Aðalfundur U3A Reykjavík

Aðalfundur U3A Reykjavík var haldinn í Hæðargarði 31 þriðjudaginn 23. mars 2021, fundinum var einnig streymt til félagsmanna. Um 20 manns voru viðstaddir fundinn í sal og í streymi. Birna Sigurjónsdóttir kynnti skýrslu stjórnar þar sem m.a. kom fram að á starfsárinu voru haldnir 23 viðburðir á vegum félagsins, fræðslufundir alla þriðjudaga og ein ferð var farin í Reykholt í Borgarfirði. Námskeið sem áætluð voru, hópastarf og aðrar ferðir féllu niður eða var frestað vegna samkomutakmarkana.

Þátttaka félagsmanna í fræðslufundum í streymi var að meðaltali 137 manns sem fylgdust með beinni útsendingu eða með upptöku sem opin er í viku eftir að fyrirlestur er fluttur. Skýrslan er birt á heimasíðu félagsins. Reikningar félagsins voru kynntir ásamt reikningum Vöruhúss tækifæranna og HeiM-verkefnisins. Árgjald verður óbreytt 2.000 kr. á ári. Félagar eru nú komnir yfir 900 og átak hefur verið gert til að fjölga félagsmönnum út um land sem geta notið fyrirlestra í streymi og þannig tekið þátt í starfi U3A.

Stjórn félagsins telur sjö manns, þrír stjórnarmenn gáfu ekki kost á sér til endurkjörs, þau Ingibjörg Ásgeirsdóttir, Jón Björnsson og Vera Snæhólm. Formaður Birna Sigurjónsdóttir var kjörin til eins árs og er það hennar þriðja ár sem formanns. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára og eru Birna Bjarnadóttir og Jón Ragnar Höskuldsson á seinna ári kjörtímabils. Hans Kristján Guðmundsson gaf kost á sér til endurkjörs og nýir stjórnarmenn voru kjörnir: Borgþór Arngrímsson, Emma Eyþórsdóttir og Guðrún Bjarnadóttir.

Stefnt er að fjölbreyttu félagsstarfi og aukinni virkni félaga á komandi starfsári þegar samkomutakmörkunum verður aflétt. Allar upplýsingar um félagsstarfið er að finna á heimasíðu félagsins.

Scroll to Top
Skip to content