Fréttabréf U3A
Apríl 2024

Ný stjórn U3A Reykjavík

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi U3A Reykjavík sem haldinn var í Hæðargarði 31 þann19. mars. s.l.

F.v.: Stefanía Traustadóttir, Vigdís V. Pálsdóttir, Birna Sigurjónsdóttir, Þórleif Drífa Jónsdóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Einar Sveinn Árnason, Hjördís Hendriksdóttir.

Hjördís Hendriksdóttir var endurkjörin formaður til eins árs. Birna Sigurjónsdóttir og Guðrún Bjarnadóttir sitja áfram í stjórn og eru á seinna ári kjörtímabilsins. Þórleif Drífa Jónsdóttir var kjörin til áframhaldandi setu í stjórn næstu tvö ár. Nýtt stjórnarfólk er: Einar Sveinn Árnason, Stefanía Traustadóttir og Vigdís V. Pálsdóttir. Varamenn eru Emma Eyþórsdóttir og Hans Kristján Guðmundsson.

Steinunn Ingvarsdóttir og Guðríður Þorsteinsdóttir viku úr stjórn og er þeim þakkað fyrir gott starf í þágu félagsins.

Fátækt eldri borgara í boði stjórnvalda

Það er hlutverk stjórnvalda að fjármagna og forgangsraða útgjöldum. Hvernig stjórnvöld gera það byggir á og skilgreinir gerð samfélagsins. Búum við í kapítalísku samfélagi eða kommúnísku samfélagi? Er áherslan á frelsi einstaklingsins eða jöfnuð allra?

Undanfarna áratugi hafa ríkisstjórnir á Íslandi almennt borið sig saman við velferðarríkin á hinum Norðurlöndunum hvar sem þær eru staddar á hinum pólitíska ás.

Það er óumdeilt að Ísland er velferðarríki en það er einnig óumdeilt að það eru hér hópar sem velferðin nær ekki til sem skyldi. Þessir hópar eiga erfitt með að berjast fyrir bættu réttlæti og betri kjörum. Þeir hópar eiga enga fulltrúa við samningaborðið og engan verkfallsrétt.  Þeir verða því að reiða sig á að stéttafélögin í landinu taki upp málstað þeirra og veki athygli á því óréttlæti sem ellilífeyrisþegar verða fyrir af hálfu stjórnvalda

Á dögunum hélt Sameyki, stéttarfélag í almannaþjónustu, aðalfund sinn. Í lok fundarins var samþykkt ályktun um kjör eldri borgara.

Í ályktunni kemur eftirfarandi fram:

„Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu telur mjög brýnt að gera róttækar breytingar á ellilífeyri almannatrygginga, m.a. með því að draga úr skerðingu vegna tekna frá lífeyrissjóðum og taka sérstaklega á kjörum þeirra sem eru með lægstan lífeyri. Sé íslenska eftirlaunakerfið borið saman við það danska og hollenska, sem eru sambærileg kerfi, sker það íslenska sig úr fyrir gríðarlegar tekjutengingar.

Af þeim rúmlega 40.000 manns sem taka ellilífeyri frá TR eru um helmingur með lífeyri sér til framfærslu undir lægstu launum. Skerðingu er beitt með sama hætti gegn þeim sem eru með 70.000 kr. frá lífeyrissjóðum og þeim sem hafa 570.000 kr. eða meira. Engin lágmarksframfærsla er tryggð. Núverandi kerfi býr til og viðheldur fátækt og krefst Sameyki aðgerða; að stjórnvöld hverfi frá stefnu sinni sem stuðlar að fátækt eldri borgara.

• Tryggja þarf að lágmarkslífeyrir sé aldrei lægri en lægsti launataxti og tryggja að hann fylgi launaþróun.
• Draga þarf úr skerðingu vegna tekna frá lífeyrissjóðum.
• Árlegar hækkanir lífeyris og frítekjumarka eiga ávallt að fylgja launavísitölu.“

Sameyki á hrós skilið fyrir að koma slíkum kröfum á framfæri og vonandi eru önnur stéttafélög að hlusta, því eins og enn fremur segir í ályktuninni:

„Til að ná fram breytingum á kjörum eldri félagsmanna sem komnir eru á eftirlaun er nauðsynlegt að stéttarfélögin líti á þeirra baráttu sem sína eigin.“

Það er því sorglegt að sjá að nýgerðir kjarasamningar vinnumarkaðarins og tilheyrandi stuðningsaðgerðir stjórnvalda ganga algerlega framhjá þessum stóra hópi eldra fólks.

Hjördís Hendriksdóttir

Vilt þú halda áfram í starfi?

Vinnuveitendur geta haft áhrif á hvort að eldri starfsmenn haldi áfram í starfi eftir að eftirlaunaaldri er náð og ytri skilyrði leyfa eins og til dæmis að starfsmaðurinn geti unnið áfram sem verktaki. Það geta þeir gert með því að bjóða starfsmönnum upp á ákjósanlegar vinnuaðstæður þar sem hæfni þeirra, reynsla og þekking nýtist.  Þetta kemur fram í sænskri skýrslu, Förlängt arbetsliv (isl: Lengur í starfi), sem kom út árið 2023 en þar eru kynntar niðurstöður netkönnunar meðal starfsmanna sveitarfélaga og héraðsumdæma (s: regioner) í Svíþjóð á aldrinum 55 til 65 ára. Í könnuninni voru starfsmennirnir spurðir hvort  þeir hefðu í hyggju að halda áfram í starfi eftir að þeir ættu rétt á töku eftirlauna. Sögðust 62 % að þeir reiknuðu með að hætta í starfi 66 ára eða fyrr en 38% töldu að þeir myndu hætta 67 ára eða síðar.

Margir þeirra sem höfðu hug á að vinna til 67 ára aldurs eða lengur sögðust myndu gera það ef vinnuveitandinn skapaði „ réttar“ aðstæður til þess á vinnustaðnum eins og að hæfni þeirra væri betur metin af vinnuveitandanum og að hann veitti þeim meiri hvatningu. Viðhorf vinnuveitanda til hæfni eldri starfsmanna óháð aldri þeirra er því afgerandi til þess að fleiri velji að halda áfram í starfi eftir að þeir hafa náð aldri til þess að hætta því. Er það ekki  vinnuveitanda í hag að  starfsmaðurinn sé í starfi þar sem sérþekking hans nýtur sín sem best eða að hæfni starfsmannsins og þekking hans sé nýtt til þess að leiðbeina yngri samstarfsmönnum?

Í skýrslunni er vinnuveitendum gefin góð ráð eins og að spyrja eldri starfsmenn í starfsmannaviðtölum um þarfir þeirra og  óskir og hvernig þeir sjái starf sitt fyrir sér til framtíðar. Ekki hvað síst gæti vinnuveitandi spurt hvað hann geti gert til þess að starfsmaðurinn vilji vera áfram í starfi og hvernig megi nýta og þróa hæfni hans.

Svarendur í netkönnuninni voru rúmlega eitt þúsund. Þar af voru konur voru 60% og karlar 40%. Munur var á svörum eftir kyni og starfsstéttum og réði efnahagur til dæmis  minna um hjá körlum en konum hvort unnið væri lengur fram eftir aldri og er það skýrt meðal annars með því að konur hafi lægri laun en karlar og geta því vænst lægri eftirlauna. Starfsmönnum virtist almenn líða vel í starfi og sögðust 85% svarenda vera ánægðir í starfi og 80% ánægðir hjá vinnuveitandanum og töldu þeir starfsorku sína mikla eða mjög mikla. Þeim sem þannig líður sjá sig helst halda áfram í starfi eftir 66 ára og sama á við um þá sem eru í fullu starfi fremur en hlutastarfi. Af starfsstéttum voru framhaldsskólakennarar ánægðastir í starfi.

Annað sem kemur fram í skýrslunni er meðal annars  að fjöldi starfsmanna 65 ára og eldri hefur aukist um næstum 75% hjá sveitarfélögum síðan árið 2012 og meira en tvöfaldast hjá héraðsumdæmum á sama tímabili. Venjulegt er að starfsmaður 65 ára og eldri sé á tímakaupi og á það fremur við hjá svæðisumdæmum en hjá sveitarfélögum.

Skýrslan Förlängt arbetsliv er einkum ætluð þeim sem sjá um fræðslu hjá sveitarfélögum og héraðsumdæmum sem hvatning til þess að þeir hugi að hæfni eldri starfsmanna. Skýrsluna má nálgast á slóðinni https://skr.se/skr/tjanster/rapporterochskrifter/publikationer/forlangtarbetsliv.79312.html

Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir

Að kunna að njóta litlu hlutanna í lífinu

Maria Branyas er elsta manneskja heims. Hún varð 117 ára í síðustu viku.  Maria býr í Girona í Katalóníu. Hún er eldhress, minnið er gott og hún hefur ekki fengið krabbamein eða strítt við hjarta- eða æðasjúkdóma. Hún segist sjálf ekki hafa gert neitt sérstakt sem hún geti þakkað langlífið.

Eða hvað…?
Það virðist nefnilega vera eitt framar öðru sem ýtir undir langlífi. Við komum að því.

Maria Branyas 117 ára

Tilvera Mariu var róleg, fábreytt og giska fín þar til allt í einu fyrir rúmu ári, þá varð hún bókstaflega heimsfræg. Af því að þá dó hin franska Lucile Randon sem var orðin 118 ára. Og allt í einu vildu dagblöð um allan heim tala við „nýju“elstu konu heims, forseti Katalóníu bauð henni í heimsókn og Twitter-reikningur hennar sprakk nánast. Aðstandendur Mariu leyfðu þessari frægð að malla um stund, en svo var dyrunum að heimili hennar lokað.

Lífslíkur á Spáni eru þær 5. lengstu í heiminum, á eftir Japan, Sviss, S-Kóreu og Singapúr. (Ísland er nokkrum sætum neðar.) Hér í landi (Spáni) eru tæplega 20.000 manns sem hafa lifað í heila öld. 758 eru komnir yfir 105 ára aldurinn og vitað er um þrjá sem eru yfir 110 ára.
Manel Esteller, sérfræðingur í krabbameinslækningum, fékk að taka sýni úr munnvatni, blóði og þvagi Mariu. Sér til mikillar furðu komst hann að því að frumur Mariu eru 10 árum yngri en þær eiga að vera (ekki biðja mig um að útskýra þetta).

Og þá komum við að lyklinum að langlífi, eða þannig: Lola Merino sálfræðingur við Complutense háskólann í Madrid hefur tekið viðtöl við tugi manns sem náð hafa 100 ára aldri. Hún segir að eitt einkenni lífshlaup þeirra allra. „Þau kunna að njóta litlu hlutanna í lífinu sem veita þeim gleði og þau virðast hafa það að leiðarljósi að nálgast hlutina með jákvæðri afstöðu. Þau eiga jákvæði samskipti við annað fólk, þeim finnst þau vera elskuð og þau leggja áherslu á að sýna öðrum ástúð. “

Maria segist vera búin að sætta sig við og undirbúa sig fyrir dauðann fyrir lifandis löngu. Hann sé guðvelkominn þegar hann kemur.

„Það eina sem ég óska mér eftir að ég hverf á braut er að einhverju fólki finnist það hafa verið þess virði að hafa mig í lífi sínu um stund “, segir Maria Branyas, elsta manneskja heims.

Jóhann Hlíðar Harðarson

Magnavita - Magnað líf á 3ja æviskeiði

Útskrift fyrsta hópsins úr Magnavitanáminu í HR í desember 2023

Nú er opið fyrir skráningu í stórkostlegt nám sem Magnavita og Opni Háskólinn í Reykjavík bjóða upp á fyrir fólk á þriðja æviskeiði. Námið stendur yfir í tvær annir, það hefst í september 2024 og því lýkur með útskrift í apríl 2025. Kennsludagar eru á miðvikudögum, að jafnaði einn dag í viku og kennt er í HR. Námið er sniðið fyrir fólk á aldrinum 55-75 ára sem er um það bil að ljúka föstu starfi eða hefur þegar lokið því. Tilgangur Magnavita-námsins er að fjölga spennandi og heilbrigðum æviárum.

Við lítum svo á að 3ja æviskeiðið sé nk uppskerutímabil lífsins þar sem lífsgæða er notið og tíminn nýttur eins vel og mögulegt er. Við erum á sama tíma auðmjúk gagnvart því að lífsgæði snúast um marga þætti, yfir sumum þeirra höfum við vald og öðrum ekki. Áherslan í Magnavita-náminu er á andlega, líkamlega, félagslega og fjárhagslega hreysti okkar.

Lífið er magnað en um leið hverfult. Lífslíkur kvenna á Íslandi eru með þeim mestu í heimi. Meðalævilengd kvenna er 84 ár og karla 81 ár. Til að meta heilsufar fólks hafa Hagstofur þjóða þróað og birt mælikvarða á fjölda þeirra æviára sem við njótum heilsu, þ.e. mælikvarða sem segir til um hverjar séu lífslíkur við góða heilsu eins og mælikvarðinn er kallaður hér heima. Verið er að meta hversu lengi fólk lifir án þess að vanheilsa hamli daglegu lífi þess. Í skýrslu sem forsætisráðuneytið birti 2019 og ber heitið Mælikvarðar um hagsæld og lífsgæði kemur fram að lífslíkur við góða heilsu meðal kvenna á Íslandi var 66 ár árið 2015. Þá voru lífslíkur 84 ár og því má segja að 18 síðustu árin (að meðaltali) hefðu konur mátt vænta þess að vanheilsa hamli þeirra daglega lífi. Karlar gátu gert ráð fyrir lífslíkum við góða heilsu til 71 árs.

Sjá mynd úr skýrslunni:

Svipaðar um lífslíkur við góða heilsu komu fram í skýrslu sem Lýðheilsustofnun Englands (Public Health England) gaf út árið 2017. Skýrslan ber heitið Health Profile for England, þar kemur fram að konur á Englandi máttu vænta þess að munur á heildar-lífslíkum þeirra og lífslíkum við góða heilsu (e. Healthspan) væri rúm 19 ár. Þessar skýrslur varpa köldu ljósi á þriðja æviskeiðið en um leið eru þær hvatning til forvarna í heilbrigðismálum á landsvísu og ekki síður hvatning til einstaklinga um að nýta sér þekkingu sem stuðlað getur að því að við bætum eigið líf innan þess ramma sem við getum.

Stofnendur Magnavita eru Benedikt Olgeirsson, Guðfinna Sesselja Bjarnadóttir og Sigríður Olgeirsdóttir. Ofangreindar upplýsingar ásamt fleiru voru okkur hvatning til að þróa starfsemi Magnavita sem snýst um alls kyns verkþætti til að fjölga spennandi og heilbrigðum æviárum. Við ákváðum strax í upphafi að byrja á að þróa nám sem tæki á helstu þáttum sem við getum sem einstaklingar tekið á til að stuðla að góðu lífi á 3ja æviskeiði. Í janúar 2023 hóf fyrsti Magnavita hópurinn nám í Opna Háskólanum í HR og annar hópur í september 2023. Í náminu eru margvísleg námskeið um mikilvæg efni eins og um tilgang lífisins, hagnýta heimspeki, að fjölga heilbrigðum æviárum, nýsköpun og fjármál, tengslanet, húmor og áhugamál, menningu og listir o.fl. Nú þegar fyrsti hópurinn hefur útskrifast og sá næsti mun klára námið í apríl 2024 þá erum við reynslunni ríkari. Í lokaverkefnum segja nemendur frá breytingum á lífsstíl og á eigin lífi og halda þannig til haga því sem þau hafa áorkað í náminu fyrir sig sjálf og hvetja um leið samnemendur til dáða.

Að loknu námi eru nemendur með skýra sýn og markmið fyrir þriðja æviskeiðið. Margir nemendur hafa tekið myndarlega á eigin lífstíl og venjum, farið út fyrir þægindarammann til að þroskast og takast á við spennandi framtíð. Í hópnum eru einstaklingar sem hafa stofnað ný fyrirtæki eða breytt núverandi fyrirtækjum, eflt sig andlega og líkamlega, farið á vit ævintýra, sett sér spennandi markmið og fundið leiðir til að auka líkamlegan, andlegan, félagslegan og fjárhagslegan styrk sinn. Útskriftarhópurinn heldur vel saman, ýmsir hópar hafa verið settir af stað og eru í gangi, m.a. útivistarhópur, menningarhópur og golf-hópur. Við erum skólasystkin sem eigum okkur dásamlega vináttu og samstöðu. Öll erum við með sama markmið um að stuðla að spennandi og heilbrigðum æviárum innan þeirra marka sem við getum sjálf og það er stórkostlegt.

Guðfinna Sesselja Bjarnadóttir

Minestrone frá Sardiníu lengir lífið

Ítalska eyjan Sardinía er eitt af „bláum svæðum“ heimsins þar sem langlífi er áberandi mest. Það sem fólk á þessum svæðum á sameiginlegt er að gróft korn, grænmeti, baunir, rótarávextir, fræ og hnetur eru a.m.k. 80% af mataræði þeirra. Einn algengasti réttur á borðum sardínískra fjölskyldna er minestronesúpa, sem hægt er að breyta eftir árstíðum og aðlaga því sem kemur ferskast upp úr garðinum, en uppistaðan er alltaf baunir og fregola-pasta, sem er vinsælt á Sardiníu. Sardiníubúar segja að einn bolli af baunum á dag lengi ævina um nokkur ár.

Hér kemur réttur aprílmánaðar frá Blue Zones.
Þessi uppskrift er fyrir 6-8 manns þannig að það er tilvalið að bjóða stórfjölskyldunni í hádegismat eftir hressandi gönguferð í vorgjólunni.

Innihaldsefni:

  • 1,5 dl þurrkaðar smjörbaunir (Limabaunir)
  • 1,5 dl þurrkaðar Pintobaunir
  • 1,5 dl þurrkaðar kjúklingabaunir
  • (eða niðursoðnar baunir, 1 dós af hverri tegund)
  • góð jómfrúar ólífuolía
  • 1 saxaður laukur
  • 4 gulrætur skornar í bita
  • 3 sellerístilkar skornir í bita
  • 4-5 söxuð hvítlauksrif
  • 1 dós saxaðir tómatar
  • 4-6 kartöflur (eftir stærð), flysjaðar og skornar í bita
  • 3,5 dl fennel, skorið smátt
  • 1 dl söxuð steinselja
  • 1 tsk oregano
  • 1,5 dl fregola pasta frá Sardiníu, perlukúskús (ísraelkúskús) eða perlubygg
  • ½ tsk salt
  • ½ tsk svartur pipar
  • 50 g rifinn Pecorino eða Parmesan ostur

Aðferð:

  1. Leggið baunirnar í bleyti í stórri skál af vatni a.m.k. 8 klst eða yfir nótt. Hellið vatninu af og skolið. (Ef notaðar eru niðursoðnar baunir er hellt af þeim og þær skolaðar, þær þurfa ekki mikla suðu og eru látnar í pottinn þegar eftir eru um 15 mínútur af suðutímanum).
  2. Hitið 3-4 msk af olíu í stórum potti. Setjið lauk, gulrætur og sellerí í pottinn og steikið á meðalhita í um 5 mínútur. Bætið hvítlauknum út í og látið hann mýkjast.
  3. Setjið tómata, kartöflur, fennel, steinselju, oregano og þurrkuðu baunirnar í pottinn ásamt 1,5-2 l af vatni þannig að það fljóti vel yfir allt saman. Ef notaðar eru niðursoðnar baunir eru þær settar út í síðar.
  4. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann og sjóðið við hægan hita í pottinum í u.þ.b. 1 ½ klst. Bætið meira vatni í pottinn ef þarf.
  5. Bætið pasta eða perlukúskús, salti og pipar í pottinn (ásamt dósabaununum ef við á) og hrærið vel. Bætið allt að 5 dl af vatni út í ef þarf. Látið sjóða áfram við hægan hita þar til pastað er soðið, u.þ.b. 10 mínútur. Ath. að ef notað er perlubygg þarf það lengri suðu.

Setjið 1 msk. af góðri jómfrúarolíu í hvern disk, hellið súpunni í diskana og stráið rifnum osti yfir.

Það er tilvalið að breyta til og nota það grænmeti sem er ferskast og fallegast hverju sinni, t.d. kúrbít, strengjabaunir, hvítkál, grænkál, blómkál eða spergilkál. Þau sem vilja hafa súpuna bragðmeiri geta sett chiliflögur í hana, eða gefið súpunni miðjarðarhafskeim með því að kryddað hana með broddkúmeni, kóríander og túrmerik.

Sólveig H Georgsdóttir

Viðburðir U3A Reykjavík í apríl 2024

F.v.: Sigga Dögg, HaraldurSigurðsson, Björn Oddsson, Pálmi V. Jónsson

Á meðan við bíðum eftir vorinu  býður U3A Reykjkavík upp á eftirfarandi þriðjudagsfyrirlestra:

9. apríl – Allt sem fallegt er.
Sigga Dögg kynfræðingur fjallar um kærleikann, nandina og ástina og hvernig krydda megi lífið með húmor og leik að leiðarljósi.
https://u3a.is/vidburdir/allt-aem-er-falledt/

16. apríl – Samfélag eftir máli.
Haraldur Sigurðsson skipulagsfræðingur kynnir bók sína um skipulag borga, bæja og þorpa á Íslandi á 20 öldinni.
https://u3a.is/vidburdir/samfelag-eftir-mali/

23. apríl Bangsimon Bjalla
Björn Oddson akademiker á eftirlaunum kynnir þýðingu sína á ljóðabók Celina Cönz sem er ein vinsælasta barna- og unglingabók í Sviss.  Boðið verður upp á kaffiveitingar og bókin verður til sölu.
https://u3a.is/vidburdir/bangsimin-bjalla/

30. apríl Þjónusta við aldraða

Pálmi V. Jónsson öldrunarlæknir fjallar um sína sýn á umönnun og þjónustu við aldraða og aðstandendur þeirra.
https://u3a.is/vidburdayfirlit/

Með kveðju frá stjórn U3A Reykjavík.

Scroll to Top
Skip to content