Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur verður með fyrsta fræðslufyrirlestur aprílmánaðar fyrir okkur í U3A Reykjavík. Hann kemur til okkar í Hæðargarðinn 5. apríl kl. 16:30 og segir frá bókinni Cloacina – saga fráveitu. Í bókinni rekur Guðjón tilurð og sögu fráveitunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sú saga er um margt merkileg og áhugaverð en jafnframt flestum lítt kunn. Næsti fyrirlestur verður svo um bókina Tsjernóbyl bænin 19. apríl og er það Gunnar Þ. Pétursson þýðandi bókarinnar sem segir frá. Við fáum svo kynningu á Neytendasamtökunum 26. apríl. Breki Karlsson, formaður samtakanna ætlar kynna stefnu og starfsemi samtakanna. Þessum fyrirlestrum verður öllum streymt og þeir aðgengilegir fyrir félagsmenn í viku eftir flutning eins og verið hefur.
Fyrsta laugardagsgönguferðin verður 30. apríl, þá verður gengið um Hólavallakirkjugarð með Ingibjörgu R. Guðlaugsdóttur. Göngurnar halda svo áfram í maí.
Menningarhópur stefnir að viðburði í apríl og verður hann auglýstur sérstaklega.
Eins og sést á þessu tökum við hlé í dymbilvikunni en byrjum aftur strax þriðjudag eftir páska.
TUMI
U3A Reykjavík tekur þátt í tengslaneti Fjölmiðlanefndar sem nefnist TUMI eða Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Á síðu TUMA segir að hlutverk tengslanetsins sé að auðvelda upplýsingaskipti milli þeirra aðila sem vinna að upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi og greiða fyrir samstarfi meðlima. Aðilar tengslanetsins miðla þar þekkingu, rannsóknum, verkefnum og öðrum úrræðum sem tengjast tengslanetinu. Á tímum upplýsingaóreiðu og þegar falsfréttir dynja á fólki á ýmsum miðlum skiptir miðlalæsi miklu máli og mikilvægt að geta greint á milli frétta sem byggja á góðum grunni og hinna sem eru úr lausu lofti gripnar.
Upplýsingalæsi- og miðlalæsi er skilgreint sem hæfnin til að leita sér að, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt í gegn um mismunandi miðla og upplýsingaveitur. Á heimasíðu Fjölmiðlanefndar er að finna niðurstöður könnunar á miðlalæsi Íslendinga sem áhugavert er að skoða.
Með óskum um gleðilega páska og gjöfulan frítíma
f.h. stjórnar U3A Reykjavík
Birna Sigurjónsdóttir, formaður