Sumarkveðja frá stjórn U3A Reykjavík
Nú í lok maí lýkur enn einum viðburðaríkum vetri í starfi U3A Reykjavík.
Fjölbreyttir þriðjudagsfyrirlestrar hafa verið á sínum stað eins og áður og ber að þakka þeim frábæru fyrirlesurum sem hafa frætt okkur og glatt.
Menningarhópur U3A hefur staðið fyrir fjölda heimsókna einsog í Lyfjafræðisafnið á Seltjarnarnesi, Kvikmyndasafn Íslands, leikhúsferð í Borgarleikhúsið, hádegistónleika, á sýningu í Eddu, hús íslenskunnar, í RÚV, Seðlabankann og Landnámssetrið í Borgarnesi þar sem Vilborg Davíðsdóttir rakti söguna í Laxdælu
Í september fór hópur félagsmanna U3A í 12 daga ferð til Tyrklands en færri komust að en vildu í fyrri ferðina í apríl og því var ferðin endurtekin.
Annað hópastarf á vegum félagsins hefur einnig verið blómlegt þetta árið, bókmenntahópur hittist reglulega og hefur gert það frá stofnun félagsins og umhverfishópur hefur staðið fyrir málþingum sem voru vel sótt. Fleiri hópar eru starfandi sem snúa að innra starf félagsins.
Þá er ánægjulegt að segja frá því að frumkvöðullinn að stofnun U3A árið 2012, Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir, var gerð að heiðursfélaga samtakanna á aðalfundi félagsins 23. mars s.l.
Ritstjórn sá um útgáfu 9 fréttabréfa U3A Reykjavík á fyrsta þriðjudegi hvers mánaðar og er þetta maífréttabréf meðtalið. Næsta fréttabréf U3A kemur út að loknu sumarfríi 2. september í byrjun komandi vetrarstarfs.
Við tökum okkur nú sumarhlé í félagsstarfinu en hefjum starfið að venju með félagsfundi 2. september og verður þar leitað eftir tillögum félagsmanna að efni fræðslufunda og viðburða á vetri komanda. Á þeim fundi verður til hugmyndalisti fyrir stjórn til að vinna eftir.
Njótum sumarsins og látum okkur hlakka til að hefjast handa í haust með fræðslu og virkni að leiðarljósi
f.h. stjórnar U3A Reykjavík
Hjördís Hendriksdóttir
Væntanlegir viðburðir

F.v.: Jóhanna Eyrún Torfadóttir, Jón Björnsson, Jakob Smári Magnússon, Páll Ásgeir Ásgeirsson
Fjölbreyttir viðburðir verða á vegum U3A Reykjavík í maí eins og áður. Síðan tekur við sumarfrí þar til í september þegar næsta starfsár hefst.
Þriðjudaginn 6. maí kl. 16:30 kemur Jóhanna Eyrún Torfadóttir, næringarfræðingur með erindi sem hún nefnir: Hvernig mataræði stuðlar að góðri heilsu? Sérstök áhersla verður lögð á breyttar þarfir eftir því sem við eldumst og hvernig hægt er að gera litlar en jákvæðar breytingar fyrir heilsuna.
Þriðjudaginn 13. maí kl. 16:30 verður Jón Björnsson, sálfræðingur og rithöfundur með kynningu á fyrirhugaðri ferð um suðurströnd Eystrasalts og helstu borga þar. Ferðin er fyrirhuguð í maí 2026 og hefur félagið leitað eftir samstarfi við Bændaferðir um framkvæmd og skipulagningu.
Þriðjudaginn 20. maí kl. 16:30 mun Jakob Smári Magnússon neyðarvarnafulltrúi Rauða Krossins fræða U3A félaga um átakið „3 dagar – ertu klár?“.
Þriðjudaginn 27. maí kl. 16:30 heldur Páll Ásgeir Ásgeirsson fyrirlestur sem ber yfirskriftina: Drífðu þig út. Þar verður fjallað um jákvæð áhrif útivistar á sál og líkama.
2.-5. júní fer hópur U3A-félaga í ferð til Færeyja sem menningarhópur stendur fyrir. Gist er í Þórshöfn og skoðuð söfn og kirkjur og einnig ekið til Klaksvíkur, til Vestmanna og til Gjögv.
Nánari upplýsingar um viðburði á vegum U3A Reykjavík má finna á vef félagsins: https://u3a.is/vidburdayfirlit/
Nánari upplýsingar um viðburði á vegum U3A Reykjavík má finna á vef félagsins: https://u3a.is/vidburdayfirlit/
Og svo fórum við í Hvíta húsið og hittum Eisenhower...

Mynd: Skiptinemar 1957 á leið vestur um haf.
Sum ykkar lesenda fréttabréfsins hafið kannski verið skiptinemar eins og ég og búið eins og ég yfir ríkulegri reynslu af því. Mitt ár sem skiptinemi var 1957 til 1958 og var ég í fyrsta hóp skiptinema frá Íslandi til Bandaríkjanna á vegum AFS-samtakanna. Förinni var heitið til New York sem fyrsta viðkomustaðar.
Fyrir þá sem ekki vita eru AFS alþjóðleg skiptinemasamtök sem vinna að því að tengja saman menningarheima. Upphaflega voru samtökin stofnuð sem samtök sjúkrabílstjóra í seinni heimsstyrjöldinni en urðu síðar að samtökum um skiptinema.
Og bæta má við að umsókn um að fá að taka þátt í þessari fyrstu ferð skiptinema til Bandaríkjanna var ekki einföld og þurfti til dæmis sóknarpresturinn minn að skrifa upp á hana. Einnig fylgdi með heimsókn í bandaríska sendiráðið þar sem fingraför voru tekin.
New York
Að koma til New York frá sjávarbæ úti á landi var eins og að stíga inn í nýjan og framandi heim. Allt, mannfjöldinn, skýjakljúfarnir og ysinn og þysinn í borginni virtust yfirþyrmandi. Bara flugið tók heila eilífð því það þurfti að stoppa á Gander á Nýfundnalandi til þess að taka eldsneyti. Ekki dró úr áhrifunum að fyrsta kvöldið í borginni var mér boðið á stefnumót af ungum manni á skrifstofu AFS í New York. Stefnumótið var að fara á tónleika í Central Park og frétti ég seinna að þar hefðu frægir bandarískir jazz-tónlistarmenn spilað, nokkuð sem ég vissi ekki þá.
Langar að skjóta inn hér að ég hafði reyndar komið til stórborgar áður, Kaupmannahafnar, en hún með sínum höllum og reisulegum byggingum virtist kunnugleg sem eflaust má þakka að ég sem barn fletti danska tímaritinu Familie Journal spjaldanna á milli hjá ömmu minni sem átti það inn bundið í stöflum.
Dvölin
Þetta ár var kalda stríðið í algleymingi, Eisenhover var forseti og það tók heila þrjá sólarhringa að fara með Greyhound-rútu frá New York til Minneapolis en þangað var för minni heitið ásamt öðrum skiptinemum. Ég dvaldi þar í eitt ár og líkaði vel, bæði námið í „senior high school“ og annað. Vegna kalda stríðsins voru Rússar áberandi í bandarískri umræðu og þannig var spútniki sem þeir skutu á loft, fyrstir þjóða, meðal annars kennt um að sjálfvirk bílskúrshurð nágrannans öðlaðist eigið líf og opnaðist og lokaðist að vild.
Í lok dvalar fór fjölþjóða skiptinemahópurinn, sem hafði varið árinu í Minneapolis og tvíburaborg hennar St. Paul, saman í þriggja vikna ferðalag um Bandaríkin frá Minneapolis til New York með viðkomu á mörgum stöðum við höfðinglegar móttökur. Einn af viðkomustöðunum var Washington D.C. þar sem Eisenhower tók á móti okkur og fleiri skiptinemahópum í garðinum hjá sér við Hvíta húsið og hélt yfir okkur tölu.
Og svo …
Heimsókninni til forsetans er aðeins getið með einni setningu í þriggja blaðsíðna dagbókarfærslu minni fyrir þann dag og hljóðar hún svo „Then we went to the White House and met Eisenhower and he spoke to us (Og svo fórum við í Hvíta húsið og hittum Eisenhower og hann talaði til okkar). Enskan var ungu konuninni orðin töm eftir dvölina. Partíi sem haldið var fyrir hópinn þar í borg fær hins vegar nokkuð meira rými í sömu færslu og má eflaust þar um kenna unggæðislegu mati mínu á hvað væri merkilegt.
Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir
Mannréttindasáttmáli aldraðra í fæðingu

Mynd: Skjáskot af vef GAROP
Í Fréttabréfi U3A Reykjavík í október 2021 sögðum við frá því að U3A Reykjavík hefði ásamt 222 öðrum samtökum um heim allan undirritað opið bréf til Vinnuhóps Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um öldrun, “UN Open-Ended Working Group on Aging – OEWGA“. Þar er OEWGA hvatt til að herða róðurinn við vinna tillögur að alþjóðlegum lagagerningi sem ætlað er að efla og vernda réttindi og reisn eldra fólks og leggja fyrir Allsherjarþing SÞ tillögu með meginatriðum slíks gernings.
Sjá nánari umfjöllun í Fréttabréfinu í október 2021
Þetta ákall var skipulagt af samtökunum The Global Alliance for The Rights of Older People, GAROP. Þetta eru samtök yfir 400 aðila um heim allan, sem allt frá stofnun árið 2011 hafa unnið að eflingu réttinda eldra fólks, m.a. með sáttmála í huga. U3A Reykjavík hefur tengst þeim óformlega í gegnum aðild sína að tengslanetinu Pass it on Network sem á aðild að GAROP.
Á 14. fundi sínum í maí 2024 samþykkti OEWGA vinnuhópurinn samhljóða ákvörðun sem send var Allsherjarþingi SÞ. Þar var m.a. bent á bresti í mannréttindum eldra fólks og að alþjóðlegur lagagerningur væri mögulegt tæki til aðgerða. Í ágúst sama ár ályktaði svo Allsherjarþingið að OEWGA hefði lokið starfi í samræmi við umboð sitt og skoraði á stofnanir Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Mannréttindaráð SÞ að vinna áfram með niðurstöðurnar.
Stóru fréttirnar eru þær að Mannréttindaráðið hefur nú brugðist við áskorun Allsherjarþingsins og ályktaði á fundi sínum 3. apríl síðastliðinn að stofna nýjan opinn milliríkjavinnuhóp til að leggja drög að alþjóðlega bindandi lagagerningi (sáttmála – UN Convention) um mannréttindi eldra fólks. Á vef GAROP er að finna fréttatilkynningu um þessa sögulegu ákvörðun sem afrakstur áralangrar baráttu eldra fólks, samtaka og talsmanna þess um heim allan og að slíkur sáttmáli um mannréttindi eldra fólks muni leiðbeina ríkjum að efla og virða rétt eldra fólks í samfélaginu og aðstoða við að eyða aldursfordómum. Fréttatilkynninguna má sjá hér og ályktun Mannréttindaráðsins 3. apríl 2025 hér: https://docs.un.org/en/A/HRC/RES/58/13
Að lokum skal minnt á það að Ísland á nú sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í þrjú ár, 2025-2027. Sjá upplýsingasíðu um aðild Íslands hér.
Undirritaður beinir því þess vegna sérstaklega til þeirra aðila hérlendis, einstaklinga, samtaka, ráða og stofnana, sem er annt um og vinna að réttindum og velferð eldra fólks, að nýta þetta tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri við fulltrúa okkar í ráðinu og stuðla þannig að því að hinn nýi mannréttindasáttmáli eldra fólks verði að veruleika sem fyrst. GAROP mun skipuleggja vinnu innan sinna vébanda til aðstoðar væntanlegum opnum vinnuhópi Mannréttindaráðsins við þróun slíks sáttmála. Undirritaður mælir með því að þið sem látið ykkur varða þróun mála eldra fólks á alþjóðavettvangi nýtið ykkur upplýsingastreymið á vef GAROP. Ég bendi sérstaklega á umfjöllun um það hvers vegna þörf sé á sérstökum sáttmála um mannréttindi eldra fólks – Sjá: „Why do we need a convention for older people“.
Hans Kristján Guðmundsson
Hamingjusömustu konurnar og hamingjusömustu karlarnir

Mynd: ChatCPT – Forskrift: Hamingjusamt fólk á þriðja æviskeiðinu.
Rannsóknir benda til þess að einhleypar konur og giftir karlar séu hamingjusamasta fólkið. Ástæður þessa má rekja m.a. til eftirfarandi þátta:
Einhleypar konur njóta góðs af sjálfstæði og frelsi til að sinna þeim persónulegum hagsmunum sem stuðla að almennri velferð þeirra.
Giftir karlmenn segjast hins vegar gjarnan upplifa mikla hamingju í tilfinningalegum og hagnýtum stuðningi maka. Hjónaband hefur tilhneigingu til að færa karlmönnum stöðugleika, félagsskap og tilgang sem eykur lífsánægju þeirra.
Báðir þessir hópar rekja hamingju sína til mismunandi þátta og lífsstíla. Einhleypar konur njóta frelsis til að forgangsraða sjálfri sér á meðan giftir karlar njóta sín í nándinni og samstarfinu sem felst í hjónabandinu.
Það er rétt að taka það fram að þessar niðurstöður sýna einungis athygliverðar tilhneigingar sem sést hafa í rannsóknum. Sem betur fer er fullt af alls konar hamingjusömu fólki í heiminum.
Heimild: Tracey Cox, London School of Economics
Fréttir af Tuma

TUMI = Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi.
Fjölmiðlanefnd https://fjolmidlanefnd.is/ sér um Tuma
Miðvikudaginn 26. mars var Tumafjarfundur undir markvissri stjórn Unnar Freyju Víðisdóttur sérfræðings hjá SAFT, sem nú heyrir undir Fjölmiðlanefnd. Útdráttur dagskrárliða fer hér á eftir.
HATURSORÐRÆÐA
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir verkefnastýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheill, fjallaði um hatursorðræðu, auk þess að segja frá nýrri vitundarvakningarherferð Barnaheilla, Ég lofa. Eins og við þekkjum verðum við vör við aukið hatur og talsverða reiði í samfélaginu. Kolbrún Hrund ræddi hvernig við verðum að hjálpast að og spyrna við. Samfélagið breytist, er fjölbreyttara, við lærum ný orð, nennum við því? Sárt er og skaðlegt að útiloka fólk, við höfum öll þörf fyrir að tilheyra. Við getum tekið slaginn á fyrstu stigum, niðurlægjandi „húmor“ hættir ef ekki er hlegið. Vitundarvakningarherferðin #ÉGLOFA var gangsett þann 4. apríl https://barnaheill.is/eglofa/, herferð gegn kynferðisofbeldi, þar sem fólk lofar að líta ekki undan, að tala upphátt um kynferðisofbeldi, fræðast, hlusta, bregðast við, skipta sér af verði vart við óeðlileg samskipti. Þannig eru send skýr skilaboð til barna um að þau fái stuðning ef þau segja frá og tilkynna grun um ofbeldi.

Mynd: GhatGPT – Forskrift: Gervigreind kennir börnunum.
GRÆJUR, FÓLK OG GERVIGREINDIN
Marcello Milanezi, doktorsnemi við H.Í., lýsti viðfangsefninu í ritgerðinni sinni, þar sem hann fjallar um samband mannfólks og gervigreindartölvutækni, hvernig það rennur saman. Viðfangsefninu skiptir hann í þrennt: 1) Cyborg Biopower, 2) Artistic Expression in the Age of AI og 3) AI Companion, a Matter of Affect. Fyrsta þáttinn vinnur hann einkum með að skoða samskiptin við snjallúrin, sem segja okkur frá hjartslætti, svefni o.m.fl. og vekja samviskubitið yfir því að hafa ekki gengið skrefaskammt dagsins. Varðandi annan þáttinn, er áhugavert að skoða muninn á listsköpun í raunheimi og gervigreindarheimi, þar sem sá fyrri krefst hreyfingar, eins konar tengingar handar og tilfinninga, en síðarnefndi heimurinn er hreyfingarlítill. Þriðji þátturinn krefst þess að við gerum okkur öll grein fyrir félagsskapnum sem við höfum af gervigrreindinni. Þaðan koma sögurnar, vitneskjan um það sem gerist í heiminum og hvað er áhugavert. Þessi nýskipan mála, hleður undir einstaklingshyggjuna, „vinir“ okkar samsinna okkur. Hvernig setjum við mörk, þannig að gervigreindin hjálpi en meiði ekki?
SAFE INTERNET CENTRES
Að lokum kynnti Þóra Jónsdóttir, lögfræðingur hjá Fjölmiðlanefnd vefinn Better Internet for Kids (e. BIK), á vegum Safe Internet Centres (https://digital-strategy.ec.europa.eu/en/policies/safer-internet-centres), og styðst við sáttmála Evrópusambandsins um rétt barna. Þarna inni eru fræðsluhorn (Learning Corners) með fjölbreyttu fræðsluefni fyrir foreldra, kennara og börn. Auk þess er bent á ráðstefnur og tengslanet í boði. Safe Internet Centre á Íslandi er í burðarliðnum.
Kærar kveðjur.
Guðrún Bjarnadóttir
Vísnahorn Fréttabréfsins

Mynd: ChatGPT – Forskrift: Karlmaður les kvæði fyrir áheyrendur árið 1990.
Hákon Aðalsteinsson (1935-2009) fæddist og ólst upp á Vaðbrekku á Jökuldal í stórum systkinahópi þar sem hagmælska og ljóðagerð var í hávegum.
Hákon fékkst við ýmislegt um ævina, m.a. var hann vélstjóri, lögreglumaður og skógarbóndi.
Árið 2010 kom út bókin Fjallaþytur með úrvali af hinum góðu ljóðum og vísum Hákonar sem bræður hans, þeir Aðalsteinn og Ragnar Ingi, stóðu fyrir. Fyndni og orðheppni er einkennandi víða í kveðskap Hákonar.
Hér eru fáein dæmi úr Fjallaþyt:
Kári og erfðagreiningin
Það birtist eflaust býsna margt
í bókum hans.
Því sitthvað gerist síðla kvölds
til sjós og lands.
Svo ef hann rekur okkar gen
til upprunans
þá fara allar ættarskrár
til andskotans.
Sjálfslýsing
Mér til gleði matast ég
því megrunin er hættuleg.
Leiðist hvers kyns líkamsrækt
og líður best að vinna hægt.
Afmæliskvæði til konunnar
Konan mín er ekki léttfætt lengur,
lífsklukkan gengur.
Með árunum byrjar húðin að herpast,
hrukkurnar skerpast.
Enginn fær flúið frá örlagaveginum,
afmælisdeginum.
Veröldin hleður árunum á‘ana;
það eru ósköp að sjá‘ana.
Lilja Ólafsdóttir