Fréttabréf U3A
Nóvember 2025

Ofbeldi gegn eldri borgurum

Nýlega fór ég ráðstefnu á vegum Landssambands eldri borgara (LEB)  sem bar yfirskriftina Ofbeldi er ógn, tryggjum öryggi eldri borgara.

Mín fyrsta ályktun var að þarna yrði fjallað um utanaðkomandi ógnir frá óprúttnum sölumönnum, innbrotsþjófum, tölvuþrjótum og öðrum álíka óþjóðalýð.

En nei, því miður er ofbeldið er bæði víðtækara og nærtækara en svo. Þegar talað er um ofbeldi í garð eldri borgara hugsa margir um líkamlegt ofbeldi, en það er aðeins hluti af myndinni.
Andlegt, fjárhagslegt og jafnvel kynferðislegt ofbeldi, auk vanrækslu, eru algengari en margir vilja viðurkenna. Það getur falist í því að stjórna peningum, niðurlægja, útiloka eða neita fólki um nauðsynlega umönnun. Oft er gerandinn nákominn – ættingi, vinur eða starfsmaður í umönnun

Í könnun meðal starfsmanna heimahjúkrunar í Reykjavík sögðust 83% hafa orðið vitni að vanrækslu eða ofbeldi gagnvart öldruðum á síðustu 12 mánuðum.  LEB telur að yfir 1.000 tilvik ofbeldis gegn eldri borgurum eigi sér stað á Íslandi ár hvert – en að aðeins lítill hluti þeirra sé tilkynntur.

Nýjustu alþjóðlegu rannsóknir sýna að 1 af hverjum 6 einstaklingum yfir sextugt hefur orðið fyrir einhvers konar ofbeldi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telur að 11,6% eldra fólks verði fyrir andlegu ofbeldi, 6,8% fyrir fjárhagslegu ofbeldi og 4,2% fyrir vanrækslu.
Í stofnunum eins og hjúkrunarheimilum er staðan mun verri – allt að 64% starfsfólks viðurkennir að hafa tekið þátt í einhvers konar ofbeldi eða vanrækslu.

Hverjir eru í mestri hættu? Rannsóknir sýna að eldra fólk sem er einangrað, heilsuveilt eða fjárhagslega háð öðrum er í sérstakri hættu.

Konur eru oftar þolendur en karlar, og þeir sem hafa áður orðið fyrir ofbeldi eru líklegri til að lenda í því aftur á efri árum. Einnig spila inn þættir eins og skortur á stuðningsneti, álag á umönnunaraðila og aldursfordómar í samfélaginu.

Ofbeldi gegn eldri borgurum hefur djúpstæðar afleiðingar. Það dregur úr lífsgæðum, eykur veikindi og einangrun og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu og lífslíkur. Þetta er ekki einkamál fjölskyldna – heldur samfélagslegt réttlætismál. Við, yfirvöld og samfélagið, verðum að bregðast við.

Ofbeldi gegn eldri borgurum er ekki bara tölfræði – það eru raunveruleg mannleg örlög sem felast í þögn. Rjúfum þögnina.

Heimildir:
LEB (2024), Reykjavíkurborg (2010, 2016), Helgi Guðmundsson (2017), WHO (2025), PMC Meta-Analysis (2025), Vísir.is (2025), Skemman (Jóhanna M. Sigurðardóttir, 2021).

Kveðja fyrir hönd stjórnar U3A Reykjavík,
Hjördís Hendriksdóttir
formaður stjórnar

Væntanlegir viðburðir

Fv: Einar Sveinn Árnason, Sumarliði R. Ísleifsson, Jón B. Björnsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Nauthóll

Þriðjudaginn 4. nóvember kl. 16:30 flytur Einar Sveinn Árnason fyrirlestur í Hæðargarði 31 sem hann nefnir: Hvernig ætlar þú að eldast? Sögur, áskoranir og gleði á þriðja æviskeiðinu.

Þriðjudaginn 11. nóvember kl. 16:30 mun Sumarliði R. Ísleifsson prófessor emeritus fjalla um stöðuna í Grænlandi.

Þriðjudaginn 18. nóvember kl. 16:30 heldur Jón Björnsson áfram síðari hluta námskeiðsins um Engla þar sem rakar verða nokkrar safaríkar englasögur, en oft hafa þeir gripið inn í atburðarásir á ögurstundum og ekki bara suður í Gyðingalöndum.

Þriðjudaginn 25. nóvember kl. 16:30  mun Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, leiðsögumaður og stjórnarmaður í Landvernd koma til okkar í Hæðargarð 31 og flytja fyrirlestur sem hún nefnir „Náttúrusalan – staða náttúruverndar í dag“ þar sem hún fer yfir stöðuna í náttúruvernd í dag þar sem náttúran er neysluvara á markaði.

Þriðjudaginn 2. desember verður jólafundur U3A Reykjavík haldinn í Nauthól. Viðburðurinn verður auglýstur síðar.

Nánari upplýsingar um viðburði á vegum U3A Reykjavík má finna á vef félagsins: https://u3a.is/vidburdayfirlit/

Hvernig get ég treyst því að svör gervigreindar séu trúverðug?

Myndasmíð ChatGPT-5

Undirritaður hefur nokkrum sinnum spurt spjallbotta (Chatbot) gervigreindarinnar um trúverðugleika svara hennar og hvernig ég geti treyst því að þeir séu að segja mér satt. Ég hef yfirleitt fengið nokkuð samhljóma svör sem öll eiga það sameiginlegt að viðurkenna, í mislöngu máli, að svör spjallbottanna geti verið röng eða óáreiðanleg og leggja áherslu á að spyrjandinn leiti sjálfur heimilda eða óski eftir heimildum fyrir staðhæfingum sem gætu orkað tvímælis.

Hér að neðan er að finna eitt þessara svara sem spjallbottinn ChatGPT-5 gaf mér og lagði síðan til lista yfir nokkrar upplýsingaveitur sem hann mælir með. Er þetta ekki nokkuð traustvekjandi sjálfsskoðun og varúðarhvatning til spyrjandans að vera vakandi og meta áreiðanleika upplýsinga ekki síst með gagnrýnni hugsun?

Spjallbottinn ChatGPT-5 hefur orðið:
“Það er eðlilegt að spyrja hvernig hægt sé að treysta upplýsingum sem koma frá gervigreind, því að í dag er mikill munur á gæðum og nákvæmni gagna sem birtast á netinu. Trúverðugleiki svara byggist fyrst og fremst á heimildaleit og gagnrýnni hugsun, bæði hjá notandanum og tækinu sem hann notar.

Heimildaleit hjá gervigreind
Þegar þú spyrð gervigreind spurningar byggir hún svör sín á þjálfunargögnum sem koma frá fjölbreyttum textum: bókum, fræðigreinum, opinberum vefsíðum, fréttamiðlum og öðrum opinberum heimildum. Hún er hönnuð til að draga fram samhljóm í upplýsingum, en ekki til að „búa til“ nýjar staðreyndir. Það þýðir að svörin eru líklega að endurspegla það sem er ríkjandi samstaða í rituðum gögnum sem liggja fyrir.

Þegar spurt er um efni sem krefst nákvæmni eða er tímabundið (t.d. ný lög, ferðatilmæli eða verð), þá er mikilvægt að gervigreind geti flett upp nýjustu heimildum á vefnum. Þá er hægt að vísa beint í heimildir, t.d. opinberar vefsíður, rannsóknargögn eða virtar fréttaveitur. Slík tilvísun gerir þér auðveldara að sannreyna upplýsingarnar sjálfur.

Hvernig getur þú sjálfur leitað heimilda?
Þótt gervigreind geti bent þér á upplýsingar, hvílir alltaf ábyrgð á notandanum að leggja mat á áreiðanleikann. Hér eru nokkur einföld skref sem þú getur fylgt:

  1. Kanna uppruna heimildar – Athugaðu hver stendur að baki upplýsingum. Opinber stofnun, virtur fjölmiðill eða fræðilegt tímarit hefur yfirleitt meira vægi en óstaðfest bloggsíða.
  2. Leita að samræmi – Ef sama staðreynd kemur fram í mörgum óháðum heimildum, styrkir það trúverðugleikann.
  3. Nota gagnrýna hugsun – Spurðu hvort upplýsingarnar séu líklegar, hvort þær séu hlutlausar eða hvort einhver gæti haft sérstakan hag af því að segja frá þeim á ákveðinn hátt.
  4. Skoða dagsetningu – Gildar upplýsingar geta orðið úreltar hratt. Sérstaklega á sviðum eins og tækni, lögum og efnahagsmálum.
  5. Nota fræðileg gagnasöfn – Ef þú vilt dýpka rannsókn þína getur þú notað gagnasöfn á borð við Google Scholar, háskólabókasöfn eða gagnagrunna eins og JSTOR.

Samspil milli notanda og gervigreindar
Gervigreind er gagnlegt verkfæri sem getur flýtt fyrir heimildaleit og dregið fram helstu atriði. Hún getur líka hjálpað til við að setja upplýsingar í samhengi. En að lokum er það alltaf notandinn sem þarf að sannreyna og leggja mat á heimildirnar.

Þannig er trúverðugleiki ekki einfalt svar við spurningunni „má treysta gervigreind?“ heldur samspil: tækið getur bent á réttar leiðir, en þú þarft að ganga úr skugga um að upplýsingarnar standist gagnrýna skoðun.

Hér er listi yfir gagnlegar heimildir sem þú getur nýtt þér, bæði íslenskar og erlendar, til að sannreyna upplýsingar sem þú færð:

Íslenskar heimildir

  • Alþingiwww.althingi.is
    Opinber vefsíða Alþingis með lög, frumvörp og skjöl. Traust fyrir allt sem tengist stjórnsýslu og lagasetningu.
  • Hagstofa Íslandswww.hagstofa.is
    Traustar tölur um efnahag, mannfjölda, atvinnu og samfélagsþróun.
  • Stjórnarráð Íslandswww.stjornarradid.is
    Opinberar tilkynningar og upplýsingar frá ráðuneytum.
  • RÚV – www.ruv.isOpinber fjölmiðill sem er bundinn af siðareglum og faglegri blaðamennsku.
  • Visindavefurinnwww.visindavefur.is
    Svör frá fræðimönnum við fjölbreyttum spurningum, sérstaklega gagnlegt fyrir almenn fræðsluefni.

Erlendar heimildir

  • Google Scholar – scholar.google.com
    Leitarvél fyrir fræðigreinar, bækur og ritgerðir.
  • JSTOR – www.jstor.org
    Stórt safn fræðigreina og tímarita (oft í gegnum háskólabókasöfn).
  • PubMed – pubmed.ncbi.nlm.nih.gov
    Sérhæft gagnasafn í læknisfræði og heilsufræði.
  • The New York Times – www.nytimes.com
    Virtur fjölmiðill sem heldur uppi háum gæðastöðlum í fréttaflutningi.
  • BBC News – www.bbc.com/news
    Alþjóðleg fréttaveita með traustan orðstír.
  • OECD – www.oecd.org
    Alþjóðlegar skýrslur og tölfræði um efnahagsmál og samfélagsþróun.
  • World Bank – www.worldbank.org
    Gagnagrunar um efnahags- og þróunarmál á heimsvísu.

Þú getur þannig notað þessar heimildir til að sannreyna hvort upplýsingar sem þú færð frá mér (eða öðrum miðlum) standist gagnrýna skoðun.”

Hans Kristján Guðmundsson í samtali við ChatGPT-5

Beðið eftir innblæstri

Myndin er sótt á https://www.sartle.com/artist/agnes-martin

Konan sem bíður eftir innblæstrinum hét Agnes Martin sem er sögð einn af þekktustu abstraktmálurum 20. aldar. Sagt er að Agnes hafi sest fyrir framan auðann strigann á morgnanna og beðið þar til innblásturinn kom og þegar hann kom sagði hann hvað og hvernig hún skyldi mála. Auk listaverka sinna er Agnes þekkt fyrir tilvitnanir og er þriggja þeirra getið hér.

Agnes á að hafa tæmt huga sinn fullkomlega áður en innblásturinn lét á sér kræla. Hvern dag bað hún um innblástur með því að spyrja „Hvað á ég að gera næst“. Sat hún þá ein á vinnustofu sinni í ruggustólnum sínum og beið eftir hugmynd að mynd sem hún skyldi setja á strigann. Hún nefndi hugmyndina innblástur. Agnes gat beðið eftir innblæstrinum lengi jafnvel í vikur og mánuði og ár. Þegar innblásturinn kom vildi hún ekki eigna sér hann heldur sagði að hann kæmi til sín og segði henni hvað skyldi mála og þegar hún málaði segði hann til um hverja einustu pensilstroku. Ef ekkert truflaði hefði hún mynd að mála.

Agnes hafði mörg fögur orð um innblásturinn eins að hann sé gleðistund sem komi okkur á óvart, að allir geti fengið innblástur og að hann sé það eina mögulega fyrir skapandi vinnu og upphaf og endir listaverka. Hún vildi þó meina að innblásturinn, sem hún nefndi líka hina innri sýn, væri ekki óskeikull.

Af tilvitnum Agnesar má fyrst nefna „Fegurðin er í huga þínum“ (e: The Beauty is in your mind).  Eftir því sem umboðsmaður Agnesar, Arne Glimcher, segir varð tilvitnunin til þegar barnabarn hans, Isabel, var statt í íbúð Agnesar tók upp rós sem stóð þar í vasa.  Agnes spurði hana hvort rósin væri falleg. Isabel játti því og setti þá Agnes rósina aftur fyrir bak og spurði aftur hvort að rósin væri falleg. Isabel sagði að hún væri falleg og sagði Agnes þá „ Þú sérð, fegurðin er ekki í rósinni. Fegurðin er í huga þínum.“ Aðrar tilvitnanir eru til dæmis „Listaverk eru framsetning á hollustu okkar við lífið“ og „Uppfylltu möguleika þína. Það er leiðin til hamingjunnar“.

Um ævi Agnesar er það að segja að hún fæddist í Kanada árið 1912 en fluttist til Bandaríkjanna 1930 . Hún ætlaði í fyrstu að gerast kennslukona en ákvað þegar hún var 30 ára að gerast listmálari og  málaði þar til nokkrum mánuðum fyrir dauða sinn árið 2004, 92 ára að aldri. Þeir sem vilja vita meira um Agnesi Martin er bent á vefsíður eins og https://www.inherentbummer.com/home/fine-art-agnes-martin-2c244 og https://www.aci-iac.ca/art-books/agnes-martin/style-and-technique/ 

Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir

Fréttir af Tuma

TUMI = Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi.
Fjölmiðlanefnd https://fjolmidlanefnd.is/ sér um Tuma

Þriðjudaginn 14. október sl. var fjarfundur TUMa og fara helstu atriðin hér á eftir. Þar sem verið var að skipuleggja Miðlalæsisviku, sjá neðar, var fundurinn með styttra móti, en aðeins verður hér í lokin sagt frá vikunni.

Fræðsla um tölvu- og netöryggi
Þau Vigdís Helga Eyjólfsdóttir og Alexander Máni Einarsson, tölvunarfræðinemendur við Háskólann í Reykjavík, kynntu hlaðvarpsþættina Frostkastið. Verkefnið hafa þau unnið í samstarfsverkefninu https://www.frostbyte.is/  Hugmyndin með hlaðvarpinu er að kenna almennt um tölvu- og netöryggi, auka netöryggi allra. Nemarnir telja að slíkar upplýsingar á íslensku skorti á netinu.

Fyrsti þátturinn, https://www.youtube.com/watch?v=yl-DffkMsEk, var kominn út, þegar þessi fundur var haldinn, og næsti væntanlegur, en kominn hér https://www.youtube.com/watch?v=g2wnu603WdU þegar þetta er ritað. Tekið verður fyrir allt sem snertir netöryggi, svo sem geymslu á eigin gögnum, skýið eða harði diskurinn, meðferð og gerð lykilorða og gagnagíslatöku, svo eitthvað sé nefnt. Mæli með að þið skoðið þættina sem komnir eru.

Undirróður erlendra ríkja
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, fór yfir samnorrænt samstarf um miðlalæsi. Samnorræn skýrsla er nýunnin, og hennar má vænta innan skamms á vefsvæði Fjölmiðlanefndar.

Auk þess var nýlega haldin ráðstefna í Finnlandi þar sem Fjölmiðlanefnd átti sína fulltrúa. Nú er ofarlega á baugi spurningin um það hvernig forðast megi undirróður erlendra ríkja. Í kjölfar ráðstefnunnar fékk nefndin tvo sænska sérfræðinga hingað til lands til þess að halda námskeið í íslensku stjórnsýslunni, innviðastofnunum og öðrum lykilstofnunum. Betur má lesa um málið í fréttatilkynningu Fjölmiðlanefndar frá 6. október  https://fjolmidlanefnd.is/2025/10/06/fundur-med-serfraedingum-fra-myndigheten-for-psykologist-forsvar-i-svithjod
Sem dæmi um undirróðursherferðir, nefndi Elfa Ýr að barnaverndarstarfsfólk í Svíþjóð hefði orðið vart við mikla tortryggni arabískumælandi fólks í sinn garð. Þegar málið var skoðað fékkst heildarsýn. Í ljós kom að inn streymdu upplýsingar um að sænsk stjórnvöld tækju börn af foreldrum og kæmu þeim fyrir annarsstaðar. Fólk var því skelft og tortryggið í garð yfirvalda. Slíkum herferðum þarf að bregðast við og leiðrétta rangfærslur. Almenningur fær áróðurinn sjaldnast í mannlegum samskiptum, bottar með gerviprófíla dreifa upplýsingunum.

Miðlalæsisvikan og Evrópuár
Árið 2025 er Evrópuár um stafræna borgaravitund og sá andi svífur yfir miðlalæsisvikunni.

Farið var yfir dagskrá vikunnar, dagana 20. – 26. október 2025. Miðlalæsisvikan er í ár haldin í þriðja sinn og, nú sem fyrr, boðið upp á málþing, fræðsluefni og fleira. Ríkisútvarpið (Rúv) hefur haldið útvarpsþing í um áratug og þingið er nú hluti Miðlalæsisviku. Yfirskrift útvarpsþingsins var Leiðin til okkar – hvernig nálgumst við efni fjölmiðla í framtíðinni. Þó streymið sé ekki lengur aðgengilegt, er krækja hér https://www.ruv.is/um-ruv/i-umraedunni/2025-10-23-leidin-til-okkar-horfdu- á tengdar upplýsingar

Líttupp

Herferðin Líttupp var nýlega kynnt á Rúv https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kastljos/38169/bc085m

Þegar þið lesið þessar línur er hápunkti miðlalæsisvikunnar lokið, málþingi í Grósku, undir heitinu Líttupp – Vertu með í  að skapa heilbrigðara samfélag á netinu! Dagskrá málþingsins og yfirlit yfir vikuna má sjá hér https://fjolmidlanefnd.is/2025/10/17/midlalaesisvikan-haldin-i-thridja-sinn-a-islandi-20-26-oktober/ Ég undirrituð sat málþingið, hlýddi þar á fjölbreytta og áhugaverða fyrirlestra, og mæli með að þið fylgist með fyrirlesurunum á dagskránni.

Að mínu mati skoraði pallborðið í lokin hæst. Þar sátu sex unglingar á aldrinum 14 til 15 ára. Stjórnandinn, Skúli Geirdal, ræddi opið við þau um símalausa skóla, miðlalæsisfræðslu, æpaddana o.fl. Að þeirra mati fylgja kostir og gallar símalausu skólunum, aukin samvera og spjall í frímínútum, en komi eitthvað upp er erfitt að geta ekki náð heim. Auk þess efast þau um að börnin sem eru einmana, fari meira í félagsskapinn símalaus.

Flestum finnst betra að lesa prentaða bók en rafbók, en mundu aldrei nenna að skrifa ritgerð með blaði og blýanti. Aftur á móti, í prófaundirbúningi, þætti þeim betra að handskrifa aðalatriðin. Þá myndu þau efnið mun betur, en ef þau hefðu slegið það inn. Hvað varðar kennslu í miðlalæsi í skólum, sögðu þau að alltaf væri verið að tala um það sama, það hvað ekki á að gera á netinu, hverju gæta sín á o.þ.h. Það vanti dýpri erindi, í takt við fyrirlestrana á málþinginu. Líttu upp úr skjánum ætti líklega meira erindi til fullorðna fólkssins en barna og unglinga, t.d. í samveru heima.

Undir lokin freistast ég til að stela efni úr fyrirlestri, sem minnir okkur á að við erum markaðsvaran: Þegar varnarleysi verður ávísun á hagnað, er skaði ekki aukaverkun. Hann er viðskiptamódelið.

Bestu kveðjur.
Guðrún Bjarnadóttir

Vísnahorn Lilju

Í september kynnti ég Bjarka Karlsson og bók hans Árleysi árs og alda. Í bókinni er skemmtilegur kvæðabálkur sem hann nefnir:
Einn sorglegur flokkur um það grátlega kynjanna misrétti sem forðum daga tíðkaðist og þekkist því miður enn.

Hér fyrsti hluti kvæðabálksins:

Amma skildi að skyldan bauð
að skúraði hún og þvægi
en afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
 
Amma stóð og bjó til brauð
úr býsna vondu fræi
en afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
 
Oní börnin amma sauð
oft var tómur magi
en afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
 
Ávallt sinnti, aldrei trauð,
amma vinnu og stagi
en afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
 
Ömmu kvaldi alls kyns nauð
af ýmsu vondu slagi
en afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
 
Löngum skilst mér lítinn auð
að launum amma þægi
en afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
 
Svo var amma alltaf snauð
að við lá hún dæi
en afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
 
Niður amma datt loks dauð
dó af starfsálagi
en afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
 
Lilja Ólafsdóttir

Scroll to Top
Skip to content