Fréttabréf U3A
Nóvember 2023

Ritstjórnarpistill

Nóvember er mættur og farið að halla á síðasta hluta ársins. Allar 47 farfulglategundirnar sem dvelja hér á landi yfir sumarið eru löngu flognar burt og í kjölfarið fljúga ófiðraðir innfæddir tvífætlingar suður til Kanaríeyja til að stytta langan, kaldan og dimman vetur og fá yl í kroppinn.

Hin erlenda hefð, að halda upp á Hrekkjavöku, sem innleidd hefur verið hér á landi án nokkurs fyrirvara er nú orðin stærsta hátíð barnanna fyrir utan jólin samkvæmt verslunareigendum sem selja grasker, nammi og ógnvekjandi búninga.

Fyrst ég minntist á jólin hér að ofan þá er jú farið að hylla undir þau. Fyrsti fyrirboði jóla hefur árum saman verið upprisa sænskrar risa-geitar fyrir framan IKEA sem, að heiðnum sið, hefur átt það til að brenna upp til agna. En nú er komin samkeppni frá ameríska Costco-risanum sem nú reið á vaðið strax í október. Og í símatímum útvarpsstöðva hefst hin árlega deila um hvenær jólalög megi byrja að hljóma í viðtækjum landsmanna.

En það er bara nóvember ennþá og tilvalið að slaka á í göngutúrum, njóta haustlitanna og kveikja á kertum áður en jólastressið hellist yfir okkur í næsta mánuði.

Gleðilegan nóvember!

Kunnátta í íslensku og aðgengi að upplýsingum

Nýlega kom út skýrsla, Einangrun eldra fólks, sem hefur að markmiði að greina líðan eldra fólks, 67 ára og eldra, af íslenskum og erlendum uppruna með sérstakri áherslu á einmannaleika. Skýrslan er unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Félags- og vinnumálaráðuneytið. Höfundar hennar eru Helgi Guðmundsson og Guðný Gústafsdóttir.

Í skýrslunni er meðal annars sagt frá niðurstöðum könnunar um félagslega virkni og einangrun þriggja hópa eldra fólks. Hóparnir eru þeir sem eru með íslenskan ríkisborgararétt, þeir sem eru með erlent ríkisfang og þeir sem eru með íslenskt ríkisfang en erlendan fæðingarstað (innflytjendur – sjá neðanmáls). Niðurstöður um félagslega virkni og einangrun voru fengnar með spurningum um reglubundna hreyfingu, þátttöku í félagsstarfi fyrir eldra fólk og um samband þeirra við  börn sín, ættingja og vini. Spurningarnar voru þýddar á ensku, pólsku og spænsku til þess að sem flestir gætu svarað þeim.

Hér er stiklað á stóru um niðurstöður um félagslega virkni og einangrun þeirra sem eru með erlent ríkisfang eða með íslenskt ríkisfang en erlendan fæðingarstað. Í niðurstöðum segir að félagsleg virkni sé örlítið minni á meðal fólks af erlendum uppruna/innflytjenda heldur en eldra fólks af íslenskum uppruna en að  einangrun þeirra sé örlítið meiri. Þar má nefna að þegar spurt er um hvort að eldra fólki finnist auðvelt eða erfitt að nálgast upplýsingar um félagsstarf og réttindi eldra fólks er reynsla þeirra sem eru af erlendum uppruna/innflytjandi sem búa yfir góðri kunnáttu í íslensku áþekk reynslu þeirra sem eru af íslenskum uppruna. Eldra fólk á Íslandi af erlendum uppruna (innflytjendur) sem búa yfir takmarkaðri tungumálakunnáttu, það er að tala hvorki góða né lélega, frekar lélega eða mjög lélega íslensku, á þó áberandi erfiðast með að nálgast upplýsingar um félagsstarf og réttindi eldra fólks.

Það er síðastnefndi hópurinn sem stjórnir samtakanna U3A Reykjavík og verkefnisins Vöruhús tækifæranna, er í mun að ná til með því að hafa efni á heimasíðum sínum  á öðrum tungumálum en íslensku. Tvennt kemur til. Á vef U3A Reykjavík eru upplýsingar um mál sem snerta eldra fólk og upplýsingar um félagsstarf samtakanna og á vef Vöruhúss tækifæranna er að finna tækifæri sem gera eldra fólki kleift að nýta efri árin sér til gagns og gamans. Í Fréttabréfi U3A og Fréttabréfum Vöruhússins er að finna fjölmargar greinar sem snúa að lífi og starfi eldra fólks og hagsmunum þeirra.

Til þess að setja efni heimasíðna og fréttabréfs á önnur tungumál en íslensku fékk U3A Reykjavík styrk frá Félags- og vinnumálaráðuneytinu. Sérstakur hópur á vegum samtakanna vinnur nú að því að snúa efni heimasíðna og fréttabréfanna yfir á ensku og pólsku og hugsanlega fleiri tungumál og lýkur starfi hans vonandi á komandi vetri.

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar og ömmur. Innflytjendur af annarri kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Heimild: Hagstofa Íslands.

Við höfum ekki tíma til að bíða eftir réttlæti

Margir hrökkva óþægilega við þegar þeir hætta störfum á vinnumarkaði og fara á eftirlaun þegar sú staðreynd blasir við að þeir eru þá aftur komnir á “unglingataxta” sér til framfærslu. Stór hluti eftirlaunafólks má því gera ráð fyrir að þurfa að hafa sér til framfærslu 60-70% af þeim tekjum sem þeir höfðu að jafnaði meðan þeir voru á vinnumarkaði. að er við ramman reip að draga að standa í kjarabaráttu þegar komið er í þessa stöðu og eftirlaunafólk á í rauninni allt undir Alþingi komið og  þeim stjórnarmeirihluta hverju sinni hvaða kjör þeim eru búin.

Á Alþingi eru sett lög um fyrirkomulag og upphæðir ellilífeyris frá almannatryggingum og er upphæð ellilífeyris er öllu jafna ákveðin í fjárlagafrumvarpi hvers árs og gildir fyrir allt það ár. Hafa margir gagnrýnt hvernig hækkun ellilífeyris er reiknuð í frumvarpinu því hún byggist m.a. á spá um verðbólgu komandi árs og launaþróun kjarasamninga. Oftast, ef ekki alltaf, hefur þessi spá verið eftirlaunatakanum í óhag.

Hvar er verkalýðshreyfingin?
Eftirlaunafólk hefur fá tæki og tól til að berjast fyrir bættum kjörum. Þau geta t.d. ekki notað verkfallsvopnið eins og þau gátu sem launþegar á vinnumarkaði. Því hafa margir beint sjónum sínum til verkalýðshreyfingarinnar sem hefur tæki og tól til að knýja á um bætt kjör og hvers vegna ætti verkalýðshreyfingin ekki að leggja sínum fyrrverandi félagsmönnum lið sem eru komnir á ævikvöldið?

Eldra fólk sem er komið á eftirlaun hafa allan sinn langa starfsaldur verið í verkalýðsfélagi og borgað þar sín gjöld: félagsgjöld, í sjúkrasjóði, slysasjóði, verkfallssjóði, orlofssjóði og hvað þau nú heita öll matargöt verkalýðsfélagana. Eldra fólk hefur byggt upp samfélagið í þeirri mynd sem við búum við í dag – og verkalýðsfélögin sem eru orðin óhemju fjárhagslega sterk vegna framlaga fólks sem hefur lagt sitt af mörkum  til þeirra gegnum starfsævina.

Það er komið að skuldadögum hjá verkalýðsfélögunum. Nú er komið að því að þau taki upp mál sinna elstu félaga sem hafa lokið störfum eftir langan vinnudag og beiti sér fyrir að þegar stjórnvöld koma að samningsborði í kjarasamningum með sína kjaramálapakka eða lífskjarasamninga að þá verði efirlaunafólk verkalýðshreyfingarinnar ekki skilið eftir.

Eftirlaunafólk hefur ekki tíma til að bíða eftir réttlæti. Framtíðin er komin!

Hvað er LEB?
LEB – Landssamband eldri borgara eru regnhlífasamtök allra félaga eldri borgara vítt og breytt um landið og eru aðildarfélögin  alls 55 talsins og telja um 35.000 félagsmenn. Aðildarfélögin í dreifðum byggðum landsins sjá að mestu um félagslíf fyrir eldra fólk á sínu svæði. Megin áhersla LEB er að koma fram fyrir hönd eldra fólks gagnvart ráðamönnum hverju sinni í hvers kyns málum er varðar kjör og lífsgæði eldra fólks og þá er ekkert undanskilið.

LEB hefur barist fyrir bættum kjörum hvað varðar fjárhagslega afkomu eftirlaunafólks með ýmsu móti. Þau hafa átt samtöl við ráðherra og þingmenn, skilað inn umsögnum um frumvörp og fylgt þeim eftir með fundum með þingnefndum, skrifað áskoranir, pistla og greinar, haldið ráðstefnur og málþing.

Þessi mál þokast hægt. Eina sem hægt er að vera viss um er að dropinn holar steininn. Það er alltof hægt sem það gerist. Eldra fólk hefur ekki tima til að bíða eftir réttlæti.

Langar þig á stefnumót?

Hugarsmíðin okkar í síðasta fréttabréfi, nöldurseggurinn hann Krissi, fann sína konu á stefnumótasíðunni makaleit.is og er ánægður með það. Hættur öllu tuði og farinn að haga sér eins og maður, öllum til mikils léttis. En kannski eru ekki allir eins djarfir og hann Krissi að ská sig á stefnumótasíðu enda framboðið mikið og aldrei að vita hverjum er treystandi.

Það má leita annarra leiða fyrir eldra fólk til þess að finna maka/vin/félaga en á stefnumótasíðum þó að þær virðist gefa góða raun.  Heimaþjónustufyrirtæki í Calgary, Kanada, bendir eldra fólki t.d. á að fara á netið og samfélagsmiðla, taka þátt í umræðuhópum á netinu og jafnvel fara á leikjasíður! Svo megi taka þátt í starfi leikfimishópa, fara í  styttri og lengri ferðir fyrir eldra fólk, fara á námskeið fyrir þau eldri og taka þátt í samkomum trú- og/eða lífskoðunarfélaga.

Stefnumót á síðari helmingi lífsins verða sífellt algengari því eldri einhleypum fjölgar hvort sem það er af eigin vali, skilnaði eða láti maka.  Við lifum lengur, erum betur á okkur komin og búum yfir reynslu og þekkingu. Þau sem fara á stefnumót eru líka sögð yfirleitt meira menntuð, efnaðri og hraustari en önnur eldri. Svo það er bara að drífa sig.

Og þá er komið að fyrsta stefnumótinu og hvernig skal haga sér til þess að ganga í augun á hinu kyninu. Á vefnum lifdununa.is er vitnað í vefinn sixtyandme.com og sagt að konan skuli t.d. hugsa vel um sjálfa sig og útlitið, brosa og að leyfa karlinum að njóta sín. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið því tölfræðin segir að við sjötugt séu 89 karlar á móti 100 konum og við 100 ára aldur eru það 25 karlar á móti 100 konum. Erfiðara er að finna upplýsingar um hvaða væntingar eldri konur hafa til karla á fyrsta stefnumótinu. Einhversstaðar segir þó að flestar konur leiti á sínum efri árum eftir félaga, vini eða elskhuga sem þær geta deilt daglegu lífi með, hlegið með og ratað í ævintýri með og að þær vilji að samskiptin byggi á heiðarleika og trúmennsku.

Brýnt er fyrir fólki að vera jákvætt á sínu fyrsta stefnumóti og ekki tala t.d. um sjúkdóma, sína/sinn fyrrverandi, monta sig eða vera dómhörð um náungann. Þá  þarf að gæta tungu sinnar því eins og ein kona sagði  „Marvin sagði mér að ég væri nauðalík látinni konu sinni. Eins og það væri ekki nóg sagðist hann geyma krukku með ösku hennar á náttborðinu.“

En öllu má ofgera, líka stefnumótum, eins og reynsla Ikea í Shanghai sýnir. Þar tók eldra fólk kaffistofuna yfir tvo daga vikunnar til þess að fara á stefnumót, finna félaga eða bara spjalla og eyða deginum. Til þess að binda endi á þetta setti Ikea nýja reglu „Hér sest enginn niður nema að hann kaupi mat líka!“

Við bíðum ... EKKI LENGUR!

Í haust hélt LEB málþing um kjaramál eldra fólks undir yfirskriftinni: Við bíðum… EKKI LENGUR! Málþingið var haldið eftir ítarlega grasrótarvinnu með félögum eldri borgara vítt og breytt um landið. Bæði með staðfundum og fjarfundum og þar hefur kjaranefnd LEB dregið plóginn. Árangur vinnunar var stefnumörkun LEB í kjaramálum sem byggir á þremur áhersluatriðum. Málþinginu var jafnframt skipt upp í þrjá hluta þar sem var fjallað um hvert áhersluatriði fyrir sig.

Allir þrír hlutar málþingsins voru byggðir eins upp:

  • Inngangserindi fulltrúa LEB um viðkomandi áhersluatriði og erindi ráðherra/alþingismanns í einum af þremur ríkisstjórnarflokkunum.
  • Samtal málþingsstjóra við þau sem fluttu erindin.
  • Myndband með viðtölum við marga eldri borgara sem lýstu viðhorfum sínum til þeirra kjara sem þeim eru búin.
  • Pallborð undir stjórn málþingsstjóra þar sem þátt tóku þingmenn stjórnarandstöðunnar sem lýstu sínum áherslum, eldri borgarar, sérfræðingar í kjörum eldra fólks og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar.

Þó að málþingið hafi tekist afar vel þá voru vonbrigði einnig mikil sem kalla á frekari skoðuna á baráttuaðferðum. En þessi atriði sem ullu vonbrigði eru kannski jafnframt spegill á veika stöðu eftirlaunafólks í samfélaginu. Í fyrsta lagi þá fékkst aðeins einn stjórnarflokkana, þ.e. Vinstri-Græn, til þess að senda ráðherra til að flytja erindi vegna áherslu atriða. Hinum tveim stjórnarflokkunum, Framsókn og Sjálfstæðisflokki, var boðið til að flytja erindi um sitthvort áhersluatriðið, en afþökkuðu og sendu þingmenn í pontu fyrir sína hönd. Þá voru það mikil vonbrigði að enginn fjölmiðill í landinu sýndi áhuga á að mæta á málþingið og fjalla um það.

Málþingið var haldið fyrir troðfullum sal á Hilton Reykjavík Nordica og jafnframt streymt til 4.448 manns sem er talan yfir uppsafnað streymi meðan á málþinginu stóð. Það segir þó ekki alla söguna því mörg aðildarfélög LEB höfðu opið hús í sínum félagsmiðstöðvum þar sem fólk kom saman í hópum til að fylgjast með streyminu frá málþinginu. Þess má geta að upptaka af málþinginu, inngangserindi fulltrúa LEB og ályktun sem samþykkt var einróma í lokin er allt saman aðgengilegt á vef LEB www.leb.is

Hér er stefnumörkun LEB í kjaramálum sett fram í þremur áhersluhlutum:

Við bíðum… EKKI LENGUR!

Stefnan tekur bæði til aðgerða sem mikilvægt er að ráðst í strax og hins vegar aðgerða sem koma til framkvæmda í áföngum á næstu árum. Stefnan skiptist í þrjá megin flokka. Í fyrsta lagi breytingar á lífeyri frá almannatryggingum,  þ.e. skerðingum. Í öðru lagi sértækar aðgerðir og í þriðja lagi breytingar á núverandi ákvæðum laga.

1. Almennar aðgerðir sem koma þeim best sem eru með lágar- og miðlungstekjur:

  • Hækkun frítekjumarks í 100.000 kr.
    Samkvæmt lögum um almannatryggingar sem tóku gildi í ársbyrjun 2017 er almennt frítekjumark 25.000 kr. og hefur ekki hækkað síðan. Þessi breyting myndi nýstast vel fyrir þá sem eru með lægstan lífeyri.
  • Ellilífeyrir almannatrygginga verði aldrei lægri en lægsti launataxti
    Lægstu laun samkvæmt launataxta á vinnumarkaði eru núna 402.256 kr.  Ellilífeyrir er 315.525 kr. fyrir skerðingar. Þar munar um 86.731 kr.
  • Árlegar hækkanir lífeyris og frítekjumarka fylgi launavísitölu
    Almenna frítekjumarkið, frítekjumark vegna atvinnutekna og  árleg hækkun ellilífeyris hefur ekki fylgt launaþróun.
  • Heimilisuppbót falli undir lög nr. 100/2007 um almannatryggingar
    Í dag fellur heimilisuppbót undir lög um Félagslega aðstoð og fellur niður við búsetu erlendis.  Afnema þarf reglu um niðurfellingu heimilisuppbótar við búsetu erlendis. Í dag fellur heimilisuppbót undir lög um Félagslega aðstoð og fellur niður við búsetu erlendis.

2. Sértækar aðgerðir fyrir þau verst settu:

Til að bæta kjör þeirra sem verst standa þarf að fara í sértækar aðgerðir.

  • Sérstakt skattþrep / Hækkun persónuafsláttar
    Aðgerðin taki fyrst og fremt til lífeyristaka.
  • Minni eða engar skerðingar hjá þeim sem eru undir viðurkenndu framfærsluviðmiði
    Innleitt verði framfærsluviðmið sem taki bæði til almennrar framfærslu og húsnæðiskostnaðar.
  • Skoða að þeir lægstu fái sérstakt greiðslu  ef þeir eru undir almennu framfærsluviðmiði
    Sérstökt greiðsla verði eingöngu fyrir lífeyristaka og fjari út í hlutfalli við tekjur en ekki krónu á móti krónu eins og nú er.
    Við útfærslur  er mikilvægt að horfa á heildarmyndina.  Miðað verði við að almenna kerfið taki við þegar ákveðnu tekjumarki er náð. Nauðsynlegt er að horfa til áhrifa þess að lífeyri verði aldrei lægri en lægsti kauptaxti en slík aðgerð  myndi hafa mikil áhrif á afkomu þeirra lakast settu.

3. Breytingar á lögum; skattalögum og lögum um almannatryggingar:

  • Frestun lífeyristöku
    Endurskoða útreikning vegna frestunar á töku ellilífeyris TR og tryggja betur að lífeyristaki fái rétta hlutdeild að ávinningi frestunar þ.e.a.s að reikna hækkun vegna frestunar áður en lífeyrir er skertur.
  • Frítekjumark leigutekna
    Helmingur leigutekna  reiknast sem tekjur við álagingu fjármagnstekjuskatts.    Í dag reiknast  húsaleigutekjur að fullu sem tekjur við ákvörðun um ellilífeyri, þrátt fyrir að í skattalögum sé viðkennt að helmingur leigutekna sé kostnaður. Eðlilegt er að viðhafa sömu reglu við meðferð leigutekna við ákvörðun lífeyris eins og gert er við álagningu fjármagtekjuskatts.
  • Frítekjumark  fjármagnstekna
    300.000 kr. frítekjumark fjármagnstekna  gildi einnig gagnvart lífeyri frá almannatryggingum. Mikill áhersla er lögð á að eldra fólk undirbúi starfslok m.a. með því að byggja upp eigin sparnað. Stærsti hluti af endurkröfum TR er vegna ávöxtunar sparifés þrátt fyrir að vextir séu neikvæðir.
  • Tryggja að lífeyristakar njóti betur hækkana frá lífeyrissjóðum
    Þegar lífeyristaki fær hækkun á lífeyri frá lífeyrissjóði t.d. vegna góðrar afkomu sjóðsins, verður að tryggja að lífeyristaki njóti sambærilegs ávinnings og um væri að ræða tekjur launamanns á vinnumarkaði, þ.e.a.s. að hann greiði fyrst og fremst skatta.

Eldra fólk og loftslagið – beggja hagur

Older people and the climate – benefits for both var yfirskrift norrænnar málstofu sem haldin var á Nauthól dagana 27. og 28. september sl. Málstofan var hluti af umhverfisverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og félags og vinnumarkaðsráðuneytis. Verkefnið fékk styrk frá norrænu ráðherranefndinni árið 2023.

Á málstofunni kynntu fulltrúar frá umhverfissamtökum eldra fólks á Norðurlöndum  starfsemi sína og áherslur. Af norrænum hópum sem kynntu áherslur sínar og aðgerðir má nefna GRETAS GAMLINGAR, BESTEFORELDRENES KLIMAAKSJON og GRANDPARENTS FOR THE FUTURE. Umhverfishópur U3A Reykjavík tók þátt í málstofunni og kynnti Birna Sigurjónsdóttir starf U3A og áherslur umhverfishópsins og Þóra Ellen Þórhallsdóttir flutti erindi um landnýtingu á Íslandi. Hjálmar W. Árnason kynnti félagið Vini íslenskrar náttúru. KLIMASENIORINNEN SWEIZ sögðu frá málshöfðun á hendur stjórnvöldum þar sem þau eru ákærð fyrir heilsuspillandi aðstæður vegna aðgerðaleysis í loftslagsmálum. Pallborðsumræður voru eftir hver tvö til þrjú erindi. Áhersla málshefjenda beindist þannig að ábyrgð stjórnvalda á því að standa við gefin fyrirheit um aðgerðir til að vinna gegn loftslagsvá til að tryggja börnum örugga framtíð! Það var vekjandi að heyra um dugnað og eldmóð þessara norrænu samtaka sem virðast starfa af miklum áhuga m.a. með mótmælastöðum og fleiri uppákomum sem vekja athygli á loftslagsvandanum.

Afrakstur ráðstefnunnar verður kynntur í skýrslu með samantekt frá málstofunni og ráðleggingum til stjórnvalda á Norðurlöndunum um hvers vegna og hvernig þau ættu að styðja sjálfboðaliðahópa aldraða á sviði loftslagsmála og hvernig megi efla og viðhalda norrænu samstarfi í þessum málum. Fyrirtækið Environice skipulagði málstofuna og mun birta skýrsluna á heimasíðu sinni.

Viðburðir U3A Reykjavík í nóvember 2023

F.v.: Jónína Óskarsdóttir, Sævar Helgi Bragason, Friðþór Eydal, Halldór Björnsson, Jón Björnsson

Áfram höldum við inn í haustið með skemmtilegum fyrirlestrum og viðburðum.

  • 7.11.         Konurnar á Eyrarbakka, Jónína Óskarsdóttir kynnir bók sína
  • 14.11.      Töfrar næturhiminsins, Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur
  • 21.11.      Hvers vegna Ísland – hefði varnarliðið e.t.v. ekki að fara? Friðþór Eydal uppýsingafulltrúi kynnir sögu bandaríska varnarliðisins 1951-2006
  • 28.11.      Áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi, Halldór Björnsson veðurfræðingur
  • 29.11.      Menningahópur stendur fyrir námskeiði og vínsmökkun
  • 4.12.        Námskeið, Mappa mundi, Jón Björnsson sálfræðingur og sagnfræðingur
  • 5.12.        Jólafundur U3A í Nauthóli

Öllum félagsmönnum velkomið að senda inn tillögur að fyrirlestrum og viðburðum á netfangið u3areykjavik@gmail.com

Með kveðju frá stjórn U3A Reykjavík

Scroll to Top
Skip to content