HeiM klúbbur stofnaður í Reykjavík

HeiM klúbbur í Reykjavík var stofnaður þann 25. apríl 2022 á vegum U3A Reykjavík. HeiM stendur fyrir Heritage in Motion en það var samevrópskt verkefni, sem lauk 30. apríl 2021, þar sem samstarfsaðilar í Alicante, Varsjá, Zagreb og U3A Reykjavík unnu saman að því að setja fram nýjungar í kennslufræði fyrir eldri fullorðna og hvernig hægt er að nýta snjalltækni til að túlka menningararfinn. Nýjungar í kennslufræði ásamt lýsingum á leiðunum voru settar fram í veglegri bók, Vegvísir um aðferðafræði og snjalltækni var notuð til þess að kortlegga leiðir að menningararfi með notkun smáforrits í snjallssíma.

Íslensku leiðirnar í verkefninu voru: Gönguleið milli styttna í miðborg Reykjavíkur, Gönguleið um náttúruna í Elliðaárdal, Sólstöðuganga í Viðey, Ganga um minningarmörk í Hólavallagarði og Ganga um söguslóðir- og menningararf í Laugarnesi og Kirkjusandi. U3A félögum býðst að fara þessar leiðir í vor á vegum U3A Reykjavík með leiðsögn hönnuða.

Verkefnið þótti takast með afbrigðum vel og vel heppnuð kortlagning leiða leiddi til þess að ákveðið var að huga að stofnun HeiM klúbba í borgunum fjórum til þess að halda áfram og búa til nýjar leiðir. HeiM klúbbur hefur þegar verið stofnaður í Alicante og er nú orðinn til í Reykjavík. Stofnfélagar eru 25. Markmið klúbbsins er að hanna nýjar leiðir að menningararfi á höfuðborgarsvæðinu og/eða annarsstaðar á landinu, auka stafræna færni eldra fólks, efla vitund um menningararfinn og viðhalda og efla tengsl milli borganna fjögurra sem tóku þátt í HeiM verkefninu.

HeiM klúbburinn mun hefja starfsemi sína að hausti með kennslu á Wikiloc smáforritið og að velja nýjan menningararf til þess að kortleggja leiðir að öllum til ánægju og fróðleiks.

Sjá má upplýsingar um HeiM leiðirnar á slóðinni https://u3a.is/heim-gonguleidir/

Scroll to Top
Skip to content