Fréttabréf U3A
Mars 2025

Þetta líður hjá

„Þetta líður hjá“ er heiti á listaverki eftir Elísabetu Jökulsdóttur sem staðsett er við Varmá í Hveragerði. Þessi setning á vel við núna þegar hinn langi langi febrúar er loksins liðinn.
 
Nú rennur marsmánuður í garð sem er tímabil umskipta frá vetri til vors. Með lengri dagsbirtu, smávægilegri hækkun á hitastigi og örlítið skaplegra veðri fáum við sálrænan og félagslegan ávinning.  Undanfarna mánuði hefur maður hunsað nágrannana af því að það er svo kalt að stoppa úti. Nú er komið tækifæri til að spjalla við nágrannana og spyrja þá hvernig þeir koma undan vetri og hvort þeir ætli í ferðalag yfir páskana.
 
Marsmánuður er til vitnis um seiglu íslensku þjóðarinnar sem þrífst á þessum kletti norður í Ballarhafi. Því þó að veturinn geti verið kaldur og dimmur þá líður þetta allt hjá.

Hjördís Hendriksdóttir, formaður U3A Reykjavík

Væntanlegir viðburðir

f.v.: Baldur Hafstad, Ragnhildur Þóra Káradóttir, Þórdís Þórðardóttir og Silja Bára Ómarsdóttir

4. mars mun Baldur Hafstað prófessor emeritus flytja fyrirlestur sem hann nefnir Gamlir áhrifavaldar: Ari fróði, Konrad Maurer og Jónas frá Hriflu. Er unga fólkið að verða afhuga Íslendingasögunum?

11. mars mun Ragnhildur Þóra Káradóttir við Háskóla Íslands flytja fyrirlestur sem hún nefnir: Heilun heilans: er lykill falinn í hvíta efninu? þar sem hún fjallar um hvíta efni heilans.

18. mars mun Þórdís Þórðardóttir, prófessor emerita flytja erindi sem hún nefnir: Stiklað á stóru um áhrif erlendra menntastrauma á  þróun menntahugmynda á Íslandi í gegnum aldirnar.

25. mars verður Aðalfundur U3A Reykjavík haldin í Hæðargarði 31, Reykjavík kl. 16:30. Félagsmenn eru hvattir til að mæta.

1. apríl mun Silja Bára Ómarsdóttir prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands flytja fyrirlestur sem hún nefnir Skammhlaup í alþjóðakerfinu þar sem farið verður yfir ástand heimsmálanna 

Frá menningarhópi

Menningarhópur í heimsókn hjá RÚV. Ljósmynd Vigdís Pálsdóttir

Þátttaka í viðburðum menningarhóps hefur undantekningalaust verið góð þetta starfsár og er það þakkarvert. Oft er uppbókað fljótlega eftir að auglýsing er sett á heimasíðuna. Við viljum því benda félagsfólki á að fylgjast með auglýsingum á heimasíðunni en ekki treysta á að fá auglýsingu í tölvupósti.
 
Fjöldi í heimsóknum fer eftir aðstæðum á þeim stað sem við heimsækjum og er ákveðinn í samráði við þá sem taka á móti okkur hverju sinni.
 
Í mars er á döfinni að heimsækja Seðlabankann en þeirri heimsókn var frestað í febrúar, dagsetning verður auglýst fljótlega. Í apríl er stefnt að heimsókn í Landnámssetrið í Borgarnesi til að hlusta á erindi Vilborgar Davíðsdóttur um Laxdælu.
 
Fylgist endilega með á heimasíðu U3A Reykjavík, u3a.is þar sem allir viðburðir eru auglýstir með góðum fyrirvara.
 
Með kveðju frá stýrihópi menningarhóps

Listamaður étur doktorsritgerð sína

Bogdan Szybers étur doktorsritgerð sína í votta viðurvist.

Í Háskóla þriðja æviskeiðsins er akademiskt frelsi algert. Engar kvaðir og engar skyldur á eilífðarstúdentana sem þar eru skráðir. Slíkt er ekki uppi á teningnum í öðrum háskólum. Til dæmis standa yfir deilur í Svíþjóð um það hvort vísindalegar kröfur virki hamlandi á vissar greinar, eins og listsköpun. Deilurnar hafa náð svo langt að doktorsnemi, hvers ritgerð var hafnað af dómnefnd, át hreinlega doktorsritgerðina í mótmælaskyni.
 
Ástæða höfnunar dómnefndar á ritgerðinni var að hún þótti ekki fullnægja þeim akademísku skilyrðum sem gerðar eru til slíkra verka. Athyglin var svo vakin með átinu á ritgerðinni þar sem það var í senn mótmæla- og listgjörningur.

Listamaðurinn, Bogdan Szybers, vildi koma því á framfæri að ekki væri hægt að stunda fræðilega vísindagreiningu á listsköpun – slíkt væri aðeins til að hindra frelsi til listsköpunar. Vísindalegar skorður háskólanna um uppbyggingu doktorsritgerða settu slíkar skorður að þær gætu ekki átt við um listgreinar og listsköpun. Um þetta fjallaði doktorsritgerð Bogdans. Dómnefndin taldi verkið aðeins lýsa annarri hlið málsins en fjallaði ekki um gagnrök. Eftir niðurstöður dómnefndar efndi listamaðurinn til listagjörnings þar sem hann matreiddi ritgerð sína og borðaði hana í viðurvist áhorfenda, eins og áður segir.

Nú snúast deilur skoðanabræðra Bogdans Szyberskis, og andstæðinga hans, um það hvort hægt er að fá rannsóknaniðurstöður þar sem list er skilgreind og flokkuð á einhvern hátt. Ef settar eru slíkar flokkunarreglur og vísindalegar mælistikur á list þá þrengi það að frelsi fólks til listsköpunar og geti beinlínis leitt til opinberra fyrirmæla um gæði listar. Þannig þróist listsköpun ekki heldur festir í niðurnjörvaðar skorður. „Verjið frekar fjármunum í að efla frelsi í listsköpun en í slíkar rannsóknir“, segja þeir sem telja fráleitt að hafna doktorsritgerð listamannsins.

Á móti er bent á að með vísindalegri umfjöllun um list, eins og aðrar greinar, sé verið að miðla aðferðum listsköpunar sem fleiri listamenn geti nýtt sér og þróað áfram á frjálsan hátt. Þannig nýtist m.a. aukin þekking á aðferðum í listsköpun í kennslu og samstarfi listnema, hvort sem er myndlist, tónlist eða öðrum listformum.

Emil B. Karlsson

Örstutt um einveru

Nýlega birtist í veftímaritinu Gem´s, tímariti fyrir þriðja æviskeiðið, grein um einveru (e: solitude) og áhrif hennar á að hlaða batteríin til þess að fá aukna orku. Í greininni er einveru skipt í tvær tegundir, annars vegar einveru þegar þú ert algjörlega einn eða einveru þar sem þú ert einn innan um annað fólk. Dæmi um þá fyrri er þegar þú ert einn á göngu þar sem eru engar mannaferðir og þá seinni þegar þú situr einn við  lestur á kaffihúsi.

Í könnun sem einn af prófessorum ríkisháskóla Oregon fylkis í Bandaríkjunum gerði og um 900 manns tóku þátt í, voru þessar tvær tegundir einveru og ágæti þeirra bornar saman. Í ljós kom að þátttakendur töldu að einvera þar sem þú ferð einn í bíó eða spilar leik í símanum þínum innan um aðra gagnaðist þeim betur við að hlaða batteríin en að vera algjörlega einn. Niðurstöðurnar eru taldar mikilvægar því að einvera sem byggir á nánd við annað fólk er talin skipta máli þegar litið er heildrænt á heilsu einstaklings þar sem félagsleg tengsl eru sögð tengjast lengri líftíma, betri geðheilsu og minni hættu á alvarlegum veikindum eins og hjartveiki og heilabilun. Niðurstöðurnar eru einnig sagðar athyglisverðar því þær eiga jafnt við fyrir þá sem eru úthverfir að eðlisfari og þá sem eru innhverfir.

Bent er á í greininni að einvera sé ekki andhverfa félagslegra samskipta því að því meiri sem samskiptin og einveran eru þá dragi þau úr orku. Fleira kemur fram í greininni eins og að einvera sé af hinu góða ef samskipti við aðra fylgi í kjölfarið en síður ef svo er ekki. Eins að ef þú leitar í einveru vegna neikvæðrar afstöðu til félagslegra samskipta þá muni einvera líklega láta þér líða verr en áður.

Greinina, Research shows solitude is better for your health when it’s not too intense, er að finna á  https://www.sciencedaily.com/releases/2024/12/241217201511.htm

Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir

Lifir einmana fólk skemur?

Öldum saman hafa menn leitað leiða til að hægja á öldrun og í dag fara milljarðar á milljarða ofan í þróun langlífismeðferða .

Ný rannsókn sem birt var 19. febrúar s.l. í tímaritinu Nature Medicine byggir á líffræðilegum gagnagrunni í UK Biobank,. Rannsóknin skoðar hvaða erfða- og umhverfisþættir valda því að fólk eldist hægar og lifi lengur. Gagnagrunnurinn inniheldur ítarlegar erfðafræðilegar og læknisfræðilegar upplýsingar um hálfa milljón manna auk upplýsinga um tekjur, lífsstíl og uppeldi sem gerði rannsakendum kleift að sundurgreina áhrif mismunandi þátta á sjúkdómsáhættu og dánartíðni

Það kom á óvart hvað erfðir gegndu litlu hlutverki eða einungs 3%.  Aldur og kyn skýrðu 47% af breytileika í dánartíðni en umhverfis- og lífsstílsþættir um 17%.

Sumar niðurstöðurnar voru viðbúnar: Reykingar auka líkurnar á ótímabærum dauða einstaklings um 60% samanborið við reyklausan einstakling. Að vera menntaður, starfandi og ríkur var á meðal lífslengjandi þátta. Líkamleg hreyfing lækkaði dánartíðni um u.þ.b. 25%.

En rannsóknin leiddi einnig í ljós að félagsleg tengsl voru ótrúlega öflugur spádómur um lengd lífs. Að búa með maka var nokkurn veginn jafn gagnlegt og hreyfing. Reglulegar heimsóknir til fjölskyldumeðlima og/eða að eiga trúnaðarvin sem hægt væri að leita til virtist einnig draga úr dánartíðni. Einmanaleiki er þekktur áhættuþáttur fyrir ótímabæran dauða – fólk sem er félagslega einangrað hefur frekari tilhneigingu til að fá frumubólgu og lakari ónæmissvörun. Það er hins vegar ekki ljóst hvort þetta eru bein áhrif af því að vera einn eða vegna þess að einmana fólk hefur tilhneigingu til að vera minna virkt og borða lélegra mataræði.

Einmanaleiki hefur einnig áhrif á andlega líðan – annar þáttur í langlífi. Lífsýni þátttakenda sem sögðust finna fyrir þreytu eða áhugaleysi sýndu meiri hættu á ótímabærum dauða. Þeir sem sögðust oft finna fyrir þreytu – sem getur verið einkenni þunglyndis eða kulnunar – voru í 45% meiri hættu á ótímabærum dauða en orkumeiri jafnaldrar þeirra.

Umhverfisþættir skipta mismiklu hvað varðar tegundir sjúkdóma. Þeir útskýra um það bil 35% af lungna- og lifrarsjúkdóma, en minna fyrir tiltekin krabbamein, þar sem erfðir ráða ríkjum. Brjóstakrabbamein, til dæmis, stafar oft af afbrigði af BRCA2 geninu. Heilasjúkdómar, eins og vitglöp, hafa einnig sterkari erfðafræðileg tengsl: afbrigði af APOE geninu eykur verulega hættuna á að fá Alzheimer.

Rannsakendur setja fyrirvara við þessar niðurstöður  að því leyti að þær sýna fylgni en ekki orsakasamband. Að setja upp opinn arinn á heimilinu eða að  gleypa í sig osta mun líklega gera lítið til að hægja á öldrun – en báðir þættirnir voru tengdir lægri dánartíðni (líklega vegna þess að þeir eru einnig tengdir meiri auði í Bretlandi). En skýrustu niðurstöðurnar benda til þess að félagsleg tengsl og andleg vellíðan getur verið jafn mikilvæg og líkamsrækt og hreyfing til að koma í veg fyrir ótímabæran dauða.

Þeir sem vilja skoða rannsóknina enn frekar er bent á  https://www.nature.com/articles/s41591-024-03483-9

Hjördís Hendriksdóttir

Fréttir af febrúarfundi Tuma

TUMI = Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi.
Fjölmiðlanefnd https://fjolmidlanefnd.is/ sér um Tuma

Fimmtudaginn 19. febrúar var fyrsti Tumafjarfundur ársins. Berglind Jónsdóttir, samskiptastjóri breska sendiráðsins, sagði frá tölvuleik sem nýlega var ræstur hérlendis í samvinnu breska sendiráðsins, Reykjavíkurborgar og forseta Íslands. Breski leikurinn er á svæðinu Parent Zone (https://parentzone.org.uk/). Leikurinn Digiworld, hefur um skeið verið notaður í Bretlandi til að þjálfa miðlalæsi barna á aldrinum fimm ára og fram á unglingsár. Íslenska útgáfan, sem Berglind þýddi, verður fljótlega aðgengileg í 3ja og 4ða bekk nokkurra skóla og á MMS (Miðstöð menntunar og skólaþjónustu). Kennsluleiðbeiningar eru í mótun. Hlekkur á íslensku útgáfuna er https://digiworld-is.theparentzone.co.uk/, og er vel þess virði að fara þar inn. Fólk tilkynni sig sem nýjan notanda og einfalt notandanafn dugar, enda engum persónuupplýsingum safnað.

Atli Þór Jóhannsson í stjórn Samtaka um mannvæna tækni, https://www.mannvaen.is/  kynnti samtökin, sem voru stofnuð árið 2023. Þau, eins og þar segir, „sinna fræðslu og rannsóknum, sem leggja áherslu á að hönnun, þróun og notkun tækni fylgi siðferðilegum viðmiðum sem setur velferð notanda, náttúru og samfélags í heild í forgang fram yfir einkahagsmuni og skammtímaávinning“. Nánar má sjá um grunnstefnu og viðburði á nefndum hlekk. Á næstunni verður gengist fyrir átakinu Símalaus sunnudagur, í samvinnu við Barnaheill, SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) og Borgarbókasafnið. Átakið stefnir að takmarkaðri símanotkun fjölskyldna á sunnudögum í maí. Fólk á póstlista samtakanna fær þá ýmsar upplýsingar og hugmyndir tengdar átakinu, fyrir hvern sunnudag í maímánuði 2025.

Skipulagsfundir og aðrir fundir Samtaka um mannvæna tækni eru opnir og við getum skráð okkur á póstlistann.

Síðan sagði Skúli Bragi Geirdal, sviðsstjóri SAFT hjá Fjölmiðlanefnd, frá Alþjóðlega netöryggisdeginum (Safer Internet Day), sem var þann 11. febrúar. Þemað í ár var „Saman í þágu betra internets“ og áhersla bæði á tæknilegt og félagslegt netöryggi. Vísbendingar eru um að fólk hafi dregið úr viðbrögðum sínum við falsfréttum, en umræðuna verður að taka. Veggspjaldið Falsfréttir – stoppa – hugsa – athuga er aðgengilegt hjá MMS https://mms.is/sites/mms.is/files/falsfrettir_poster.pdf

Loks var minnt á viðburð á vegum Háskólans í Reykjavík, þann 20. feb., um tölvuleiki og líðan https://www.ru.is/vidburdir/samfelagsmidlar-tolvuleikir-og-lidan Hann á að vera til í upptöku.

Guðrún Bjarnadóttir 

Scroll to Top
Skip to content