Skýrsla stjórnar 2023-2024

Skýrsla stjórnar U3A Reykjavík
starfsárið 2023 – 2024

Lögð fram á aðalfundi samtakanna 19. mars 2024

Stjórn U3A Reykjavík starfsárið 2023-2024. Frá vinstri: Hjördís Hendriksdóttir, Steinunn Ingvarsdóttir, Birna Sigurjónsdóttir, Guðríður Þorsteinsdóttir, Guðrún Bjarnadóttir og Þórleif Drífa Jónsdóttir

Stjórn U3A Reykjavík starfsárið 2023-2024.
Frá vinstri: Hjördís Hendriksdóttir, Steinunn Ingvarsdóttir, Birna Sigurjónsdóttir, Guðríður Þorsteinsdóttir, Guðrún Bjarnadóttir og Þórleif Drífa Jónsdóttir

Stjórn og stjórnarstarf

 

Á aðalfundi 21. mars 2023 var  Hjördís Hendriksdóttir kjörin formaður til eins árs. Guðríður Þorsteinsdóttir og Þórleif Drífa Jónsdóttir voru á síðara ári tveggja ára umboðs til stjórnarsetu. Borgþór Arngrímsson, Emma Eyþórsdóttir og Hans Kristján Guðmundsson gengu úr stjórn og  Guðrún Bjarnadóttir, Birna Sigurjónsdóttir, Steinunn Ingvarsdóttir og Örn Bárður Jónsson voru kjörin til tveggja ára stjórnarsetu.

 

Stjórn skipti með sér hlutverkum og starfsárið  2023 til  2024 var Þórleif Drífa Jónsdóttir varaformaður, Guðríður Þorsteinsdóttir ritari, Guðrún Bjarnadóttir gjaldkeri,  Birna Sigurjónsdóttir og Steinunn Ingvarsdóttir meðstjórnendur. Örn Bárður Jónsson gekk úr stjórninni vegna anna eftir skamma setu. Stjórnin hefur unnið samkvæmt starfslýsingu í 8. gr. í samþykkt samtakanna og er stjórnarstarfið unnið í sjálfboðavinnu.

Stjórnin hefur haldið 10 fundi á starfsárinu. Verkaskipting var staðfest á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Á stjórnarfundum var almennt fjallað um starfsemi samtakanna og hvernig megi efla þau, dagskrá og skipulag viðburða, miðlun og upplýsingagjöf til félaga, viðhald heimasíðu, fjárhag, kynningar og samstarf við aðila innanlands sem erlendis.

Stjórnarmenn skipta með sér að leita til fyrirlesara ásamt því að sjá um undirbúning og stýra fundum í streymi og í sal. Þeir skipta einnig með sér þátttöku í hópastarfi og eru tengiliðir hópanna við stjórnina.

U3A Reykjavík sagði upp aðild að Reykjavíkurakademíunni í desember 2022 og í byrjun árs 2023 gerðist félagið aðili að samtökum um Almannaheill. Um er að ræða samtök almannaheillafélaga og sjálfseignastofnana sem ætlað er að vinna að heill ótiltekins fjölda einstaklinga án hagnaðarsjónarmiða. Almannaheill hafa fundaraðstöðu í Urriðaholtsstræti 14 í Garðabæ og fær U3A Reykjavík afnot af aðstöðunni fyrir stjórnarfundi og smærri námskeið á vegum stjórnar og hópa innan félagsins.

Ársskýrsluna í heild inni er hægt að sækja efst á þessari síðu.

Scroll to Top
Skip to content