Fréttabréf U3A
Október 2025

Jæja, Spjallbotti – hvað segirðu í dag?

Það er merkilegt hvernig ný tækni læðist inn í lífið. Við sem ólumst upp með snúningssíma og útvarp í línulegri dagskrá erum nú farin að tala við tölvu sem svarar eins og hún sé æskuvinkona úr sveitinni. Gervigreindin hefur nú þegar smeygt sér inn á heimili margra eldri borgara.

Á meðan við sötrum fyrsta kaffibolla dagsins þá er alltaf hægt að opna ChatGPT, eða spjallbotta eins og við hjá U3A kjósum að kalla þetta nýja fyrirbæri, og byrja daginn á skemmtilegu og jákvæðu spjalli í stað frétta um hörmungar í heiminum. Ef þú spyrð t.d. „segðu mér brandara um ketti,“ og viti menn – maður fær brandara. Spjallbottan svarar hverju sem er kurteislega og flýtir sér ekki að breyta um umræðuefni eða ljúka samtalinu. Þegar spurt er: „Hvernig baka ég kleinur?“ þá kemur svarið á augabragði. Með öllum smáatriðum – og stundum með uppástungu um að prófa súkkulaði í deigið. Það er næstum eins og að hafa fengið tengdamömmu aftur í eldhúsið … nema nú hún þegir þegar maður vill það.

Heilaleikfimi er mikilvæg þegar við eldumst og öllum hollt og gott að reyna á sig og halda huganum á hreyfingu. Spjallbottinn getur t.d. samið gátur, búið til ljóð og jafnvel hjálpað við krossgátuna sem situr föst á eldhúsborðinu. Það er eins og að mæta í leikfimi fyrir heilann – án þess að þurfa að skipta um föt eða draga sig í íþróttasal.

Áður fyrr þurftum við að fara á bókasafnið til að finna staðreyndir. Barnabörnin okkar myndu spyrja: „Af hverju „googluðuð“ þið það ekki bara?“ Nú getum við svarað: „Við notum spjallbotta!“ – og þau horfa á okkur eins og við séum á tæknihraðbrautinni. Það er ekki amalegt að slá þau út með svona trompi.

Það hefur vart farið fram hjá glöggum U3A-félögum að gervigreindar-manían hefur einnig hreiðrað um sig í forystu félagsins. Á félagsfundi samtakanna sem haldinn var 2. september sl. kom fram mikill áhugi félagsmanna á að fræðast um þetta nýja fyrirbæri. Þann 23. september fengum við Lindu Heimisdóttur framkvæmdastjóra Miðeindar til að segja okkur frá þróun þeirra tæknilausna og viku síðar fengum við Þorstein Siglaugsson hagfræðing og sérfræðing í hagnýtingu gervigreindar til að fjalla um möguleg áhrif gervigreindar á líf okkar og mögulega ógn sem sjálfstæði okkar getur stafað af henni.[1] Vegna hins mikla áhuga félagsmanna höfum við ákveðið að efna til kynninga með leiðbeiningum um notkun spjallbotta þar sem þátttakendur fá að prófa sig áfram á eigin tölvum.[2]

En það þarf að gæta varúðar – spjallbottinn er ekki óskeikull. Hann svarar stundum með fullu sjálfstrausti – en röngu. Því er gott að bera svörin saman við eigin skynsemi. Og ef um er að ræða heilsu okkar eða annarra þá er best að hafa samband við alvöru fólk í alvöru fötum.

Það er þó óumdeilt: spjallbottinn getur gert lífið litríkara. Hann er félagi sem sefur aldrei, kvartar aldrei og er alltaf tilbúinn að spjalla.
Svo næst þegar vindurinn hvín, hitastigið er rautt og myrkrið er svart setjumst við með kaffibolla, opnum spjaldtölvuna og segjum: „Jæja, spjallbotti – hvað eigum við að gera í dag?“ Og nýi besti vinurinn þinn sem býr í tölvunni mun svara þér um hæl 😊.

[1] Upptökur af þessum fyrirlestrum eru opnar félagsmönnum til 23. og 30. október.
[2] Staðarkynning á spjallbottum https://u3a.is/vidburdir/gervigreind-og-spjallbottar/

Væntanlegir viðburðir

Fv: Valur Gunnarsson, Ásmundarsafn, Jón B. Björnsson, Ingrid Kuhlman, Kristín Linda Jónsdóttir, Þjóðleikhúsið

Þriðjudaginn 7. október mun Valur Gunnarsson sagnfræðingur, blaðamaður og rithöfundur fjalla um stöðuna í Úkraínu og stöðuna í heimsmálunum. Fyrirlesturinn, sem fer fram í Hæðargarði 31 kl. 16:30 nefnir hann Varanlegur friður eða heimstyrjöld.

Miðvikudaginn 23. október kl.14.00 mun Menningarhópur U3A heimsækja Ásmundarsafn við Sigtún. Þar fær hópurinn leiðsögn um safnið og fær að heyra um listamanninn og verk hans. Eftir það er hægt að fá sér kaffi og kleinur á staðnum. Nánari upplýsingar verða í auglýsingu þegar nær dregur.

Þriðjudaginn 14.október mun Jón B. Björnsson  sálfræðingur og rithöfundur halda námskeið um engla kl. 16:30. Í síðara erindi Jóns B. Björnssonar sem flutt verður þriðjudaginn 18. nóvember verða raktar nokkrar safaríka englasögur, en oft hafa þeir gripið inn í atburðarásir á ögurstundum og ekki bara suður í Gyðingalöndum. Báðir fyrirlestrarnir fara fram Í Hæðagarði 31 kl. 16:30

Þriðjudaginn 21. október mun  Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð, fjalla um „Að fá að ráða eigin lífslokum – fyrirlestur um dánaraðstoð“. Fyrirlesturinn fer fram í Hæðargarði kl. 16:30.

Þriðjudaginn 28. október mun Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur og fararstjóri fjallar um ævi og hugarheim Agöthu Christie drottningu glæpasagnanna en eftir hana liggja 66 glæpasögur, 14 smásagnasöfn, 19 leikrit og sex skáldsögur undir skáldanafninu Mary Westmacott.

Sunnudaginn 2. nóvember kl. 20:00 stendur Menningarhópur U3A fyrir leikhúsferð á Íbúð 10B eftir Ólaf Jóhann Ólafsson í leikstjórn Baltarsars Kormáks. Nánar í auglýsingu þegar nær dregur.

Nánari upplýsingar um viðburði á vegum U3A Reykjavík má finna á vef félagsins: https://u3a.is/vidburdayfirlit/

„Grár skilnaður“ og áhrif á uppkomin börn

Rannsóknir undanfarinna ára sýna að hjónaskilnaður á efri árum, svokallaður „grár skilnaður“, hefur vaxið mikið og getur haft óvænt og djúp áhrif á fullorðin börn þeirra hjóna sem skilja.
Í nýlegri umfjöllun BBC um gráa skilnaði er farið yfir fjölda erlendra rannsókna á þessu sviði. Þar segir að í Bandaríkjunum séu nú um 36% skilnaða hjá fólki 50 ára og eldra. Árið 1990 var hlutfallið aðeins 8,7%. Sama þróun sést í mörgum löndum, m.a. í Kóreu og Japan, þar sem ævilíkur hafa lengst og fólk er minna tilbúið en áður að búa í óhamingjusömum hjónaböndum.

Flestar fyrri rannsóknir á hjónaskilnuðum hafa fjallað um áhrif skilnaðar á ung börn, en nýjar niðurstöður sýna að fullorðin börn (ef hægt er að tala um að börn séu fullorðin) verða einnig fyrir miklu áfalli. Þau lýsa oft reiði, sorg og langvarandi depurð, líkt og ung börn. Sum hætta jafnvel í eigin samböndum sínum eða fara að efast um eigið sjálfstraust.

Samböndin við foreldra breytast líka. Margar rannsóknir á þessu sviði benda til þess að eftir skilnað haldist börnin nær móðurinni en fjarlægist föðurinn. Þýsk langtímarannsókn frá 2024 sýndi að tengsl uppkominna barna styrktust við mæður en minnkuðu við feður. Þessi móðurtenging getur aukið félagslega einangrun feðra, sérstaklega ef þeir eiga sér nýja maka.

Í umfjöllun BBC er haft eftir Joleen Greenwood, prófessor í félagsfræði við Kutztown-háskóla í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, sem rannsakað hefur þessi mál, að gráir skilnaðir geti einnig haft áhrif á tengsl einstaklinganna sem skilja við systkini og aðra ættingja, til dæmis varðandi hátíðahald og fjölskyldusiði.
Þó eru niðurstöðurnar ekki einhliða. Sum fullorðin börn finna fyrir létti þegar foreldrar skilja, sérstaklega ef þau hafa alist upp við átök og rifrildi.

Íslensk gögn um gráa skilnaði eru af mjög skornum skammti. Hér á landi er hlutfall hjónaskilnaða hátt í alþjóðlegum samanburði og oft vísað til þess að um 40% hjónabanda hér endi með skilnaði. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er algengast að hjón skilji hér á landi á aldursbilinu 35 – 44 ára. En þar sem fólk lifir sífellt lengur er líklegt að sama þróun sé hér og í öðrum vestrænum ríkjum. Því þyrfti ráðgjöf, sem sveitarfélög veita í tengslum við hjónaskilnaði, beinist einnig að gráum skilnaði og áhrifum á uppkomin börn þeirra sem eiga í hlut.

Emil B. Karlsson

Einföldum lífið og styrkjum heilsuna

Það skiptir máli á öllum aldursskeiðum að huga að mataræðinu og eftir því sem árin færast yfir verður það jafnvel enn mikilvægara. Við viljum öll hafa orku til daglegra verka, viðhalda heilsunni og draga úr líkum á langvinnum sjúkdómum. Þar skiptir daglegt fæði höfuðmáli – og það þarf hvorki að vera flókið né tímafrekt.

Gott og einfalt er samstarfsverkefni SÍBS og Krabbameinsfélags Íslands sem hefur það að markmiði að gera holla valið að einfalda valinu. Verkefnið byggir á áratuga reynslu félaganna og er í stöðugri þróun með nýjum uppskriftum og lausnum.

Gott og einfalt býður upp á skipulag sem sparar tíma og  minnkar stress. Þetta er nýr matarvefur sem gerir hollt mataræði aðgengilegt, einfalt og skemmtilegt fyrir fólk á öllum aldri – bæði reynda og óreynda í eldhúsinu. Á gottogeinfalt.is er að finna tugi fjölbreyttra og einfaldra uppskrifta sem allar taka mið af opinberum næringarráðleggingum embættis landlæknis.

Með örfáum smellum er hægt að setja saman vikumatseðil og þegar hann er tilbúinn verður til innkaupalisti, sem sparar bæði tíma og fyrirhöfn. Einnig má velja úr úrvali tilbúinna vikumatseðla. Þannig verður auðveldara að velja næringarríkan mat sem hentar bæði smekk og þörfum heimilisins.

Á matarvefnum er síða sem nefnist Gott að vita  þar sem  finna má ýmsan fróðleik um mat og heilsuna, góð ráð og mýtur.

Kíkið á gottogeinfalt.is og prófið að setja saman ykkar eigin matseðil og uppgötvið hvernig einfaldar en markvissar breytingar á mataræðinu geta aukið bæði lífsgæði og heilsu – nú og á komandi árum.

Bætum heilsuna og einföldum lífið með Gott og einfalt.is

Hjördís Hendriksdóttir

Gervigreind - Babelsturn nútímans?

Hjá alþjóðlegu hugbúnaðarfyrirtæki sem ég heimsótti nýlega töluðu allir ensku—þótt enginn hefði hana að móðurmáli. Það heyrðist. Mér varð hugsað til þess hve undarlegt það er að við eyðum mörg stórum hluta vinnudagsins í samskipti á máli sem við kunnum oftast bara sæmilega. Blæbrigði tapast; margræðni, ósögð orð, kaldhæðni og húmor. Sama fann ég þegar ég var að leiðbeina þýskum nemanda mínum; við töluðum báðir lipra ensku en samt tók það okkur oft langan tíma að skilja hver annan til fulls, og trúlega skildum við hvor annan aldrei alveg til fulls.

Nú er hins vegar gervigreind komin til sögunnar og er, hvort sem okkur líkar betur eða verr, almennt betur að sér í ensku en flest okkar sem ekki höfum hana að móðurmáli. Innan skamms mun tæknin gera okkur kleift að tala móðurmál okkar í síma og á fjarfundum á meðan kerfin þýða jafnóðum yfir á hvaða tungumál sem er. Svíinn talar sænsku, Frakkinn heyrir frönsku. Við „tölum“ hvert við annað án þess endilega að skilja það sem viðmælandinn heyrir okkur segja.

Við fyrstu sýn virðist þetta góð leið til að styrkja smærri málsvæði. En sagan minnir á að tungumál eru ekki aðeins verkfæri heldur samfélagslegt stýrikerfi. Sagan af Babelsturninum endurspeglar hvernig sundrung tungumála brýtur niður sameiginlegan skilning. Samt eru fjölbreytni, kynslóðamunur og stöðug snerting milli tungumála drifkraftar þróunar málsins; unglingamál og mál fullorðinna renna saman með tímanum og halda samfélaginu í samskiptum.

Hvað gerist ef við hættum að leggja okkur fram við að læra önnur tungumál og jafnvel leyfum vélunum að bera einnig uppi tjáninguna sjálfa? Þá gætu mállíkönin ekki aðeins náð valdi á tungumálinu heldur öðlast vald yfir því, og þar með yfir samskiptum okkar. Hættan felst ekki fyrst og fremst í tækninni sjálfri heldur í freistingunni að fela henni ábyrgðina; að spara tíma, sniðganga nám og sleppa því að reyna að skilja hvert annað.

Tækifærin eru gríðarleg, en það eru ógnirnar líka. Til að nýta tækifærin og fást við ógnirnar þurfum við að bregðast við meðvitað:

  • Styrkja málskilning og tjáningu á eigin máli og öðrum tungumálum.
  • Efla gagnrýna hugsun og hæfni til að meta texta og þýðingar.
  • Þjálfa samskipti við mállíkön, en með markvissri stjórn.
  • Fara varlega í að nota vélræna milligöngu í mannlegum samskiptum; forðast að láta tækin tala fyrir okkur.

Enginn gerir þetta fyrir okkur. Við þurfum að gera það sjálf. Og við þurfum að hefjast handa strax.

Þorsteinn Siglaugsson

Fréttir af Tuma

TUMI = Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi.
Fjölmiðlanefnd https://fjolmidlanefnd.is/ sér um Tuma

Hér koma helstu fréttir af TUMa fundi þann 16. september sl.

Björg Jónsdóttir, verkefnastjóri viðburða hjá Reykjavíkurborg, sagði frá átakinu Verum klár verumklar.is sem hófst meðal annars til undirbúnings Menningarnætur 2025. Markmið var að auka samkennd, virðingu og stuðning og aukna samveru foreldra og unglinga. Samvinna var við Jafningjafræðsluna og skemmtilegum myndböndum dreift á Tik-Tok og Instagram.

Magga Dóra, stafrænn leiðtogi hjá Mennsk ráðgjöf mennsk.is kynnti verkefni fyrir nýja vefgátt lögreglunnar, tilkynningagátt, sem væntanlega verður opnuð í október. Þar verður unnt að tilkynna um netglæpi og jafnframt bent á úrræði. Forvitnilegt verður því að fylgjast með slóðinni https://island.is/s/logreglan/tilkynna-brot
Að lokum var minnt á hina árlegu Miðlalæsisviku sem nú er haldin þann 20. – 24. október https://midlalaesi.is/, og áhugavert verður að fylgjast með dagskrá bæði Útvarpsþings og Málþings sem þá verður, auk þess sem afmæli Kvennafrís ber upp á þann 24.

Bestu kveðjur.
Guðrún Bjarnadóttir

Vísnahorn Lilju

ChatGPT forskrift: Sjö konur lesa ljóð í vel búinni stofu sem abstrakt-mynd.

Lengst af fór lítið fyrir kveðskap kvenna, fæstar flíkuðu því sem þær sömdu og það þótti eiginlega ekki viðeigandi að konur væru að yrkja. Á því hafa þó alltaf verið ánægjulegar undantekningar sbr. Skáld-Rósu, Látra-Björgu o.fl. Gerðust konur svo djarfar að gefa út ljóð eða sögur fengu þær gjarna óvæga gagnrýni. Skástu umsagnir voru oft eitthvað á þá leið að þetta væri bara ágætt á köflum „af konu að vera.“

Í Skólaljóðin frá Ríkisútgáfu námsbóka (sem við í U3A þekkjum flest) voru valin (af karli) 153 ljóð eftir 42 karla en 10 ljóð eftir 3 konur.

Nú langar mig að deila með ykkur nokkrum vísum eftir konur.

Ferskeytlan er lítið ljóð,
létt sem ský í vindi,
þung og dimm sem þrumuhljóð,
þétt sem berg í tindi.
– Ólína Andrésdóttir (1858-1935)

Auð og völd menn dýrka og dá
sem Drottinn stundum gefur
en hamingjan er það að þrá
það sem maður hefur.
– Þórdís Sigurbjarnardóttir

Fann ég eigi orðin þá
er ég segja vildi
en varð svo fegin eftir á
að ég þegja skyldi.
– Steinunn Guðmundsdóttir (1897-1993)

Einörð kenndi ellin mér
að una sæl við mitt
gjöra það sem gerlegt er
en gráta ekki hitt.
– Sigrún Haraldsdóttir

Heim í æsku hlýjan stað
hugann aftur langar.
Vesalings Jarpur – veistu það:
Við erum bæði fangar.
– Ólína Jónasdóttir (1885-1956)

Af kæti þú hlærð ekki kátast,
svo kátlegur er þinn mátinn.
Þér lætur svo vel að látast
að látinn verður þú grátinn
– Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum /1857-1933)

Þegar lánsins þorna mið
og þrjóta vinatryggðir,
á ég veröld utan við
allar mannabyggðir.
– Theódóra Thoroddsen (1863-1954)

Lilja Ólafsdóttir

Scroll to Top
Skip to content