3A Reykjavík

Scroll to Top
Skip to content