Fréttabréf U3A
Janúar 2025

Nýárskveðja til eilífðarstúdenta

Orðið „eilífðarstúdent“  hefur hingað til  þótt frekar neikvætt. Í íslensku nútímaorðabók Árnastofnunar er eilífðarstúdent „námsmaður sem hefur verið mjög lengi í námi án þess að ljúka prófi.“

Hjá ungu fólki er markmiðið með náminu að öðlast gráðu og færni sem opnar tækifæri til starfa. Undanfarna áratugi hefur samfélagið verið í sífelldri  þróun, ný þekking bætist stöðugt við og þarfir atvinnulífsins taka mið af nýjustu tækni og vísindum fremur en 40 til 50 ára gömlum háskólagráðum. Vilji fólk haldast á vinnumarkaði þarf það reglulega að uppfæra færni sína og þekkingu með frekara námi og símenntun.

En það er ekki síður mikilvægt fyrir þau okkar sem ekki erum lengur á hefðbundnum vinnumarkaði að halda áfram að stúdera.  Rannsóknir hafa sýnt að hvers kyns nám hjálpar til við að bæta heilsu og starfsemi heilans. Árangurinn birtist í aukinni vitrænni virkni; bættri athygli og betra minni og dregur úr líkum á heilabilun.

Þetta er grundvöllur starfsemi U3A Reykjavík – Háskóla þriðja æviskeiðsins. Samtökin stuðla að því að félagsmenn hafi aðgang að fjölbreyttri fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða. U3A skipuleggur fyrirlestra, námskeið, ferðir og heimsóknir og reglulega er kallað eftir tillögum félagsmanna.

Á þriðja æviskeiðinu hefur orðið „eilífðarstúdent“ fengið jákvæða merkingu. Heitið vísar þá til eldra fólks sem vill vera vel upplýst og virkt í samfélaginu og njóta alls þess sem þetta æviskeið hefur upp á að bjóða.

Stjórn U3A hlakkar til að hitta ykkur á hinum ýmsu fyrirlestrum og viðburðum á árinu 2025.

Hjördís Hendriksdóttir, formaður U3A Reykjavík

Lífleg umræða um dánaraðstoð

Með samviskueiði lækna gangast þeir undir þá skyldu að lina þjáningar þeirra sem veikir eru. Þýðir það að læknar ættu jafnvel að hjálpa fólki til að deyja ef það er eina leiðin til að lina þjáningar þess? Þetta er grundvallarspurning í umræðu um hvort lögleiða eigi líknardauða.

Frumvarp Viðreisnar um dánaraðstoð
Á síðasta löggjafarþingi Alþingis lögðu þingmenn Viðreisnar fram frumvarp til laga um dánaraðstoð. Markmið laganna skyldi vera að heimila þeim einstaklingum sem glíma við ólæknandi sjúkdóma og búa við óbærilega þjáningu að þiggja dánaraðstoð, ef þeir óska þess sem skýrum hætti. Einnig að heimila læknum að veita slíka aðstoð, að uppfylltum ströngum skilyrðum. Frumvarpið náði ekki fram að ganga á síðasta þingi og spurning hvort ný ríkisstjórn, með Viðreisn innanborðs, taki málið upp að nýju.
Umræða um líknardauða og dánaraðstoð hefur fengið aukið vægi eftir að lög um heimild til þeirra var nýlega samþykkt í breska þinginu. Þá bárust nýlega fréttir af því að í Kanada, þar sem dánaraðstoð hefur verið leyfð um nokkurt skeið, að um 5% allra dauðsfalla þar í landi 2023 megi rekja til dánaraðstoðar. Ef sama hlutfall dánaraðstoðar væri heimfært á Ísland væri um að ræða um 100 – 130 einstaklinga sem fengju aðstoð til að deyja. Nú er í Kanada rætt um að útvíkka heimild til dánaraðstoðar, þannig að hún nái einnig til fólks með ólæknandi geðsjúkdóma. Í Hollandi hefur dánaraðstoð verið heimiluð í yfir tvo áratugi og þúsundir fengið slíka aðstoð. Ekkert hinna Norðurlandanna heimila aðstoð við líknardauða. En umræðu um málið er þar stöðugt haldið á lofti.

Lækna og líkna
Hér á landi eru það aðallega fulltrúar lækna sem hafa sett sig upp á móti hugmyndum um lögleiðingu dánaraðstoðar og telja það beinlínis andsnúið hlutverki þeirra, sem sé að lækna og líkna en alls ekki að hjálpa fólki að deyja. Siðfræðingar hafa tekið undir viðhorf lækna og bent á vafasamar afleiðingar slíkrar lögleiðingar. Læknar furða sig á að ekkert samráð hafi verið haft við þá áður en frumvarp Viðreisnar um dánaraðstoð var lagt fram á Alþingi. Áhyggjur þeirra felast meðal annars í því að með slíkri lögleiðingu gætu fleiri en dauðvona einstaklingar, sem vilja binda endi á líf sitt, fengið aðstoð lækna til þess. Sömuleiðis að farið verði að slá af kröfum um skilyrði fyrir rétti til dánaraðstoðar. Opnað verði á þetta fyrir fleiri hópa, líkt og nú er rætt um í Kanada að sjúklingar með geðsjúkdóma fái þennan rétt. Einnig benda læknar á að einstaklingar sem biðja um dánaraðstoð kunni að skipta um skoðun þegar of seint sé að snúa við. Þá vilja fulltrúar lækna ekki að þeir verði settir í þá stöðu að meta hvort hjálpa einhverjum að deyja. Auðvelt er að setja sig í þessi spor. Einnig þykja fulltrúum lækna fráleit þau rök, sem nefnd hafa verið, að heimild til að hjálpa dauðvona fólki yfir móðuna miklu feli í sér sparnað fyrir heilbrigðiskerfið.

Lífslok á eigin forsendum
Félagsskapurinn Lífsvirðing talar hins vegar fyrir því að „fólk fái að deyja á eigin forsendum“, en í því felst að fólk með ólæknandi sjúkdóma fái dánaraðstoð frá fagfólki á löglegan hátt. Talsmenn Lífsvirðingar undirstrika að aðeins fólk sem þjáist og með ólæknandi sjúkdóm geti fengið aðstoð til að kveðja lífið með reisn. Öll meðferðarúrræði hafi þá verið reynd, án árangurs. Viðkomandi þurfi að vera með ráð og rænu til að geta tekið ákvörðun þessa sjálfur og án utanaðkomandi þrýstings. Mjög ströng skilyrði yrðu sett. Þannig er lagt til að tvo til þrjá mismunandi sérfræðilækna þurfi til að meta samþykki fyrir dánaraðstoð.
Þessi óþægilega, en mikilvæga, umræða verður lifandi um ókomna tíð.

Emil B. Karlsson

Ljóðaflokkur eða ballett?

Fyrir nokkrum árum barst inn á heimili mitt listaverk sem ég hef fyrir augunum alla daga og minnir mig á tímann; tímann sem er að líða og mun hverfa í næstu andrá.

Þetta er textaverk þar sem einfaldlega stendur: ÞAÐ VERÐUR EKKI AFTUR NÚIÐ.

Ég staldra stundum við þetta verk, þessa áminningu. Þau andartök er gott að hugleiða tímann. Hvert fór tíminn? Hversu mikill tími er eftir?

Því er gott að hjafa í huga sem segir í Predikaranum í Biblíunni:

Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma.

Því er ekki að undra að tíminn og æviskeiðið sé vinsælt yrkisefni skálda. Hvernig við verjum tímanum – já, eða eyðum honum. Hinum knappa tíma lífsins sem okkur hefur verið úthlutað.

Halldór Laxness yrkir fyrir hana Lóu í Silfurtúnglinu vögguvísu sem hún syngur fyrir barnið sitt. Söngurinn ber hana á svið skemmtistaðarins Silfurtúnglsins þar sem hún syngur vögguvísuna fyrir skemmtanaglaða áhorfendur, en gleymir á meðan barninu sem vögguvísan var fyrir. Vögguljóðið byrjar svona:

Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,
hvert andartak er tafðir þú hjá mér
var sólskinsstund og sæludraumur hár,
minn sáttmáli við guð um þúsund ár.

Vögguljóðinu lýkur á þessari áminningu um tímann sem er svo hverfull og fljótur að líða:

Já, vita eitthvað anda hér á jörð
er ofar standi minni þakkargjörð,
í stundareilífð eina sumarnótt,
ó alheimsljós, ó mynd sem hverfur skjótt.

Já, það verður ekki aftur núið, um það söng hún Lóa í Silfurtúnglinu, en gleymdi sér þó og missti af hinum raunverulega dýrmætu andartökum, andartökunum sem liðu hjá svo undurskjótt.

Jökull Jakobsson leikskáld skrifaði gjarnan um hinn hverfula tíma í leikverkum sínum. Í einu þeirra, Klukkustrengjum, lætur hann eina persónuna, hann Kristófer bankagjaldkera,  vitna í sífellu í persneska skáldið Omar Khayyám í íslenskri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar:

Sjá. Tíminn, það er fugl, sem flýgur hratt.
Hann flýgur máske úr augsýn þér í kveld!

Kristófer bankagjaldkeri í leikverkinu Klukkustrengjum dreymdi dagdrauma um að breyta lífi sínu algjörlega. Hver hefur ekki gælt við slíka drauma? Að eitt líf þyrfti ekki að vera helgað einu ævistarfi, því mætti skipta í nokkur áhugaverð líf með því að skipta um ævistarf. Því „Tíminn, það er fugl, sem flýgur hratt…“ og „Það verður ekki aftur núið“.

Kristófer hafði gengið með það lengi í maganum að verða listamaður. Hann var búinn að ganga með það í maganum mjög lengi. Hann var meira að segja með hugmynd að listaverki.

En það stóð hnífur í kúnni eins og þar segir – og sá hnífur var þungur. Og meðan sá hnífur var til staðar gat Kristófer ekki tekið skrefið, stóra skrefið að breyta lífi sínu áður en tíminn flygi úr augsýn hans síðasta ævikvöldið, sem gæti verið fyrr en varði.

Það sem stóð í vegi fyrir að hann tæki skrefið var að hann gat ómögulega gert upp við sig hvort listaverkið sem hann var að vinna að í huganum ætti að vera ljóðaflokkur eða ballett.

Með því að koma sér upp þeim vafa, tókst Kristófer það sem svo mörgum okkar hefur tekist: Að koma sjálf í veg fyrir að við tökum skrefið að kanna nýja stigu og njóta lífsins til fulls – áður en tíminn flýgur okkur úr augsýn, jafnvel í kveld.
Það verður ekki aftur núið!

Viðar Eggertsson

Væntanlegir fyrirlestrar og viðburðir
U3A Reykjavík

F.v.: Gunnar Hersveinn, Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, Agnar Freyr,
Vilhjálmur Jens Árnason, Óttar Guðmundsson og Jóhanna Þórhallsdóttir

7. janúar kemur Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur til okkar og flytur erindi sem hann nefnir Vending –  viltu tileinka þér vínlausan lífsstíl?

14. janúar kemur Ásdís Hlökk Theódórsdóttir skipulagsfræðingur og fjallar um Vindorkuver – áhrif á umhverfi og samfélag.

15. janúar kl. 14:00 heimsækir menningarhópur sýninguna Heimur í orðum í Eddu, húsi íslenskunnar.

21. janúar kemur Agnar Freyr frá  Rafíþróttasambandi Íslands og kynnir fyrir okkur Rafíþróttir.

28. janúar mun Vilhjálmur Jens Árnason ráðgjafi fræða okkur um Nýting sjávarafla á Íslandi.

4. febrúar kynna Óttar Guðmundsson og Jóhanna Þórhallsdóttir bókina Kallaður var hann kvennamaður sem er um Sigurð Breiðfjörð skáld.

Fyrirlestrar fara fram í Hæðargarði 31, 108 Reykjavík kl. 16:30. Nánari upplýsingar og skráningar á fyrirlestra og viðburði má finna á heimasíðu U3A  https://u3a.is/vidburdayfirlit/

Félagar eru hvattir til að senda stjórn U3A tillögur að fyrirlestrum og viðburði á netfangið u3areykjavik@gmail.com

Með kveðju frá stjórn U3A Reykjavík

Scroll to Top
Skip to content