Fréttabréf U3A
Desember 2025

Jólakveðja stjórnar U3A

Eftir því sem lífinu  vindur fram breytist sýn okkar á jólin. Í æsku var mesti spenningurinn yfir jólapökkunum en þegar við urðum fullorðin færðist áherslan á að skapa jólin fyrir aðra, baka, kaupa, pakka inn, skipuleggja og undirbúa. Þegar árunum fjölgar eru einhverjir farnir, börnin okkar eru flutt að heiman og halda sín eigin jól.

Fyrir mörg okkar geta jólin líka orðið léttari með tímanum. Ég losaði mig t.d. við fullkomnunaráráttu mömmu um „bráðnauðsynleg allsherjar“ þrif fyrir jólin. Þá baka ég ekki 17 sortir af smákökum eins og formæður mínar, heldur kaupi ég osta, vínber og kex (og kannski flösku af rauðvíni).

Jólin eru núorðið mikið meira en aðfangadagur, jóladagur og annar í jólum. Þegar kaupæði nóvembermánaðar með degi einhleypra, stafrænum mánudegi og svörtum fössara lýkur þá er tóm til að njóta aðventunnar. Það er ekki gert í verslunarmiðstöðvum heldur með því að hóa í góða félaga og  sækja tónleika (t.d. í kirkjum), sækja bókakynningar, bregða sér á Jómfrúna og upplifa stemminguna.

Starfsemi U3A fer í jólafrí eftir jólafundinn okkar 2. desember og þann 6. janúar hefjast reglulegir þriðjudagsfyrirlestrar aftur auk viðburða menningarhóps U3A og fleira.
 
Með jóla- og nýárskveðjum,
f.h. stjórnar U3A Reykjavík
Hjördís Hendriksdóttir, formaður stjórnar

Væntanlegir viðburðir

Fv: Guðrún Karls Helgudóttir,  Þórunn Valdimarsdóttir og Kristín Linda Jónsdóttir

Þriðjudaginn 2. desember kl. 15:00 verður jólafundur U3A Reykjavík haldinn í Nauthól. Gestur fundarins verður Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands 

Miðvikudaginn 3. desember verður síðasti fundur Bókmenntahóps U3A á árinu 2025, haldinn í Hæðargarði, hefst kl. 19:30 og lýkur kl. 21:00 með ótrúlega léttum veitingum í tilefni aðventunnar.

Fimmtudaginn 11. desember stendur menningarhópur U3A fyrir fyrirlestri í Hæðargarði 31 með Þórunni Valdimarsdóttur rithöfundi.

Þriðjudaginn 6. janúar 2026 kl. 16:30 mun Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur og fararstjóri fjallar um ævi og hugarheim Agöthu Christie í Hæðargarði 31.

Til varnar ellinni

Ljósmynd: Hörður Garðarsson

Viltu verða gamall? Klisjan segir að allir vilji verða gamlir en enginn vilji vera það. En hvenær er maður orðinn gamall? Er það þegar maður finnur að líkamleg geta þverr eða þegar maður hættir að vera forvitinn? Sumir vilja miða við áttræðisaldur því þá er oft sagt að fjórða æviskeiðið hefjist, æviskeið ósjálfstæðis og hrörnunar. Líklega er einfaldasta skýringin að maður sé eins gamall og manni líður.

Og hvað er svo skelfilegt við að vera gamall að enginn vill vera það? Er það bara vísun á erfið ár eða geta árin verið góð ef heilsan er sæmileg og fjárhagurinn í lagi? Kominn á þennan aldur hefur maður trúlega öðlast ró í sinni, skoðanir annarra skipta ekki lengur máli og eru ekki að vefjast fyrir. Ekki af því að maður viti endilega betur, heldur að það er ekki tími til þess að gera neitt með þær. Maður vill ekki eyða þeim tíma sem er eftir í eftirsjá og biturð, heldur nýta hann til þess að gera sjálfan sig og aðra glaða og jafnvel halda áfram að læra eitthvað nýtt. Maður horfir yfir heiminn og veit að það er svo margt sem maður getur ekki stjórnað, breytt eða haft áhrif á. Á þessum aldri er tíminn dýrmætur.
 
Það er hægt að  áorka ýmsu þó svo að aldurinn hafi færst yfir og þrátt fyrir að líkamleg geta sé minni, hreyfingar hægari og að það taki lengri tíma að vinna verkin. Maður er kannski líka bara latari og vill forgangsraða betur en áður í hvað tíminn nýtist og með hverjum.  Vænst þykir mér um að hafa mína nánustu mér við hlið og vera hluti af lífi þeirra. Að vera gamall þýðir heldur ekki sjálfkrafa að maður hætti að halda sér til,  enda er það ekki gert fyrir aðra heldur fyrir mann sjálfan og sjálfsvirðinguna. Helst á að geisla aðeins frá manni.
 
Aldraðir fá stundum athugasemdir eins og að þeir séu unglegir eftir aldri, sem er eflaust meint sem hrós. Athugasemdunum má taka sem viðurkenningu á að maður hafi lifað lífinu vel en svo er hin hliðin. Vill maður ekki líka að andlitið með sínum hrukkum gefi til kynna reynslu sem hefur safnast á langri ævi? Svo er athugasemdin „þú hefur ekkert breyst“, frá fólki sem þú hefur ekki hitt í áraraðir, jafnvel áratugi, sem ber að túlka sem jákvæða. Hún gefur til kynna að þú, þrátt fyrir háan aldur, búir ennþá yfir sama neistanum, sömu lyndiseinkunninni og þú gerðir fyrir langalöngu.
 
Vís maður sagði að maður ætti að láta eins og maður yrði 104 ára gamall og haga sér eftir því. Metnaður til stórverka hefur kannski minnkað en það er aldrei að vita. Það er aldrei of seint að breyta til, varðveita forvitnina og fitja upp á nýjum verkefnum. Maður vill alla vega ekki sitja aðgerðarlaus og bíða eftir endalokunum.
 
Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir
Höfundur er kominn vel á aldur og meira en það

Stafrænt líf okkar eftir dauðann

Á Facebook-síðu minni birtast stundum afmælistilkynningar frá látnum vinum mínum og ég hvattur til að senda viðkomandi árnaðaróskir í tilefni dagsins. Ég fæ þá alltaf óþægilega tilfinningu um að verið sé að raska friðhelgi þess látna sem fái ekki að hvíla í friði. Þetta ætla ég sko ekki að láta gerast eftir mína daga – en hef samt ekkert gert í málinu. Líklega vegna þess að það er svo óþægilegt að hugsa um dauðann og allt sem honum viðkemur.

Við skiljum öll eftir okkur spor – ekki aðeins í lífinu, heldur líka á netinu. Myndir, tölvupóstar, færslur á Facebook og reikninga á hinum ýmsu vefjum lifa oft áfram löngu eftir að við höfum kvatt.

Ný skýrsla frá sænsku Internetstofnuninni sýnir að tveir af hverjum þremur Svíum hafa áhyggjur af stafrænum arfi sínum, en aðeins einn af hverjum tíu hefur tekið skrefið og gert áætlun um hvað skuli gerast við netreikningana eftir andlát. Líklega má heimfæra þessa tölfræði uppá okkur Íslendinga. Flestum okkar er umhugað um hvað verður um þessi stafrænu fótspor okkar. – Hvort til dæmis Facebooksíður okkar lifi áfram eftir okkar daga.

Staðreyndin er samt sú að ef við sjáum ekki til þess að gera hjá okkur stafræna tiltekt, eða fáum einhvern annan til þess, er hætta á að missa stjórn á því sem eftir verður og sést opinberlega um ókomna tíma. Persónuupplýsingarnar eru ekki eingöngu okkar eigin – þær tilheyra líka stórfyrirtækjum á borð við Meta og Google. Persónuverndarlögin ná til þess að vernda lifandi einstaklinga. Fyrir látna eru reglurnar óljósari.

Sumir gætu viljað dauðhreinsa allt sem fram hefur komið fram á samfélagsmiðlareikningum þeirra, aðrir gætu viljað grisja burt einkasamskipti eða viðkvæmar myndir. Svo bjóða sumir samfélagmiðlar uppá þann kost að breyta til dæmis Facebooksíðu einstaklings í minningarsíðu um viðkomandi eftir dauðann. Þannig hafi eftirlifandi ættingjar og vinir aðgang að þeim upplýsingum sem viðkomandi vill skilja eftir sig. Alla vega er mikilvægt að skilja eftir sig lykilorð að samfélagsmiðlareikningum til eftirlifandi sem maður treystir, hvort sem það er haft sem hluti af erfðaskrá eða í sjálfstæðu skjali.

Að ýmsu er að huga í slíku skjali: Í fyrsta lagi upplýsingar um hvaða samfélagsmiðla, tölvupósta, skýjaþjónustur og öpp viðkomandi hefur notað. Í öðru lagi hverju eigi að eyða, geyma eða breyta ef ætlunin er að gera minningarsíðu. Þá þarf að tilnefna þann sem fær aðgang að reikningum eftir andlát og getur sinnt lokauppgjöri. Sá tilnefndi fái lista yfir öll aðgangsorð.

Í grein sem birtist nýlega í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter er sagt frá ofangreindri rannsókn Internetstofnunarinnar. Þar kemur einnig eftirfarandi fram um þær reglur og möguleika sem mismunandi samfélagsmiðlar veita í þessu sambandi:

  • Facebook: Hægt að breyta reikningum í minningarsíður eða eyða þeim.
  • Instagram: Hægt að breyta reikningnum í minningarsíðu eða eyða eftir tilkynningu um dauða eiganda reikningsins.
  • Google: Býður upp á að tilnefna umsjónarmann sem fær aðgang eftir óvirkni. Eftirlifandi aðstandendur geta óskað eftir að reikningi verði eytt eða fá aðgang að efni á reikningnum.
  • Apple/Icloud: Arftaki getur fengið aðgang með sérstakri beiðni.
  • WhatsApp: Eyðir reikningum eftir 120 daga óvirkni.
  • LinkedIn og Snapchat: Aðstandendur geta óskað eftir lokun eða eyðingu.

Emil B. Karlsson

Minningarbekkir gleðja og efla lýðheilsu

Vinahópur Unu Collins sem stóð að minningarbekknum, kom saman á 10 ára dánarafmæli hennar við bekkinn til að minnast hennar. (Ljósm.: Ásdís Þórhallsdóttir)

„Það vantar svo fleiri bekki í Reykjavík“, var setning sem vinir Unu Collins búningahöfundar mundu öll svo sterklega eftir að hún hafði oft sagt. Þau höfðu komið saman til að minnast hennar að henni látinni og voru að ráða ráðum sínum hvernig best væri að minnast hennar og þess mikla framlags sem hún lagði sviðslistum á Íslandi. Það þurfti því ekki að bollaleggja mikið lengur. Þau afráðu að koma upp bekk í almannarýminu til minningar um hana og staðsetningin skyldi vera í miðborginni enda var starfsvettvangur hennar löngum þar

Una Collins fæddist í London 1935. Hún átti langan og merkan feril sem búninga- og leikmyndahöfundur í Evrópu, í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum. Hún tók sérstöku ástfóstri við Ísland. Una kom fyrst hingað til lands árið 1966 og var um tíma fastráðin hjá Þjóðleikhúsinu. Hún hélt tryggð við íslenskt leikhús upp frá því og vann við tugi leiksýninga hjá Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur og Leikfélagi Akureyrar. Þá vann hún við á annan tug sýninga hjá Íslensku óperunni auk þess að gera búninga fyrir íslenskar sjónvarpsmyndir og kvikmyndir. Una var afkastamesti búningahöfundur sem starfað hefur í íslensku leikhúsi. Hún lést 68 ára að aldri árið 2004.

Þegar vinahópur Unu fór að vinna að því að koma upp minningarbekk um hana komust þau fljótt að því að slíkt væri ekki auðvelt mál. Engar reglur eða ferlar eru til hjá borginni um minningarbekki, því það hefur aldrei verið tekin ákvörðun um hvort minningarbekkir eigi að vera í borginni og þá heldur ekki hvernig almennir borgarar geta sótt um að setja niður slíka bekki. Þar sem engar samþykktar reglur eru til þá er erfitt að vita hvar hugsanlega megi gera það, að ekki sé talað um hvaða kostnað umsækjendur þurfa að bera fyrir að bekk sé komið fyrir með tilheyrandi kostnaði við jarðvegsbreytingar og undirstöður.

Vinahópur Unu þurfti því að fara um ýmsa rangala kerfisins. Þau fundu að lokum starfsmann borgarinnar sem gat látið langþráðan draum rætast eftir að hafa haft öll spjót úti um að minningarbekkurinn yrði að veruleika. Þau söfnuðu fyrir kostnaðinum og eftir nokkur ár reis bekkurinn við Skúlagötu, í námunda við þau leikhús sem hún starfaði mest við.

Bekkurinn hennar Unu stendur nú við göngustíginn meðfram Sæbraut, milli Hörpu og Sólfarsins eftir Jón Gunnar Árnason, þó nær Sólfarinu. Þetta er eini almenningsbekkurinn á þessum hluta gönguleiðarinnar. Einstök staðsetning og væri tilvalið að hafa fleiri minningabekki á göngustígnum meðfram strandlengjunni með einstöku útsýni til hafs, Esju og Viðeyjar. Fleiri bekkir myndu eflaust ýta undir að fleiri færu þessa fallegu gönguleið sér til gleði og heilsubótar.

Á síðustu árum hafa æ fleiri viljað minnast látinna félaga og ættingja með því að gefa minningarbekki sem um leið myndu þjóna gangandi vegfarendum, en hafa rekið sig á veggi; óþarfa veggi sem kerfið hefur ekki enn brotið niður með því að taka af skarið með pólitískri ákvörðun um að minningarbekkir verði hluti af almenningsbekkjakerfi borgarinnar.

Vegna þessa lögðu fulltrúar U3A Reykjavík og Samtaka aldraðra í öldungaráði Reykjavíkurborgar, sem fundar með mannréttindaráði borgarinnar, fram bókun og tillögu um að borgarstjórn setti sér reglur og markmið með almennri almenningsbekkjavæðingu í borginni þar sem reglur og ferlar um minningarbekki yrðu jafnframt að veruleika og minningarbekkirnir yrðu hluti af skipulaginu.

Tillagan hafði verið kynnt á sameiginlegum fundi ráðanna á mánaðarlegum fundi í júní sl., síðan lögð formlega fram á októberfundinum og borin síðan upp formlega á nóvemberfundinum þar sem einróma var samþykkt af öllum viðstöddum nefndarmönnum, bæði frá stjórnmálaflokkum og hagsmunaaðilum, að vísa tillögunni til umhverfis- og skipulagsráðs og fylgdi með eftirfarandi bókun:

„Mannréttindaráð styður tillöguna og leggur áherslu á að hún hljóti vandaða meðferð í umhverfis- og skipulagsráði. Mikilvægt er að mótuð sé skýr og samræmd stefna um staðsetningu og hönnun almenningsbekkja í borgarlandinu, sér í lagi minningarbekkja.“

Minningarbekkir eru einstök leið til að gefa af sér til samfélagsins til minningar um látinn ættingja og ástvin. Gjöf sem gleður göngumóða á heilsusamlegri göngu um borgarlandið.

Viðar Eggertsson
Fulltrúi U3A Reykjavík í öldungaráði. 

Fréttir af Tuma

TUMI = Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi.
Fjölmiðlanefnd https://fjolmidlanefnd.is/ sér um Tuma

TUMI = Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi.
Fjölmiðlanefnd https://fjolmidlanefnd.is/ sér um Tuma

Í nóvember hafði TUMI ekki fjarfund, en desemberfundinum verður lýst í næsta Fréttabréfi. Þess vegna freistast ég til að skoða Frostkastið nánar, samanber Fréttabréfið í nóvember, og mæla aftur með þeim fræðsluþáttum um tölvu- og netöryggi. Slíkri fræðslu á íslensku er ábótavant og hefur jafnvel verið lítil í tölvunarfræðinámi hingað til, en stendur til bóta. Þörfin er brýn. Munum líka að við gamlingjarnir höfum, ekki síður en þau yngri, getu til að tileinka okkur tölvu- og netöryggi, enda byggir slíkt ekki á tækniþekkingu, heldur lífsreynslu og yfirsýn.

Eins og fram kom í síðasta fréttabréfi hafa þau Vigdís Helga Eyjólfsdóttir og Alexander Máni Einarsson, tölvunarfræðinemendur við Háskólann í Reykjavík, unnið þessa hlaðvarpsþætti. Þættina nefna þau Frostkastið.

Í Fréttabréfinu í nóvember var tengt á tvo fyrstu þættina. Þið, sem þegar hafið hlustað, vitið að þeir eru settir upp sem spjall þeirra Vigdísar og Lexa, og eru því þægilegir áheyrnar, hvar og hvenær sem er. Þættirnir eru mislangir eða allt frá tæpum hálftíma og upp í um klukkustund. Tímann set ég hjá krækjunum hér neðar. Fjórði þátturinn vakti mér þá þrá, sem stafar af bakgrunni mínum í kennslu, en allir eru þeir fróðlegir.
 
Hér koma krækjurnar á Frostkastsþættina:
 
Frostkastið #1 tími 44:46
Kynningarþáttur: Hvað er Netöryggi?
Fyrsti þátturinn: https://www.youtube.com/watch?v=yl-DffkMsEk
 
Frostkastið #2 tími 27:20
Hvenær eru lykilorð sterk?
Annar þáttur: https://www.youtube.com/watch?v=g2wnu603WdU
 
Frostkastið #3 tími 51:36
Ert þú varan? Gagnaöflun og persónuvernd
Þriðji þáttur: https://www.youtube.com/watch?v=EYBQ1Iz0Isw
 
Frostkastið #4 tími 1:02:07
Lalli Töframaður og Snjallvagninn: Hvernig fræðum við börn um netöryggi?
Fjórði þáttur: https://www.youtube.com/watch?v=gIM17NCy4vY
 
Bestu kveðjur, daginn fer brátt að lengja.
Guðrún Bjarnadóttir

Vísnahorn Lilju

Sigurlín Hermannsdóttir er þekktur hagyrðingur og skáld. Hún hefur gefið út nokkrar ljóðabækur auk þess að birta kvæði í blöðum og tímaritum og á netmiðlum.  Í bókinni Nágrannar sem kom út 2019 er eftirfarandi kvæði sem mér finnst hæfa fréttablaði U3A í jólamánuðinum.
 
Desember
 
Dásemd ein er desember
þótt dekki heiminn kaldur snjór
því jólafastan alltaf er
yfirfull af mat og bjór.
 
Litla gefa hlaðborð hvíld
heimsmenningar göfug stund;
purusteik og pikkluð síld,
piparkrydduð hrossalund.
 
Villibráð og grafin gæs
grísatær og hreindýrsmauk
hasselbäck á borði er næs
og brúnuð sulta úr rauðum lauk.
 
Boðið upp á eggjaflan,
ísterta er sífellt klár,
möndlugraut og marsipan,
makkintoss og kaffitár.   
 
Þorlák hyllir þjóðin enn
þykir nokkuð við hann sátt.
Kæsta skatan kitlar menn,
kasúldin hún hefur mátt.
 
Þá blessuð jólin bresta á
er boðið tvíreykt hangikjöt
hamborgarahryggur já
og heilsteikt rjúpa lögð á föt.
 
Krónhirti og kalkúnsskip
kunnáttumenn reiða fram 
kokka stykki af kostagrip
með kryddi upp á milligramm.
 
Með öllu þeir svo velja vín
vökvun fyrir sálarhró
aðrir malt og appelsín
og ætla það sé feikinóg.
 
Um áramótin þjóðin þarf
þokkalega að hlúa að sér.
Það er orðið ærið starf
að eta sig gegnum desember.
 
Lilja Ólafsdóttir

Scroll to Top
Skip to content