Líf og fjör á þriðja æviskeiðinu
„Tilvera okkar er undarlegt ferðalag“ segir í ljóði Tómasar Guðmundssonar; og „Við erum gestir og hótel okkar er jörðin“. Á þriðja æviskeiðinu getur beðið okkar nýr kafli á ferðalaginu sem margir vilja skipuleggja vel til að njóta hamingju og nýrra tækifæra eftir áhuga og getu hvers og eins þegar formlegum starfsferli er lokið. Vöruhús tækifæranna var stofnað í þeim tilgangi að valdefla almenning í leit að nýjum tækifærum og lifa hamingjuríku lífi á þriðja æviskeiðinu. Það er skipulagt sem vöruhús með tengingum og upplýsingum til margvíslegra aðila sem hver á sinn hátt fram býður góðar hugmyndir um hvernig við getum skipulagt okkur til að lifa lífinu lifandi á þriðja æviskeiðinu. Sífellt fleiri hafa aukinn tíma og getu til virkrar þátttöku á þriðja æviskeiðinu. Vöruhús tækifæranna er markaðstorg sem styður við leit almennings að áhugaverðum námskeiðum, nýjum starfsframa, nýjum áhugamálum eða nýjum verkefnum í þágu samfélagsins. Á komandi starfsári vill stjórn vöruhússins leita eftir enn víðtækara samstarfi við þá sem bjóða fram vörur og þjónustu sem fellur að markmiðum þess og auka þannig framboð upplýsinga og aðgengi notendanna að nýjum tækifærum. Hinn sífellt stækkandi hópur fólks á þriðja æviskeiðinu sem hefur tíma til virkrar þátttöku í samfélaginu er einnig mikil hvatning slíkra aðila til að auka framboð tækifæra fyrir þennan aldurshóp og koma þeim á framfæri á markaðstorgi Vöruhúss tækifæranna.
Haustkveðjur frá stjórn Vöruhúss tækifæranna,
Tryggvi Axelsson, formaður
Þátttaka U3A Reykjavík í ráðstefnu AIUTA
Ráðstefnuhópurinn frá Slóvakíu og Íslandi í Efesus
Hjördís Hendriksdóttir nýr formaður U3A Reykjavík og Birna Sigurjónsdóttir fráfarandi formaður tóku þátt í ráðstefnu AIUTA, alþjóðasamtaka U3A félaga sem haldin var í Pamukkale í Tyrklandi dagana 26.-27. maí 2023.
AIUTA eða IAUTA eru alþjóðleg samtök U3A félaga og forseti samtakanna er Professor François Vellas. Hann stýrði fundum á ráðstefnunni og ásamt honum sátu fundina nokkrir úr stjórn samtakanna. Stjórnina má sjá á heimasíðu samtakanna: hér
Á fundi stjórnar samtakanna kynntu gestir starfsemi U3A hver frá sínu landi eða svæði, Íslandi þar á meðal. Aðalþemun á ráðstefnunni voru: Senior tourism og senior housing. Á ráðstefnunni voru stærstu hóparnir frá Toulouse í Frakklandi og frá Bratislava í Slóvakíu, einnig voru fulltrúar og forsvarsmenn frá U3A félögum í Líbanon, Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum, Senegal, Kongó og Kína. Það var áhugavert að hitta formenn samtaka Háskóla þriðja æviskeiðsins frá þessum löndum. Í flestum tilvikum er U3A deild eða hluti af deild í háskóla staðarins og forsvarsmenn í stöðu deildarforseta innan þess háskóla.
Ráðstefnuhópurinn heimsótti Háskólann í Izmir og þar var sett upp dagskrá með ræðuhöldum, söng og dansi á fallegu útisvæði við háskólann og gestir leystir út með gjöfum. Stjórnin ásamt gestum sat einnig móttöku í í Pamukkale Háskóla sem staðsettur er í Denizli. Rektor háskólans tók á móti hópnum í hátíðasal skólans og sagði m.a. frá áformum um að nýta jarðhita á svæðinu enn frekar.
Á ráðstefnunni var kynnt nýleg bók sem áður var komin út í Kína og hefur nú verið þýdd á ensku: A dictionary of Education for the Elderly, ritstjórar Ye Ruixiang og Chen Xianzhe og fengu þátttakendur afhent eintak að gjöf.
Mynd t.v.: Pamukkale, hlíðin þakin hvítum kalksteini og lónið volgt af jarðhitanum.
Ráðstefna var haldin í fögru umhverfi í Pamukkale í Tyrklandi. Dagana fyrir og eftir ráðstefnuna var farið í skoðunarferðir og skoðaðar merkar fornminjar á svæðinu, m.a. farið til Efesus og skoðaðar fornu borgirnar Hieropolis og Tripolis sem enn er verið að grafa upp. Í Pamukkale er jarðhiti og sérstakar kalkmyndanir þar sem heita vatnið gerir hlíðirnar hvítar.
Á ráðstefnunni var kynnt nýleg bók sem áður var komin út í Kína og hefur nú verið þýdd á ensku: A dictionary of Education for the Elderly, ritstjórar Ye Ruixiang og Chen Xianzhe og fengu þátttakendur afhent eintak að gjöf.
Mynd t.v.: Pamukkale, hlíðin þakin hvítum kalksteini og lónið volgt af jarðhitanum.
Ráðstefna var haldin í fögru umhverfi í Pamukkale í Tyrklandi. Dagana fyrir og eftir ráðstefnuna var farið í skoðunarferðir og skoðaðar merkar fornminjar á svæðinu, m.a. farið til Efesus og skoðaðar fornu borgirnar Hieropolis og Tripolis sem enn er verið að grafa upp. Í Pamukkale er jarðhiti og sérstakar kalkmyndanir þar sem heita vatnið gerir hlíðirnar hvítar.
Mynd t.v.: Íslensku fulltrúarir voru leystir út með gjöfum.
F.h. Birna, Hjördís, Francis Vellas forseti AIUA ásamt starfsmanni ráðstefnunnar
Það er mikilvægt fyrir U3A Reykjavík að taka þátt í alþjóðlegu starfi U3A félaga, fræðast um starf U3A víða um heim og treysta tengslin við þá sem vinna að sömu markmiðum.
Ég er þakklát fyrir þetta tækifæri.
Birna Sigurjónsdóttir í stjórn U3A Reykjavík.
Rétti upp hönd sem vill vera gamall
Þjóðin eldist eins og margrætt er og fjölgun eldra fólks og lengri lífaldur þess er gefinn meiri gaumur. Bæði í umræðu og rannsóknum er farið að horfa til hvernig fólk ver síðustu áratugum ævi sinnar og er þá talið að þeim megi skipta í tvö æviskeið, það þriðja og það fjórða. Þriðja æviskeiðið er sagt hefjast við 50 eða 60 ára aldur og það fjórða um 80 eða 85 ára en talið einstaklingsbundið hvenær menn fara á milli æviskeiðanna. Himinn og haf ber á milli í skilgreiningum á þessum tveimur æviskeiðum. Þriðja æviskeiðið er skilgreint sem tími vaxtar, lífsfyllingar, aukinna tækifæra og tími þar sem persónulegum markmiðum er náð. Fjórða æviskeiðið er hins vegar talinn tími ósjáfstæðis, hrörnunar og dauða og einkenni þess sögð vitsmunalegur og félagslegur missir, veikindi og hnignun og að lokum dauði eins og áður segir. Skilgreiningin á fjórða æviskeiðinu er þó talin byggð á staðalímyndum og feli í sér vanvirðingu á ellinni. Ekki eigi að einblína á aldur heldur á getu og sjálfræði.
Stefna í lífeyrismálum eftirstríðsáranna og almannatryggingum er sögð hafa leitt til þess að þriðja æviskeiðið var endurskilgreint. Áður var æviskeiðið talið tími tómstunda en nú sagt tími þar sem hægt er að skipta um stefnu í lífinu og tími þar sem hægt er að láta drauma rætast. Nú geta þeir sem eru á þriðja æviskeiðinu hætt formlegu starfi fyrr en áður, eru fjárhagslega sjálfstæðari og búa við betri heilsu en forverar þeirra. Fjórða æviskeiðið hefur aftur á móti ekki verið skilgreint á ný og hefur félagsleg, vitsmunaleg og líkamleg staða fólks á æviskeiðinu fengið minni athygli. Þriðja æviskeiðið hafnar ellinni en litið er á fjórða æviskeiðið sem stofnanavæðingu ellinnar. Fólk á því æviskeiði er sagt félagslegur jaðarhópur sem einkennist af veikindum og krefjist langtíma umönnunar. Að enda daga sína á hjúkrunarheimili er hlutskipti sem bíður margra okkar þegar við eldumst. Hjúkrunarheimili eru þó ekki talin hafa skapað nýjan skilning á ellinni heldur orðið til þess að ímynd fjórða æviskeiðsins er m.a. skortur á sjálfræði. Er ekki kominn tími á endurskilgreingu?
Mörg dæmi eru um heim allan um fólk sem er virkt í samfélaginu langt um aldur fram yfir þann aldur sem staðalímyndin telur upphaf hnignunar og er höfundur þessarar samantektar einn af þeim. Það væri fróðlegt og gaman ef lesendur Fréttabréfs Vöruhúss tækifæranna létu frá sér heyra um hvað þeim finnst um ofangreinda skilgreingu á fjórða æviskeiðinu og hvort að henni megi breyta og þá hvernig. Það má gera með því að senda línu á ingibjorg.rannveig@gmail.com og merkja bréfið með 4 aeviskeid.
Öryggi er verðmætt
Björn Berg Gunnarsson, fjármálaráðgjafi
Það þykir víst fínt að segja „ég hef ekki áhyggjur af peningum, ég hef áhyggjur af engum peningum“, en þó veldur ávöxtun fjármuna mörgum hugarangri, ekki síst á lífeyrisaldri. Verðbólgan er á sífelldu iði, vöxtum er hent fram og til baka og þá geta sparnaðarkostirnir bæði verið fjölbreyttir og torskildir. Það er ekki auðvelt að ávaxta sparifé sitt við þær aðstæður, en við þurfum þó að bjarga okkur.
Áherslan á vextina
Þegar leitað er að stuttu svari við spurningunni um hvar bestu vextina sé að finna er yfirleitt bent á óverðtryggða hávaxtareikninga bankanna. Þeir geta að sjálfsögðu reynst vel og vextir þeirra eru merkilega háir þessa dagana en það nægir ekki að líta eingöngu til vaxtanna. Mér er minnistæður félagsskapur lífeyrisþega sem fyrir rúmum áratug færði sig ört milli banka og lífeyrissjóða í leit að hæstu vöxtunum. Ekkert virtist skipta máli annað en möguleikinn á að hækka ávöxtunina um brot úr prósentu. Þrátt fyrir að enn kraumaði í brunarústum fjármálahrunsins var ekkert tillit tekið til þess hvort viðkomandi fjármálastofnun væri örugg eða hvort áhætta væri fólgin í bindingu, verðbólgu eða öðru sem mikilvægt er að hafa í huga þegar peningum er komið fyrir. Vextirnir voru upphaf og endir alls.
Þetta þykir mér enn óþægilega algengt og leitin að ávöxtun er að mestu bundinn við samanburð vaxta. Stutta svarið er vissulega að benda eingöngu á vextina en spariféð okkar er dýrmætara en svo að við ættum að sætta okkur við slík svör. Því er mikilvægt að við tökum meira inn í reikninginn, ef svo má að orði komast.
Hvaða ávöxtun fáum við í raun og veru?
Við ættum að vera farin að þekkja það hér á landi að lítið er varið í ávöxtun sem heldur ekki í við verðbólgu. Stundum mætti þó minna á þá staðreynd. Meðan á covid faraldrinum stóð var mikið rætt um að ekkert væri upp úr bankabókum að hafa og fagna margir því að vextir séu nú komnir langleiðina í tveggja stafa tölu. Þó gleymist að verðbólgan var mun minni í covid og vegna lægra vaxtastigs voru skattar og skerðingar Tryggingastofnunar vegna fjármagnstekna mun minni. Vaxtaprósentan er ekki það sem máli skiptir, heldur það sem eftir verður þegar verðbólgan, skatturinn og TR hafa tekið sitt.
Eins undarlega og það hljómar eru háar vaxtaprósentur í dag því ekki endilega svo miklu betri en þegar vextirnir voru lágir. Með nokkurri einföldum getum við litið á dæmi um hjón, sem bæði fá greiðslur frá Tryggingastofnun og ávaxta 10 milljónir króna á bankabók. Fái þau 8% vexti í 7% verðbólgu verður ávöxtun þeirra á einu ári neikvæð um rúm 170 þúsund krónur að frádreginni verðbólgu, fjármagnstekjuskatti og skerðingum TR. Hafi vextirnir hins vegar verið 3% í 2% verðbólgu verður raunveruleg ávöxtun jákvæð um ríflega 14 þúsund krónur. Þess má geta að frítekjumark fjármagnstekna vegur þungt í þessum útreikningum.
Fæ ég peningana til baka?
Ávöxtun fjármuna krefst þess að við afhendum þá öðrum og því megum við ekki gleyma. Við mat á fýsileika sparnaðarleiðar er því mikilvægt að við metum líkurnar á að ekki takist að sækja sparnaðinn þegar við þurfum á honum að halda eða að hann skili sér ef til vill ekki allur. Eftir því sem við metum áhættu á slíku meiri, því hærri ávöxtunar krefjumst við. Með öðrum orðum sættum við okkur almennt við minni ávöxtun í öruggum sparnaði en þar sem meiri óvissa ríkir. Vextirnir eru ekki allt.
Hvað er góð ávöxtun?
Við val á ávöxtunarleið í séreignarsparnaði er stundum boðið upp á svokallaðar ævileiðir. Eignasamsetning þeirra breytist eftir því sem sjóðfélagi eldist og er dregið úr áhættu í safninu, yfrleitt með auknu hlutfalli verðtryggingar, ríkisskuldabréfa og innlána. Þetta er nálgun sem reynst getur vel. Þegar við erum ung og getum ávaxtað fé í áratugi höfum við svigrúm fyrir miklar verðsveiflur og þónokkra áhættu. Þá getum við leyft okkur að velja ávöxtunarleiðir sem skila meiru til lengri tíma, vegna þess að við þolum niðursveiflur og höfum tíma til að vinna upp tap.
Þegar við förum að hugsa um að ganga á sparnaðinn okkar er ekki óeðlilegt að nálgunin breytist. Þá höfum við lítinn húmor fyrir miklum verðsveiflum og neikvæðri ávöxtun en leggjum þess í stað áherslu á að verja það sem þegar hefur verið safnað. Við metum því mun meira verðmæti í öryggi en áður og viljum umfram allt tryggja að það sparifé sem við höfum lagt hart af okkur við að safna verði á sínum stað þegar við þurfum á því að halda.
Ég reikna ekki með að ávöxtun fjármuna verði auðveldari á næstunni og því borgar sig að vanda sig. Verum upplýst um þá kosti sem í boði eru, utanaðkomandi áhrifaþætti og umfram allt að öryggi er verðmætt.
Bridging Generations - Viska
Hafdís Katrín Hlynsdóttir heiti ég og er 24 ára Garðbæingur, en síðastliðin fjögur ár hef ég búið í Barcelona á Spáni þar sem ég hef stundað nám við Istituto Europeo di Design háskóla. Ég útskrifaðist sem innanhúsarkitekt frá háskólanum í júní fyrr á þessu ári og hlaut verðlaun fyrir besta lokaverkefnið í innanhússarkitektúr.
Lokaverkefnið mitt ber titilinn Bridging Generations og gengur út á að brúa bilið á milli eldri og yngri kynslóða og á sama tíma styrkja tengsl á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Ég hannaði þekkingarmiðstöð sem ber nafnið Viska, þar sem eldri og yngri kynslóðir eru hvattar til að koma saman og deila þekkingu sín á milli. Þau yngri geta þá t.d. lært um landbúnað og hefðir í umhverfinu á meðan þau eldri geta fengið ferska sýn frá þeim yngri enda er þekking fortíðar ómetanleg fyrir þekkingu framtíðar og ný kynslóð getur veitt góða innsýn inn í þarfir nútímans
Ég valdi mér gamalt katalónskt sveitabýli (e. Masía) sem ég gerði upp til þess að mæta þörfum verkefnisins og til að hýsa þekkingarmiðstöðina Visku. Í Visku býðst gestum að taka þátt í skipulagðri dagskrá þar sem allir liðir eru hannaðir með það að leiðarljósi að styrkja tengslin á milli kynslóðanna og tryggja varðveitingu á menningu og hefðum. Í hverjum lið er lykil áhersla lögð á samvinnu á milli kynslóðanna, sem dæmi má nefna að yngri kynslóðin lærir af þeirri eldri að nýta auðlindir umhverfisins á réttan hátt.
Í Visku má einnig finna safn þar sem finna má skjöl, efnisvið og bækur um umhverfið, sem er opið fyrir alla sem hafa áhuga á að kynna sér hefðir og menningu umhverfisins. Einnig má finna veitingastað þar sem gestum er boðið að smakka og fræðast um afurðir umhverfisins.
Ég lagði mikið upp úr því að halda í hefðbundið og upprunalegt útlit hússins, en á sama tíma nýtti ég nútímalegan efnivið til þess að skapa þessa tengingu á milli gamla tímans og nýja tímans. Markmiðið var að hanna stað sem er aðgengilegur fyrir alla og vellíðan gesta höfð í fyrirrúmi.
Markmið þekkingarmiðstöðvarinnar Visku er að brúa bilið á milli kynslóða og á sama tíma styrkja tengsl á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Hugmyndin er sú að þekkingarmiðstöðin Viska verði sett á laggirnar út um allan heim, og muni aðlagast að hverjum stað fyrir sig.
Me gusta tu, me gusta ...
Mynd: Vigdís Pálsdóttir
Hugarsmíðin okkar hún Donna, Dómhildur Svansdóttir, er 66 ára yngismær frá Höfn í Hornafirði sem hefur starfað við fiskvinnslu mest allt sitt líf. Byrjaði að breiða saltfisk á stakkstæði þegar hún var unglingur eins og flestir jafnaldrar hennar en fór síðan inn í hús við að flaka og önnur störf. Brá sér líka norður í land í síldarvinnslu á sumrin og hafði gaman af. Donnu hefur líkað framleiðslustörfin vel en sér þó fram á að hætta að vinna þegar hún verður 67 ára og gera þá alvöru úr því að elta heitasta drauminn.
Heitasti draumurinn er að læra spænsku og að verða altalandi á því tungumáli. Kveikjan að draumnum er lagið Me gusta tu, me gusta… sem Donnu finnst sannarlega lag til þess að dilla sér eftir og jafnvel að reyna að taka undir með. Einhver lífsgleði sem hreif Donnu þar. Lagið var líka kveikjan að ferðum hennar til Spánar, ekki bara til þess að liggja á ströndinni, það er fínt líka, heldur til þess að upplifa land og þjóð og er Donna búin að fara víða á Spáni. Til margra staða í Andalúsíu, til Barcelona, Santiago de Compostela og Jaen en sú borg geymir Arabísk böð frá 11. öld sem eru þau stærstu í Andalúsíu en kanski ekki margir vita af. Donna hefur jafnvel reynt íbúðaskipti við Spánverja til þess að komast nær daglegu lífi þeirra og ná tökum á málinu. Þessi draumur Donnu hefur því tekið hana víða og reyndar er hún búin að viðurkenna fyrir sjálfri sér að gamla klisjan eigi við hér sem er að vegferðin til þess að láta drauminn rætast skiptir kannski meira máli en það að ná takmarkinu sem er að geta talað reiprennandi spænsku.
Donna getur þó ekki enn átt almennilegar samræður á spænsku sem angrar hana. Hún ákvað því að nú væri nóg komið og það þyrfti að gera eitthvað í málinu og hvar byrja að leita að tækifæri til þess nema hvað í Vöruhúsi tækifæranna, https://voruhus-taekifaeranna.is/ sem hún hefur heyrt góðar sögur af. Og þar fann hún akkúrat tækifærið sem hún leitaði að sem er skiptinám fyrir fullorðna á Spáni hjá ferðaskrifstofunni Mundo. Nú er bara að bíða þar hún nær þeim aldri að allir dagar eru laugardagar. Og Donna hemur sig og dillar sér á meðan undir Me gusta tu, me gusta…
Eldra fólk og loftslagsmál – Báðum til gagns
Dagana 27.-28. september verður haldin í Nauthól málstofa undir heitinu: Eldra fólk og loftslagsmál – Báðum til gagns. Á dagskrá eru stutt erindi um starfsemi hópa eldri borgara frá Norðurlöndunum og víðar varðandi umhverfis- og loftslagsmál. Mjög áhugavert verður að fræðast um það sem samtök eldri borgara eru að fást við í umhverfis- og loftslagsmálum og hugsanlega leiðir ráðstefnan til frekari samvinnu um þessi mikilvægu málefni sem varða okkur öll.
Sjá dagskrá hér að neðan. Tengill fyrir skráningu er neðst í dagskránni en aðeins 50 manns komast að svo endilega skráið ykkur sem fyrst. Málstofunni verður einnig streymt og með því að merkja við streymi í skráningu er hægt að fylgjast með heiman frá.
Málstofan er hluti af norrænu samstarfsverkefni sem fyrirtækið Environice og Stefán Gíslason vinna fyrir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni. Umhverfishópur U3A Reykjavík hefur tekið þátt í verkefninu á undirbúningsstigi og á dagskránni er stutt kynning á starfi U3A Reykjavík ásamt því að Þóra Ellen Þórhallsdóttir fjallar um efnið nýting lands og ásókn í landið.
Viðburðir U3A Reykjavík í september 2023
F.v.: Brynja Helgu Baldursdóttir, Eiríkur Bergmann, Birna Halldórsdóttir, Halla Hrund Logadóttir
Haustið fer af stað með fjölbreyttum viðburðum í september. Við byrjum með félagsfundi 5. september að venju þar sem leitað verður eftir hugmyndum og tillögum félagsmanna um fyrirlestra og viðburði í vetur. Síðan hefjast þriðjudagsfyrirlestra í Hæðargaði 12. september og verða alla þriðjudaga eftir það. Við erum þegar komin með áhugaverða fyrirlestra í september og þeim verður streymt eins og áður. Vestmannaeyjaferð menningarhóps sem frestað var í vor er á dagskrá 7. september og er þegar fullbókað í hana. Við stefnum að því að setja laugardagsgöngur á dagskrá í haust og þegar er ein bókuð 23. september. Þá mun Birna Halldórsdóttir leiða hóp og fræða um styttur í miðborginni. Síðast en ekki síst tekur Umhverfishópurinn þátt í málstofunni: Eldra fólk og loftslagsmál sem haldin verður 27.-28. september í Nauthól. Stjórnin hlakkar til að hitta ykkur aftur og vinna með ykkur í vetur.
- 5. sept: Félagsfundur í Hæðargarði kl. 16:30
- 7. sept: Vestmannaeyjaferð menningarhóps
- 12.sept: Voru Agatha og Hercule leynilega trúlofuð?, Brynja Helgu Baldursdóttir
- 19.sept: Hvað skýrir uppgang þjóðernispopulista í stjórnmálum samtímans. Dr. Eiríkur Bergmann
- 23. sept: Styttur í miðborginni. Laugardagsganga. Birna Halldórsdóttir
- 26. sept: Orkuskipti og vindmyllur. Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri
Með kveðju frá stjórn U3A Reykjavík