Frá formanni U3A Reykjavík

Árið 2019 gerðist ég félagi í Háskóla þriðja æviskeiðsins, U3A Reykjavík, fyrir áeggjan fyrrum kollega míns. Ég hafði ekki heyrt af þessu félagi fyrr og fannst hugmyndafræðin á bak við U3A afar spennandi og jákvæð. Mín fyrsta hugsun var að það væri alveg tilvalið fyrir foreldra mína að ganga í U3A Reykjavík og njóta þess sem félagið býður félagsmönnum upp á.

Ég var þó með svolítið blendnar tilfinningar um að ganga sjálf í félagið en þær sneru alfarið að því að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég sjálf væri nú komin á hið svokallaða þriðja æviskeið.  Ég uppgötvaði að ég var fórnarlamb eigin aldursfordóma. Ímynd mín af eldri borgurum litaðist af fréttum um neyðarástand á spítölum vegna fráflæðisvanda sem skapast vegna eldra fólks og myndum sem fylgdu með af rýrum fótum í allt of rúmum inniskóm sem eltu göngugrind. Sagt var frá því að þessi hópur stækkaði sífellt vegna betri lýðheilsu og hækkandi lífaldurs, og væri efnahagsleg byrði á þjóðfélaginu.

Fólk sem nú er á þriðja æviskeiðinu samsamar sig ekki þessari mynd sem dregin er upp af okkur.  Við erum almennt heilsuhraustir og reynslumiklir einstaklingar sem vilja halda áfram að vaxa og þroskast og vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Fljótlega fór ég þó að mæta á þriðjudagsfyrirlestra U3A með pabba.

U3A félög í yfir 60 löndum fylgja þeirri hugmyndafræði stuðla að því að  félagsmenn hafi aðgang að fjölbreytilegu framboði af fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða. Í vaxandi mæli er verið að koma á samstarfi milli þessa U3A félagasamtaka, t.d. með „stúdenta-skiptum“.

Síðustu ár hef ég starfaði fyrst og fremst að verkefni félagsins, Vöruhúsi tækifæranna, sem er markaðstorg tækifæra fyrir fólk á þriðja æviskeiðinu og auðveldar þessum hóp að fá hugmyndir um leiðir til þess að móta sitt eigið þriðja æviskeið sem gæti alveg verið okkar skemmtilegasta æviskeið.

Það kom mér þægilega á óvart þegar óskað var eftir því að ég tæki að mér formennsku stjórnar U3A Reykjavík. Þann stutta tíma sem ég hef verið formaður hef ég kynnst betur þeirri miklu sjálfboðavinnu sem liggur að baki þess að halda úti U3A Reykjavík sem ekki væri hægt nema með vinnu stjórnarmeðlima og annara félaga.

Ég mun leggja mig fram um að verða ekki eftirbátur forvera minna í þessu starfi; Ingibjargar R. Guðlaugsdóttur, Hans Kr. Guðmundssonar og Birnu Sigurjónsdóttur sem eiga heiðurinn að því félagið hefur nú yfir 1200 félagsmenn.

Ég hlakka til að vinna með ykkur öllum á komandi starfsári,

Hjördís Hendriksdóttir
formaður U3A Reykjavík

 

 

Dagur

31.08.2023
Expired!

Tími

08:00 - 18:00

The event is finished.

Scroll to Top
Skip to content