Aðalfundur 23. mars 2021, fundargerð

Ný stjórn á aðalfundi U3A Reykajvík 2021

Aðalfundur U3A Reykjavík 2020 var haldinn þriðjudaginn 23. mars 2021 kl. 16:30 í fundarsal Félagsmiðstöðvarinnar að Hæðargarði 31 í Reykjavík. 

Í salnum var rými fyrir 30 manns með eins metra bili milli sæta í samræmi við sóttvarnarreglur. Fundinn sátu 15 félagar.

Fundurinn var boðaður með tölvupósti til allra félaga og á heimasíðu samtakanna.

Dagskrá aðalfundar var boðuð samkvæmt samþykktum U3A:

• Setning fundar
• Kosning fundarstjóra og fundarritara
• Skýrsla stjórnar kynnt og umræður um hana
• Reikningar félagsins lagðir fram og bornir upp til samþykktar
• Umræður um starfið framundan
• Ákvörðun árgjalds
• Breytingar á samþykkt
• Kosning formanns, stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga ásamt einum til vara
• Önnur mál

1.
Birna Sigurjónsdóttir, formaður samtakanna setti fund og bauð félaga velkomna. Hún gat þess að þessi fundur væri haldinn á fundarstað og í streymi til að gefa sem flestum félögum tækifæri á að fylgjast með fundinum. Hún lagði til að fundurinn samþykkti að kosningar færu þannig fram fundarmenn gætu andmælt tillögum með því að rétta upp hönd í sal og á skjánum fyrir þá sem væru í streymi. Engin andmæli komu fram við tillöguna.

2.
Formaður lagði til að Lilja Ólafsdóttir tæki við fundarstjórn og að Birna Bjarnadóttir, varaformaður samtakanna annaðist fundarritun. Engar athugasemdir voru gerðar við tillögurnar og var það samþykkt og tók Lilja við fundarstjórn. Fór hún yfir auglýsta dagskrá.

3.
Fundarstjóri gaf formanni orðið um skýrslu stjórnar. Formaður sagði síðasta starfsár aðeins hafa spannað 7 mánuði enda aðalfundur 2019 haldinn í september 2020 í stað marsmánaðar vegna sóttvarnarreglna. Gerði hún grein fyrir skipan stjórnar og að sjö  stjórnarfundir hafi verið haldnir þar af nokkrir með zoom streymi. Aukning félaga er 71 frá síðasta aðalfundi en á næsta ári verður félagið 10 ára. Þá gerði formaður grein fyrir fjárhagsstöðu félagsins en halli var af rekstri. Munaði þar mest um kostnað vegna nýrrar heimsíðu. Eigin fjárstaðan er þó jákvæð.

Fræðslufundir hafa alls verið 23 og allir verið haldnir í streymi frá síðasta hausti en ennfremur hafa nokkrir verið þar sem félagar gátu mætt á fundarstað. Félagar fóru síðastliðið haust í heimsókn í Reykholt í kjölfar  fræðslufundar um Snorra sem Óskar Guðmundsson annaðist. Námskeið sem fyrirhuguð voru á síðasta ári verða á dagskrá eftir páska eða á næsta starfsári. Upplýsingamiðlun til félagsmanna hefur verið rafræn, bæði á heimasíðu og með tölvupóstum.

Formaður hefur kynnt samtökin á nokkrum  undum hjá félagasamtökum og í viðtali á Hringbraut. Þá hefur kynning farið fram með kynningarbréfum sem send voru til aðila út um land.

Formaður gat um verkefnið Vöruhús tækifæranna. Eitt nýtt verkefni á síðunni í hverjum mánuði hefur verið markmið stjórnar. Starf stjórnar Vöruhússins hefur verið öflugt á tímabilinu. Þá gat formaður um alþjóðlegt samstarf við AIUTA og kynning á BALL verkefninu sem hefur skilað viðurkenningu til samtakanna.

Formaður gerði þá grein fyrir verkefninu HeiM heritage sem unnið var í samvinnu við samtök í Póllandi, Króatíu og á Spáni. Þessu verkefni mun ljúka í vor en það fékk Evrópustyrk til verkefnisins.

Formaður gat þess að á þessum óvenjulegum tímum hafi þurft ákveðna þrjósku til að halda starfinu gangandi sem er mikilvægt fyrir félagsmenn.


Þá þakkaði formaður öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn, félögum og fyrirlesurum sem og starfsfólki í félagsmiðstöðinni í Hæðargarði.

Þá þakkaði hún sérstaklega vefhópnum sem var skipaður af fjórum stjórnarmönnum fyrir ómetanlegt starf og þá sérstaklega Jóni Ragnari sem leiddi það starf.

Orðið var gefið laust. Hans tók undir þakkir Birnu og gat um HeiM verkefnið sem er að koma út einmitt rétt núna.

4.
Jón Ragnar gjaldkeri stjórnar gerði grein fyrir reikningum samtakanna og verkefna á vegum þeirra.

Í ársreikningi U3A fyrir árið 2020 voru tekjur voru 1.855.387 en gjöld voru 2.597.709.

Rekstrarafkoma er halli að upphæð 742.322. Eignir og skuldir námu 842.823.

Þá gerði hann grein fyrir ársreikningi Vöruhúss tækifæranna. Tekjur voru 703 og gjöld 159.112. Halli nam 158.409. Eignir 744.690.

Að lokum var lagður fram áfangareikningur miðað við áramót sem milliuppgjör ársreiknings fyrir HeiM verkefninu Heritage in Motion sem var lagður fram í evrum. Tekjur voru 7.432 evrur en gjöld 18.279.53. Rekstrartap -10.847.53 evrur á kaupgengi sem er Isl kr. 155.55. Eignir voru 8.199.94 evrur eða 1.275.501 ísl kr.

Allir ársreikningarnir voru undirritaðir af ábyrgðarmönnum, gjaldkera og skoðunarmönnum. Reikningarnir voru bornir upp til afgreiðslu. Engar athugasemdir komu fram. Reikningar voru samhljóða samþykktir.

5.
Fundarstjóri gaf þá orðið laust um skýrslu stjórnar og starfið framundan. Enginn kvaddi sér hljóðs og var dagskrárliðurinn afgreiddur.

6. Stjórnin lagði til óbreytt félagsgjald kr 2.000 sem samþykkt var á síðasta aðalfundi. Innheimta fundargjalda félagsmanna á fræðslufundum var þá jafnframt felld niður. Tillagan samþykkt.
Innheimta árgjaldsins fyrir 2021 fer fram að loknum þessum aðalfundi.

7.
Engar tillögur um breytingar á samþykktum liggja fyrir aðalfundinum.

8.
Kosningar. Fundarstjóri gerði grein fyrir stöðu framboða. Formaður var kjörinn til eins árs á síðasta aðalfundi og gefur

Birna Sigurjónsdóttir kost á sér til endurkjörs. Kosning formanns var samþykkt með lófataki.

Birna Bjarnadóttir var kjörin til 2ja ára á síðasta aðalfundi 2020. Jón Ragnar Höskuldsson hafði þá setið tvisvar í tveggja ára tímabil og lagði stjórnin til undantekningu frá þessum ákvæðum á aðalfundi 2020 og var Jón Ragnar þá kjörinn til 2ja ára.

Jón B. Björnsson, Ingibjörg Ásgeirsdóttir og Vera Snæhólm höfðu lokið kjörtímabili og gáfu ekki kost á sér til endurkjörs en Hans Kr. Guðmundsson hefur lokið 2ja ára kjörtímabili sem meðstjórnandi og gefur kost á sér til endurkjörs. Tillaga var borin upp um kjör Borgþórs Arngrímssonar, Emmu Eyþórsdóttur, Guðrúnar Bjarnadóttur og Hans Kr. Guðmundssonar.
Fundarstjóri kynnti nýja frambjóðendur. Tillagan var samþykkt.

Kveðja barst frá Guðrúnu Bjarnadóttur á skjánum.

Lagt var til að skoðunarmenn reikninga verði endurkjörnir þau Lilja Ólafsdóttir og Gylfi Þór Einarsson og Þórleifur Jónsson til vara. Tillagan samþykkt.

Formaður vildi þá færa fram þakkir til handa þeim sem hafa tekið þátt í starfinu en láta nú af störfum. Vera Snæhólm var á fundinum og var henni færður blómvöndur með kærum þökkum fyrir gott starf með stjórninni á liðnu ári. Formaður gat þess að hún myndi síðan að loknum fundi færa Jóni Björnssyni og Ingibjörgu Ásgeirsdóttur kveðjur fundarins.

9.
Þá gaf fundarstjóri orðið laust. Enginn kvaddi sér hljóðs og lýsti fundarstjóri dagskrá aðalfundar lokið og gaf nýkjörnum formanni orðið.

Formaður þakkaði traust fundarins með endurkjöri hennar sem formanns og samþykki kjörs stjórnarmanna. Hún sagðist óska eftir hugmyndum að fundarefni og gerði grein fyrir þeim hugmyndum að fundarefnum sem liggja fyrir eftir páska  og til vors. Ef engar fleiri hugmyndir kæmu fram mun nýkjörin stjórn koma saman að loknum páskum og fara yfir næstu verkefni.

Hans K Guðmundsson vakti máls á því hvers vegna svo fáir karlmenn taka þátt á fræðslufundum samtakanna. Jórunn Sörensen ræddi stöðuna og einnig Ingibjörg Rannveig og Lilja. Formaður lagði til að við legðum spurninguna sem þema á félagsfundi samtakanna í haust.

Fleira kom ekki fram. Formaðurinn þakkaði fyrir góðar hugmyndir og sagði að hún færi af fundinum full af bjartsýni á starfið framundan.

Fundi slitið kl 17:30
Birna Bjarnadóttir, fundarritari

Scroll to Top
Skip to content