Fréttabréf U3A
Desember 2023

Jólakveðja frá U3A Reykjavík

Nú er aðventan gengin í garð með öllum þeim hefðum sem henni fylgja nú til dags. Upphaflega merking orðsins aðventa er jólafasta, sem á uppruna sinn í þeim kaþólska sið að fasta síðustu vikurnar fyrir jól. Alveg sérstaklega átti ekki að neyta kjöts eins og fram kemur í hinni fornu lögbók Íslendinga, Grágás.

Nú er öldin önnur. Í dag fylgir aðventunni að gera vel við sig bæði í mat og drykk á jólahlaðborðum út um allan bæ, að sækja jólatónleika og að mæta á bókaútgáfuhóf þar sem boðið er upp á bók og léttar veitingar.

Og nú eru það ekki lengur bara börnin sem fá súkkulaði jóladagatöl heldur standa konum til boða jóladagatöl með snyrtivörum og pörum af öllum kynjum bjóðast kynlífstækjadagatöl frá Blush.

En á aðventunni erum við minnt á að það eru ekki allir eins lánsamir og við. Hjálparsamtök hérlendis og erlendis biðla til okkar að gefa svolítið af okkar gnægta borði í þágu þeirra sem hafa það ekki gott vegna fátæktar, loftlagsbreytinga og hernaðar. Með því að rétta þessu fólki hjáparhönd tendrum við í skammdeginu ekki einungis jólaljósin heima hjá okkur í heldur líka vonandi vonarljós í hjörtum þeirra sem minnst mega sín. Munum að margt smátt gerir eitt stórt.

Stjórn U3A Reykjavík og ritstjórn Fréttabréfsins óskar félögum og lesendum gleðilegra jóla og farsælds nýs árs.

Hjördís Hendriksdóttir
formaður U3A Reykjavík

Jólin koma hraðar og hraðar ...

Þegar við erum börn finnst okkur voðalega langt frá síðustu jólum og ofsalega langt í næstu jól. Fyrir okkur leið tíminn allt of hægt. Eftir því sem við eldumst finnst okkur hins vegar tíminn líða hraðar og hraðar, trúum því vart að  það séu aftur komin jól. Maðurinn minn þráast t.d. við að setja upp jóla-útiljósin aftur, hann segist vera nýbúinn að pakka þeim niður. Mér finnst líka voða stutt frá síðustu jólum, enda þótt svo langt sé síðan að ég  geti alls ekki munað hvað ég gaf hverjum og hver gaf mér hvað.

Ég veit að þetta á ekki bara við um okkur hjónin heldur líka aðra jafnaldra okkur. Hvernig geta t.d. verið 15 ár liðin frá bankahruninu 2008? Af hverju er tíminn hjá okkar aldurshópi farinn að æða svona stjórnlaust  áfram?

Hvernig við metum tímann er okkur enn þó nokkur ráðgáta. Hvergi í heilanum hefur fundist eitt tiltekið svæði sem er tileinkað tímaskynjun. Við erum með líkamsklukku sem nær  til dægursveiflu okkar og gegnir engu hlutverki við að áætla sekúndur, mínútur eða jafnvel árin sem líða.

Vísindamenn hafa leitað skýringa á þessari mismunandi upplifun barna og fullorðinna. Einn þeirra er Dr. Adrian Bejan prófessor við Harvard sem telur að skýringuna sé að finna í því hvernig mannsheilinn vinnur úr sjónrænum upplýsingum. Börn eru sífellt að upplifa eitthvað nýtt og því er öll upplifun þeirra kirfilega greypt í heila þeirra. Með svo mikið af upplýsingum og gögnum í vinnslu hafa börn það á tilfinningunni að tíminn líði mjög hægt. Þegar við hins vegar eldumst breytist taugakerfi heilans, við upplifum minna nýtt og festumst í vana og rútínum. Heili okkur vinnur úr færri nýjum upplýsingum en þegar við vorum börn og upplifum að tíminn líði hraðar.

Önnur kenning um tímakyn kemur frá bandaríska líffræðingnum Robert B. Sothern sem hefur s.l. fjörutíu og fimm ár  kortlagt sitt eigið tímaskyn. Á hverjum degi hefur hann mælt líkamshita sinn, blóðþrýsting og hjartslátt. Að lokum áætlar hann í huganum hvað að 1 mínúta sé lengi að líða. Eftir því sem Robert  eltist urðu getgátur hans um hversu lengi 1 mínúta væri að líða ónákvæmari og honum virtist sem ein mínúta væri sífellt styttri en hún raunverulega var.

Talið er að mismunandi læknisfræðilegar ástæður geti haft áhrif á tímaskynjun. Til dæmis virðast börn með Tourette-heilkenni vera betri í að áætla hvað 1 mínúta er lengi að líða en önnur börn. Á sama tíma sýna rannsóknir á börnum með ADHD að þeim finnist að tíminn líði hægar en hann raunverlega líður og það er áskorun fyrir þau að sitja kyrr í fimm mínútur þar sem þau upplifa fimm mínútur sem mun lengri tíma en þær eru.

En getum við hægt á tímanum? Claudia Hammond, höfundur bókarinnar -Time Warped: Unlocking the mysteries of Time Perception-heldur fram að ef við viljum að helgin líði hægt ættum við ekki að eyða tíma í að hvíla okkur og horfa á sjónvarpið heldur að fylla hana af nýjum upplifunum. Ef að við brjótum upp rútinuna og gerum eitthvað nýtt þá upplifum við á sunnudagskvöldinu að helgin virðist hafa verið löng.

Svo nú getum við spurt okkur sjálf: Viljum við lengja eða stytta jólin? Ef við höldum okkur við fjölskylduhefðir og siði verða jólin enga stund að líða hjá. En ef við brjótum hefðirnar upp og gerum eitthvað nýtt ættum við að upplifa lengri jól.

Okkar er valið! Gleðileg jól.

Að skilja vel við

Við sem erum á þriðja æviskeiðinu höfum eflaust mörg okkar þurft að ganga frá dánarbúum, nokkuð sem fær mann til þess að hugsa til þess hvernig maður sjálfur myndi vilja skilja við eigur sínar þegar að því kemur. Sum okkar hafa jafnvel strengt þess heit að skilja sem minnst eftir fyrir börn eða aðra nákomna ættingja til að ganga frá og allra síst viðkvæma hluti eins og bréf sem snerta mann sjálfan og eða aðra. Nóg er nú samt fyrir þau að hugsa um.

Frágangur þriggja dánarbúa og eigin dánarbús varð sænskri konu, Margareti Magnusson tilefni til skrifa sem hún gaf út sem bók Döstädning. Ingen sorgelig historia sem þýða má lauslega á íslensku sem Dauðaþrif. Engin sorgarsaga. Bókin var gefin út í 32 löndum og nefnist á ensku The Gentle Art of Swedish Death Cleaning. Í bókinni gefur Margareta góð ráð um hvernig má standa að frágangi á eigum sínum fyrir andlát sitt og fjallar hreint praktiskt um að koma reglu á hlutina, henda því sem er einskis nýtt og halda því sem hefur tilfinningalegt gildi eða er mjög verðmætt. Hún mælir með að byrja á að fækka húsgögnum og fötum og enda á ljósmyndum, bréfum og persónulegum pappírum. Föt má t.d. flokka á tvo vegu, það sem þú vilt eiga áfram og þau sem þú vilt losa þig við. Segja má að Margareta lifi eins og hún kennir og hefur hún nokkrum sinnum farið í gegnum það sem hún á og losað sig við það sem hún vill ekki eiga og ekki börnin heldur. Bókin er skrifuð af gleði og kímni og skilur lesandann, allavega höfund þessa pistils, eftir með bros á vör.

Margareta hefur skrifað aðra bók, Levnadsråd från någon som troligtvis kommer dö före dig sem á íslensku má kalla Lífsreglur þess sem trúlega deyr á undan þér. Á ensku er bókin nefnd The Swedish Art of Ageing Well. Í bókinni segir hún frá ævi sinni, uppeldi fimm barna og gefur að lokum góð ráð um hvernig megi eldast á sem bestan hátt eins og að nálgast ellina með opnum huga, sætta sig við hinar hröðu breytingar á samfélaginu, vinna sjálfboðastörf, hafa ekki áhyggjur af hrukkum, hlæja og hafa gaman á hverjum degi, klæðast einhverju röndóttu og borða mikið af súkkulaði. 🙂

Margareta skrifaði ofangreindar bækur vel komin á níræðis aldur, þá fyrri  þegar hún var 85 ára og þá seinni 88 ára. Báðar bækurnar eru til innbundnar og sem rafbækur og hljóðbækur.

Hann Þórður ætlar að ganga í endurnýjun lífdaga!

Hann Þórður  er hugarsmíðin okkar í desember.  Í janúar verður Þórður 70 ára og ætlar að hætta að vinna á smíðaverkstæðinu þar sem hann hefur starfað síðustu þrjá áratugina og fara á eftirlaun. Það verða vissulega umskipti, en hann er undirbúinn og hann er búinn að taka nokkur ár í undirbúninginn og hugsa um allt það skemmtilega sem hann getur nú tekið sér fyrir hendur.

Hann lítur svo á að hann muni nú loksins í janúar á splunkunýju ári geta gert umtalsverðar breytingar á lífi sínu. Nú verði tími til að lifa og njóta, á allt annan hátt en áður. Því Þórður hefur vissulega átt innihaldsríkt líf með Boggu sinni eða það er að segja allt þar til hún skildi við hann fyrir fimmtán árum og silgdi sinn sjó – bókstaflega. Bogga fór með nýja elskhuganum sínum að sigla á skútu um suðræn höf að skoða heiminn.

Nú er komið að Þórði!

Hann er þó einn á báti og er orðinn nokkuð vanur því og ekki hyggst hann sigla um suðræn höf eins og Bogga. Nei, hann ætlar að njóta þess sem lífið hefur að bjóða í hans heimabyggð: Reykjavík.

Hann er búinn að spá og seglúera hvað hann geti gert til að njóta lífsins án þess að það komi of mikið við pyngjuna, því þó Þórður hafi verið forsjáll í gegnum lífið þá hefur hann gert sér grein fyrir því að kjör hans munu töluvert rýrna við þessi tímamót og minna úr að spila til að eyða og verja í lífsins listisemdir.

Þórður stefnir á að njóta lista og menningar fyrst og fremst. Hann er búinn að kaupa Menningarkort 67+ hjá Reykjavíkurborg. Kjarakaup. Aðeins 2.150 kr. og frí endurnýjun út lífið. Með kortið ætlar hann að stunda listasöfn borgarinnar, Hafnarhúsið, Kjarvalsstaði og Ásmundarsafn, þegar hann langar til. Það er gaman að geta jafnvel leyft sér að fara aftur og aftur á áhugaverðar sýningar og jafnvel leiðsagnir sérfræðinga sem reglulega er boðið uppá um einstakar sýningar sem hann þarf ekkert að borga sérstaklega fyrir og svo nýtist kortið einnig sem afsláttarkort í safnabúðunum. Svo gildir kortið einnig sem bókasafnsskírteini í Borgarbókasafninu í öllum sjö útibúunum  í ýmsum hverfum borgarinnar, veitir frían aðgang að öðrum söfnum Reykjavíkurborgar eins og Árbæjarsafni, Landnámssýningunni, Ljósmyndasafninu, Sjóminjasafninu og… hann gæti þá jafnvel eftir allt storkað henni Boggu með að sigla alla leið til Viðeyjar! Því menningarkortið veitir frían aðgang að Viðey. Vonandi fær hann eldri borgara afslátt í Viðeyjarferjuna.

Og talandi um eldri borgara afslátt. Nú ætlar Þórður láta loksins verða af því að ganga í FEB því félagsskírteinið þar veitir afslátt af ýmsum vörum og þjónustu – og ekki bara í Reykjavík, heldur um allt land. Auk þess bíður félagið uppá ýmis konar námskeið og samveru. Hann er svolítið veikur fyrir spænsku námskeiðunum þar og nýju myndlistar námskeiðunum en hann hefur heyrt að þessi námskeið séu á mun hagstæðara verði en öðrum bjóðast alla jafna. Hann gæti kannski líka látið verða af því að tefla eina og eina skák með skákfélaginu.

Nú þegar hann verður hættur að vinna þá ætlar hann loks að láta eftir sér að ferðast með strætó vítt og breitt um borgina! Kaupa KLAPP kort og skoða borgina í rólegheitum meðan strætó keyrir hann um ný og gömul hverfi. Því hann fær 50% afslátt sem eldri borgari. Og hann er ekkert að flýta sér svo honum er sama þó strætó verði fastur í umferðinni þá gefst bara betri tími til að skoða sig um.

Hann er búinn að kortleggja allar 17 félagsmiðstöðvar Reykjavíkurborgar sem er dreift út um hin ýmsu hverfi borgarinnar. Taka strætó og hoppa út við félagsmiðstöð, fá sér kaffisopa og athuga hvað þar er í boði. Kannski lendir hann í spilavist eða bingó! Hver veit hvað mun bíða hans því það er dagskrá alla daga í í félagsmiðstöðvunum. Aldrei að vita nema hann hitti fyrir löngu gleymda skólafélaga og vini þar.

Þórður er á fullu að undirbúa nýja lífið. Ýmislegt fleira er í undirbúningi hjá honum en hér hefur verið talið. Eitt er alveg víst að þriðjudagarnir eru fráteknir kl. 16.30 – 18.00 en þá eru vikulegir fyrirlestrar U3A – Háskóla þriðja æviskeiðsins í Hæðargarði 31, 108 Reykjavík.  Árgjaldið þar er nú bara brandari í augum Þórðar. Aðeins 2.000 kr.

Þórður getur ekki beðið eftir að ganga í endurnýjun lífdaga og lifa og njóta þegar hann kemst á áttræðisaldurinn – eða „sjöuna“ eins og nú er farið að kalla það.

Á Sturlungaslóð

Þann 31. október síðastliðinn kynntu Óttar Guðmundsson geðlæknir og sagnamaður og Esther Ágústsdóttir kennari og bókmenntafræðingur nýtt vefnámskeið um Sturlungu á fjölmennum fyrirlestri fyrir félagsmenn U3A.  Vefnámskeiðið ber nafnið Á Sturlungaslóð og er á vegum Kakalaskála í Skagafirði þar sem allt snýst um Sturlungatímann.

Á vefnámskeiðinu rekja Sturlungusérfræðingarnir Einar Kárason rithöfundur, Óttar Guðmundsson rithöfundur og geðlæknir, Sigríður Sigurðardóttir sagnfræðingur og fræðimaður og Sigurður Hansen eigandi Kakalaskála, þráðinn í gegnum Sturlungu með sínu lagi. Þau segja frá því sem þeim þykir markverðast nokkurn veginn í tímaröð og taka í leiðinni ýmsa óvænta vinkla á menn og málefni.

Forsaga málsins er sú að Esther fósturdóttir Sigurðar Hansen smitaðist af áhuga hans og ,,Sturlungasögufólksins” á þessu merka riti. Hana langaði til að varðveita kunnáttu þeirra og eldmóð og vekja í leiðinni áhuga á Sturlungu. Því var ákveðið að gera vefnámskeið til að sem flestir gætu notið efnisins.

Sturlungusérfræðingarnir eiga sameiginlegt að hafa lengi lifað og hrærst í Sturlungu. Sigurður fékk Fálkaorðuna árið 2015 fyrir miðlun á sögu og arfleifð Sturlungaaldar, en hann byggði upp Kakalaskála til að segja þar sögur úr Sturlungu. Hann og Sigríður voru einnig stofnfélagar í félaginu Á Sturlungaslóð í Skagafirði en í því félagi var unnið gríðarlega mikilvægt starf til kynningar á arfleifð Sturlungu. Sigríður hefur margt rannsakað og ritað um þetta tímabil, meðal annars þátt Ásbirninga í sögunni. Einar hefur ritað sagnabálkinn Óvinafagnað í tengslum við Sturlungu og Óttar hefur ritað bókina Sturlunga geðlæknisins þar sem meðal annars er að finna ýmsar geðgreiningar. Öll hafa þau fjallað um efnið á opinberum vettvangi.

Einar, Óttar, Sigríður og Sigurður fara á námskeiðinu í 44 mislöngum myndböndum í gegnum Sturlungu frá því fyrir 1200 og þar til landið missir sjálfstæði sitt árið 1262. Sum eru fyrirlestrar, en önnur á samræðu- eða viðtalsformi. Sagnamennskan er ávallt í fyrirrúmi. Fólk hefur 6 mánuði til að fara í gegnum efnið, sem er 7 klukkustunda langt.

Þetta er námskeið fyrir fólk sem hefur áhuga á að grúska í Sturlungu, bæði þá sem hafa einhverja grunnþekkingu en einnig lengra komna. Það er auðvitað góð hugmynd að lesa Sturlungu, en námskeiðið hentar einnig sérstaklega vel þeim sem hafa gaman af að hlusta á sögur. Samkvæmt Einari er erfitt að komast út úr Sturlungu þegar maður er einu sinni kominn inn, jafnvel ómögulegt. Því er námskeiðið tilvalin gjöf fyrir grúskara.

Sjá nánar um vefnámskeiðið á https://sturlungaslod.is/ og um Kakalaskála á https://www.kakalaskali.is. Opið fyrir innritun.

Vasahandbók bænda

Einu sinni var lítil stúlka í sjávarþorpi sem hafði gaman af að skrifa sögur og leikrit. Hún hafði líka gaman af að lesa, teikna, spila handbolta og vera í frjálsíþróttum en draumurinn var að verða rithöfundur þegar hún yrði stór.

Súlkan óx úr grasi, hætti að skrifa sögur og leikrit en skrifaði nú ritgerðir í skólum um allt milli himins og jarðar. Náði meira að segja að fá verðlaun fyrir skrif, verðlaun sem hún var samt ekki allskostar sátt við. Stúlkan var þá í heimavist í gagnfræðiskóla upp á landi þar sem Búnaðarsamband Íslands efndi til samkeppni um að skrifa ritgerð um íslenskan landbúnað og stúlkan sem ekkert vissi eða kunni um landbúnað og aldrei dvalið í sveit vann keppnina. Verðlaunin voru Vasahandbók bænda 1955 afhent af forsvarsmönnun Búnaðarsambandsins. Stúlkan fór hjá sér og sagði engum frá heima en einhvern veginn komust systkini hennar að þessu og var henni mikið strítt. Ritgerðina á hún ennþá en bókin er týnd.

Árin liðu og stúlkan fór að vinna og hélt áfram að skrifa en nú voru það faglegar skýrslur tengdar starfinu. Það var ekki fyrr en stúlkan var hætt að vinna og komin  vel á níræðisaldur þegar hún fann aftur til barnslegrar gleði í að láta orðin flæða af sjálfu sér, ekki á pappírinn heldur á lyklaborðið. Mórallinn í sögunni er að það er aldrei of seint að skrifa hversu gamall sem þú ert.

Viðburðir U3A Reykjavík í desember 2023

Við tökum okkur fyrirlestra-frí þegar líður á desember en vekjum athygli á tveimur áhugaverðum viðburðum.

5.12.     Jólafundur U3A kl. 15:00 í sal á veitingastaðnum Nauthól. Jón Björnsson flytur erindi.
7.12.     Ferðahópur U3A Reykjavík vegan Tyrklandsferðar í apríl 2024
8.12.     Menningarhópur U3A stendur fyrir heimsókn í Landakostskirkju og í kjölfarið hádegisverði á Hótel Borg

Öllum félagsmönnum er velkomið að senda inn tillögur að fyrirlestrum og viðburðum  og um umfjöllunarefni í Fréttabréfið á netfangið u3areykjavik@gmail.com

Með kveðju frá stjórn U3A Reykjavík

Scroll to Top
Skip to content