Fjölgun félaga og fjölbreytt starf U3A Reykjavík haustið 2024

frétt 2024-11-22

Félagsmönnum í U3A Reykjavík hefur fjölgað jafnt og þétt í þau 12 ár sem liðin eru frá stofnun. Nú í nóvember náði fjöldi félagsmanna 1500 félaga markinu. Vikulegir fræðslufundir eru kjarni starfseminnar og nú á haustönn 2024 hafa verið haldnir 14 slíkir fundir. Á félagsfundi að hausti leggja félagsmenn til hugmyndir að viðfangsefnum og stjórnin leitast síðan við að hrinda þeim í framkvæmd.

Í samþykkt U3A Reykjavík kemur fram að samtökin hyggjast stuðla að því að félagsmenn hafi aðgang að fjölbreyttri fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða. Fræðslufundir og hópastarf er skipulagt í þessum anda.

Að meðaltali koma 40 manns í salinn í Hæðargarði á þriðjudögum til að njóta fyrirlestra og fræðslu sem boðið er upp á og til að taka þátt í umræðum. Að jafnaði fylgjast 10 manns til viðbótar með fyrirlestri í streymi. Fyrirlestrarnir eru teknir upp og félagsmenn hafa aðgang að upptökum í fjórar vikur eftir flutning. Á þeim tíma opna að meðaltali 200 manns fyrirlesturinn í eigin tölvu og njóta þannig fræðslunnar. Auk þess hefur U3A Reykjavík gert samning við Landssamband eldri borgara um að veita samtökum þeirra utan höfuðborgarsvæðisins aðgang að upptökunum og geta félögin sýnt þær á fundum sínum. Allt er þetta gert með samþykki fyrirlesara hverju sinni.

Hópastarfið blómstrar einnig, bókmenntahópur hittist reglulega, menningarhópur efnir mánaðarlega til heimsókna í söfn, leikhús eða aðrar menningarstofnanir. Þessar heimsóknir bókast jafnan upp. Umhverfishópur vekur athygli á stöðu umhverfis- og loftslagsmála með reglulegum fyrirlestrum og málþingum. Þá eru ónefndir samráðshópar sem U3A á fulltrúa í, s.s. TUMI sem er tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Fjölmiðlanefnd https://fjolmidlanefnd.is/ sér um Tuma. Nýlega eignaðist U3A svo fulltrúa í Öldungaráði Reykjavíkurborgar.

Birna Sigurjónsdóttir

Scroll to Top
Skip to content