Þá er aftur komið haust
Kæru félagar.
Okkur finnst tíminn þeytast áfram þegar við eldumst einsog við fjölluðum um í U3A Fréttabréfi í desember árið 2023 í grein sem nefnist „Jólin koma hraðar og hraðar …” þar sem við sögðum frá rannsóknum dr. Adrian Bejan prófessor við Harvard háskóla á þessari tímaupplifun barna vs. eldra fólks https://u3a.is/frettabref-u3adesember-2023/.
Það er því skiljanlegt að mér líði einsog ég sé nýbúin að skrifa pistil í september Fréttabréf U3A 2024.Yfirskrift þess pistils var „Sumarið sem aldrei kom“ en samkvæmt Veðurstofunni var veðrið það sumar „svalt, vindhraði yfir meðallagi og óvenju blautt og þungbúið“ https://u3a.is/frettabref-u3a-september-2024/.
En núna var tíðin önnur. Á höfuðborgasvæðinu var maímánuður einn hlýjasti sem mælst hefur þar sem hitinn fór oft yfir 20 °C og stöku dagar fóru upp í 23-24 °C. Í júlí og ágúst voru fyrri hitamet ýmist jöfnuð eða slegin. Að þessu sinni vorum við ekki hlunnfarin einsog í fyrra heldur kom sumarið og við ættum því að geta farið sátt og jákvæð inn í haustið.
Stjórn U3A Reykjavík undirbýr nú dagskrá komandi vetrar með aðstoð félagsmanna. Í dag, þriðjudaginn 2. september efnum við til fundar með öllum félögum þar sem við biðjum alla að koma með sínar tillögur um fyrirlestra, menningarviðburði, námskeið og ferðir og hvaðeina sem fallið gæti undir starfsemi U3A Reykjavík.
Við hvetjum ykkur til að fylgjast með á vefsíðu U3A https://u3a.is/vidburdayfirlit/ á facebook-síðu U3A Reykjavik, Fréttabréfi U3A og tölvupóstunum ykkar. Við hlökkum til að eiga skemmtilegan vetur með ykkur öllum.
Kveðja fyrir hönd stjórnar U3A Reykjavík,
Hjördís Hendriksdóttir
formaður stjórnar
Væntanlegir viðburðir

F.v.: Sóley Dröfn Davíðsdóttir, Haukur Þorgeirsson, Linda Heimisdóttir, Þorsteinn Siglaugsson, Valur Gunnarsson.
Þriðjudaginn 2. september kl. 16:30 verður Félagsfundur U3A haldinn í Hæðargarði 31.
Þriðjudaginn 9. september mun Sóley Dröfn Davíðsdóttir sálfræðingur fjalla um hvernig Kvíði getur haft áhrif á lífsgæði aldraðra. Fyrirlesturinn fer fram í Hæðargarði 31 kl. 16:30.
Föstudaginn 12. september mun Menningarhópur U3A heimsækja Eldfjalla- og jarðskjálftasýningu á Hvolsvelli. Lagt verður af stað kl. 12:30 frá Hæðargarði 31.
Þriðjudaginn 16. september mun Haukur Þorgeirsson rannsóknarprófessor hjá Árnastofnun fjalla um Trektarbók Snorra-Eddu í Hæðargarði 31 kl. 16:30.
Þriðjudaginn 23. september mun Linda Heimisdóttir framkvæmdastjóri Miðeindar fjalla um Hagnýta máltækni og gervigreind. Fyrirlesturinn fer fram í Hæðargarði 31 kl. 16:30.
Þriðjudaginn 30. september mun Þorsteinn Siglaugsson, heimspekingur og hagfræðingur fjalla um samskipti manns og gervigreindar sem hann nefnir „Getum við nú loksins hætt að hugsa?“. Fyrirlesturinn fer fram í Hæðargarði 31 kl. 16:30.
Þriðjudaginn 7. október mun Valur Gunnarsson sagnfræðingur, blaðamaður og rithöfundur fjalla um stöðuna í Úkraínu og stöðuna í heimsmálunum. Fyrirlesturinn, sem fer fram í Hæðargarði 31 kl. 16:30 nefnir hann Varanlegur friður eða heimstyrjöld.
Nánari upplýsingar um viðburði á vegum U3A Reykjavík má finna á vef félagsins: https://u3a.is/vidburdayfirlit/
Ferðahópur U3A Reykjavík skipuleggur ferð til borga við Eystrasaltið

Nokkrir félagar sem tóku þátt í ferð U3A Reykjavík til Tyrklands stofnuðu á síðasta starfsári ferðahóp með það að markmiði að skipuleggja fleiri ferðir fyrir félagsfólk. Í hópnum eru Jón Björnsson, Ingibjörg Ásgeirsdóttir, Guðríður Þorsteinsdóttir og Birna Sigurjónsdóttir. Eins og aðrir hópar á vegum félagsins vinnur ferðahópurinn sjálfstætt en jafnframt í samstarfi við og með samþykki stjórnar U3A Reykjavík.
Á þriðjudagsfundi sl. vor kynnti Jón fyrirhugaða ferð um suðurströnd Eystrasalts og til helstu borga þar. Eftir kynninguna varð til listi áhugasamra um þátttöku í ferðinni. Í samstarfi við Bændaferðir var síðan skipulögð 11 daga rútuferð um: Strandperlur Austur-Þýskalands og Hamborg. Flogið er til Hamborgar og þaðan haldið til Lübeck og loks til Stralsund. Þaðan er farið í dagsferðir og m.a. heimsóttar eyjarnar Rügen og Usedom. Heim er flogið frá Berlín. Fararstjóri er Krisín Jóhannsdóttir og sögumaður Jón Björnsson.
Ferðin seldist hratt upp eftir að hún var auglýst meðal þeirra sem lýst höfðu áhuga. Rætt hefur verið um að endurtaka ferðina haustið 2026 og verður kynnt síðar hvort af því getur orðið. Einnig hafa verið ræddar hugmyndir um frekari ferðir um Eystrasaltið.
f.h. ferðahóps
Birna Sigurjónsdóttir
Starfsáætlun Menningarhóps

Menningarhópurinn hefur skipulagt eftirfarandi viðburði fyrir næstu 3 mánuði:
Í september verður farið í haustferð til að skoða Eldfjalla-og jarðskjálfta sýninguna á Hvolsvelli. Auglýsing er komin á heimasíðu U3A.
Í október munum við skoða Ásmundarsafn og fá leiðsögn um það.
Í nóvember förum við í Þjóðleikhúsið að sjá Íbúð 10B eftir Ólaf Jóhann Ólafsson í leikstjórn Baltasars Kormáks.
Ítarlegri upplýsingar birtast í auglýsingum sem sendar verða út þegar nær dregur hverjum viðburði.
Gervigreind og snjallspjall

Forskrift fyrir ChatGPT: Teiknaðu mynd af miðaldra hjónum við tölvu í anda Kandinsky
Gervigreind (eða AI, sem stendur fyrir artificial intelligence) er tækni sem gerir tölvum og forritum kleift að „hugsa“, læra og framkvæma verkefni sem venjulega krefjast mannlegrar greindar. Þetta getur til dæmis falið í sér að skilja texta, túlka myndir, taka ákvarðanir eða læra af reynslu. Gervigreind byggir oft á stórum gagnasöfnum og reikniritum sem læra mynstur úr gögnum og nýta þau til að veita svör eða skapa eitthvað nýtt.
Eitt af algengustu formum gervigreindar í dag er svokallað snjallspjall — forrit sem getur svarað spurningum og átt samræður við notendur. Þekkt dæmi um slíkt er ChatGPT, sem getur rætt um nánast hvað sem er, útskýrt flókin hugtök á einfaldan hátt og hjálpað til við sköpun.
Hvernig getum við nýtt snjallspjall?
1. Til fræðslu:
Ef þú ert forvitin(n) um eitthvað — hvort sem það eru stjörnufræði, fornaldarsaga eða hvernig rafmagn virkar — getur þú spurt snjallspjall og fengið skýr, aðgengileg svör. Þetta er frábært hjálpartæki fyrir nemendur, foreldra og alla sem vilja læra meira á einfaldan hátt.
2. Til forvitni og rannsóknar:
Snjallspjall getur hjálpað þér að kafa dýpra í áhugamál þín, leita að nýjum hugmyndum eða bera saman ólíkar skoðanir. Þú getur líka beðið það að útskýra eitthvað eins og maður væri 10 ára — ef þú vilt einfaldan skilning á flóknu efni.
3. Til sköpunar og afþreyingar:
Gervigreind getur verið skapandi félagi. Hún getur samið ljóð, skrifað smásögur, hjálpað þér að finna titla eða koma með hugmyndir að karakterum og söguþræði. Þú getur jafnvel beðið hana að búa til myndir út frá lýsingu – t.d. „teiknaðu töfraskóg með ljómandi dýrum“ – og fengið mynd í stíl við það.
Snjallspjall er því ekki bara fyrir sérfræðinga. Það er opið öllum, og hægt að nýta á ótal vegu – hvort sem þú vilt læra, spyrja, skemmta þér eða skapa. Með því að kynnast gervigreind erum við að stíga inn í framtíðina – og við stjórnum hvernig við nýtum hana.
U3A Reykjavík mun á komandi vetri leitast við að kynna nánar leyndardóma þessarar nýju tækni — hvernig hún virkar, hversu áreiðanleg svör hennar eru og hvernig við getum lagt rétt upp spurningar. Einnig verða ræddar siðferðilegar spurningar sem fylgja notkun gervigreindar: Hver á efnið sem hún skapar? Hvernig snertir hún störf listafólks og hugverkarétt? Með sameiginlegri umræðu og tilraunum getum við betur skilið möguleika gervigreindar — og líka takmarkanir hennar.
Þessi grein er að mestu skrifuð af ChatGPT eftir forskriftinn:
„Skrifaðu grein u.þ.b. 400 orð, þar sem gervigreind er útskýrð fyrir byrjendum og hvernig hægt er að nota snjallspjall til að fræðast, forvitnast og til afþreyingar, t.d. við gerð mynda, ljóða og smásagna“
Grein eftir Einar Svein Árnason hér að neðan, „Tími til að spyrja: Fyrirhvern er er grunnskólinn?“ er áhugaverð lýsing á hvernig nýta má gervigreind við greinaskrif.
Jón Ragnar Höskuldsson
„Ég og gervigreindin – óvæntur samstarfsaðili“

ChatGPS forskrift: Mynd af börnum á grunnskólaaldri í kennslustofu, þar sem tveir kennarar deila og togast á um skjal merkt “Samræmd próf”
Á dögunum varð ég þátttakandi í hópi sem ætlað er að kanna hvernig nýta megi svonefnda gervigreind innan U3A, til dæmis á vefnum u3a.is. Markmiðið er að auðvelda félagsfólki að finna tækifæri til menntunar, áhugamála og afþreyingar – og um leið örva gagnrýna og rökræna hugsun í notkun tækninnar, sem er sífellt meira áberandi í upplýsingamiðlun og daglegu lífi.
Ég byrjaði því á því að spyrja gervigreindina nánar tiltekið chatgpt.com hvernig gervigreindin gæti gæti komið okkur til aðstoðar. Mér fannst svarið nokkuð skynsamlegt og það hvatti mig til að halda áfram.
Á sama tíma var ég að fylgjast með umræðum um grunnskólalög á Alþingi, þar sem margir þingmenn lögðu mikla áherslu á samræmd próf sem lausn á vanda skólakerfisins. Þetta fer alltaf svolítið í taugarnar á mér – því ég veit af eigin reynslu að skólastarf er flóknara en svo. Ég ákvað því að spyrja ChatGPT einfaldlega: „Geta samræmd próf bætt námsárangur?“ Svörin komu mér á óvart og vöktu mig til frekari umhugsunar.
Ég skrifaði grein um afstöðu mína varðandi grunnskólakerfið lagði svo greinina fyrir chatgpt til að fá viðbrögð. Það kom mér á óvart hversu jákvæð viðbrögðin voru og svo bauðst vélin til að koma með athugasemdir og þáði ég það. Athugasemdirnar voru ágætar og þáði ég sumar þeirra. Lét vélina lesa svo yfir aftur. Bauðst þá tækið að ganga frá greininni þannig að hún væri hæf til birtingar í fjölmiðlum. Ég ákvað að slá til. Ég fékk fólk sem ég treysti vel, til að lesa greinina yfir, til að fá þeirra sýn á greinina. Ég fékk góðar athugasemdir frá þessum einstaklingum og lagði greinina aftur fyrir vélina og fékk viðbrögð hratt og vel. Vélin spurði aftur hvort ég vild fá hjálp við að koma greininni til einhvers fjölmiðils til birtingar. Ég þáði það og var greinin birt í Heimildinni þann 30. júní. Ég verð að segja að mér fannst þetta ferli bæði mjög áhugavert og ótrúlega skemmtilegt.
Allt ferlið – frá fyrstu fyrirspurn til birtingar í Heimildinni – var ekki bara gagnlegt, heldur líka ótrúlega skemmtilegt. Það sýndi mér að gervigreind getur verið virkur samstarfsaðili í sköpunarferli og tjáningu, ef maður heldur í gagnrýna hugsun og fær aðstoð frá lifandi fólki samhliða.
Tilvísun í greinina á heimildin.is:
https://heimildin.is/grein/24651/timi-til-ad-spyrja-fyrir-hvern-er-grunnskolinn/
Einar Sveinn Árnason
Vinnur þú að listsköpun á þriðja æviskeiðinu?

Mynd: Ein yfir áttrætt
Ef svo er, færi ég þér gleðifréttir því að heimildir fara fögrum orðum um jákvæð áhrif listsköpunar fólks á efri árum, það er á þriðja æviskeiðinu, á virkni þess og andlega heilsu.
Listsköpun er mikilvæg
Hér er að neðan er gerð grein fyrir mikilvægi listsköpunar fyrir fólk á þriðja æviskeiðinu hvað varðar virkni og andlega heilsu, tilfinningalega vellíðan og persónulegan þroska.
Virkni og andleg heilsa
Listsköpun er sögð stuðla að hugrænni og vitsmunalegri virkni eldra fólks, hún bæti minni og einbeitingu, gagnrýna hugsun og auðveldi því að taka ákvarðanir. Rannsóknir sýna að 73% eldra fólks sem stunda listsköpun eigi síður hættu á að eiga við minnisvanda að stríða.
Tilfinningaleg vellíðan
Skapandi listir eins og myndlist, tónlist og dans eru sagðar stuðla að tilfinningalegri vellíðan og má bæta ritlist og leiklist þar við. Því fylgir til dæmis vellíðan að mála mynd; að horfa á fullunnið myndverk sitt getur haft ótrúlega upplyftandi áhrif á geðheilsuna og aukið lífsfyllingu til muna. Að mála mynd snýst ekki bara um að skapa eitthvað fallegt heldur er það frábær leið til að bæta skapið.
Persónulegur vöxtur
Listsköpun er sögð bjóða upp á tækifæri til persónulegs vaxtar, sjálfstjáningar og eflingu sköpunargáfunnar.
Auk ofangreinds er listsköpun ekki síst sögð frábær leið til að tengjast öðrum og efla þannig félagsleg samskipti.
Aldur er ekki hindrun
Góð áhrif listsköpunar á fólk á þriðja æviskeiðinu hafa verið tíunduð hér að framan og skiptir aldur þess ekki máli því eins og Rita Moreno, leikkona, söngkona og dansari frá Puerto Rico, orðar það „Aldur er ekki hindrun fyrir sköpunargáfu; hann er fjársjóður innblásturs. Sögur okkar, viska okkar, seigla okkar – allt þetta kyndir undir listrænum eldi okkar.“
Heimildir fyrir umfjöllun hér að framan er meðal annars að finna á vefsíðunum
https://friendshipcenters.org/creative-arts-and-aging-the-benefits-of-art-therapy/
og
https://assistedlivinglocators.com/articles/empowerment-through-art-seniors-exploring-creative-expression-for-mental-well-being
Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir
Höfundur er áhugamaður um virkt þriðja æviskeið
Vöruhús tækifæranna In memoriam

Vöruhús tækifæranna hefur verið lagt niður þar sem það stóðst ekki lengur tímans tönn vegna örrar tækniþróunar og breyttra möguleika á hverinn afla má upplýsinga á netinu með Google og nú gervigreind. Hugmyndafræði Vöruhússins var að aðstoða fólk á þriðja æviskeiðinu við elta drauma sína og eða feta nýjar slóðir í lífinu með því að safna saman tækifærum á skipulegan hátt á hillum í rekkum með nöfn eins Færni, Fjárhagur, Nýr starfsferill og Lífsfylling. Vöruhúsið var einstakt að því leyti að það tengdi saman þá sem vildu nýta tækifærin og þá sem buðu þau fram.
Metnaðarfullt verkefni
Vöruhús tækifæranna var metnaðarfullt alþjóðlegt verkefni sem var rekið á vegum U3A Reykjavík, University of the Third Age, frá vori 2018 þar til í ársbyrjun 2024. Hugmyndin að Vöruhúsi tækifæranna varð til í Evrópuverkefninu BALL og hrint í framkvæmd í framhaldsverkefni þess Catch the BALL. U3A Reykjavík var frumkvöðull og aðili að báðum verkefninu ásamt nokkrum örum Evrópulöndum.
Þrjú vöruhús urðu til í seinna verkefninu en aðeins það íslenska lifði áfram. Verkefnin vöktu athygli út fyrir landsteinanna og þóttu brautryðjandi við að aðstoða fólk á þriðja æviskeiðinu til þess að nýta og nota efri árin eins og best var á kosið, eiga þróttmikið æviskeið.
Ný tækni
Ekki er þó öll von út því stjórn U3A Reykjavík skipaði s.l. vor vinnuhóp sem á að undirbúa uppsetningu gáttar á vefsíðu samtakanna, u3a.is, sem á að vera einskonar framhald af hugmyndafræði Vöruhúss tækifæranna. Þar verður lögð áhersla á leitarfærni með hjálp gervigreindar með því að veita leiðbeiningar um hvernig skal nota gervigreindina, gefa góð ráð við það og vera með sýnidæmi. Vinnuhópurinn stefnir á að ljúka störfum fyrir næstu áramót.
Það eru því spennandi tímar framundan fyrir félagsmenn U3A og vonandi taka sem flestir þátt í og leggja hönd á plóg við að nýta nýjustu og bestu tækni til þess að draumar þeirra og langanir rætast á þriðja æviskeiðinu eins og stefnt var að með stofnun Vöruhúss tækifæranna árið 2018. Blessuð sé minning þess.
Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir
fyrrv. stjórnarmaður Vöruhúss tækifæranna
Fréttir af Tuma

TUMI = Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi.
Fjölmiðlanefnd https://fjolmidlanefnd.is/ sér um Tuma
Meðan Fréttabréf U3A var í sumarfríi, voru haldnir þrír Tumafjarfundir, þann 29. apríl, 21. maí og 19. júní. Hér á eftir fer grófur útdráttur, en vonandi nægar krækjur fyrir ykkur sem viljið vita meira.
APRÍL
Stella Björg Kristinsdóttir, fagstjóri frístundastarfs og forvarna á Mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðarbæjar, kynnti herferðina Horfumst í augu. Herferðin beinist gegn óhóflegri skjánotkun og er hluti af fundaröð síðastliðinn vetur Við erum þorpið, um málefni barna, líðan þeirra og öryggi, https://hafnarfjordur.is/vid-erum-thorpid/
Bjarki Þór Grönfeldt, doktor í stjórnmálasálfræði frá University of Kent, lýsti vinnu þar í gerð tölvuleikja og myndbanda til þess að kenna börnum og unglingum að átta sig á haturshópum, hryðjuverkaáhrifum og öðrum falsáróðri sem beinist meðal annars gegn ákveðnum hópum fólks. Hugtakið sem vert er að fylgjast með í þessu sambandi er Inoculation Science, https://inoculation.science/, eins konar sálfræðileg ónæmisaðgerð.
Unnur Freyja Víðisdóttir, sérfræðingur hjá Fjölmiðlanefnd, sagði frá heimsókn til Dublin, en írska og íslenska fjölmiðlaumhverfið eru áþekk. Írska SAFT heitir Webwise, https://webwise.ie, og þar fást upplýsingar fyrir börn, foreldra, kennara og fleiri um ábyrga netnotkun og ábendingar.
MAÍ
Sam Liberty, leikjahönnuður, https://www.samliberty.com, fjallaði um siðferðilega leikjavæðingu. Vert sé að spyrja 1) hvort leikurinn steli spilaranum, þ.e. sé ekki hvetjandi heldur lokkandi, 2) hvort mótsagnakennd gildi komi fram, 3) hvort hann valdi vanlíðan, 4) hvort þar sé útgjaldavítahringur og 5) hver stjórnun spilarans sé, getur hann hætt, tekið hlé, eða jafnvel þurft að gefa vinum lykilorðin sín. Málaferli hafa verið í gangi vegna þess að leikur sé ávanabindandi, brjóti á persónuvernd, hafi ófyrirséð útgjöld o.fl. Mikilvægt sé að skilja efnisinntakið, vinna með sérfræðingum og raunverulegum notandum, og kafa í siðferðilegu álitamálin. Einnig þyrfti að skoða betur almennt hvað vel hefur tekist og hvað ekki. Virkar til dæmis alls kyns hugbúnaður sem lofar öllu fögru, virka kúrarnir og æfingarnar? Og svo eru ómeðvituðu reiknireglurnar, en dæmi sem Sam nefndi var ung stúlka sem eyðilagði mynd af sér á Instagram og fékk í kjölfarið hafsjó af auglýsingum um útlitsvörur.
Jenný Ingudóttir, verkefnastjóri hjá embætti Landlæknis, fór yfir faglega framkvæmd forvarnarfræðslu hjá embættinu https://island.is/afengis-vimuvarnir Forvarnarfræðsla á sér orðið langa sögu hérlendis, og bæði hér og erlendis hafa fundist kostir og gallar. Komið hefur í ljós að hræðsluáróður virkar ekki. Hann getur ýtt undir slæma hegðun, jafnvel áhættuhegðun. Ekki dugar heldur að fjarlægja hættuna, því kenna þarf ráð til að takast á við hana. Árangursríkar forvarnir byggja á fræðilegum grunni, leggja áherslu á fjölbreyttar, sveigjanlegar og gagnvirkar aðferðir sem auka færni barna og ungmenna og mæta þörfum þeirra. Forvarnir byggi á fagmennsku og þjálfun þeirra sem sinna kennslunni, efli seiglu nemendanna og leggja skal áherslu á félags- og tilfinningafærni. Nú eru í vinnslu hjá embættinu ráðleggingar um forvarnir í skólum.
JÚNÍ
Hópur fimm tölvunarfræðinema við HR kynnti lokaverkefni sitt um að finna og greina falsfréttir, Fake News Detector. Nemendurnir vinna með íslenska fyrirtækinu, Videntifier https://www.videntifier.com/ Hugbúnaðurinn er ekki kominn í loftið, en ætlunin er að rekja breytingar á myndum og fréttum frá upphaflegri útgáfu. Fréttastofur, stofnanir og fleiri gætu þá notað hugbúnaðinn til að sannprófa fréttir.
Haukur Brynjarsson, sérfræðingur há SAFT, greindi stuttlega frá tveim nýlegum skýrslum um kannanir Fjölmiðlanefndar og Maskínu. Í þeim er staðan 2024 borin saman við niðurstöður frá 2021. Fyrri skýrslan er um falsfréttir og upplýsingaóreiðu í aðdraganda alþingiskosninganna 2024 https://fjolmidlanefnd.is/2025/05/26/ny-skyrsla-falsfrettir-og-upplysingaoreida-i-addraganda-althingiskosninga-2024 og hin, útgefin nú í júlí, um upplýsingaóreiðu, skautun og traust í íslensku samfélagi 2024 https://fjolmidlanefnd.is/2025/07/09/ny-skyrsla-fjolmidlar-og-traust
Bestu kveðjur.
Guðrún Bjarnadóttir
Vísnahorn Lilju

ChatGPT forskrift: Bjarki Karlsson les ljóð fyrir vini á kaffihúsi (fyrirmynd úr Silfri Egils)
Maður er nefndur Bjarki Karlsson (f 1965). Hann er kerfisfræðingur og málfræðingur og með snjöllustu skáldum hins hefðbundna forms nú um stundir. Hann lýsir sjálfum sér svona:
Nískur er ég á mitt pund
enda í fáum dráttum:
Fyrtinn, drýldinn, fúll í lund,
forn í skapi og háttum.
Árið 2013 gaf Bjarki út ljóðabókina Árleysi alda sem hlaut miklar vinsældir. Hún var prentuð sjö sinnum í samtals 4900 eintökum og seldist upp. Í bókinni var nýlega orðið hrun yrkisefni ásamt fleiru. Ári síðar, 2014, kom út önnur útgáfa bókarinnar, aukin og viðbætt og nefnist hún Árleysi árs og alda. Ljóðabálkur um bóluárin og hrunið nefnist Þúsaldarþáttur. Hér eru nokkur erindi út kvæðinu:
Í upphafi aldar, títt voru taldar tekjur á Fróni,
milljónir maldar, fimmhundruðfaldar að fjármálaljóni
af ráðherrum valdar svo randbítar skjaldar í ríkinu tróni
en grannþjóðir kvaldar, grunnhyggnar kaldar gleðinni þjóni.
…
Með hárugum lófum í harðdrægum glófum var hagnaður marður,
á samfélagsþjófum, siðblindum, grófum, var svipurinn harður,
fleygt var þá skófum að fólki og tófum en fögnuður sparður,
í kræsingarhófum hjá kauphallarbófum kraumaði arður.
…
Enn skal hér fjalla um ofurmenn snjalla þá allt stóð í blóma,
kappana alla sem kunnu að bralla með kappnógum sóma
og hollt var að skjalla og hefja á stalla í hrifningarljóma
svo lausa við galla að gagnrýni varla gerði að hljóma
…
Íslandi gagnar þá auðsælir bragnar til útlanda spana,
ákefð þeim magnar arfur fornsagnar og efni í rana.
Baunverjinn þagnar er bruna fram vagnar um borgarhlið Dana.
Ákaft því fagnar Ólafur Ragnar með orðum úr krana.
…
Svo bilaði spottinn og botninn var dottinn úr ballinu hressa
píslar- með -vottinn við peningaþvottinn menn pukruðust hlessa,
og breskur dró hrottinn upp hryðjuverksplottin er heift sauð í vessa
og ei vildi Drottinn (sem er víst svo gott skinn) Ísaland blessa.
Lilja Ólafsdóttir