Stjórn U3A Reykjavík er skipuð sjö mönnum. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi ár hvert og má sitja í þrjú ár. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir á aðalfundi til tveggja ára og geta setið að hámarki tvö kjörtímabil. Stjórnarmenn eru:
Birna Sigurjónsdóttir, formaður starfaði sem verkefnisstjóri á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur áður en hún lét af störfum. Hún er með B.Ed. kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands og M.Ed. gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum frá sama skóla. Hún hefur starfað að skólamálum og félagsmálum fyrir Kennarasamband Íslands og var virk í Kvennalistanum frá stofnun hans og átti sæti á framboðslistum bæði til alþingis og bæjarstjórnar í Kópavogi.
Birna Bjarnadóttir, varaformaður lauk námi frá Kennaraskóla Íslands og kenndi í framhaldsskólum áður en hún tók við starfi sem skólastjóri Bréfaskólans. Sat í bæjarstjórn Kópavogs í nokkur ár. Starfaði við stjórnun heilsugæslustöðva frá 1992, síðast í stjórnsýslu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Kom að stofnun Dansíþróttasambands Íslands og var fyrsti formaður þess. Sat í stjórn Fræðagarðs stéttarfélags innan BHM. Er fulltrúi í nefndum AGE-Platform Europe um málefni aldraðra og aðili að Eurag, evrópskum samtökum um málefni aldraðra.
Hans Kristján Guðmundsson, meðstjórnandi er með doktorsgráðu í eðlisverkfræði frá KTH í Stokkhólmi. Hann hefur unnið að vísinda- og nýsköpunarmálum alla tíð, m.a. við Háskóla Íslands, Iðntæknistofnun, sem vísindafulltrúi hjá EFTA og Sendiráði Íslands í Brussel, rektor NorFA í Osló, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís) og forseti viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hann hefur síðustu árum unnið að málefnum þriðja æviskeiðsins á vettvangi U3A, gegndi formennsku árin 2015 – 2019 og verið virkur í alþjóðastarfi samtakanna, þar á meðal í þremur verkefnum í Evrópusamstarfi.
Ingibjörg Ásgeirsdóttir, meðstjórnandi hefur kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands, MA í námskrárfræðum frá Lundúnaháskóla og MPA í opinberri stjórnsýslu frá HÍ. Hóf starfsferil sem grunnskólakennari, varð síðan ritstjóri námsefnis hjá Námsgagnastofnun þá útgáfustjóri og loks forstjóri þeirrar stofnunar.Hefur verið meðstjórnandi í Félagi Sameinuðu þjóðanna, Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, Félagi íslenskra bókaútgefenda og formaður í Félagi stjórnsýslufræðinga.
Jón B. Björnsson, meðstjórnandi er stúdent frá MA, nam sálfræði í Þýskalandi. Starfaði sem sálfræðingur hjá Reykjavíkurborg, félagsmálastjóri hjá Akureyrarbæ, sviðsstjóri félags-, uppeldis- og menningarmála. Hann hefur starfað sjálfstætt frá 2001 við barnaverndarmál, kennslu, fyrirlestrahald, fararstjórn og fleira. Höfundur fimm bóka. Sat í fyrstu stjórn U3A og hefur tekið þátt í þremur evrópskum samstarfsverkefnum á vegum U3A.
Jón Ragnar Höskuldsson, gjaldkeri starfar við hönnun og forritun upplýsingakerfa.
Vera Snæhólm, meðstjórnandi þroskaþjálfi er með B.Ed. próf frá HÍ. Hún lauk áður námi frá Gæslusystraskóla Íslands. Bjó í Toronto, Kanada í 18 ár og starfaði við aðhlynningu og gæðastjórnun á öldrunarheimilum. Var um tíma, í stjórn í Norræna Félaginu í Toronto. Eftir heimkomu var hún deildarstjóri á Landspítalanum í Kópavogi um árabil og lauk á þeim tíma B.Ed. prófi við Þroskaþjálfaskor HÍ. Síðustu starfsárin starfaði hún í Námsveri Kópavogsskóla.