Aðalfundur U3A Reykjavík 2020 var haldinn þriðjudaginn 1. september 2020 kl. 16:30 í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, sal á 2. hæð. Í salnum var rými fyrir 40 manns með 2ja metra bili milli sæta. Salurinn var fullsetinn.
Fundurinn var boðaður með tölvupósti til allra félaga og á heimasíðu samtakanna 14. ágúst.
Dagskrá aðalfundar var boðuð samkvæmt samþykktum U3A:
Setning fundar
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla stjórnar kynnt og umræður um hana
Reikningar félagsins lagðir fram og bornir upp til samþykktar
Umræður um starfið framundan
Ákvörðun árgjalds
Breytingar á samþykkt
Kosning formanns, stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga ásamt einum til vara
Önnur mál
1. Formaður setti fund og bauð félaga velkomna.
2. Formaður lagði til að Lilja Ólafsdóttir tæki við fundarstjórn og að Birna Bjarnadóttir annaðist fundarritun. Engar athugasemdir voru gerðar, var það samþykkt og tók Lilja við fundarstjórn.
3. Fundarstjóri gaf formanni orðið um skýrslu stjórnar. Nokkur eintök af skýrslu stjórnar lá frammi á fundinum og verður skýrslan sett inn á heimasíðu að fundi loknum. Hún gerði grein fyrir stjórnarskipun og stjórnarfundum á starfsárinu sem var lengra vegna heimsfaraldursins. Þá gat hún um félagafjölda og aldurssamsetningu. Gat hún um fjármál samtakanna en gjaldkeri mun gera frekari grein fyrir þeim.
Á tímabilinu voru haldnir um 30 fræðslufundir og nokkrar heimsóknir voru farnar og námskeið haldin. Meðalfjöldi þátttakenda á fræðslufundum var 65 manns. Þá gat hún um bókmenntahópinn sem Ásdís Skúladóttir hefur annast en annað hópastarf hefur ekki verið á starfsárinu. Skiptiheimsókn var við félaga í Eurag Prag í maí og september og skipulag var á höndum formanns og Guðrúnar Bjarnadóttur. Umtalsverð vinna fór í kynningu á samtökunum meðal annars með útgáfu á kynningarbæklingi, kynningu á vöku Rannís og á fundum annarra samtaka auk viðtala við fyrrverandi formann og formann í sjónvarpi. Samtökin eru aðili að Reykjavíkurakademiunni og hafa þar skrifstofuaðstöðu. U3A hefur tekið þátt í þremur erlendum samstarfsverkefnum eins og Catch the BALL og í framhaldi þess Vöruhúsi tækifæranna. Síðan er enn í gangi verkefnið HeiM Heritage in Motion sem beinist að hönnun gönguleiða í leit að menningararfinum.
Að lokum gerði formaður grein fyrir starfinu framundan. Þar er helst að telja að fyrirlestrar verði sendir út með fjarfundabúnaðinum Zoom frá fundarsalnum í Hæðagarði. Ný heimasíða er í vinnslu af hálfu Maríönnu Friðjónsdóttur og sem væntanleg verður virk síðar í þessum mánuði.
Viðburðadagskrá verður skipulögð og kynnt síðar, en fyrsti fundur verður næsta þriðjudag í Hæðargarði sem mun taka 20 manns og í streymi fyrir aðra félaga og næsta laugardag þar á eftir verður farið í verð í Reykholt. Þá þakkaði formaðurinn framlag félagsmanna og annarra sem hafa gefið vinnu sína í þágu samtakanna sem og starfsmönnum í Hæðargarði.
4. Gjaldkeri gerði grein fyrir reikningum samtakanna og verkefna á vegum þeirra. Jón Ragnar gerði aðeins grein fyrir streymisforritunu Zoom með webinar sem samtökin eru að undirbúa að nota á fræðslufundum í vetur.
Þá gerði hann grein fyrir ársreikningi U3A fyrir árið 2019. Tekjur voru 5.356.507 en gjöld voru 5.035.337. Rekstrarafkoma er 321.170. Eignir og skuldir námu 1.701.619. Gerði hann grein fyrir innstreymi og útgjöldum vegna Prag ferðar sem skilaði nokkrum umfram tekjum.
Þá gerði hann grein fyrir ársreikningi Vöruhúss tækifæranna. Tekjur voru 844.325 og gjöld 1.595.715. Halli nam 751.390. Eignir 903.099.
Að lokum var lagður fram ársreikningur fyrir Heritage in Motion sem vara lagður fram í evrum, Tekjur eru 29.728.00 Evrur en gjöld 10.680.53. Rekstrarafgangur 19.047.47 evrur á kaupgengi 135.42 sem er Isl kr. 2.279.408.
Allir ársreikningarnir voru undirritaðir af ábyrgðarmönnum, gjaldkera og skoðunarmönnum. Reikningarnir voru bornir upp til afgreiðslu. Engar athugasemdir komu fram. Reikningar voru samhljóða samþykktir.
Fundarstjóri gaf þá orðið laust um skýrslu stjórnar og starfið framundan. Enginn kvaddi sér hljóðs og var dagskrárliðurinn afgreiddur.
5. Ákvörðun um árgjald.
Stjórn leggur fram tillögu um hækkun árgjalds í kr 2.000 og þess í stað verði innheimta fundargjalda á fræðslufundum felld niður. Tillagan samþykkt. Formaður gerði grein fyrir að innheimta árgjaldsins 2020 fer fram að loknum þessum aðalfundi.
6. Kosningar.
Formaður var kjörinn til eins árs á síðasta aðalfundi og gefur Birna Sigurjónsdóttir kost á sér til endurkjörs. Kosning formanns var samþykkt með lófataki. Hans Kr. Guðmundsson, Jón B. Björnsson, Ingibjörg Ásgeirsdóttir og Vera Snæhólm voru kjörin til tveggja ára á síðasta aðalfundi. Birna Bjarnadóttir var kjörin til 2ja ára á síðasta fundi og er því til endurkjörs og gefur kost á sér. Jón Ragnar Höskuldsson hefur setið tvisvar í tveggja ára tímabil en hefur nú lokið þeim tíma. Stjórnin leggur til undantekningu frá þessum ákvæðum og að Jón Ragnar verði kjörinn til 2ja ára. Tillögur um kjör Birnu og Jóns Ragnar samþykktar.
Lagt til að skoðunarmenn verði endurkjörnir Lilja Ólafsdóttir og Gylfi Þór Einarsson og Þórleifur Jónsson til vara. Tillagan samþykkt.
7. Fundarstjóri gerði grein fyrir að engar breytingar á samþykkt félagsins liggja fyrir fundinum. Dagskrárliðurinn var þannig afgreiddur.
8. Þá gaf fundarstjóri orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs og lýsti fundarstjóri dagskrá aðalfundar lokið og gaf nýkjörnum formanni orðið.
Formaður þakkaði traust fundarins með endurkjöri formanns og samþykki kjörs stjórnarmanna. Formaður lagði fram beiðni til fundarmanna um að þeir gefi kost á sér til að leiða starf hópa á vegum samtakanna sem og hugmyndir um fundarefni.
Fram kom hugmynd um að bjóða íbúum dvalarheimila á fundi samtakanna. Einnig kom fram tillaga um heimsókn í Alvotek. Fram kom hugmynd um námskeið um vesturfarana. Þá kom fram ánægja með heimsóknir á Listasafn Reykjavíkur en nú vantar formann menningarhóps til að skipuleggja slíkar heimsóknir. Fram kom hugmynd um námskeið þar sem kennt væri hvernig eigi að detta og beitingu raddar en röddin breytist oft með aldri. Námskeið um starfslok geta einnig verið fræðandi að mati fundarmanns.
Formaður óskaði eftir afstöðu fundarmanna til streymis á fræðslufundum. Ánægja kom fram með framtakið. Fram kom að hægt væri að vista fundinn á takmarkaðan tíma með samþykki fyrirlesara. Rætt um dagsferðir inn á hálendið. Vantar skipulagðar gönguferðir á dagtíma sem reynir á fótinn. Ekki síst innan borgarinnar. Fram kom hugmynd um að fá sendiherra ýmissa landa til að koma og ræða um aðstæður í sínum löndum.
Fleira kom ekki fram. Formaðurinn þakkaði fyrir góðar hugmyndir og sagði að hún færi af fundinum full af bjartsýni.
Fundi slitið kl 17:40
Birna Bjarnadóttir, fundarritari.