Allir í sumarfrí, líka Fréttabréf Vöruhúss tækifæranna og U3A Reykjavík
Þó að hitatölurnar hér heima Íslandi skríði fremur hægt upp á við þá eru flest okkar komin vel af stað með að undirbúa sumarið okkar. Fyrir mörg okkar er þetta langþráð sumar eftir langt COVID tímabil með takmarkandi reglum og hömlum á allar samkomur. Við hjá Vöruhúsi tækifæranna fundum fyrir samdrætti í tækifærum og viðburðum fyrir 50+ og reyndum að vekja athygli á viðfangsefnum sem hægt er að sinna án þess að vera innan um aðra.
Nú þegar stór hluti Íslendingar er fullbólusettur og það lítur út fyrir að almennum bólusetningum ljúki um mitt sumar finnur maður fyrir bjartsýni og tilhlökkunar að geta gert allt það sem við gátum ekki mánuðum saman einsog að koma saman og að ferðast.
Í þessu fréttabréfi vekjum við athygli á alls konar ferðatækifærum, bæði innanlands og erlendis, og þá sérstaklega lífstílsferðum þar sem líkamleg hreyfing og andleg slökun eru í fyrirrúmi.
Auk þess vekjum við athygli á sumarúrræðum stjórnvalda sem felst í að bjóða almenningi upp á stutt fjölbreytt sumarnámskeið á verði sem allir ættu að ráða við.
Stjórn Vöruhúss tækifæranna fer nú í sumarfrí og því mun næsta fréttabréf ekki koma út fyrr en 7. september. Við mun hins vegar halda áfram að setja tilkynningar og fréttir inn a facebooksíðu Vöruhúss tækifæranna https://www.facebook.com/voruhustaekifaeranna
Stjórn Vöruhúss tækifæranna óskar ykkur gleðilegs sumars.
Sólstöðuganga Þórs Jakobssonar í Viðey
Undanfarið höfum við sagt frá þátttöku íslenskra U3A Reykjavík félaga í Evrópska samtarfsverkefninu HeiM – Leiðir að menningararfinum. Verkefnið, sem unnið var í samstarfi við Króatíu, Pólland og Spán, fól í sér að hönnun gönguleiða um staði sem tengjast sögu og menningu hvers lands fyrir sig. Hvert teymi vistaði sína gönguleið með snjallasímaforritinu Wikiloc, bæði á eigin tungumáli og á ensku.
Íslensku þátttakendurnir hönnuðu fimm leiðir: Gengið um Hólavallagarð, Reykjav, sögulegar styttur, Gönguleið í náttúrunni í Ellíðaárdal og Laugarnes í Reykjavík. Fimmta gönguleiðin. Sólstöðuganga í Viðey, er framlag hjónanna Þórs Jakobssonar og Jóhönnu Jóhannesdóttur og hér má lesa frásögn Þórs um leiðina:
Leiðin sem valin var í verkefninu var ein af gönguleiðunum sem hefur verið farin undanfarin ár í sólstöðugöngu í Viðey. Það vorum við Jóhanna Jóhannesdóttir konan mín sem fórum með farsímann að vopni. Í símanum er appið WIKILOC sem við settum af stað við brottför með ferjunni frá Skarfabakka út í Viðey. Sem sjá má á myndunum sem við tókum er snjór yfir öllu. Því er auðvitað ekki að heilsa á sumrin þegar sól er hæst á lofti, en þessi vetrarganga okkar var engu að síður skemmtileg og góð æfing.
Á sumarsólstöðum er lengsti dagur ársins og stysta nóttin. Síðan tekur dag að stytta á ný og hádegissól að lækka smám saman, hænufet á dag eins og sagt er. Þannig líða árstíðirnar, ein af annarri, hver með sín einkenni sem ákvarðast af göngu jarðar um sólu.
Náttúran á jörðinni, veður, höf og lífríki, slær í takt við þennan gang sem aldrei hættir. Ár eftir ár, aldir og þúsaldir, koma árstíðirnar og fara. Lífið á jörðinni mótast af því, gróður, dýralíf, sjálf menningin frá örófi alda. Fyrir ævalöngu hófu menn að fylgjast nákvæmlega með gangi sólar. Þannig var rás tímans mæld og árstíðir náttúrunnar, vor, sumar, haust og vetur, mótuðu lífsbaráttuna. Sólstöðudagurinn er því sannarlega merkileg tímamót.
Árleg sólstöðuhátíð seinni tíma hér á landi hófst með sólstöðugöngu frá Þingvöllum til Reykjavíkur 21. júní 1985. Síðan voru gengnar ár hvert ýmsar leiðir í nágrenni höfuðstaðarins á sumarsólstöðum og einnig hefur vetrarsólstöðum verið fagnað með ýmsum hætti. Um það bil áratug var farið hring á Öskjuhlíð en nú síðasta áratuginn hefur sólstöðugangan verið í Viðey. Dagsins er minnst um leið og notið er útivistar og samfylgdar þátttakenda.
Vígorð sólstöðugöngu, sólstöðuhátíðar, „meðmælaganga með lífinu og menningunni“, hefur fengið hljómgrunn. Æ fleiri á Íslandi skipuleggja sólstöðuhátíðir, en allt frá upphafi hefur verið stuðlað að því að hugmyndin breiddist út. Mælt hefur verið með því að fólk víðs vegar um land fagni sólstöðum með jákvæðum hætti hver á sína vísu, jafnvel einir sér í kyrrþey eða margir saman með látum.
Næsta ganga, sem er á vegum Sólstöðuhóps og Borgarsögusafns Reykjavíkur, verður 21. júní 2021 og gefst þá tækifæri til að njóta útivistar og skoða sögulegar minjar í Viðey. Velkomin!
Þór Jakobsson, veðurfræðingur
Hún Dagný okkar
Dagný
Hugarsmíðin hún Dagný okkar er 59 ára, gift, alin upp í Fossvoginum en býr núna í Kópavogi. Dagný er kennari að mennt, en rekur í dag Jógafélagið eftir að hafa farið í jóganám. Hún giftist manni sínum um fertugt og kynntust þau hjónin í gegnum sameiginlega vinkonu. Dagný kýs með hjartanu í hverjum kosningum, gefur þeim atkvæði sem henni líst best á. Þessa stundina eru það Píratar sem heilla hana mest.
Dagný er auðmjúk og með jógíska hugsun. Útivera og jóga eiga hug hennar allan ásamt fjölskyldunni. Hún elskar að ferðast, fara í heilsutengdar ferðir þar sem hugur og líkami fá næringu og hvíld. Henni finnst óþarfi að æsa sig upp heldur taka heiminum eins og hann er og gera hann að sínum. Hún trúir á líf eftir dauðann, er farin að huga að efri árunum, kanna með réttindi sín og setja sér sparnaðarleg markmið til þess að eiga öruggt ævikvöld. Þá má geta þess að Dagný stundaði dansnám á sínum yngri árum og fylgist vel með sviðlistum. Hún á stóran vinahóp úr dansinum, kennaranáminu, kennslunni, jógaheiminum og frá barnæsku. Dagný er þó ekki heil heilsu, er með gigt og hefur farið í mjaðmaskipti sem breyttu miklu.
Það sem fær Dagnýju til þess að vera hluti af Vöruhúsi tækifæranna eru traustar upplýsingar um lífsfyllingu, heilsu og fjármál. Einnig finnst henni gaman að heyra af ferðum í boði á hennar áhugasviði, lífsfyllingu, sem Vöruhús tækifæranna gefur henni mörg tækifæri á að kynna sér. Sköpun, fræðsla og réttindi heilla hana líka. Að vera skapandi og taka af skarið með velferð sína og sinna í huga er henni hugleikið og finnur hún margt slíkt efni á vef Vöruhússins.
Þar sem sköpun, fræðsla og réttindi heilla Dagnýju þá eru nytsamar upplýsingar um sköpun sem gætu gagnast henni vel á hillunni Sköpun í rekkanum Færni og upplýsingar um hvaða tækifæri bjóðast um fræðslu í sama rekka á hillunni Nám og fræðsla. Upplýsingar um fjárhagsleg og félagsleg réttindi er að finna í rekkanum Réttindi.
Faðir Dagnýjar er á lífi, tæplega níræður, kominn með elliglöp og býr á hjúkrunarheimili. Mamma hennar dó úr hjartaáfalli um fimmtug. Hún á þrjá bræður. Dagný er barnlaus en maður hennar á son frá fyrra sambandi sem hún elskar sem og hans fjölskyldu. Þau hjónin reyndu að eignast börn en tókst ekki þrátt fyrir að hafa farið í nokkrar tæknifrjóvganir.
U3A Reykjavík
Félagið tók upp þá nýbreytni haustið 2020 að streyma þriðjudagsfyrirlestrum til félagsmanna. Stjórnarmenn hafa séð um útsendingarnar undir styrkri stjórn Jóns Ragnars Höskuldssonar sem sér um tæknimálin. Það hefur verið mikið og ánægjulegt lærdómsferli að taka þátt í þessari þróun.
Þegar samkomutakmarkanir voru sem mestar og salurinn í Hæðargarði lokaður streymdum við fyrirlestrum úr heimahúsi þar sem aðeins fundarstjóri, tæknistjóri og fyrirlesari voru saman komnir, reyndar voru fyrirlesarar stundum á sínum heimavelli og jafnvel staddir erlendis og fluttu fyrirlestra sína þaðan. Okkur fannst mikilvægt að halda útsendingum áfram og þar með halda tengslum við félagsmenn og aldrei var það mikilvægara en einmitt þegar lokun var mest í samfélaginu.
Félagsmenn fengu senda vefslóð á fyrirlesturinn og gátu tengst útsendingum í rauntíma kl. 16:30 á þriðjudögum en einnig horft á upptöku af fyrirlestrinum vikuna eftir að hann var fluttur.
Félagsmenn hafa sannarlega tekið streyminu vel og þátttaka verið mikil. Að meðaltali hafa um 140 manns notið hvers fyrirlestur þegar tekið er saman samtíma áhorf og áhorf eftir á og mest hafa 216 manns tengst einum fyrirlestri. Það er því ljóst að við munum halda áfram að streyma fyrirlestrum ásamt því að bjóða félagsmenn aftur velkomna í sal þegar haustdagskráin hefst.
Stjórnin hefur eins og áður leitast við að hafa fyrirlestrana fjölbreytta til að mæta áhugasviði sem flestra félagsmanna. Félagið hefur notið velvildar hjá fyrirlesurum sem hafa verið fúsir til að koma til okkar og miðla fræðslu og þekkingu sinni til félagsmanna U3A Reykjavík. Fyrirlesarar eiga þakkir skildar fyrir sitt framlag.
Heimsóknir í stofnanir og fyrirtæki, námskeið og hópastarf hafa legið niðri í vetur vegna Covid19 en í haust tökum við upp þráðinn af fullum krafti. Á haustönn áætlum við að halda námskeið um sögu og menningu Gyðinga sem Jón Björnsson og Þorleifur Friðriksson sjá um. Einnig verður námskeið um gerð gönguleiða í Wikiloc sem Einar Skúlason sér um. Sömuleiðs væntum við þess að hópastarf geti hafist í september. Allt verður þetta auglýst þegar nær dregur.
Félagsfundur verður á dagskrá 7. september og þá gefst félagsmönnum tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum sínum og tillögum um vetrarstarfið.
Fjölbreyttar innanlandsferðir í sumar á vegum FEB
Sem fyrr býður Félag eldri borgara upp á fjölbreyttar ferðir í sumar og í ár verður farið bæði á nýjar og hefðbundnar slóðir. Ferðirnar eru öllum opnar.
Nánari upplýsingar er að finna hér: Vöruhús tækifæranna