HeiM að lokum – Leiðir að menningararfi – Kynning á vefvarpi

Evrópska Erasmus+ samstarfsverkefninu HeiM, Heritage in Motion – Leiðir að menningararfinum er nú lokið. Markmið þess var meðal annars að sýna markhópnum 50+ sem og öðrum að hann getur tileinkað sér færni á nýja tækni og þekkingu um sinn eigin menningararf og annarra. Á þessum vef má finna margar leiðir að afurðum og niðurstöðum verkefnisins, þar á meðal leiðirnar 21 í evrópsku borgunum fjórum, Alicante, Reykjavík, Varsjá og Zagreb, hannaðar með snjallsímann á lofti og appið Wikiloc.

Það voru níu félagar 50+ í U3A Reykjavík, sem hönnuðu leiðirnar að menningararfi á höfuðborgarsvæðinu. Leiðirnar lágu að menningararfi í Elliðaárdal, Laugarnesi og Kirkjusandi, í kirkjugarðinum Hólavallagarði, styttum í miðborg Reykjavíkur og ein þeirra beindist að þeirri arfleifð sem felst í sólstöðum á sumri. Í Póllandi má nefna leið um Sætu Varsjá þar sem farið var á milli gamalla kaffihúsa og sælgætisgerða í Varsjá. Í Króatíu var það meðal annars menningararfurinn Zagreb og módernisminn sem sýnir hvernig borgin þróaðist frá því á nítjándu öld með því að leggja áherslu á verkamenn og iðnað og á Spáni má nefna þjóðgarðinn La Serra Gelada og Rómversku Villuna í L’Albir. Í öllum löndunum reyndist aldurshópurinn 50+ frábærir túlkendur menningararfsins.

Verkefnið var kynnt á vefvarpi U3A Reykjavík þann 28. apríl s.l. Kynntar voru afurðir þess, bókin Vegvísir um aðferðafræði og leiðirnar sjálfar, með áherslu á þær íslensku. Kynningin er aðgengileg á eftirfarandi youtube slóð:

https://www.youtube.com/watch?v=R2RvXNpUhNw.

Hans Kristján Guðmundsson og Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir, sem hafa borið hitann og þungann af verkefninu fyrir hönd U3A Reykjavík, þakka hér með þeim sem hafa tekið þátt í verkefninu og öllum sem hafa sýnt því áhuga. Þau hvetja jafnframt alla 50+ að ganga út í vorið með símann sér við hönd og feta íslensku leiðirnar eða skrá nýjar að menningararfi sem er þeim hugleikinn.

 

 

Scroll to Top
Skip to content